Hoppa yfir valmynd
16. október 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Ráðstefna Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands, 16. október 2008

Ávarp Einars Kristins Guðfinnssonar,

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á ráðstefnu Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands

Íslenskar matarhefðir og héraðskrásir

16. október 2008

 

Ráðstefnustjóri og ágætu ráðstefnugestir.

 

Nóbelsskáldið okkar Halldór Laxness kemst svo að orði í bókinni Dagleið á fjöllum.

 

„Ef sveitafólkið getur ekki tekið á móti kaupstaðarmönnum sem jafníngjum, boðið þeim inn í sín viðhafnarlausu íveruherbergi, gefið þeim nákvæmlega sama mat og það borðar sjálft hversdagslega, - saltsoðningu, rúgbrauð, kartöflur, flot, slátur, mjólk og graut, - þá á alsekki að bjóða þeim neitt.“

 

Nú er það svo góðir gestir að margt hefur breyst frá þeim tíma er þessi orð voru rituð og sannarlega er bæði á borðum sveitafólks og borgarbúans fjölbreyttara fæði er þarna er tiltekið.  Langt er síðan nokkurs konar matarskömmtun átti sér stað hér á landi og fullyrða má að Íslendingar hafa getað valið og keypt flestar þær matvörur sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Þar má m.a. benda á það fjölbreytta úrval grænmetis og ávaxta sem hér er að finna en minna jafnframt á að svo var ekki áður fyrr og hreinn munaður þótti að fá epli og appelsínur rétt um jólahátíðirnar. 

 

Ég sagði áður fyrr – og er það teygjanlegt hugtak.  Sannleikurinn er sá að það er ekki svo langt síðan að margar vörur voru vart fáanlegar eða skammtaðar.  Við sem erum rétt um og yfir miðjan aldur munum vel þegar jólaeplin komu í hús og tengjum ilm þessara ávaxta enn við jólin – eða öfugt.  

 

Sú upptalning á mat sem Halldór nefnir,  minnir okkur Íslendinga einnig á þann mat sem íslensk þjóð lifði hvað mest á gegnum aldirnar að viðbættu kjöti af sauðkindinni. Þetta var ekki aðeins fábrotinn matur heldur hlaut hann að verða leiðigjarn dag eftir dag en samt sem áður var þetta kjarngóður matur. Alla vega fóðraði hann og ól upp dugmikla þjóð sem reis á örskömmum tíma upp úr snauðri fátækt í að verða eitt ríkasta land heimsins og þessi matur gerði þjóðinni mögulegt að breyta margra alda stöðnuðum vinnubrögðum yfir í eitt tæknivæddasta ríki veraldar.

 

Nú sem stendur steðja að þjóðinni miklir efnahagsörðugleikar.  Við slíkar þrengingar þjappar fólk sér saman, finnur til samkenndar og veit innst inni að aðeins með sameiginlegu átaki tekst að ná farsælli lendingu. Ég kann e.t.v. ekki að skýra til fulls tilfinningu mína en ég er viss um að nú eru að renna upp þeir tímar þegar Íslendingar skynja ennþá betur mikilvægi þeirrar Guðsgjafar að eiga möguleika á að brauðfæða sig sjálfir með eigin afla, hvort heldur hann kemur úr hafi eða af landi. Með öðrum orðum; ég tel að Íslendingar kom til með að velja meira af íslenskri matvöru á næstunni en þeir hafa gert til fjölda ára. 

 

Hér með er ég ekki að segja að það sé eingöngu af því góða en vissulega myndi það styrkja okkar undirstöðuatvinnugreinar sem við höfum til þessa lifað á og skapað okkar efnahagslegu velgengni og munu gegna meira hlutverki á komandi árum.  Í öllu falli komum við til með að hugsa og velta vel fyrir okkur hverju við værum að fórna ef við sinntum ekki þessum greinum, þessum fjöreggjum þjóðarinnar, eða sem verra væri gleymdum þeim – eða jafnvel seldum fyrir stundargróða og vanhugsaða samninga.

 

Í Íslandsklukku Halldórs Laxness segir „Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin var til fjár.  Það var klukka.“ 

Þessi klukka var tekin af þjóðinni og aldrei skilað.  Sem betur fer eru sameingir okkar fleiri nú og mun verðmætari.  Þær megum við ekki af hendi láta í von um að bæta stundarhag. Veltum því augnablik fyrir okkur ef þjóðin væri þannig í heimi sett að hún þyrfti að kaupa allan mat frá útlöndum.  Vegna auðlinda okkar erum við rík þjóð.

 

Matarþörfin er sterkasta frumþörf mannsins.  Það fyrsta sem ungviðið leitar að er speni móðurinnar og alla daga þurfum við á fæðu að halda.  Sumar fátækar þjóðir eyða nær öllum deginum í það eitt að fá eitthvað að borða. Við Íslendingar erum lánsöm að eiga nógan mat og góðan.  Við höfum lagt metnað okkar í að framleiða heilbrigða og góðar matvörur og skapað okkur markaði á erlendum vettvangi undir merkjum hreinleika og hollustu.  Þessar vörur komum við til að með selja áfram – heimurinn vill og hefur þörf á mat.

 

Þetta mikla og góða hráefni hefur verið uppspretta hugmynda færasta fólks við að hanna og útbúa fjölbreytta rétti – ekki aðeins samkvæmt nýjustu tísku ef svo má segja – heldur og að viðhalda og þróa þær fornu matarhefðir sem þjóðin þekkir.  Ungt fólk tekur slátur og börnin kynnast slíkum réttum ekki aðeins heima fyrir, heldur og á dagheimilum og leikskólum.  Þorrablótin vinsælu bera þess vitni að fólki finnst þessi gamli og þjóðlegi matur góður.  Færustu matreiðslumenn útbúa nýtísku rétti úr hval, sel, fiski og jafnvel fisktegundum sem áður þóttu ekki mannamatur.  Úr öllum afurðum sauðkindar og annars búpenings eru framleidd fjölbreytt matvæli undir ströngu gæðaeftirliti.  Gæði íslenskrar mjólkur og mjólkurafurða þarf ekki að fjölyrða um en þær eru einstakar á heimsmælikvarða. Einnig minni ég á fjölbreytta framleiðslu grænmetis og garðávaxta sem standast hvaða samanburð sem er. Þetta er hráefnið sem við höfum úr að vinna og myndi nú mörg þjóðin sæl ef slíkar matarkistur væru í þeirra búri.   Í þetta búr okkar leitum við og matreiðum dýrindis krásir.

 

Þessi ráðstefna ber einmitt það skemmtilega nafn Íslenskar matarhefðir og héraðskrásir.  Sannarlega hafa Íslendingar ýmsar matarhefðir og annan eins fjölbreytileika af krásum, mismunandi eftir héruðum. Mér dettur í hug varðandi matarhefðir að nefna að áður var sagt að sá sem væri fljótur að borða myndi vinna hratt.  Víst er um það að Íslendingar vinna hratt,  eru duglegir og trúlega borða þeir einnig hratt.  Staðfestingu á því fékk ég fyrir nokkrum vikum þegar grænlenskur starfsbróðir minn var hér í heimsókn.  Er við kvöddumst þakkaði hann mjög móttökur og allan viðurgjörning en gat þess að aldrei hefði  hann kynnst öðrum eins hraða við að borða eins og hjá okkur.  Það skal að vísu tekið fram að dagskrá okkar var stíf og meira um vert að sjá og kynna það sem markverðast var fremur en sitja að snæðingi.

 

Hvað ýmsar staðbundnar orðlagðar héraðskrásir varðar dettur mér í hug að nefna vestfirskan rikling og kúllaðan steinbít með hnoðmör, reyktan lunda úr Vestmannaeyjum, laufabrauð að norðan og hangikjöt frá Hólsfjöllum, söl af suðurströnd og svo mætti lengi telja og ekki síður bæta við nýjum slíkum réttum eftir forsögn góðra bragðsmiða.

 

Ágætu ráðstefnugestir.

Vera má að einhverjum finnist þetta ávarp mitt á nokkuð alvarlegum nótum.  Vissulega var það hugsun mín að slá á létta strengi en jafnframt tel ég það skyldu mína, sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands, að minna á þá alvarlegu stöðu sem Íslendingar eiga í um þessar mundir.  Hart og óvægið hefur verið sótt að okkur jafnvel af þeim sem síst skyldi, stórþjóð sem fyrir nokkrum áratugum átti líf sitt og afkomu að hluta til undir dugnaði og áræðni Íslendinga á stríðstímum þegar lífshættulegt að var sigla með fisk milli landa.

 

Í upphafi máls míns vitnaði ég í Nóbelsskáldið Halldór Laxness.  Ég kýs að enda þetta ávarp með að vitna í bók hans Íslandsklukkuna – Eldur í Kaupinhafn.  Þar segir Arnas Arnæus:

 

„Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast.  Hann heldur því armslengd frá sér,  herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti.  Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skuli frelsa það.  Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.“

 

Um leið og ég set ráðstefnuna vænti ég þess að hún verði í senn gagnleg og ánægjuleg öllum þátttakendum.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum