Hoppa yfir valmynd
04. nóvember 2010 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ræða forsætisráðherra á leiðtogafundi Norðurlandaráðsþings

Forseti Norðurlandaráðs, ráðherrar og þáttakendur

Umræðan um græna hagkerfið er ofarlega á baugi víða um heim um þessar mundir. Ég tel að umfjöllun á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar um þetta efni sé afar mikilvæg og áherslan á grænan vöxt og velferð gerir okkur kleift að byggja á styrkleikum Norðurlandaþjóða.

Ég tel að Norðurlöndin hafi alla burði til þess að verða frumherjar í nýsköpun og þróun á grundvelli þessara gilda og geti hugsanlega orðið reynslubanki og brautryðjendur sem aðrar þjóðir geta litið til. Við eigum að útvíkka samstarfið á þessu sviði þannig að það skili sér til fyrirtækja í nýsköpun, menntastofnana og rannsóknaraðila, hvort sem er opinberra eða á einkamarkaði.

Viðhorfsbreytingin sem orðið hefur á undanförnum árum varðandi sjálfbærni í orkumálum, umhverfisvænni stefnumörkun og nýsköpun er gríðarleg. Við höfum dæmi um mjög spennandi verkefni á sviði orkumála, þar sem nýsköpun á sér stað á sviði grænnar orku. Ég tel að við Íslendingar höfum hér ýmislegt fram að færa. Ísland hefur til þessa einbeitt sér að orkugjöfum frá jarðhita og vatnsföllum, en tilraunir standa yfir á virkjun sjávarfalla, endurvinnslu gróðurhúsalofttegunda og vinnslu eldsneytis með jarðhita. Þá hefur íslenskt fyrirtæki skipað sér í fremstu röð við að móta tækni sem bætir eldsneytisnýtingu.

Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi stóðu að samþykkt þingsályktunartillögu um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi og ríksstjórnin mun sérstaklega 2 beita sér fyrir fjölgun grænna starfa. Slík störf eiga þátt í að rjúfa þau bönd sem verið hafa milli hagvaxtar annars vegar og neikvæðra umhverfisáhrifa hins vegar. Markmið grænnar hagstjórnar er að græn störf skapi jafnframt mannsæmandi kjör og þar með almenna velferð. Græn störf ná yfir vítt svið atvinnulífsins og mikilvægt er að skoða stoðkerfi atvinnulífsins og lagaumhverfi þannig að þau styðji við þessa þróun og nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Íslandi vinnur nú að því verkefni.

Það má líta á verkefni á þessu sviði eins og vandasama ræktun. Það verða ekki öll fræin að plöntum og aðeins sumar plönturnar dafna. En þær plöntur sem dafna geta gefið ríkulegan ávöxt á svo mörgum sviðum. Það er hlutverk okkar stjórnvalda að hlúa að þessum sprotum og reyna að stuðla að því að þeir dafni sem best.

Við vitum að tækifærin eru fyrir hendi og það þarf að vera samstillt átak okkar að nýta þau. Stofnun starfshóps (task-force) sem starfar nú í vetur við að greina og þróa þetta frekar, er verkefni sem við forsætisráðherrar Norðurlandanna ákváðum í vor og vonandi skilar það markvissri leit og greiningu verkefna fyrir næsta hnattvæðingarþing undir formennsku Finnlands.

Það eru gífurleg sóknarfæri á þessu sviði og Norðurlöndin eiga að geta verið hér í fararbroddi ef vel tekst til. Ísland mun leggja sitt af mörkum til að svo geti orðið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum