Hoppa yfir valmynd
07. nóvember 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Opnun Vöruþróunarsmiðju Matís á Höfn í Hornafirði, 5. nóvember 2008

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar,

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

við opnun Vöruþróunarsmiðju Matís á Höfn í Hornafirði

5. nóvember 2008

Góðir gestir.

Það er svo sannarlega ánægjulegt að fá að taka þátt í því hér í dag að opna vöruþróunarsmiðju Matís. Ekki veitir af í þessu árferði að ýta undir hvers kyns frumkvöðlastarf og nýsköpun og hlúa um leið að þeim fjölmörgu vaxtarsprotum sem við eigum. Þótt útlitið sé dökkt um þessar mundir þá megum við ekki gleyma því að ýmis konar tækifæri felast líka í stöðunni. Og nú ríður venju fremur á að nýta þau sem best og leggja þeim lið sem á þurfa að halda til að hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd.

Þá hefur vöruþróunarsmiðja eins og þessi miklu hlutverki að gegna því það er ekki á allra færi að leggja, upp á von og óvon, út í mikinn stofnkostnað við að breyta hugmynd og hráefni í markaðshæfa og eftirsótta vöru. Matvælasmiðjan er sérstaklega sett upp til að styðja við frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja hefja virðisaukandi smáframleiðslu matvæla úr íslensku hráefni. Hér er kominn kjörinn vettvangur til þess að prófa sig áfram, kanna markaðsgrundvöll og skapa virðisauka án mikillar áhættu og með liðsinni sérfræðinga. Gildi þessa er mikið og hvað heimamenn hér Í ríki Vatnajökuls snertir ætti setrið að ýta enn frekar undir þá hugmyndaauðgi og nýsköpun sem þið hafið svo myndarlega staðið fyrir.   

Ef við hverfum svo norður yfir jökul og ofan í Eyjafjörð þá er þar að finna mjög gott dæmi um vel heppnaða mat- og menningartengda ferðaþjónustu. Veitingahúsið Friðrik V. á Akureyri hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli fyrir að hampa hvers kyns staðbundnu hráefni og setja það algjört í öndvegi. Staðurinn sérhæfir sig í fersku, svæðisbundnu hráefni og hefur að launum hlotið fjölmargar viðurkenningar. Nú síðast var hann tilnefndur til Fjöreggs Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands. Friðrik Valur vert nyrðra og hans fólk hefur glögglega sýnt fram á hvernig hægt er að skapa á sér nafn með áherslu á staðbundna sérstöðu.

Þá stendur Matarkistan Skagafjörður mér auðvitað nærri. En eins og mörgum hér er eflaust kunnugt er það samvinnuverkefni á héraðsvísu þar sem skagfirskir matvælaframleiðendur, ferðaþjónustuaðilar, veitingahús og verslanir, auk Háskólans á Hólum og Sveitarfélagsins Skagafjarðar taka höndum saman með það að markmiði að þróa matar- og menningartengda ferðaþjónustu í dreifbýli og vitaskuld halda á lofti öllu því gæðafæði sem skagfirskt er.

Hugtakið matarferðamennska er tiltölulega nýtt af nálinni en í þess konar ferðaþjónustu felst mikill vaxtarbroddur, ekki hvað síst á landsbyggðinni. Hver kannast ekki við á ferðum sínum erlendis að kaupa sér svæðisbundnar kræsingar til að gæða sér á í góðu tómi. Undir svona lagað vil ég ýta hér á landi og hef gert til að mynda með því að skipa nefnd til ráðgjafar um hvernig best megi standa að og greiða fyrir þróun heimavinnslu og sölu afurða hjá bændum. Nefndin tengist náið verkefninu Beint frá býli sem Félag heimavinnsluaðila stendur að. Á þessum vettvangi er svo auðvitað viðeigandi að nefna að einn nefndarmanna er Guðmundur Gunnarsson deildarstjóri Matís hér á Hornafirði.  

Ég eins og svo margir aðrir skynja auðvitað vel hve áhugi bænda og margra fleiri fyrir heimavinnslu afurða hefur aukist hratt. Ekki hvað síst núna þegar allir gera sér glögga grein fyrir nauðsyn þess að velja íslenskt og efla þannig hvers kyns innlenda starfsemi. Í þessu felst vaxtarbroddur sem vert er að hlúa að. Hvers konar nýsköpun af þessu tagi getur bæði orðið landbúnaðinum og öðrum atvinnugreinum lyftistöng.  Nefndin á að liðka fyrir og stuðla að árangursríku samstarfi hins opinbera og hagsmunaaðilanna.

 

Innan sjávarútvegsins hefur alla tíð verið unnið ötullega að vöruþróun og nýsköpun. Þar standa menn á gömlum merg. Vegna mikillar alþjóðlegrar samkeppni hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ávallt þurft að beita öllum ráðum til að skara fram úr og því lagt sig í líma við alls kyns vöruþróun. Þess vegna er þar bæði á miklu að byggja og miklu að miðla. Jafnframt á greinin líka örugglega eftir að njóta góðs af  starfseminni hér. Stuðningur við frumkvöðla í gegnum vöruþróun og hönnun er einn mikilvægasti þátturinn í uppbyggingu matarferðamennsku sem og annarrar smáframleiðslu matvæla úr íslensku hráefni.  

 

Þar kemur vöruþróunarsmiðjan sterk inn. Hér er hægt að veita þeim sem hafa hug á að hefja vöruþróun tengda smáframleiðslu matvæla sérhæfða ráðgjöf um hvernig framleiðsluferli vörunnar verði best sett upp þannig að kröfum um gæði og öryggi sé mætt. Setrið býður upp á heildstæða ráðgjöf og aðstoð við tæknileg atriði, viðskiptaáætlanir, vöruþróun, dreifingu og hráefnisöflun. Með þessu móti má fá góða sýn á heildarmyndina og gera sér grein fyrir hvort raunhæft sé að ráðast í verkefnið eður ei, áður en miklu hefur verið kostað til.

 

Frumkvöðlar geta leigt aðgang bæði að tækjum og þekkingu til að fara í gegnum vöruþróunarferlið og lágmarkað þannig áhættu sína af því að fjárfesta í búnaði áður en varan hefur verið að fullu þróuð eða prófuð á markaði. Með þessu hyggst Matís auka líkur á að árangur náist í frumkvöðlaverkefnum og draga úr hættu á að fjárfesting í búnaði hindri að framleiðsla verði að veruleika.

 

Án þess að hafa um það mörg orð þá vil ég í lokin nefna einn þátt sem ávallt verður að hafa í fyrirrúmi hvers kyns matvælaframleiðslu - öryggi matvælanna. Það er algjört lykilatriði að heilnæmi og öryggi framleiðslunnar sé hvergi teflt í tvísýnu. Þar kemur liðsinni sérfræðinga Matís sér vel, meðal annars með rannsóknum á hagnýtum þáttum eins og geymsluþoli, skynmati, réttri pökkun og notkun íblöndunarefna.

 

Ég bind miklar vonir við þessa starfsemi hér eystra og um leið og ég lýsi mikilli ánægju minni með hana og það góða starf sem Matís vinnur víða um land, óska ég heimamönnum sérstaklega og öllum öðrum hlutaðeigandi til hamingju með þennan áfanga og velfarnaðar í framtíðinni.  

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum