Hoppa yfir valmynd
07. júní 2012 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Þegar hátt er reitt til höggs

Útvegsmenn hafa reitt hátt til höggs undanfarnar vikur og kosta nú óbilgjarnan og villandi áróður gegn áformum löglega kjörinna stjórnvalda um að breyta stjórn fiskveiða og innheimta eðlilegt og réttlátt veiðigjald af útgerðum fyrir afnot af auðlind í eigu þjóðarinnar.

Fyrir síðustu helgi ákvað forysta Landssambands íslenskra útvegsmanna að hvetja félagsmenn til að brjóta lög um stéttarfélög og vinnudeilur og halda skipum sínum í höfn að loknum sjómannadeginum.

Í umræddum lögum segir orðrétt: „Óheimilt er og að hefja vinnustöðvun: Ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma, enda sé ekki um að ræða athafnir, þar sem stjórnarvöldin eru aðili sem atvinnurekandi.“

Lög, sem sett eru af Alþingi, verða og eiga að ná jafnt yfir alla. Útgerðarmenn standa ekkert ofar landslögum þótt þeir hafi ef til vill vanist því um áratuga skeið að fara sínu fram í krafti Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins sem þeir hafa nú eignast og gert að fréttabréfi sínu.

Þeir ætla seint að sætta sig við þá einföldu staðreynd að auðlindir hafsins hér við land eru eign þjóðarinnar og kjörnir fulltrúar hennar hafa umboð til þess að ráðstafa henni.

Sanngjarnt gjald til þjóðarinnar

Á frumvörpunum tveimur um stjórn fiskveiða og veiðigjöld, sem nú er deilt um á Alþingi, hafa verið gerðar margvíslegar breytingar. Tillit hefur verið tekið til athugasemda og umsagna og flestar eru breytingarnar útgerðarfélögunum til hagsbóta. Þar á meðal hefur hið sérstaka veiðigjald verið lækkað umtalsvert frá því sem upphaflega var lagt til og er nú ráðgert að tekjur almennings af veiðigjöldum verði um 15 milljarðar króna í góðæri sjávarútvegsins.

Meðfylgjandi tafla sýnir meira góðæri greinarinnar undanfarin 4 ár en forkólfa LÍÚ gat dreymt um haustið 2008 þegar fjármálakerfið íslenska hrundi að mestu. Það er einkennilegt við þessi skilyrði að hlusta á stjórnarandstæðinga á Alþingi hamast gegn réttlátu veiðigjaldi og taka undir rakalausar og forhertar dómsdagsspár sumra útvegsmanna. Ég get fullvissað þá um að íslenskur sjávarútvegur þolir ágætlega að greiða 15 milljarða króna til samfélagsins af áætlaðri 78 milljarða króna framlegð (EBITDA) á þessu ári. Eftir sitja 63 milljarðar sem er langt umfram meðaltalsframlegð sjávarútvegsins síðustu 10 árin.

Tekjur sjávarútvegsins

Laun sjómanna og uppbygging á landsbyggðinni

Útgerðarmenn hafa sagst geta greitt hærra veiðigjald þegar á þá hefur verið gengið en hafa samt verið ófáanlegir til þess að lýsa því hversu hátt gjaldið megi vera. Afkomutölurnar tala hins vegar sínu máli og sýna að 15 milljarðar króna hljóta að teljast sanngjarnt gjald fyrir nýtingarréttinn.

Ljóst er ennfremur að sérstakt veiðigjald, sem ræðst af afkomu greinarinnar, verður ávallt aðeins brot af því gjaldi sem útgerðarmenn hafa greitt hverjir öðrum í kvótaviðskiptum sín á milli eða þegar þeir hafa leigt til sín aflaheimildir af handhöfum veiðiheimildanna. Þá þykir mörgum útvegsmönnum sjálfsagt að innheimta af leiguliðunum 200 til 300 krónur fyrir þorskkílóið. Nú kveinka þeir sér undan gjaldi sem verður varla hærra en 40 krónur fyrir þorskígildiskílóið. Auk þess er ætlunin nú að ívilna útgerðum sem mjög eru skuldsettar vegna kvótakaupa eða sem nemur árlega 1,5 milljörðum króna næstu árin. Auk þess eru allar smærri útgerðir undanþegnar sérstaka veiðigjaldinu eða um helmingur útgerða í landinu.

Þeir hafa líka haldið því fram að hærra veiðigjald bitni á kjörum sjómanna. Þetta hefur verið hrakið. Launakostnaður er frádráttarbær eins og annar rekstrarkostnaður og er því ekki hluti af þeim stofni sem veiðigjaldið er reiknað af.

Eins og ríkisstjórnin hefur lýst yfir er ætlunin að nota 17 milljarða króna af veiðigjaldi næstu þriggja ára til að fjármagna fjárfestingaáætlun fyrir Ísland 2013-2015. Þar er m.a. gert ráð fyrir nýjum Herjólfi og framkvæmdum í Landeyjahöfn. Einnig á að hraða gerð Norðfjarðar- og Dýrafjarðarganga og efla nýsköpun, skapandi greinar, atvinnuþróun og sóknaráætlanir landshlutanna. Útvegsmenn ættu að vera stoltir af því að geta tekið þátt í slíkri uppbyggingu innviða samfélagsins með löglega kjörnum stjórnvöldum í stað þess að reiða til höggs gegn svo auðsjáanlegum almannahagsmunum Íslendinga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum