Hoppa yfir valmynd
20. september 2010 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ársþing Þjóðræknisfélags Íslendinga

Formaður, kæru gestir.

Það er góður siður að vera ættrækinn, að halda tengslum við fjölskyldu og ættingja.  Yngra fólkið er ekki alltaf eins duglegt við ættræknina og eru uppteknari af öðrum hlutum.  Það er þó þannig að þegar eitthvað bjátar á, eru það fjölskyldan og ættingjarnir sem eru sterkasta og mikilvægasta stuðningsnetið.

Það sama má segja um þjóðrækni.  Sem betur fer höfum við Íslendingar borið gæfu til þess að halda tengslum og rækja þá sem flutt hafa brott og myndað samfélög í öðrum löndum.  Sums staðar hafa myndast miklar byggðir, eins og í Vesturheimi og  víða um Norðurlönd hafa myndast hálfgerðar Íslendinganýlendur, þó flestir staldri þar við í námi eða vinnu um tíma.

Mig rennir þó í grun, að tengslin hafi í gegnum árin verið betur rækt af “útlendu” Íslendingunum, heldur en okkur hér heima.  Heimþrá er okkur í blóð borin og þó við finnum stundum heimahögunum ýmislegt til foráttu, þá er alltaf gott að koma heim. Sveinbjörn Egilsson skáld þýddi á snilldarlegan hátt orð gríska skáldsins Óvid um heimþrána; Römm er sú taug/ er rekka dregur / föðurtúna til. 

Við erum fremur ung þjóð og höfum undanfarin ár ekki talið okkur neinum háð, eða þurfa að treysta mikið á aðra í því sem má kalla fjölskylduneti þjóðanna.  Þau áföll sem hafa gengið yfir okkur undanfarin tvö ár, hafa hins vegar opnað augu okkar rækilega fyrir hinu gagnstæða.

Ég átti þess kost í sumar að heimsækja byggðir Vestur-Íslendinga í Bandaríkjunum og Kanada.  Þar var ég heiðurgestur á árlegum samkomum félaga Vestur-Íslendinga, annars vegar í Gimli í Manitoba og hins vegar í Mountain í Norður-Dakóta. 

Það er einstök upplifun að fá að kynnast þessu samfélagi fólks sem rekur ættir sínar til Íslands.  Áhuginn á sögu og menningu landsins okkar er gríðarlegur.  Eldra fólkið getur margt talað einhverja íslensku, þó ekki hafi tekist að halda henni við hjá yngri kynslóðunum.  Ég hitti í ferð minni bæði í Mountain og í Gimli, aldursforseta íslenska samfélagsins, Christine Geir Hall sem er orðin 101 árs gömul og átti við hana spjall. Um Kristínu þessa orti Káin ódauðlegt kvæði fyrir áratugum síðan, kvæðið um Stínu Litlu sem Almar Grímsson, forseti þjóðræknisfélagsins fór með á samkomunni í Mountain. Í persónu Kristínar kristallast að mörgu leiti hversu sterk, lifandi og kyngimögnuð þessi tengsl á milli samfélaga vestur Íslendinga og okkar sem á Íslandi búum raunverulega eru. 

Það er sannarlega sérstakt og gríðarlega dýrmætt að fólk sem hefur um svo langa hríð búið við aðra menningu, siði og tungumál  en við sem á Íslandi búum, skuli leggja slíka rækt við fórsturjörð, menningararf  og tungumál forfeðra sinna. Stundum hafði maður jafnvel á tilfinningunni að frændgarður okkar í vesturheimi sýndi því sem íslenskt er meiri virðingu og ræktarsemi en margur Íslendingurinn. Í öllu falli ætti hverjum þeim sem sækir heim íslendingabyggðirnar í Mountain og nýja Íslandi, ekki síst í Gimli, að vera ljóst að þar er Ísland og íslenskir hagsmunir lifandi þáttur í samfélaginu og sú staðreynd felur í sér gríðarleg verðmæti og sóknarfæri sem okkur Íslendingum ber að hlúa að og rækta.

Stjórnvöld hér á landi hafa allt frá því að landafundaafmælisins var minnst, stutt og styrkt fjölmörg metnaðarfull verkefni og samskipti sem miða að því að tengja okkur samfélögum Vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku. Aðalræðisskrifstofan í Winnipeg hefur reynst lykilþáttur í að fylgja eftir þeirri miklu vitundavakningu sem þá varð í íslendingasamfélögunum og hefur ötult starf þeirra sem þar hafa verið, reynst ómetanlegt í þessum efnum. Ár frá ári hefur áhuginn verið að vaxa og ný og ný verkefni hafa litið dagsins ljós, bæði á sviði menningarsamskipta, menntunar, ferðamennsku og á fleiri sviðum.

Þær árlegu hátíðir sem haldnar eru, bæði Íslendingadagar, kvikmynda og menningahátíðir, og aðrir viðburðir, gefa listamönnum og ferðaþjónustuaðilum stöðugt ný tækifæri.

Þjóðræknisfélagið er einnig mikilvægur hlekkur í því starfi sem unnið er á fjölbreyttum vettvangi á þessu sviði og gegnir ótvíræðu hlutverki við að efla og styrkja þau tengsl sem okkur eru nauðsynleg við samfélagið í Vesturheimi. Í heimsókn minni til íslendingabyggðana í haust varð mér ljóst að vaxandi starf félagsins á undanförnum árum er að skila afar mikilvægum og markverðum árangri að þessu leiti.

Snorraverkefnið er greinilega að efla áhuga yngri kynslóðanna á okkar sameiginlega menningararfi og af frjókornum þess eru að vaxa spennandi greinar þjóðræknistarfs í vesturheimi en að þessu starfi koma einnig nokkur ráðuneyti. Við munum heyra meira um það hér á eftir. Hið sama má segja um Snorra plús verkefnið og ekki síður þá virku þáttöku og alúð sem þjóðræknisfélagið og formaður þess, Almar Grímsson hafa lagt í samskiptin á liðnum árum. Ég fann það vel að starf ykkar er vel metið í íslendingabyggðunum í vesturheimi og fyrir það vil ég þakka.

Við þurfum að leggja enn meiri rækt við samskiptin við íslendingabyggðirnar í Vesturheimi. Á næsta ári gefst gott tækifæri til að hvetja Vestur-Íslendinga til að sækja Ísland heim, þegar 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar verður fagnað.  Um það verður fjallað hér nánar á eftir af hálfu formanns afmælisnefndarinnar, en ég vil geta þess hér að ég hef þegar boðið forsætisráðherra Manitoba að heimsækja Ísland að þessu tilefni. Hann hefur tekið boðinu vel en á fundum okkar  ræddum við að samskipti landana þyrfti að auka á ýmsum sviðum, ekki síst á sviði menntamála og íþróttamála og styðja enn frekar við menningartengsl og ferðamennsku. Ég vona að þessi tilefni nýtist okkur vel til að sækja enn frekar fram á þessum sviðum.

Kæru gestir

Ég vil að síðustu þakka þjóðræknisfélaginu og ykkur öllum fyrir það mikilvæga starf sem á þessum vettvangi er unnið við að efla tengls Íslendinga og frændgarsð okkar í Vesturheimi.

Ég heiti ykkur áframhaldandi stuðningi forsætisráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar við ykkar mikilvægu verkefni og treysti á gott samstarf við Þjóðræknisfélagið í þessum efnum hér eftir sem hingað til. Ég óska ykkur ánægjulegs þings hér í dag.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum