Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Líftæknismiðja Matís opnuð á Sauðárkróki 18. nóvember 2008

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar,

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

við opnun rannsóknastofu og líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki

18. nóvember 2008

Ágætu gestir.

 

Það er mér mikil ánægja að fá að fagna þessum merka áfanga með ykkur og opna líftæknismiðjuna formlega. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við komum hér saman til að fagna ánægjulegum tímamótum í starfrækslu Matís í Skagafirði. Í hvert sinn hefur starfseminni vaxið fiskur um hrygg, starfsmönnum fjölgað og umsvifin aukist. Ég segi nú bara - því oftar því betra.

 

Enda er markvisst unnið að því að efla starfsemi stofnana sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins úti á landi og er þetta gott dæmi um ávöxt þess. Ef við skoðum Matís sérstaklega þá fjölgar starfsmönnum fyrirtækisins hér í Skagafirði um þrjá með líftæknismiðjunni. Reiknað er með að þeim fjölgi svo enn frekar á næstu árum bæði hjá Matís og Iceprótein og bæði vísindamenn og nemendur leiti í smiðjuna og vinni að rannsóknum sínum hér. Með þessu fjölgar því störfum vísinda- og tæknimenntaðs fólks á Sauðárkróki og nágrenni.

 

Ef svo er litið á starfsemi Matís annars staðar á landinu og utan höfuðborgarsvæðisins þá eru starfsmennirnir 21 á sex stöðum – Ísafirði, Akureyri, Neskaupsstað, Höfn, Vestmannaeyjum og hér. Þessu til viðbótar eru svo tveir hjá Iceprótein. Þannig að starfsfólkinu úti á landi hefur fjölgað jafnt og þétt og gerir það vonandi áfram. Markmiðið er ekki að skapa eins einingar á öllum stöðum heldur þvert á móti að hver og ein hafi sína sérstöðu og þjóni ekki bara sínu nánasta umhverfi heldur landinu öllu.

Það er markviss stefna stjórnenda Matís að þar sem heimamenn eru reiðubúnir til samstarfs, góðar hugmyndir, þekking og áhugi fara saman, þar er Matís reiðubúið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að stuðla að hvers kyns uppbyggingu á sínu sviði. Nýjasta dæmi þessa er frá Hornafirði þar sem vöruþróunarsmiðja var opnuð fyrir hálfum mánuði. Þar líkt og hér hafa heimamenn sýnt bæði djörfung og dug til að þetta yrði að veruleika. Matvælasmiðjan verður vettvangur frumkvöðla til að prófa sig áfram og útfæra hugmyndir sínar og hráefni þannig að úr verði fullbúin markaðsvara. Með þessu móti verður þeim kleift að kanna, án mikils tilkostnaðar og með liðsinni sérfræðinga Matís, hvort raunhæft og hagkvæmt sé að framleiða tiltekna vöru.

Ég sagði þá: „Ekki veitir af í þessu árferði að ýta undir hvers kyns frumkvöðlastarf og nýsköpun og hlúa um leið að þeim fjölmörgu vaxtarsprotum sem við eigum. Þótt útlitið sé dökkt um þessar mundir þá megum við ekki gleyma því að ýmis konar tækifæri felast líka í stöðunni. Og nú ríður venju fremur á að nýta þau sem best og leggja þeim lið sem á þurfa að halda til að hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd.“ Þetta á fyllilega við hér líka.

Ekki þarf að orðlengja neitt um þann gríðarlega vanda sem við er að glíma á efnahagssviði okkar. Hrun bankakerfis, samdráttur landsframleiðslu, mikil verðbólga, snarlækkun gengisins, vandræði í gjaldeyrisviðskiptum  og háir vextir eru ástand sem við getum ekki búið við. Verkefnið framundan – og það er risaverkefni – er að breyta þessu ástandi; snúa vörn í sókn. Undanfarnar vikur hefur verið brugðist við hinum gríðarlega vanda sem að okkur hefur steðjað. En nú þarf að horfa til framtíðar. Hyggja að því hvernig byggja má upp.

 

Réttilega hefur verið sagt að við erfiðleikaaðstæður fæðist oft góðar hugmyndir, sem verða að veruleika. Menn sjái ný tækifæri, sem aðstæður hafi kannski ekki kallað eftir þegar vel hefur gengið. Ísland hefur verið dýrt land, hér hefur hátt gengi oft hamlað vexti nýrra sprota, en nú er þetta að breytast. Okkur er öllum ljóst að möguleikar til nýsköpunar geta orðið margvíslegri  en áður - og kannski óvæntari.  Þessi tækifæri eigum við að reyna að grípa – og grípa þau greitt.

 

Þegar svo háttar til skiptir miklu máli að við höfum styrkt grunngerð samfélags okkar á síðustu árum. Menntunarstigi þjóðarinnar hefur fleygt fram. Tæknibylting samtímans, sem við höfum verið fljót að tileinka okkur og aðgangur að þekkingu um allan heiminn telur með okkur og þetta er nokkuð sem okkur ber að nýta samfélaginu til heilla.

 

Sú starfsemi sem Matís og fleiri fyrirtæki og stofnanir ríkisins hafa byggt upp um landið í nánu samstarfi við atvinnulífið og rannsókna- og menntastofnanir okkar eru dæmi um sterkari grunngerð sem með okkur mun telja í nánustu framtíð. Þetta er eins og í íþróttunum. Við höfum byggt upp þróað leikkerfi og skipulagt okkur til sóknarinnar og núna þegar færin gefast eigum við nýta okkur það, til þess að ná  árangri.

 

Við blásum til sóknar, mitt í þeim erfiðleikum sem við er að glíma. Mótlætið má nefnilega ekki buga okkur, heldur stæla til enn frekari átaka. Einfaldlega vegna þess að nú ríður á að okkur takist að rífa okkur upp, nýta okkur þá sprota sem við getum örvað til frekari vaxtar, undir formerkjum þekkingar og framtaks sem við, íslensk þjóð eigum kappnóg af.

 

Við fögnum auðvitað hverju nýju starfi sem unnt er að skapa, ekki hvað síst á landsbyggðinni. Þar eiga stjórnendur og starfsmenn Matís heiður skilinn fyrir ötula og markvissa uppbyggingu víðs vegar um land. Um leið hefur fyrirtækið gengið til samstarfs við innlenda og erlenda háskóla og rannsóknastofnanir eins og við munum glögglega sjá dæmi um hér á eftir.

 

Ísland er ríkt af einstökum auðlindum og á þeim munum við byggja sem aldrei fyrr næstu árin. Hvað starfsemin hér snertir snýst hún um að nýta þá gnægð lífefna sem fyrirfinnast bæði til lands og sjávar. Með uppbyggingu arðbærs lífefnaiðnaðar skjótum við nýjum stoðum undir atvinnulífið og efnahag þjóðarinnar þar með. Markaður fyrir það sem við getum kallað náttúruvörur hefur vaxið skjótt undanfarin ár. Til dæmis er reiknað með hann vaxi árlega um fimmtung bæði í Evrópu og Norður-Ameríku næstu árin. Afurðirnar eru eftirsóttar á matvæla-, fóður-, lyfja- og snyrtivörumarkaði svo nokkuð sé nefnt. Efnin má vinna úr íslenskum þörungum, sjávarörverum, aukaafurðum fiskframleiðslu, vannýttum fisktegundum, skel og lindýrum og svona mætti áfram telja. Allt á þetta sameiginlegt að vera frekar lítið eða ekkert nýtt hingað til.

 

Ætli megi ekki halda því fram að við sitjum á gullkistu sem ljúka þarf upp. Einn lyklanna að henni er hér á Sauðarkróki. Við Íslendingar búum svo vel að eiga vel menntað og fært fólk á þessu sviði en vegna annarra áherslna hafa tækifærin ekki verið nýtt sem skildi síðustu misseri. Nú hafa aðstæður breyst og ekki seinna vænna að beinum kröftunum í þessa átt. Sérstaða okkar - auk góðrar menntunar - er fólgin í sérstakri náttúru Íslands, hagstæðu rannsókna- og þróunarumhverfi, hreinu vatni og ódýrri hreinni orku. Gífurleg tækifæri fyrir aukna og betri nýtingu náttúruauðlinda og verðmætasköpun annars matvælaiðnaðar eru til staðar. Nýta á þá hugarorku og mannauð sem losnað hefur um, til að koma metnaðarfullum nýsköpunarverkefnum í framkvæmd og auka bæði gjaldeyristekjurnar og sjálfbærni okkar í matvælaframleiðslu. Við þurfum að koma vitinu í verð eins og það er kallað hjá Matís. 

 

Fyrirtækið hefur verið leiðandi á sínu sviði hér innanlands en stjórnendur og starfsmenn ætla ekki að láta þar við sitja. Þeir eru stórhuga og stefna ótrauðir á að vera í fararbroddi líftækni og lífvirkra afurða í Norður-Evrópu innan fimm ára. Líftæknismiðjan mun gegn lykilhlutverki í að þetta metnaðarfulla markmið nái fram að ganga. Í rannsóknastofunni eru tæki á heimsmælikvarða til lífefnarannsókna og öll rannsóknar- og þróunaraðstaða fyrsta flokks. Og það er engin tilviljun að smiðjan er hér í sveit sett. Allt umhverfi og aðbúnaðar er eins og best verður á kosið svo sem návígi við fjölbreyttan matvælaiðnað og öflug fyrirtæki eins og FISK sem hefur verið starfseminni hér ómetanlegur bakhjarl og samherji. Nálægðin við Háskólann á Hólum hefur vitaskuld mjög mikla þýðingu, þar sem afbragðs aðstöðu og þjónustu fyrir vísindamenn og nemendur er að finna. Þá felst líka mikill styrkur í nándinni við Iceprótein.

 

Rannsókna- og þróunarvinna Matís kemur til með að nýtast fyrirtækjum vel á svæðinu og allar forsendur eru fyrir öflugu og góðu samstarfi við þau. Ennfremur skapast góð tækifæri fyrir myndun nýrra fyrirtækja bæði í héraði og annars staðar á landinu. Sem dæmi má nefna að rannsóknastofan gegnir lykilhlutverki í fimm  verkefnum sem styrkt eru af tækniþróunarsjóði Rannís og AVS sjóðnum. Þau eru Heilsuvörur úr fiski, Gull í greipar Ægis, Lífvirk bragðefni unnin úr íslensku sjávarfangi,  Náttúruleg ensím og andoxunarefni úr aukaafurðum og Brjósksykur og lífvirk efni úr sæbjúgum. Ekki ætla ég mér þá dul að útlista þessi verkefni frekar, en þau eru til marks um hvernig stuðla má að fjölbreyttara atvinnulífi og það er jú keppikeflið.  

 

Líftæknismiðjan mun vinna náið með fyrirtækjum alls staðar á landinu og skapar frumkvöðlum í líftækni aðstöðu til að þróa sínar vörur og vinnsluferla í samvinnu við sérfræðinga Matís. Jafnframt er hægt að fá aðstöðu til skemmri tíma til að framleiða afurðir. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mjög mikilvæg til að stytta ferlið frá hugmynd til markaðar. Þetta er sem sagt af sama meiði og Matvælasmiðja Matís á Hornafirði en auðvitað á öðru sviði.

 

Við horfum bjartsýn til framtíðar og eftir eins og hálfan áratug eða svo sjáum við fyrir okkur að nokkur fyrirtæki verið komin með sterka stöðu á erlendum mörkuðum með iðnaðarframleiðslu á verðmætum lífefnum. Einnig er markmiðið að sá árangur sem næst á Íslandi verði sýnilegur og laði að erlend fyrirtæki sem komi til með að nýta sér okkar miklu þekkingu og sérstöðu.

 

Hér verður unnið metnaðarfullt starf sem við bindum miklar vonir við. Þrótturinn og athafnagleðin sem hefur einkennt Matís frá fyrsta degi endurspeglast mjög vel í þessu. Um leið og ég lýsi mikilli ánægju minni með þetta og allt það góða starf sem Matís vinnur víða um land, óska ég heimamönnum sérstaklega og öllum öðrum hlutaðeigandi til hamingju með áfangann. Ég horfi bjartsýnn til framtíðar og vænti mikils af starfseminni. Gangi ykkur vel.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum