Hoppa yfir valmynd
07. apríl 2011 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra í Háskóla Íslands 7. apríl 2011

Í mínum huga hefur Icesave deilan allt frá upphafi snúist um það eitt að finna skástu lausnina fyrir land og þjóð út úr þessu erfiða máli. Að þessu leytinu til er Icesave deilan sama marki brennd og flest af þeim erfiðu verkefnum sem núverandi ríkisstjórn hefur þurft að glíma við vegna hrunsins.

Hvað sem líður fyrirferð málsins í umræðunni er málið fjarri því að vera umfangsmesta, dýrasta eða alvarlegasta afleiðing hrunsins fyrir land og þjóð – amk ekki ef það verður leyst á grundvelli fyrirliggjandi samkomulags.

Samkvæmt samkomulaginu stefnir nú í að kostnaður skattgreiðenda vegna Icesave verði vel undir 30 milljörðum en kostnaður ríkisins vegna endurreisnar bankanna og afskriftir lána gömlu bankanna, ekki síst í Seðlabankanum er yfir 500 milljarðar. Icesave nær ekki 10% af þessum kostnaði .

Ég er sammála þeim sem halda því fram að þeim mun lengur sem málið er óleyst, þeim mun dýrar og skaðlegra verður Icesave fyrir íslenska þjóð.

Í þessum efnum minni ég á viðbrögð alþjóðlegra matsfyrirtækja og markaða þegar forseti Íslands synjaði Icesave lögum í fyrra skiptið. Strax í kjölfarið nær tvöfaldaðist skuldatryggingarálag Íslands og lánshæfismat landsins féll hjá matsfyrirtækjunum og fór í ruslflokk hjá einu þeirra þar sem það er enn. 

Vegna þessa hafa erlendar lántökur og endurfjármögnun sveitarfélaga, orkufyrirtækja og ríkissjóðs verið nær ómöguleg. Matsfyrirtækin hafa gefið það út að verði Icesave samþykkt muni lánshæfismatið hækka en verði niðurstaðan Nei, mun það enn lækka og fleiri matsfyrirtæki munu setja Ísland í ruslflokk.

Við það gæti fjármagnskostnaður af 1350 milljarða skuldum sem íslenska ríkið þarf að endurfjármagna á næstunni hækkað um 135-216 milljarða króna.

Þá hafa ASI og SA sagt það mjög skýrt að forsendur mögulegra þriggja ára samninga á vinnumarkaði sé sú að Icesave deilunni verði lokið nú um helgina.

Menn verða að hafa kjark til að horfast í augu við þær efnahagslegu afleiðingar sem blasa við ef ekki tekst að ljúka Icesave deilunni með sátt nú um helgina. Lausn deilunnar skiptir samfélagið gríðarlega miklu máli.
 
Þá fyrst getur ríkissjóður sótt sér fjármögnun á erlendan vettvang. Þá fyrst getur Seðlabankinn vænst þess að gjaldeyrishöftum verði aflétt á eðlilegum hraða. Þá fyrst sjá menn fyrir endann á fjármögnun Búðarhálsvirkjunar og þær 80 milljarða framkvæmdir sem hanga á þeirri spýtu verða að veruleika.

Þá fyrst geta sveitarfélög, orkufyrirtæki og fyrirtæki sem hyggja á framkvæmdir eða endurfjármögnun skulda vænst þess að úr rætist. Þá fyrst geta menn vænst þess að hagur íslenskra fyrirtækja og heimila fari að vænkast á ný.

Atkvæðagreiðslan snýst ekki um ríkisstjórnina, ekki einstaka flokka eða forystumenn þeirra, ekki um ESB, EES eða AGS. Atkvæðagreiðslan snýst um lífskjör á Íslandi og hversu hratt við vinnum okkur út úr efnahagshruninu sem hér varð.

Samkomulagið tryggir að Ísland verði ekki krafið um hærri fjárhæð vegna Icesave en lágmarkið sem EES reglugerðin skuldbindur aðildarríkin til að innleiða hvað á um – þ.e. 20.000 evrur á reikning sem jafngildir um 650 milljörðum króna. Í dómsmáli yrði hinsvegar tekist á um nær helmingi hærri upphæðir, eða allar innistæður Icesave reikninganna sem töldu um 1300 milljarða króna.

Krafa Breta og Hollendinga í dómsmáli yrði sú að íslensk stjórnvöld ábyrgðust þessa innistæður til fulls, rétt eins og íslensk stjórnvöld gerðu gagnvart öðrum innistæðum íslenskra banka á Íslandi. Auk óvissunnar sem við bættist er áhættan af dómsstólaleiðinni því alltaf umtalsvert meiri en sú sem samningaleiðin hefur í för með sér.

Lee Bucheit hefur sagt margt athyglisvert um Icesave málið enda þaulreyndur alþjóðlegur sérfræðingur í erfiðum samningamálum. Hann hefur sagt að ekki verði lengra komist við samningaborðið í þessu máli. Valið standi því um fyrirliggjandi samning eða dómsstólaleiðina sem gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir Ísland eins og hann orðaði það. Ef Lee Bucheit fengi að kjósa myndi hann segja Já. Ég er sammála Lee Bucheit í öllum þessum atriðum því JÁ er leiðin áfram.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum