Hoppa yfir valmynd
30. október 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna 30. október 2008

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar,

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

flutt á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna

30. október 2008

 

 

Góðir fundarmenn.

Við höldum þennan aðalfund Landssambands íslenskra útvegsmanna í skugga mestu efnahagserfiðleika sem yfir okkur hafa dunið. Erfiðleika sem engan láta ósnortinn, hvorki almenning, fyrirtæki né hið opinbera. Þegar við göngum frá þessum mikla hildarleik verðum við öll sár og móð og sum ef til vill óvíg. Það er engin ástæða til þess að draga fjöður yfir alvöru málsins. Að minnsta kosti mun ég ekki gera það. Við erum ennþá stödd í storminum miðjum og það er langt í land og í örugga höfn. Þangað ætlum við hins vegar ótrauð og megum aldrei missa sjónar á því markmiði.

 

Íslendingar eru ekki einir á báti í þessum miklu hremmingum. Daglega berast fréttir af því að erfiðleikar steðji að með miskunnarlausum hætti í hverju landinu á fætur öðru. Stærstu hagkerfi heims skjálfa og nötra og öflugustu fjármálastofnanir heimsins, sem við höfum hingað til talið nær óvinnandi vígi, hafa mátt láta í minni pokann og liggja nú eftir gjaldþrota eða illa á sig komnar.

 

Við Íslendingar höfum byggt upp gríðarlega öflugt og fjölbreytt atvinnulíf á undanförnum árum sem skilaði miklum árangri. Lífskjör hafa batnað, ríkissjóður hefur greitt niður skuldir sínar, innviðir á flestum sviðum þjóðlífsins hafa verið styrktir myndarlega, framlög aukin til velferðarmála og menntamála og tekist á við nýja hluti sem áður voru einungis fjarlægur draumur. Við hösluðum okkur völl á nýjum sviðum. Með öðrum orðum;  við lifðum ótrúlegt framfaraskeið. En á þessu ári hefur það gerst sem engan óraði fyrir. Stoðunum hefur verið kippt undan þessari miklu uppbyggingu og nú horfumst við í augu við veruleika sem við ímynduðum okkur ekki að við ættum nokkurn tíman eftir að líta.

 

Margir spyrja hvort við höfum ekki staðið vaktina nægilega vel – hvort við höfum ekki gáð að okkur, hvort ekki hefði mátt sjá alla þessa hluti fyrir? Þeir eru sannarlega margir sem nú stíga fram og segja að allt hafi þetta verið fyrirsjáanlegt. Gott er að vita að við eigum svo skynsamt og framsýnt fólk að það hafi séð alla þessa hluti fyrir. Og þeir eru auðvitað til, eins og við þekkjum svo sem, sem alltaf og alls staðar hafa sagt að allt sé á leið norður og niður. Núna eru þeir auðvitað mættir til leiks og segja; sagði ég ekki, og telja sjálfa sig hafa verið framsýna spámenn. En gleymum þá ekki hinu heldur,  að það er ekki ýkja langt síðan, það var raunar langt fram á þetta ár, að  fjármálafyrirtækin okkar – og svo ekki sé nú talaða um skuldalausan ríkissjóðinn – fengu fyrstu ágætiseinkunn hjá þeim alþjóðlegu matsfyrirtækjum sem mestrar viðurkenningar njóta.

 

Sannarlega er rétt að það voru ýmsir váboðar sem gáfu okkur til kynna að rifa þyrfti seglin. Ég ætla þó að fullyrða að enginn er sá til í heiminum sem gat með neinum rökum sýnt fram á, til dæmis í ársbyrjun, að það stefndi í þá grafalvarlegu stöðu sem nú er komin upp. Því hefði þetta verið augljóst, þá væri staðan að sjálfsögðu ekki sú sem raun ber vitni. Bandaríkin, Evrópa og lönd um allar heimsins álfur glíma við svipuð vandamál og við. Þar hafa menn því augljóslega verið jafn glámskyggnir og við.  Það sem greinir okkur hins vegar frá flestum öðrum er sú staðreynd að hagkerfið óx mjög hratt hér og skuldbindingar fyrirtækja, einkanlega fjármálafyrirtækja, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu voru miklu meiri vegna smæðar þjóðarinnar og stærðar þeirra fyrirtækja sem höfðu vaxið svo mjög á undanförnum árum. 

 

Á næstunni setjast menn yfir þessi mál og reyna að átta sig á því hvers vegna svo fór sem fór. Ástæðurnar eru örugglega margslungnar og ýmislegt á þar eftir að koma í ljós. Þetta mikla endurmat verður ekki bara bundið við okkar litlu þjóð heldur mun það verða í öllum ríkjum heims þegar frá líður.  Það er því ekki ástæða til þess að hrapa að of miklum ályktunum nú sem stendur. Vissulega þurfum við þó að átta okkur á ákveðnum hlutum strax í upphafi og hafa að leiðarljósi þegar farið er í þá nauðsynlegu uppbyggingu sem við blasir.

 

Staða þjóðarinnar er gríðarlega erfið og framundan eru erfiðir mánuðir og misseri, þar sem tekist verður á við hluti sem áður voru okkur ókunnugir.  Ýmislegt sem lagt var til hliðar í fortíðinni og við héldum að heyrði sögunni til, verður viðfangsefni að nýju.  Ýmislegt sem menn héldu að ekki þyrfti að takast á við er orðið að vandamáli sem hittir okkur fyrir af miklum þunga. Þessi vandamál hafa ekki síst bitnað mjög grimmilega á íslenskum sjávarútvegi.  Hann er auðvitað útflutningsgrein sem þar af leiðandi verður fyrir miklu höggi þegar gjaldeyrisviðskipti komast í uppnám og bankakerfið fer á hliðina. Það hefur verið gríðarlega þungbært.

 

Gjaldeyrisviðskipti gengu jafnan hratt fyrir sig hér á landi, bankakerfið var vel smurt og tryggði að greiðslur fyrir afurðir skiluðu sér  á örskömmum tíma.  Nú er það  af sem áður var. Menn hafa kynnst því með harðneskjulegum hætti að gjaldeyrisviðskiptin eru í uppnámi.  Þar hefur verið við stóra að deila. Ágreiningur við Breta hefur haft mikið að segja en það er líka ljóst að gjaldeyrisviðskipti við önnur lönd, t.d. á meginlandi Evrópu, hafa nánast verið lokuð.

 

Það er kunnara en frá þarf að segja að verkefni útgerðarmanna og útflytjenda  síðustu daga og vikur hefur verið að tryggja að greiðslur fyrir afurðir bærust hingað til lands og það eftir áður óþekktum leiðum og reyndar alls konar krókaleiðum, sem ég ætla ekki að fjölyrða um. Þá hafa  stjórnvöld lagt sig fram um að greiða fyrir þessum viðskiptum. Seðlabankinn, ráðuneyti, sendiráð og fleiri hafa lagt þar sín lóð á vogarskálarnar. Ég fullyrði að þar hafa allir lagt sig fram og það ber mjög að þakka því ágæta starfsfólki sem hefur átt hlut að máli. Það er ekki við það að sakast að mál hafa þokast alltof hægt áfram.

 

Vandamálið kristallast hins vegar í því að marga af þessum rembihnútum í gjaldeyrisviðskiptunum hefur  einfaldlega ekki verið á okkar valdi að leysa.  Þar hafa aðrir tekið ákvarðanir og bókstaflega tekið af okkur völdin. Ég veit þetta vel, því sjálfur hef ég haft bein afskipti af þessum málum hvað eftir annað og reynt að beita því afli, því valdi og þeim áhrifum sem ég hef haft mátt til.  Þar hef ég meðal annars leitað leiða í gegnum pólitísk sambönd í nágrannalöndum okkar, ekki síst í Bretlandi.  Ég hef til dæmis átt samtöl við hinn nýja sjávarútvegsráðherra Bretlands, Huw Irranca Davies og aðra áhrifamenn þar ytra. Í þeim hópi vil ég sérstaklega nefna góðvin okkar Austin Mitchell þingmann Grimsbysvæðisins, sem hefur lagt okkur lið af alefli. Sumt af því hefur borið árangur og einstaka leiðir hafa opnast, eins og við þekkjum, en það breytir því ekki að  gjaldeyrisviðskiptin eru ekki komin í eðlilegt horf.  Því fer enn víðs fjarri.  

 

Þetta er þeim mun nöturlegra í því samhengi að þrátt fyrir allt er nú mikill kraftur í okkar útflutningsframleiðslu. Sjávarútvegurinn framleiðir gríðarleg verðmæti á degi hverjum, gjaldeyrisöflun þjóðarinnar hefur styrkst mjög með stóraukinni  framleiðslu á áli og ferðaþjónustan hefur vaxið mikið. Það má því segja að úti í heimi séu gullkistur fullar af gjaldeyri sem íslenskir framleiðendur hafa búið til en nýtast okkur ekki vegna þess að fjármunirnir hafa ekki, sakir atbeina erlendra banka, ratað þá leið sem þeim ber, í hendur eigenda sinna hér á landi.  Á sama tíma hefur dregið úr almennum innflutningi hingað til lands en vegna þess að gjaldeyrisviðskiptin eru ekki með eðlilegum hætti, þá hefur hið opinbera orðið að grípa til gjaldeyrisskömmtunar, með tilheyrandi vandræðum. Því er það algjört forgangsverkefni að greiða úr þessu máli og hafa stjórnvöld þar miklar skyldur. Ég fullyrði að það er eindreginn vilji og ásetningur okkar að leysa úr þessu svo hratt sem auðið er. Auðvitað er hér um tímabundinn vanda, en nógu bölvanlegur er hann á meðan á honum stendur.  Það er enginn vafi á því að samkomulag okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn liðkar fyrir.

 

Fjölmörg önnur mál hvíla einnig þungt á greininni um þessar mundir. Ýmiss konar uppgjör sem þurfa að eiga sér stað við gömlu viðskiptabankana bíða nú afgreiðslu. Ég veit að þið þekkið þessi mál á ykkar eigin skinni þannig að óþarfi er að fara langt út í þá sálma. Þó vil ég leggja áherslu á hve gríðarlega mikilvægt er að þessari óvissu linni. Það gengur auðvitað ekki að útgerðir og fiskvinnslur hringinn í kringum landið búi við þetta óvissuástand sem nagar fyrirtækin að innan og gerir mönnum algjörlega ómögulegt að átta sig á sinni eigin stöðu. Hér eru miklir hagsmunir í húfi og sem geta ráðið miklu um framtíðina.

 

Þetta er vitaskuld býsna flókið mál. Annars vegar uppgjör við gamla banka sem nú hafa hætt eiginlegri bankastarfsemi sinni og hins vegar hvernig taka á upp viðskipti við nýju bankana sem reistir hafa verið á grunni þeirra gömlu.  Svo það liggi alveg skýrt fyrir þá eigið þið fullan stuðning minn í þessu verki og ég hef reynt að leggja mig fram um að greiða fyrir þessari vinnu á undanförnum vikum. Ég játa þó fúslega að við verklok á degi hverjum undanfarnar vikur hefur mér stundum fundist afrakstur erfiðisins ótrúlega rýr. Sannarlega hefði ég kosið að það sæist meiri árangur af erfiðu dagsverki sem margir hafa lagt á sig í því skyni að koma þessum málum í skikkanlegt horf. En auðvitað líður að því að þessu ljúki. Málin eru að komast í nauðsynlegan farveg þó að endanleg niðurstaða sé ekki fengin, en mikil áhersla verður lögð á það af minni hálfu líkt og ykkar að þessu ljúki  sem fyrst. Bankarnir þurfa líka á þessum  uppgjörum að halda til að vita stöðuna eins og hún er í raun og sanni og fyrir fyrirtækin er lykilatriði að ljúka þeim. Þetta ásamt því að koma á snurðulausum gjaldeyrisviðskiptum, er því sérstakt forgangsmál að mínu viti og sem veita þarf allan þann atbeina sem mögulegur er.

 

Góðir fundarmenn.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að í tengslum við þessar hræringar allar hafa að nýju og með meira afgerandi hætti en áður, vaknað spurningar sem lúta að stöðu okkar innan Evrópu. Sú umræða er svo sem ekki ný af nálinni og hefur stundum áður verið fjallað um hana hér á þessum vettvangi. Því er þó ekki að neita að þunginn í kröfunni um aðild að Evrópusambandinu og evru hefur aukist. Ástæðan er einföld. Ferðalag krónunnar upp á síðkastið hefur verið eins og ein samfelld rússibanareið og með bankaáfallinu í byrjun þessa mánaðar, má segja að hún hafi verið sem í frjálsu falli. Þetta hefur leitt fram af miklum þunga kröfuna um að við leggjum gjaldmiðilinn af og höldum af stað inn á hinar eilífu veiðilendur Evrópusambandsins.

 

Það er auðvitað ljóst að í kjölfar þeirrar kreppu sem við stríðum nú við þarf að fara fram margs konar uppgjör. Meðal annars að hraða endurskoðun peningamálastefnunnar sem forsætisráðherra boðaði síðastliðið vor að ráðist yrði í. Atburðirnir nú kalla í sjálfu sér á sjálfstætt endurmat þeirrar stefnu, til viðbótar þeim forsendum sem lágu til grundvallar ákvörðun forsætisráðherra á sínum tíma. Það mat mun segja mikið til um með hvaða hætti skipa skal peningamálastjórninni og þar með talið stöðu gjaldmiðilsins í komandi framtíð. Þessu verður ekki lokið á einni dagstund, enda mikið og vandasamt verk. Skynsamlegast er auðvitað að ljúka því mikla slökkvistarfi sem nú stendur yfir, áður en hugað er að því hvernig húsið skuli byggt upp að nýju. Þess vegna er rétt að láta endurskoðunina fara fram þegar við höfum komist á sléttari sjó og getum betur áttað okkur á hver staðan er og verður í framtíðinni. Það er líka ljóst að þetta endurmat mun fara fram í öðru kastljósi en við blasti fyrr á árinu.

 

Nátengd þessu máli og óaðskiljanleg á vissan hátt, er spurningin um stöðu okkar í samvinnu Evrópuríkja á komandi árum.  Ég tel að það sé mikið gagnrýnisefni hvernig sú umræða hefur þróast á undanförnum mánuðum.  Sú var tíðin að staða okkar innan Evrópu var rædd með miklu víðtækari hætti og almennari en nú er gert.  Þegar farið er yfir þessa umræðu, eins og hún hefur gengið fram, mætti ætla að spurningarnar lúti eingöngu að því hvernig haga eigi gjaldmiðli okkar á komandi árum. Það er mjög miður að Evrópuumræðan, svo mikil að vöxtum sem hún er, fari fram út frá jafn þröngu sjónarhorni og nú gerist. Þessu þarf að breyta. Þær spurningar sem þarf að svara um Evrópusamvinnuna eru miklu flóknari og miklu margslungnari en umræða síðustu vikna og mánaða hefur gefið til kynna.

 

En þegar allt kemur til alls fela svörin við spurningunum einfaldlega í sér blákalt hagsmunamat að lokum. Hvar eigum við að skipa okkur í sveit svo hagsmunum þjóðarinnar sé sem best borgið? Svörin við þessari og viðlíka spurningum eru ekki einhlít. Það fer auðvitað ekki á milli mála að því geta fylgt kostir fyrir þjóð sem okkar að starfa innan vébanda Evrópusambandsins. Þetta er ekki bara svart eða hvítt. Þjóðir sem telja 400 milljónir manna álíta til dæmis hag sínum betur borgið innan þessa sambands en utan og framhjá því á ekki að líta. Þetta  er eins og að bera saman  plústölurnar og mínustölurnar. Útkoman af þeim útreikningum ræður því hvar við skipum okkur í sveit.

 

Þjóðfélagið okkar er orðið býsna ólíkt því sem það var fyrr á þessu ári. Þær forsendur sem við gáfum okkur í Evrópuumræðunni fyrrmeir, eru einfaldlega ekki til staðar lengur, á því verðum við að átta okkur og umræðan verður að ná yfir víðtækara svið en gjaldmiðilinn einan

 

 er ljóst að íslenska hagkerfið skreppur mjög mikið saman. Þær áskoranir sem okkar litli - og nú vinasnauði gjaldmiðill - stóð frammi fyrir verða öðruvísi en þegar fjármálakerfið var margföld stærð þjóðarframleiðslu okkar. Í annan stað má ekki gleyma því að í þessu samhengi koma óhjákvæmilega upp spurningar um stöðu okkar sem fullvalda þjóðar. Það er í raun ekki deilt um það að með aðild að Evrópusambandinu þyrftum við að afsala okkur að hluta til fullveldi sem við sannarlega höfum nú. Það er  viðtekið sjónarmið, hvar í flokki sem menn skipa sér í þessu deiluefni, að ef við göngum í Evrópusambandið þyrfti að breyta stjórnarskránni til að möguleiki væri á slíku fullveldisafsali. Þetta hlýtur að vera áleitin spurning fyrir þjóð sem fagnaði sjálfstæði sínu fyrir ríflega 60 árum.  Í þriðja lagi finnst mér undarlegt í þessari umræðu að svo virðist sem menn hafi lagt til hliðar spurninguna, sem þó var áleitnust þegar Evrópumálin voru mest rædd hér fyrrmeir; þ.e. hvað líður hagsmunum sjávarútvegsins og hvernig yrði þeim borgið innan ESB?

 

Í því sambandi er alveg ljóst að þegar við leggjum hið jákvæða og það neikvæða á vogarskálarnar, þá er sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins sannarlega eitt af því sem er ósamrýmanlegt íslenskum hagsmunum. Hún yrði örugglega í dálkinum með neikvæðu tölunum.  Eða vill einhver halda því fram að sjávarútvegi okkar yrði betur borgið innan laga og regluverks ESB en hins íslenska.

 

Talað hefur verið um ýmiss konar möguleika á því að fá varanlegar undanþágur. Þegar glöggt er skoðað er þó alveg ljóst að þær undanþágur sem vísað hefur verið til eru af þeim toga að þær kæmu að litlu gagni fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð.  Takmarkaðar undanþágur sem miðast við vanbúinn flota, sem veiðir fáein hundruð tonn, svo sem á Möltu sem stundum hefur verið tekið sem dæmi að fyrirmynd, eru auðvitað ekki almennt fordæmi sem fylgt verður þegar slík mál verða rædd við okkur. Takmarkaðar undanþágur sem helgast af viðkvæmum, afmörkuðum hafsvæðum gefa okkur ekki nein fyrirheit um að vera skilgreind sem sérstakt fiskveiðisvæði sem ekki lyti öllum almennum reglum fiskveiðistjórnunar Evrópusambandsins, eins og eitt sinn var nefnt. Hinn hlutfallslegi stöðugleiki sem er kjarni sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins er ansi valt völubein í ljósi þess að við endurskoðun fiskveiðistefnu ESB sem nú er að hefjast, er það fyrirkomulag undir.

 

Þessir þættir og fleiri verða ekki undan skildir í því hagsmunamati sem fram mun fara á næstunni.

 

Góðir fundarmenn.

Ég sagði áðan að endurmeta þyrfti stöðu okkar með margvíslegum hætti. Það er óhjákvæmileg afleiðing svo stórra atburða sem hér hafa orðið. Eitt af því sem við blasir er t.d. að hagkerfi okkar verður minna á næsta ári en þessu, enda heil atvinnugrein svo að segja horfin á braut sem lagði orðið meira til þjóðarframleiðslunnar en sjálfur sjávarútvegurinn.

 

Við höfum kallað sjávarútveginn burðarás efnahagslífsins á Íslandi og það hefur hann sannarlega verið.  Nú verður enn meiri ábyrgð lögð á herðar okkar.  Þess vegna þurfum við nú að velta fyrir okkur með almennum hætti, hvert beri að stefna. Hvernig við gerum okkur í hugarlund að sjávarútvegur framtíðarinnar verði á því breytta Íslandi sem blasir við. Þetta er ekki einfalt verkefni og síst af öllu neitt áhlaupsverk.

 

Umræðan um sjávarútvegsmál hefur að mínu mati verið á miklum villigötum.  Hún hefur mikið til snúist um álitamál sem snerta fiskveiðistjórnun og þannig mun það örugglega verða áfram með einhverjum hætti. En upp úr því hjólfari þurfum við samt sem áður að komast.  Menn verða að horfa til lengri tíma og gera sjálfum sér og þjóðinni grein fyrir því hvaða möguleikar felast í sjávarútveginum. Mér hefur fundist og hef áður sagt það, að umræðan um sjávarútveginn endurspegli mjög illa það sem er að gerast í greininni sjálfri og það er mjög miður.

 

Ég hef því hug á að setja niður starfshóp sem hafi það hlutverk að átta sig á stöðu sjávarútvegsins í þessu gjörbreytta umhverfi; hvar tækifærin liggja, hvernig greinin þróist og í hverju möguleikar hennar eru fólgnir til að verða ennþá öflugri stoð þjóðarbúsins á komandi árum. Hér vil ég kalla til verka hóp fólks sem þekkir vel til í greininni og endurspeglar þann margbreytileika og þekkingu sem þar er að finna. Ég vona að þessum hugmyndum verði vel tekið og að innan tíðar taki slíkur hópur til starfa.

 

Góðir fundarmenn.

Sú undarlega hugmynd hefur skotið upp kollinum að nú eigi að nota tækifærið, þegar verst stendur á í sjávarútveginum, til að kippa undan honum fótunum. Hér á ég við þær hugmyndir sem ganga út á að leysa til ríkisins aflaheimildir í sjávarútvegi og ganga í því sambandi til einhvers konar skuldaskilasamninga við sjávarútvegsfyrirtækin, einmitt núna þegar efnahagsreikningar þeirra eru í uppnámi vegna gengishrunsins.  Finnst mönnum virkilega ekki nóg að gert?  Ímyndar sér  einhver að það yrði þjóðfélaginu til gagns að reiða nú til höggs gagnvart sjálfri undirstöðuatvinnugreininni þegar við erum búin að missa fjármálakerfið okkar á hliðina? Er ekki skynsamlegra að taka saman höndum, reyna að vinna sig út úr þeim vanda sem við er að glíma og styrkja fjárhagslegan grundvöll atvinnugreinarinnar svo hún geti sem best tekist á við sín mikilvægu verkefni? 

 

Þessar hugmyndir eru óskiljanlegar, að minnsta kosti ef menn líta svo á að hlutverk sjávarútvegsins eigi að vera efnahagslegt og þjóðarbúinu til gagns. Þeir sem telja að best sé að nota þetta tækifæri þegar sjávarútvegurinn liggur svo vel við höggi horfa varla á hann sem atvinnugrein, heldur sjá þetta í einhverju allt öðru ljósi og það mjög skrítnu ljósi. Sjávarútvegurinn hefur á undanförnum árum tekist á við gríðarlegan vanda vegna óhagstæðs gengis, minni aflaheimilda og þeirra aðstæðna sem nú eru uppi og farist það ótrúlega vel úr hendi. Við slíkar aðstæður getur ekki verið skynsamlegt að auka enn á vandræðin, skapa ennþá meiri óvissu og draga úr fjárhagslegum mætti sjávarútvegsfyrirtækjanna.

 

Góðir útgerðarmenn.

Nú læt ég gott heita í bili um það sem þyngst hvílir á okkur og vík um stund að öðru. Eins og þið þekkið er stór hluti þess afla sem íslensk skip veiða sóttur í fiskistofna sem eru ekki að öllu leyti innan íslenskrar lögsögu. Við verðum að semja við önnur ríki um stjórn veiða úr slíkum stofnum til að tryggja að heildarnýtingin sé sjálfbær. Ástand fiskistofnanna og samningsumhverfi stjórnunar veiða er mjög mismunandi. Ég tel óþarft að fjalla um þá alla hér, en þó er rétt að minnast á suma þeirra.

 

Norsk-íslenski síldarstofninn stendur mjög vel. Eftir nokkurra ára óvissuástand, þar sem útlitið var slæmt um tíma, virðist aftur vera kominn nokkuð góður stöðugleiki í samninga um stjórn veiðanna. Síldveiðar hafa verið miklar undanfarin ár og ekki útlit fyrir annað en að svo verði áfram.

 

Ástand kolmunnastofnsins er lakara, enda hefur dregið mjög mikið úr nýliðun hans eftir nokkur góð ár þar á undan. Ljóst er að veiðarnar eru ennþá of miklar, en mikilvægt er að ramminn sem samkomulag strandríkjanna um stjórn veiða setur haldist. Hann skapar grundvöll fyrir því að með samhentu átaki geti viðkomandi ríkjum tekist að koma nýtingunni í skynsamlegri farveg. Viðræðum strandríkjanna þetta haustið er enn ekki lokið, en vonir standa til að gerð verði aðgerðaáætlun sem verði til þess að innan viðunandi tíma verði viðgangur stofnsins tryggður með sjálfbærum veiðum.

 

Enn er þörf á miklum úrbótum varðandi stjórn karfaveiða á Reykjaneshrygg. Ágreiningur er um mörg grundvallaratriði varðandi karfann og því miður hefur ekki tekist að ná fram niðurstöðu sem væri viðunandi fyrir alla sem að málinu koma.

 

Í kjölfar þess að vísindamenn settu fram nýja ráðgjöf um að draga verulega úr veiðum á grálúðu var ákveðið að leggja meiri áherslu en verið hefur undanfarin ár á tilraunir til að gera samning um heildstæða stjórn þeirra, sem næði til Grænlands og Færeyja auk Íslands. Í kjölfar fundar með starfsbróður mínum frá Grænlandi fyrr á þessu ári tókum við frumkvæði að því að hefja viðræður um stjórn veiðanna. Einn samningafundur hefur þegar farið fram og heldur ferlið áfram með það að markmiði að það leiði til samkomulags strax á næsta ári.

 

Í u.þ.b. áratug hefur Ísland farið fram á að fá að sitja við samningaborðið meðal hinna strandríkjanna þegar samið er um stjórn makrílveiða, en þau hafa ekki viljað viðurkenna Ísland sem fullgilt strandríki varðandi makríl. Í ljósi þessa ber að fagna því að nú eru að verða breytingar í þessu efni. Svo vill til að það er einmitt í dag sem Ísland tekur í fyrsta sinn þátt í strandríkjafundi um makríl. Okkur er reyndar aðeins boðið til fundar sem áheyrnarfulltrúum, en sendinefnd Íslands mun að sjálfsögðu ítreka þá afstöðu á fundinum að Ísland geti ekki annað en talist sem fullgilt strandríki í ljósi þess að mikið er um makríl innan okkar lögsögu. Ríflega 100 þúsund tonna veiði hlýtur að segja sína sögu. Þrátt fyrir ágreining um formsatriði er rétt að fagna því að okkur hefur loksins tekist að komast að samningaborðinu. Vonandi gengur hratt og vel að ná niðurstöðu sem við getum sætt okkur við.

 

Málefni verndunar viðkvæmra vistkerfa í hafinu, svo sem kaldsjávarkóralla, hverastrýta og neðansjávartinda, fyrir hugsanlegum skaðlegum áhrifum fiskveiða hafa verið ofarlega á baugi undanfarin misseri. Algert samkomulag var milli þjóða heimsins um mikilvægi þess að vernda þessi viðkvæmu vistkerfi, en deilt var um hvaða aðferð væri best í því sambandi. Deilan var vegna þess að sum ríki vildu byggja á aðferð sem grundvallast á tvennu. Annars vegar á hnattrænni lausn þar sem sömu stjórnunarreglur eru settar fyrir öll hafsvæði heimsins óháð þeim ólíku aðstæðum sem eru á mismunandi svæðum. Hins vegar á því að horfa ekki til viðkvæmu vistkerfanna sjálfra heldur einblína á einstök veiðarfæri og takmarka eða jafnvel banna notkun þeirra almennt, óháð því hvort ástæða sé til að ætla að þau hafi skaðleg áhrif á því svæði þar sem þau eru notuð eða ekki.

 

Önnur ríki, þ.m.t. Ísland, vildu byggja á annarri aðferð. Annars vegar að sett væru hnattræn viðmið sem síðan væru útfærð nánar og framkvæmd á svæðisbundnum vettvangi, þar sem tillit væri tekið til þeirrar sérstöðu sem einkennir hvert hinna mismunandi hafsvæði heimsins. Hins vegar að ekki væri einblínt á einstök veiðarfæri heldur viðkvæmu vistkerfin sjálf, þannig að notkun veiðarfæra væri ekki takmörkuð þar sem ekki er ástæða til að ætla að þau valdi skaða og viðkvæmu vistkerfin væru vernduð óháð því hvaða veiðarfæri valdi álagi á þau.

 

Afstaðan sem Ísland studdi varð ofan á í viðræðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og varð það ýmsum tilefni til að gagnrýna Ísland mjög harkalega. Auk beinna árása á Ísland var þessari nálgun fundið allt til foráttu og mátti jafnvel skilja suma þannig að með samkomulagi þjóða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefði Ísland orðið til þess að viðkvæm vistkerfi yrðu eyðilögð víða um heimshöfin. Við litum hins vegar svo á að niðurstaðan fæli í sér skuldbindingar um raunhæfar, markvissar og skilvirkar aðgerðir til verndar viðkvæmum vistkerfum hafsins og héldum okkar striki í áframhaldandi vinnu í þessu máli á alþjóðavettangi, enda var henni hvergi nærri lokið.

 

Þegar hin alþjóðlega vinna að þessu máli fór frá almennum viðræðum um meginnálgun yfir í að snúa að praktískum lausnum við að framkvæma verndunina áttuðu sífellt fleiri sig á því að sú nálgun sem Ísland hafði stutt, ásamt fleiri ríkjum, var raunhæfust til að ná þeim markmiðum sem allir voru sammála um. Andstaðan hvarf og sú nálgun sem áður var harðlega gagnrýnd af ýmsum var nú studd af nánast öllum.

 

Á nýliðnu sumri samþykkti Matvæla- og landbúnaðarstofnun S.þ., FAO, alþjóðlegar leiðbeiningarreglur um stjórn djúpsjávarveiða á úthafinu. Í reglunum eru sett viðmið sem nauðsynleg eru til að tryggja góða framkvæmd verndunar viðkvæmra vistkerfa hafsins. Allt starfið innan FAO grundvallaðist á þeirri almennu sátt sem skapast hefur um meginaðferðafræðina.

 

Framkvæmd leiðbeiningareglna FAO er þegar hafin. Fánaríki og svæðisbundnar fiskveiðistjórnarstofnanir um allan heim hafa gert það að forgangsmáli að setja reglur í samræmi við niðurstöður Sameinuðu þjóðanna og FAO. Ísland hefur m.a. verið virkur þátttakandi í þessu verki á vettvangi Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar, NEAFC, og Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar NAFO.

 

Rétt er að hafa í huga hvað staðfesta Íslands og líkt þenkjandi ríkja skipti miklu máli í þessu sambandi. Það hefði verið auðvelt að gefa eftir þegar alvarlegar ásakanir voru settar fram. Ef við hefðum vikið frá sannfæringu okkar hefði það hins vegar valdið miklu og óþörfu tjóni fyrir sjávarútveg sem notar veiðarfæri svo sem botnvörpu með ábyrgum hætti. Jafnframt hefði slík eftirgjöf skilað sér í alþjóðlegri nálgun við verndun viðkvæmra vistkerfa í hafinu sem hefði verið svo erfið í framkvæmd að hún hefði líklega litlu skilað í raun þótt hún hefði kannski litið fallega út á blaði.

 

Nú þegar horft er til baka er því óhætt að segja að við sem vorum úthrópuð og gagnrýnd fyrir afstöðu okkar og hér innanlands sökuð um að skaða ímynd Íslands, getum nú fagnað því að okkur nálgun varð ofan á og sjónarmið okkar viðurkennd. Það er ástæða til að undirstrika þetta og fagna þessu.

 

Þetta mál er dæmi um gott samstarf milli utanríkisráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Þetta er einnig gott dæmi um að starf Íslands á alþjóðavettvangi getur haft mikil áhrif, bæði til að verja íslenska hagsmuni og til að tryggja að alþjóðlegar niðurstöður séu skynsamlegar, praktískar og skilvirkar.

 

Góðir fundarmenn.

Ég hóf ræðu mína á því að fjalla um þá grafalvarlegu stöðu sem uppi er í efnahagslífi okkar og tengdi hana þeirri þróun sem orðið hefur á alþjóðlegum mörkuðum.  Það var ekki til að gera lítið úr okkar eigin ábyrgð eða reyna að breiða yfir að margt hefði örugglega mátt betur fara hjá okkur hér innanlands, bæði hjá fyrirtækjunum og stjórnvöldum. En það er hins vegar mikilvægt, samhengisins vegna, að átta sig á hvernig þessi þróun á alþjóðlegum mörkuðum hittir okkur fyrir.  Þetta veldur m.a. erfiðleikum í sölu afurða.

 

Á undanförnum árum hefur fiskverð almennt farið hækkandi, þó með undantekningum sé, og þess hafa fyrirtækin svo sannarlega notið. Hærra þorskverð og afurðaverð í flestum tilvikum, ásamt veikara gengi á árinu, hefur í raun bætt upp það fjárhagslega áfall sem samdráttur í aflaheimildum kallaði fram. Því miður eru nú blikur á lofti á þessu sviði.  Kreppa í alþjóðaviðskiptum, minnkandi kaupmáttur og óöryggi neytenda á markaðssvæðum okkar sem annars staðar, hefur það í för með sér að eftirspurn eftir íslenskum fiski fer minnkandi og þrýstingur til verðlækkunar hefur þegar gert vart við sig.  Þetta er ekki alveg nýtt af nálinni heldur varð þessa vart fyrir nokkru síðan. Með dýpkandi kreppu í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum eykst þessi þrýstingur og nú þegar gætir sölutregðu og aukinnar birgðasöfnunar fyrirtækja á tilteknum mörkuðum.  Ekki var nú á bætandi við önnur vandræði okkar en þetta er hins vegar sá bitri veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og þurfum að fást við.  Þau vandamál sem við glímum við eru þess vegna mikil og alvarleg og því fer fjarri að við sjáum út úr þeim vanda. 

 

Ágætu útgerðarmenn.

Það er óhætt að segja að við Íslendingar höfum ekki í okkar minni, séð hann svartari. Við upplifum raunverulega alþjóðakreppu sem hittir okkur fyrir með einstaklega harkalegum hætti. Það er athyglisvert að við þær aðstæður beina menn ekki síst sjónum sínum að sjávarútvegi og þeim möguleikum sem í honum felast. Þær heyrast að minnsta kosti ekki núna raddirnar sem spáðu því að sjávarútvegurinn yrði  nánast afgangsstærð í þjóðarbúskap okkar. Í sjávarútvegi erum við á gamalkunnugum slóðum þar sem við þekkjum hvert fótmál;  við allar venjulegar kringumstæður.

 

En hitt blasir við að aðstæðurnar eru ekki venjulegar núna. Það er eiginlega flest öfugsnúið og við fetum slóðina í nýrri veröld. Til sjávarútvegsins er  því horft og í sjóinn ætlar þjóðin að sækja bjargræðið, eins og jafnan fyrr og síðar.  Þetta er eðlilegt og þetta eru engar tálsýnir. Það má reiða sig á íslenskan sjávarútveg nú sem og  í framtíðinni, líkt og í fortíðinni.

 

En þá er líka eðlilegt að við sköpum þeirri grein, sem við ætlum enn stærra hlutverk í nánustu framtíð, öryggi og rekstrarlega vissu. Við verðum að sópa frá ykkur þeirri óvissu sem ég veit að hefur verið sem lamandi hönd í fyrirtækjunum undanfarnar vikur og þar með svo alltof lengi. Það er eðlileg krafa og ósk af ykkar hendi, sem ég ekki einasta skil og virði, heldur vil verða við, í þeim mæli sem mér er unnt. Sjávarútvegurinn þarf að sjá til lands, þannig að starfsfólk hans og stjórnendur fái ráðrúm og næði til að gera það sem enginn í heiminum kann betur; að veiða, vinna og selja fisk, þjóðarbúi okkar til gæfu og gagns. Þetta verður örugglega erfitt – mjög erfitt – en þetta er hægt og okkur mun takast það.

 

Frá því ég varð sjávarútegsráðherra fyrir þremur árum hefur mér verið vel tekið í ykkar ranni. Veit ég vel að ýmislegt sem ég hef gert og ákveðið, hefur ekki verið ykkur að skapi og það var auðvitað viðbúið. Það hefur hins vegar ekki breytt því að samstarf mitt við útvegsmenn um land allt og forystumenn LÍÚ hefur verið með miklum ágætum og fyrir það vil ég þakka af heilum hug. Nú verða þau tímamót að Björgólfur Jóhannsson lætur af formennsku í samtökum ykkar eftir áralangt og farsælt starf. Ég vil af því tilefni færa honum alúðarþakkir mínar fyrir einstaklega gott samstarf og fyrir þann dugnað, drenglyndi og festu sem hefur einkennt framkomu hans í störfunum fyrir LÍÚ.

 

Ykkur, góðir útgerðarmenn og forsvarsmenn LÍÚ, þakka ég ennfremur gott samstarf á því ári sem er liðið frá síðasta aðalfundi ykkar og árna ykkur velfarnaðar í mikilvægum aðalfundarstörfum.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum