Hoppa yfir valmynd
10. september 2012 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra á athöfn hjá Íþróttasambandi fatlaðra

Kæru Ólympíufarar, aðrir gestir.

Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag, hitta ykkur og eiga með ykkur stund.

Frábær árangur íslensku keppendanna á Ólympíumóti fatlaðra árið 2012 hefur vakið mikla athygli og gleði meðal þjóðarinnar. Sjálf hef ég fylgst spennt með ykkur,  en ég naut þeirra forréttinda að fylgjast með Ólympíumóti fatlaðra í Peking í Kína árið 2008 og þekki því vel hve frábær þessi mót eru að svo mörgu leyti.

Já, þið megið svo sannarlega vera stolt af árangri ykkar. Komið til landsins með ný Íslandsmet í farteskinu og Jón Margeir Sverrisson með gullverðlaun, heimsmet, Evrópumet og Ólympíumótsmet í 200 metra skriðsundi þroskahamlaðra sem standa mun að minnsta kosti næstu fjögur árin!  

Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir, Helgi Sveinsson og Kolbrún Alda Stefánsdóttir stóðu sig einnig eins og hetjur og settu Íslandsmet; Matthildur Ylfa í 200 metra hlaupi, Helgi Sveinsson í spjótkasti, og Kolbrún Alda Stefánsdóttir í 100 og 200 metra skriðsundi.

Árangur íslenska hópsins í London er því svo sannarlega glæsilegur og óhætt að segja að framtíð þessa frábæra íþróttafólks sé björt enda Jón Margeir aðeins 19 ára, Matthildur og Kolbrún 15 ára og Helgi Sveinsson 33 ára gamall. Mér er sagt að þið hafið öll sett stefnuna á Rio de Janero í Brasilíu árið 2016 og að í ykkar huga sé undirbúningurinn þegar hafinn.

Kæra íþróttafólk.
Þið eruð svo sannarlega góðar fyrirmyndir og hafið sýnt okkur öllum hve góðum árangri má ná með ástundun, iðni og þolinmæði og síðast en ekki síst samstöðu.  Ég nefni samstöðu, því að fátt er mikilvægara þegar fatlað fólk er annars vegar; samstaða innan  fjölskyldna, samstaða innan þjónustu við fatlaða og samstaða um samfélagsins í heild.

Ég hef áður sagt að aðbúnaðar fatlaðra í hverju landi segir mikið um það hvar á vegi samfélög eru stödd. Þetta kom m.a. í ljós á nýafstöðnu Ólympíumóti.  Ég er afar stolt af því að búa í landi, sem á verðlaunahafa á Ólympíumóti fatlaðra, og tel það bera vitni um að margt sé vel gert þegar kemur að almennum aðbúnaði fatlaðra hér á landi og viðhorfi sem m.a. endurspeglast í því ómetalega neti sem fjölskylda og vinir mynda.

Ég hef átt þess kost að fylgjast með starfi íþróttahreyfingarinnar og Íþróttasambands fatlaðra undanfarin ár og því mikilvæga starfi sem unnið er innan þeirra vébanda og góðu samstarfi Íþróttasambands fatlaðra og aðildarfélaga þess við ÍSÍ og önnur sérsambönd og hagsmunasamtök fatlaðra á Íslandi.  

Gildi íþrótta í samfélagi okkar er gríðarlega mikið, ekki síst forvarnargildið, og öll þekkjum við hve mikilvægt er, bæði fyrir líkama og sál, að taka þátt í íþróttum eða reglulegri hreyfingu af einhverju tagi.

Þeir sem taka þátt í afreksíþróttum eru vissulega í sérflokki og að baki hverjum afreksmanni liggur ómæld vinna, ekki einungis hjá keppendum heldur einnig hjá þjálfurum, aðstoðarfólki og aðstandendum.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga, þessa fámennu þjóð, að eiga afreksfólk á sviði íþrótta sem heyr kappi við besta íþróttafólk í heimi og það er síður en svo sjálfsagt að við náum á verðlaunapall á stórmótum sem þessum.  

Framganga ykkar á nýafstöðnu Ólympíumóti hefur því snert okkur öll og er eins og aðrir sigrar á þessum vettvangi til þess fallin að efla samstöðu meðal þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin hefur fjallað um afrek ykkar og samþykkt að veita fjórar milljónir króna til Íþróttasambands fatlaðra í viðurkenningarskyni fyrir glæsileg afrek ykkar, íslensku þátttakendanna á Ólympíumóti fatlaðra í Lundúnum, sem þakklætisvott, og þá ekki síst fyrir að hafa snert huga okkar og hjörtu og fyrir frábæra skemmtun á síðustu vikum.

Það er von mín og trú að þessir fjármunir nýtist ykkur vel til þess að undirbúa ykkur fyrir keppnina í Brasilíu eftir fjögur ár og styrki að öðru leyti starfsemi Íþróttasambands fatlaðra.

Ég vill biðja fulltrúa Íþróttasambands fatlaðra  að koma hér upp og veita gjafabréfi þessu til staðfestingar viðtöku.

Við skulum  hrópa ferfalt húrra fyrir hetjunum okkar!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum