Hoppa yfir valmynd
17. júní 2011 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra á Hrafnseyri 17. júní 2011

Opnun sýningar á Hrafnseyri 17. júní 2011
Opnun sýningar á Hrafnseyri 17. júní 2011

Forseti Íslands, og aðrir hátíðargestir.
Gleðilega þjóðhátíð.

Dagurinn í dag, 17. júní árið 2011, er stór í huga okkar allra, en þó ekki síst í huga Vestfirðinga og þeirra fjölmörgu sem eru saman komnir hér í dag. Í dag minnumst við hetjunnar sem fæddist hér á Hrafnseyri fyrir tveimur öldum.

Við minnumst baráttumannsins sem vann ötullega og af mikilli þolinmæði að því að tryggja framgang íslenskrar þjóðar. Við minnumst merks manns sem hvatti menn til dáða alla tíð í ræðu og riti og var virkur á vettvangi stjórnmála og fræða.

Það er því afar vel við hæfi að við fögnum hér í dag opnun nýs og glæsilegs safns, sem er í góðu samræmi við þá þrautseigju og þann metnað sem alla tíð einkenndi Jón Sigurðsson.

Það er mér jafnframt mikil ánægja að tilkynna hér í dag að ákveðið hefur verið að frá og með 1. janúar 2012 verði starfrækt hér á Hrafnseyri menningarsetur til minningar um Jón Sigurðsson.

Setrið á að verða lifandi mennta- og menningarsetur er haldi minningu Jóns Sigurðssonar á lofti.

Ríkisstjórnin mun undirbúa umgjörð um hið nýja setur með framlagningu þingsályktunar á Alþingi með það að markmiði að setrið taki formlega til starfa 1. janúar árið 2012.  Gert er ráð fyrir því að, auk fulltrúa heimamanna, komi fulltrúar Alþingis, ráðuneyta, Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns að starfsemi setursins og að hún verði tengd þessum lykistofnunum.

Auk þess reksturs sem hér verður í tengslum við þá glæsilegu föstu sýningu sem hér verður opnuð í dag er gert ráð fyrir því að til setursins renni jafnframt sjóðurinn “Gjöf Jóns Sigurðssonar. Viðurkenningar hafa verið veittar annað hvert ár úr þeim sjóði til ritunar heimildarrita á fjölmörgum sviðum.

Að öðru leyti mun fara um framlög til setursins samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni.

Auk þess hefur Alþingi nú samþykkt að stofnuð verði prófessorsstaða við Háskóla Íslands sem verði tengd nafni Jóns Sigurðssonar og Hrafnseyri. Sá sem gegna mun stöðunni skal hafa fasta búsetu á Ísafirði eða nágrenni og hafa um kennslu og rannsóknir starfsskyldur og samstarf við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og Háskólasetur Vestfjarða. Gert er ráð fyrir því að staðan verði jafnframt nátengd hinu nýja setri á Hrafnseyri og að eitt lykilverkefna verði að halda árlega ráðstefnur og námskeið í sumarháskóla á Hrafnseyri með innlendum og erlendum kennurum og fyrirlesurum. Við skipun í prófessorsembættið verður m.a. litið til rannsóknarstarfs og kennslu sem tengist lífi, starfi og arfleifð Jóns Sigurðssonar og eflir þekkingu á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.
Alþingi hefur falið ríkisstjórninni að undirbúa málið þannig að prófessorinn geti tekið til starfa frá og með næstu áramótum.

Góðir hátíðargestir.
Hrafnseyrarnefnd, sem kennd er við þennan fæðingarstað Jóns Sigurðssonar er ein elsta opinbera nefnd sem starfar hér á landi. Henni var komið á fót með þingsályktun þann 16. janúar árið 1945.

Nefndin hefur farið með málefni Hrafnseyrar og rekstur eigna og uppbyggingu staðarins með áherslu á sögu og störf Jóns Sigurðssonar.

Hún hefur unnið að kynningu á störfum hans, rekstri safns Jóns Sigurðssonar, veitingarekstri og sýningum og annast þjóðhátíðardagskrá hér á Hrafnseyri í gegnum tíðina. 

Í nefndinni hafa setið margir merkir einstaklingar sem hafa unnið mikið og óeigingjarnt starf að uppbyggingu Hrafnseyrar. Sérstakt er að þeir sem setið hafa í þeirri nefnd hafa aldrei þegið þóknun fyrir störf sín og þess vill ég sérstaklega geta nú þegar tímamót nálgast. 

Ég vil að lokum þakka Eiríki Finni Greipssyni og þeim sem sitja með honum í Hrafnseyrarnefnd fyrir vel unnið og óeigingjarnt starf undanfarin ár. Nefndin  skilar nú staðnum í glæsilegu ástandi eins og gestir fá að sjá hér í dag.

Jafnframt vil ég þakka nefnd til undirbúnings 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar, ekki síst formanni nefndarinnar Sólveigu Pétursdóttur, fyrir afar vel unnin störf og góða samvinnu við forsætisráðuneytið. 

Góðir hátíðargestir.
Það er mikill heiður fyrir mig að vera hér með ykkur á þessum sögufræga stað á þessum merkisdegi.  Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa lagt hönd á plóg við að gera umgjörðina hér á Hrafnseyri svo glæsilega sem raun ber vitni.

Ég vona að sem flestir eigi eftir að koma hingað og njóta þess sem staðurinn og setrið hafa uppá að bjóða.

Um leið og ég segi hátíðina setta óska ég þeim sem munu starfa  hér í framtíðinni alls hins besta. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum