Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2012 ForsætisráðuneytiðFOR Fréttir

Skýrsla forsætisráðherra um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, flutti Alþingi munnlega skýrslu sína um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar þegar alþingismenn komu saman til fyrsta fundar eftir jólaleyfi í dag. Í skýrslu sinni kom forsætisráðherra víða við, fjallaði um árangur ríkisstjórnarinnar frá hruni og þau mikilvægu verkefni sem framundan eru en hóf mál sitt á yfirferð yfir þær breytingar sem urðu á ríkisstjórninni á síðasta degi liðins árs og sagði m.a.:

„Síðari hluta árs 2010 voru gerðar breytingar á skipan ráðherra og ráðuneyta innan Stjórnarráðsins. Ráðherrum var þá fækkað um tvo og gefin fyrirheit um frekari sameiningu ráðuneyta í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Þessar breytingar sem nú er ráðist í ættu því ekki að koma neinum á óvart en þær eru síðasti stóri áfanginn í þessari umfangsmestu skipulagsbreytingum í sögu Stjórnarráðsins...

...Með þessari breytingu hefur því yfirlýsta markmiði ríkisstjórnarflokkanna verið náð, að fækka ráðherrum úr 12 í 9 og þegar fyrirhuguðu fæðingarorlofi iðnaðarráðherra lýkur eru áform um að ganga skrefinu lengra og að ráðherrum fækki í 8. Þá mun ráðherrum hafa fækkað um fjóra, eða um 1/3 með tilheyrandi sparnaði og sveigjanleika og auknu hagræði fyrir ríkissjóð til lengri tíma.“

Um árangur ríkisstjórnarinnar í glímunni við afleiðingar hrunsins sagði forsætisráðherra m.a.:

„Þrátt fyrir að víða sé enn við erfiðleika að glíma, ekki síst hjá láglaunafólki og þeim sem eru skuldsettastir, er flestum sem betur fer að verða ljós sá góði árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum enda eykst nú bjartsýni í samfélaginu jafnt og þétt. Staðreyndin er sú að á undraskömmum tíma hefur einu umfangsmesta efnahagshruni sögunnar  verið snúið þannig að nú vex hagur íslensku þjóðarinnar hraðar en flestra annarra þjóða, böndum hefur verið komið á ríkisfjármálin, störfum er tekið að fjölga umtalsvert og lífskjörin batna, ekki síst hjá þeim sem lökust höfðu kjörin fyrir. Jöfnuður hefur því aukist í samfélaginu ólíkt því sem víðast hvar gerist þegar kreppir að.“

Þá fjallaði forsætisráðherra nokkuð ítarlega um helstu verkefnin framundan, það rúma ár sem enn lifir af kjörtímabilinu. Þar bar hæst áframhaldandi sókn í atvinnumálum og efnahagsmálum, afgreiðslu á frumvarpi Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, endurreisn fæðingarorlofssjóðs og lenging orlofsins í 12 mánuði, innleiðing nýs húsnæðiskerfis, nýs almannatryggingakerfis, nýrra fiskveiðistjórnunarlaga og nýskipan orku- og auðlindamála, m.a. með afgreiðslu rammaáætlunar og stofnunar Auðlindasjóðs. Forsætisráðherra taldi fullt tilefni til bjartsýni varðandi framgang mála á komandi mánuðum og misserum, ekki síst í atvinnumálum og benti á eftirfarandi:

„Spár benda til þess að á næstu fjórum árum muni atvinnuvegafjárfesting aukast um 55-60% eða  70-75 milljarða króna. Það er þó full ástæða til þess að ætla að enn meira sé í pípunum því bærilega horfir nú með ýmis stórverkefni.  Full ástæða er til hóflegrar bjartsýni varðandi byggingu álvers í Helguvík og sömuleiðis um uppbyggingu fyrir norðan.  Hafist er handa við hönnun virkjana og þrír álitlegir kostir um kaupendur orkunnar hafa komið fram m.a. um tvær Kísilmálmverksmiðjur.  Gagnaver í Reykjanesbæ tekur til starfa á næstunni og benda athuganir til að gagnaversiðnaður gæti verið mjög vænlegur kostur í íslensku atvinnulífi.

Áframhaldandi uppgangur í ferðaþjónustu samfara fjölgun ferðamanna og góðar vonir um enn aukinn afla á Íslandsmiðum gefa fyrirheit um áframhaldandi uppgang í okkar helstu útflutningsgreinum. Þá er Ríkisstjórnin nú að meta hvort vel heppnuð endurreisn bankakerfisins geti skapað okkur svigrúm til enn frekari uppbyggingar og atvinnusköpunar.“

Forsætisráðherra lauk munnlegri skýrslu sinni með svofelldum orðum:

„Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn kemur til þings með endurnýjuðum og auknum krafti, staðráðin í að ljúka þeim mikilvægu uppbyggingar- og endurbótaverkefnum sem hér hefur verið lýst, með sama hætti og hún hefur nú lokið að mestu björgunarleiðangrinum eftir hrunið mikla.“

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum