Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2011 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ræða forsætisráðherra á Viðskiptaþing 2011

Ágætu þingfulltrúar

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur undir yfirskriftinni “Tökumst á við tækifærin – Atvinnulíf til athafna”. Ísland býður upp á svo fjölmörg tækifæri ef við nýtum þau af skynsemi og höldum rétt á okkar spilum. Nú sem aldrei fyrr þurfum við athafnafólk til að grípa tækifærin. Nú sem aldrei fyrr þurfum við samtakamátt og samstöðu til að fylgja tækifærunum eftir. Sóknarfærin liggja víða.

Ég vil í fyrsta lagi nefna að í fyrsta sinn í áraraðir ríkir sæmilegur stöðugleiki í efnahagslífinu og helstu hagvísar eru okkur hagstæðir. Verðbólga hefur ekki verið lægri síðan árið 2004. Gengi krónunnar er stöðugt og vextir hafa lækkað og ekki verið lægri um langt árabil. Þetta er ekki lítill árangur og með honum er kominn sá stöðuleiki sem er frumforsenda þess að fyrirtækin leggi í fjárfestingar.

Í annan stað vil ég nefna ótvíræðan árangur í ríkisfjármálum og rifja upp að halli ríkissjóðs sem var um 216 milljarðar króna árið 2008 verður komin í 36 milljarða  árið 2011. Aðhaldsaðgerðir hafa miðast við að hlífa velferðarþjónustu og kjörum þeirra tekjulægstu eins og frekast er unnt.

Í þriðja lagi er góður afgangur á utanríkisverslun og svo virðist sem viðskiptajöfnuður hafi skilað afgangi sem nemur 3 til 4 prósentum af landsframleiðslu í fyrra. Þetta gerir okkur kleift að styrkja gjaldeyrisforðann og auðveldar okkur að losa um gjaldeyrishöft.

Í fjórða lagi er fjórðu endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nýlokið og stefnt er að þeirri fimmtu strax í næsta mánuði. Það er ánægjulegt að sjóðurinn telur að áætlunin hafi gengið framar vonum og öll merki bendi til þess að Ísland sé komið yfir erfiðasta hjallann. Hagvöxtur er hafinn á ný og skuldabyrðin verður mun léttari en reiknað var með.

Samhvæmt nýrri skýrslu Seðlabankans er neikvæð staða þjóðarbúsins í lok árs 2010 á bilinu 57-82 prósent af landsframleiðslu og um ríflega helmingur þess er vegna Actavís. Hrein staða þjóðarbúsins var neikvæð um 210 prósent af landsframleiðslu árið 2008. Samhvæmt skýrslunni mun staðan batna enn frekar á næstu árum og verða neikvæð 39-69 prósent af landsframleiðslu árið 2013.

Þetta skiptir miklu máli og er mikilvægur liður í því að endurheimta traust á íslenskt efnahagslíf. 

Í fimmta lagi nefni ég viðamiklar aðgerðir í skuldamálum lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem miða að því að aðlaga skuldir þessara fyrirtækja að eigna- eða rekstrarvirði þeirra. Gert er ráð fyrir að þessi aðgerð taki til 6 til 7 þúsund fyrirtækja og ljúki að mestu á komandi sumri. 

Í sjötta lagi sér nú vonandi fyrir endann á Icesave málum sem án efa mun hafa víðtæk áhrif á fjármögnunarmöguleika þjóðarbúsins og stórframkvæmda .

Í sjöunda lagi nefni ég margháttaðar aðgerðir stjórnvalda til að styðja við atvinnulífið og hvetja til dáða,  með átaksverkefnum, lagabreytingum, skattaívilnunum, framkvæmdaverkefnum ýmisskonar og fjárfestingasamningum. Ég fullyrði að þúsundir starfa hafa verið varin og ný sköpuð hér á landi undanfarin ár vegna aðgerða ríkisvaldsins í þessa veru.

Þá hefur verið samið um aukna afkastagetu álversins í Straumsvík og framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun eru að fara á fullt. Hér er um að ræða tæplega 90 milljarða króna fjárfestingu og 1200 til 1300 ársverk næstu misserin.

Ég vil einnig leyfa mér að nefna til viðbótar, nokkur stór verkefni sem mögulega gætu komist til framkvæmda á þessu ári. Samningar um byggingu kísilmálmverksmiðju í Helguvík eru á lokastigi og frekari verkefni á því sviði eru til athugunar.  Góðar horfur eru um verksmiðju í Grindavík sem framleiðir hreinkísil fyrir sólarrafhlöður og áætlanir eru um byggingu verksmiðju á Grundartanga sem framleiða mun Sodium klorate. 

Þá væri með skömmum fyrirvara hægt að ráðast í mjög umfangsmiklar framkvæmdir í samgöngumálum ef sátt næðist um fjármögnun þeirra framkvæmda með veggjöldum. Þessi verkefni öll gætu skapað 2200 til 2300 ársverk fljótt og 500 til 600 bein varanleg störf við framtíðarrekstur.

Að tala um „orð án athafna“ í sömu andrá og verkefni þessarar ríkisstjórnar í atvinnu- og efnahagsmálum, eins og formaður Samtaka atvinnulífsins gerði nýlega, eru því hrein öfugmæli. Slík orðræða er hvorki sanngjörn né uppbyggileg. Við eigum alls ekki að tala ástandið niður. Tala eins og hér sé allt í kalda koli, ekkert sé að gerast á Íslandi og ekkert framundan. Þeir sem það gera skapa einungis með því neikvæð áhrif fyrir atvinnulífið og samfélagið í heild.

Eitt mikilvægasta verkefnið framundan í efnahagslegu tilliti snýr hinsvegar ekki síst að Samtökum atvinnulífsins og forystu þess. Þar á ég að sjálfsögðu við yfirstandandi kjarasamningaviðræður og mikilvægi þess að sátt náist um sanngjarnar kjarabætur til launþega og áframhaldandi frið á vinnumarkaði.

Þar hefur fram að þessu fyrst og fremst strandað á ómálefnalegri kröfu atvinnulífsins á hendur stjórnvöldum um tiltekna niðurstöðu varðandi breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Slík krafa á ekkert erindi í kjaraviðræður á almennum markaði ekki síst í ljósi fyrri yfirlýsinga SA um mikilvægi sáttar á vinnumarkaði og stöðugleika í efnahagslífinu. Hér verða menn að sýna í verki að orð og athafnir fari saman og ég fagna því mjög að aðilar vinnumarkaðarins hafi aftur sest að samningaborðinu og ýtt til hliðar ágreiningi LÍU við stjórnvöld.

En burtséð frá kjaraviðræðunum þá finnst mér að í umræðum um breytt fiskveiðistjórnunarkerfi hafi menn reynt að búa til ákveðin villuljós. Útgerðarmenn halda því stíft fram að stjórnvöld séu að hlaupa frá samkomulagi sem gert hafi verið í septembermánuði um það sem nefnt er samningaleið.  Slíkt er alls ekki rétt.

Sannleikurinn er sá að starfshópurinn sem fjallaði um fiskveiðistjórnunarkerfið kom með sameiginlega megintillögu, en þar er jafnframt að finna mismunandi útfærslur hvers og eins á samningaleiðinni, allt frá því að vera nánast engin breyting á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi yfir í það að um sé að ræða mjög miklar breytingar. Svokölluð samningaleið er því alls ekki útfærð í skýrslu hópsins og alltaf ljóst að vinna yrði áfram úr þeim hugmyndum sem í skýrslunni eru.  Sú vinna er nú í gangi. 

Sátt náðist um mikilvæg atriði í nefndinni sem brýnt er að halda í heiðri. Meðal annars um að tryggja með skýrum og afdráttarlausum hætti, í framkvæmd, að auðlindir sjávar séu eign þjóðarinnar og ráðstafað af ríkinu.  Auðlindinni verði ráðstafað til leigu eða afnota til afmarkaðs tíma hverju sinni og gegn gjaldi, sem renni í auðlindasjóð. 

Þetta er kjarninn í samningaleiðinni og um hana er samkomulag.

Í nefndinni var hins vegar himinn og haf á milli manna um nokkur grundvallaratriði, meðal annars þegar kom að mögulegum leigutíma. Sumir sáu fyrir sér 10 til 20 ár á meðan aðrir töluðu um 40 til 65 ár. Um þetta og önnur mikilvæg atriði var ekki nein sátt í nefndinni og um þau þarf að nást niðurstaða.

Ágætu þinggestir
Á tímum sem þessum ber okkur skylda til þess að hagræða í ríkisrekstri. Áform ríkisstjórnarinnar um að fækka ráðuneytum úr 12 í 9 og stofnunum um 30 til 40 prósent eru af þessum meiði.

Þegar eru einar umfangsmestu sameiningar innan Stjórnarráðsins að baki en unnið er að síðasta áfanganum þessar vikurnar meðal annars með aðkomu Viðskiptaráðs. Stefnt er að því að koma á fót öflugu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem þjónar atvinnulífinu í heild og tryggir jafnræði í aðkomu atvinnugreina. Ýmsar greinar hafa talið sig afskiptar og þar á meðal afar mikilvægar vaxtargreinar svo sem ferðaþjónusta og hugbúnaðargeirinn. Þessu vil ég breyta.

Ágætu þinggestir.
Í ársgamalli könnun Viðskiptaráð á viðhorfi stjórnenda fyrirtækja kom fram að flest fyrirtæki töldu að mestum erfiðleikum í rekstri ylli óvissa, veiking krónunnar, samdráttur í eftirspurn og hátt vaxtastig.

Síðan þá hefur krónan styrkst, vextir hafa lækkað og hafa sjaldan verið lægri. Hagvöxtur er hafinn, horfur eru á aukinni eftirspurn og óvissuþáttunum í umhverfi atvinnulífsins fækkar dag frá degi.

Við þurfum að halda áfram á þessari braut og það er ánægjulegt að sjá að þessi ársgömlu vandamála virðast ekki lengur vefjast mjög fyrir forystumönnum atvinnulífsis í nýjustu könnuninni. Nú tróna þar efst sem helstu vandamálin stjórnvöldin sem hafa haft forystu um þann árangur sem ég hef hér farið yfir og skattaálögur á íslensk fyrirtæki.

Í mínum huga segir þetta ansi margt um þann góða árangur sem við höfum náð enda tala staðreyndirnar um stjórnvaldið ógnvænlega og skattana sínu máli. Staðreyndin er sú að skattar á fyrirtæki  og arð eru hærri í flestum ef ekki öllum okkar helstu samkeppnislöndum. Innan OECD erum við til dæmis í 7. neðsta sæti hvað varðar skattaálögur á fyrirtæki. Aðeins Grikkland, Mexico, Tyrkland, Pólland, Slóvakía og Tékkland eru með lægri skatta en við.

Ef menn telja þetta helstu ógnanir endurreisnar íslensks efnahagslífs þá ber það frekar vott um píslarvætti þeirra sem halda slíku fram en að þarna sé við raunverulegan vanda að etja.

Ágætu þingfulltrúar
Nú er það sameiginlegt verkefni okkar að horfa fram á veginn, sameinast um framtíðarsýn fyrir Ísland og hefjast handa af krafti við uppbygginguna.

Miklu skiptir að víðtæk sátt náist um áherslur í efnahagsstjórnun á næstu misserum. Trúverðug áætlun um stjórn efnahagsmála er lykillinn að því að endurheimta traust á íslenskum þjóðarbúskap, bæði innanlands sem utan. Sú vinna er hafin á vettvangi ríkisstjórnarinnar og í bígerð er víðtækt samráð og samhæfing á áætlunum um efnahagsstjórn til næstu 10 ára og til millilangstíma eða 3 til 5 ára.

Stefna Íslands í gjaldmiðla- og peningamálum er einnig í mótun. Seðlabanki Íslands hefur lagt fram skýrslu um þessi mál sem nú er til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu í samráði við ýmsa aðila. Framtíð gjaldmiðilsins verður síðan að meta meðal annars með hliðsjón af afdrifum aðildarviðræðna okkar við ESB, en nýleg könnun ykkar sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þessa fyrir atvinnulífið í landinu.

Áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna er nú einnig til endurskoðunar og tillagna að vænta á næstu vikum. Við verðum að stíga varlega til jarðar í þessum efnum en  ljóst er að gjaldeyrishöftum verður ekki aflétt á einum degi.

Þá samþykkti ríkisstjórnin nýlega yfirgripsmikla stefnumótun samfélagsins til ársins 2020 - Ísland 2020. Þar eru sett fram 20 mælanleg efnahagsleg og samfélagsleg markmið um hvernig Ísland verði öflugt samfélag sem byggir á varanlegri velferð, þekkingu og sjálfbærni. 29 tillögur eru settar fram til að ná þessum markmiðum og skýrt kveðið á um hver ber ábyrgð. 

Annar þáttur sem tengist stefnumörkun samfélagsins eru aðildarviðræður okkar við Evrópusambandið.  Sífellt fleiri taka undir þá sjálfsögðu kröfu að við nýtum þær viðræður til hins ítrasta, reynum að ná fram sem bestum og hagkvæmustum samningi, sem skapar okkur sterka stöðu í Evrópu framtíðarinnar.  Ég er ánægð með að helstu aðilar í atvinnulífi á Íslandi hafa stutt þetta ferli dyggilega og tekið virkan þátt í viðræðuferlinu, bæði undirbúningi og rýnivinnu. 

Góðir þinggestir
Sannarlega hefur okkur miðað áfram á undanförnum misserum, en uppbyggingin er rétt að hefjast og framundan eru fjölmörg ögrandi og krefjandi verkefni – ekki síst á sameiginlegum vettvangi atvinnulífs og stjórnvalda.

Við verðum rífa okkur uppúr þunglyndinu og svartagallsrausinu og viðurkenna og halda til haga þeim ótrúlega árangri sem hér hefur náðst frá hruni. Þar hafa allir lagt sitt af mörkum, ekki síst atvinnulífið sem hefur líkt og þúsundir heimila þurft að takast á við mikla erfiðleika.

Við verðum að horfa fram á veginn, raunsæjum augum á þá miklu möguleika sem íslenskt samfélag býður uppá. Í þeim efnum er fullt tilefni til bjartsýni og sóknarhugs enda tækifærin óþrjótandi og efnahagslegar forsendur til staðar.

Við verðum að skapa hér 10 til 15 þúsund ný störf á næstu árum. Við verðum að útrýma langtímaatvinnuleysi og tryggja atvinnuleitendum virkniúrræði sem skila árangri. Við verðum að byggja upp spennandi atvinnulíf og menntunarmöguleika þannig að okkar unga fólk geri Ísland að sínum heimavelli til framtíðar.

Ríkisstjórnin ætlar sér að ná árangri í þessum efnum og hefur m.a. sett af stað víðtækt samráð við aðila vinnumarkaðarins, alla þingflokka og fleiri aðila um markvissar aðgerðir til að svo megi verða. Ég heiti á okkur öll að leggjast nú saman á árarnar í þessum efnum.

Tækifærið er núna og ef forystumenn atvinnulífs og stjórnmála sýna ekki í orði og verki trú á framtíðina - trú á íslenskt samfélag - er ekki hægt að ætlast til þess að aðrir geri það.

Við skulum vera opin, víðsýn og framsýn.

Við skulum grípa tækifærin og nýta þau.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum