Hoppa yfir valmynd
12. september 2012 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Stefnuræða forsætisráðherra á 141. löggjafarþingi 2012 – 2013 12. september 2012

 

Frú forseti, góðir landsmenn.
Við upphaf þessarar umræðu finnst mér við hæfi að beina hugum okkar til íbúa Norðausturlands sem á undanförnum dögum hafa glímt við margvíslegar raunir vegna veðuráhlaupsins sem gekk yfir svæðið í  upphafi vikunnar. Hundruð einstaklinga hafa þar unnið þrekvirki, lagt nótt við nýtan dag til að bjarga búfénaði, margvíslegum verðmætum og til að koma innviðum samfélagsins aftur í samt lag og það mikilvæga björgunarstarf er enn í fullum gangi.
Ég vil þakka af heilum hug þeim mikla fjölda einstaklinga sem lagt hefur sitt af mörkum til björgunarstarfanna. Jafnframt vil ég fullvissa þá og heimamenn um að ríkisstjórnin mun áfram fylgjast vel með gangi mála og tryggja að allur nauðsynlegur stuðningur verði veittur.
Samstaðan og samhjálpin skiptir öllu máli þegar tekist er á við óblíð öfl náttúrunnar. Einmitt þá sýnum við Íslendingar okkar bestu hliðar og þannig munum við einnig sigrast á þeim áföllum sem veðurhamurinn hefur valdið íbúum Norðausturlands á liðnum dögum.

Góðir landsmenn.
Á liðnum mánuðum og misserum hafa Íslendingar í æ ríkari mæli fundið fyrir batnandi hag eftir þrengingar áranna eftir hrun. Aukin þjóðarframleiðsla, fjölgun starfa, vaxandi kaupmáttur launa og jafnari lífskjör hafa gert það að verkum að sífellt fleiri hafa sannfærst um að samfélag okkar sé nú á réttri leið og bjartari tíð sé í vændum.
Þessi jákvæða þróun hlýtur að vera okkur öllum mikið ánægjuefni – hvort sem við tilheyrum stjórn eða stjórnarandstöðu, enda er í bjartsýni og jákvæðum lífsviðhorfum fólginn ómetanlegur auður fyrir sérhvert samfélag.
Undanfarin tvö ár, frá botni kreppunnar sem hrunið olli, höfum við Íslendingar búið við stöðugan hagvöxt, umtalsvert hærri en í flestum löndum OECD, og allir helstu hagvísar sýna sömu merki um batnandi hag.
Fá lönd innan OECD búa nú við minna atvinnuleysi en Ísland og ekkert land hefur náð að minnka atvinnuleysið eins hratt og mikið  á liðnum árum. Á þessu ári hafa orðið til um 4.600 ný störf og ekkert bendir til annars en að framhald verði á lífskjarasókn Íslendinga á komandi árum, ef áfram verður haldið á sömu braut.
Í farvatninu eru fjöldi spennandi fjárfestingaverkefna innlendra og erlendra aðila, umfangsmiklar framkvæmdir í tengslum við orkufrekan iðnað,  auknar fjárfestingar hins opinbera og áframhaldandi sóknarfæri í okkar helstu útflutningsgreinum, ekki síst sjávarútvegi og ferðaþjónustu.
Það er því fullt tilefni til bjartsýni og sóknar í íslensku samfélagi.
Það segir einnig sína sögu að í samevrópskri könnun, sem nýlega var birt, kemur fram að hvergi í Evrópu, að Svíþjóð undanskilinni, telur jafn stór hluti þjóðarinnar að land sitt sé á réttri leið, eins og á Íslandi. Svona meta Íslendingar sjálfir stöðu mála, þegar um fjögur ár eru liðin frá hruninu mikla.

Góðir landsmenn.
Fjárfesting fyrstu sex mánuði ársins 2012 jókst um 19,3% samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2011. Fjárfesting atvinnuvega jókst um 27,1% og íbúðafjárfesting um 7,7% en fjárfesting hins opinbera dróst saman um 6,2% á sama tímabili.
Fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar er mikilvægur leiðarvísir á þeirri vegferð að auka fjárfestingar enn frekar og skapa ný störf, en eftirfylgni þeirrar áætlunar verður  eitt af mikilvægum samstarfsverkefnum okkar þingmanna á komandi vetri.
Með nýsamþykktum stórauknum veiðigjöldum af sameiginlegri fiskveiðiauðlind þjóðarinnar hefur um helmingur af tilskildu fjármagni vegna áætlunarinnar verið tryggður og er áhrifa hennar þegar farið að gæta. Nefni ég sérstaklega undirbúning framkvæmda við Norðfjarðargöng, sem hefjast munu á næsta ári, en einnig stórefld framlög til rannsókna og tækniþróunar og sóknaráætlana landshluta.
Það verður síðan meðal annars í höndum Alþingis að tryggja að  arður eða söluhagnaður vegna eigna ríkisins í fjármálastofnunum skili sér einnig í fjárfestingaáætlunina. Þannig hleypum við enn frekari krafti í græna hagkerfið, skapandi greinar og ferðaþjónustuna og bætum samgöngur milli lands og Eyja með kaupum á nýjum Herjólfi og endurbótum á Landeyjahöfn, svo eitthvað sé nefnt.
Allt er þetta innan seilingar ef vel verður haldið á málum og gott samstarf næst um þingstörfin og þau mikilvægu mál sem bíða komandi þings.

Frú forseti
Komandi þing er lokasprettur þessa kjörtímabils og  tækifæri fyrir þann þingheim sem þjóðin veitti umboð sitt í síðustu kosningum til að sýna aðra og betri mynd af störfum þjóðþingsins en birst hefur á liðnum  þingum. Sú birtingarmynd hlýtur að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni. Hún hefur gengið fram af þjóðinni með þeim afleiðingum að traust hennar til þessarar  merku  og sögufrægu stofnunar okkar Íslendinga er í sögulegu lágmarki.
Það er mat mitt að verði ekki breyting á vinnubrögðum hér á Alþingi þá stefni í óefni. Um þetta hljótum við að vera sammála hér í þessum sal, óháð því hvaða stjórnmálaflokki við tilheyrum. Við eigum því að sameinast um að bæta vinnubrögðin.
Ég hef átt samtöl við forystumenn þeirra flokka sem sitja á Alþingi um þessi mál og verður þeim haldið áfram. Vonandi getur það leitt til þess að þinghaldið í vetur verði með öðrum brag en á liðnum þingum.
Ríkisstjórnin hefur nú þegar við upphaf þings  afgreitt frá sér vel á fjórða tug þingmála ásamt skýrt fram settri þingmálaskrá. Þinginu ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði að taka þegar til hendinni við vinnslu og afgreiðslu þeirra mikilvægu mála sem hér bíða.  Æskilegt væri að ná nú þegar í upphafi þings samkomulagi meðal fulltrúa allra flokka um vinnulag og tímaramma við umfjöllun og afgreiðslu stærstu þingmálanna.
Fjárlagafrumvarp næsta árs markar tímamót vegna þeirra pólitísku velferðaráherslna sem þar munu birtast. Fjárlagafrumvarpið er einnig óræk sönnun þess að ríkisstjórninni hefur á kjörtímabilinu auðnast að koma ríkisrekstrinum á réttan kjöl. Hallinn á fjárlögum 2008 var um 14% af landframleiðslu en verður á næsta ári vel innan við 1%. Engin ríkisstjórn í hinum vestræna heimi hefur náð slíkum árangri á liðnum árum.
Vegna þessa árangurs höfum við í ár loksins náð því marki að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu eru farnar að lækka. 
Þrátt fyrir þann  mikla og góða árangur sem náðst hefur liggur fyrir að efnahagsmálin, og ekki síst gjaldmiðlamálin og gjaldeyrishöftin, verða meðal mikilvægustu viðfangsefna næstu mánaða og missera. 
Flestir viðurkenna að rétt var að setja tímabundnar skorður við útflæði erlends gjaldeyris í kjölfar hrunsins og að varasamt er að viðhalda gjaldeyrishöftum til lengri tíma, enda líklegt að það skjól sem þau veittu í upphafi snúist upp í  andhverfu sína þegar til lengdar lætur. 
Seðlabankinn hefur markað stefnu um losun hafta og fylgt henni með gjaldeyrisútboðum. Alls hafa þessi útboð minnkað snjóhengjuna svonefndu  um 75 milljarða króna og fjárfestingaleiðin hefur skilað erlendri fjárfestingu fyrir alls um 55 milljarða, eða sem nemur  um 3,4% af landsframleiðslu.
Við erum því á réttri leið.
Margir hafa hinsvegar gagnrýnt áætlun Seðlabankans um afnám haftanna og telja að hún gangi of hægt. Samráðshópur með aðild Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins fer nú yfir mögulegar leiðir til að flýta þessu ferli. Spurningin um framtíðargjaldmiðil þjóðarinnar og mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu spilar síðan sterkt inn í þessa mikilvægu umræðu.
Hér er því um gífurlega stórt verkefni að ræða og miklu varðar að það verði vel af hendi leyst, í sem bestri samstöðu allra flokka hér á þingi. Þar má ekkert annað ráða för en brýnir framtíðarhagsmunir þjóðarinnar og þeir eru miklir í þessum efnum. 

Góðir landsmenn.
Auðlindamálin verða einnig í brennidepli á komandi þingvetri. Þó ríkisstjórnin hafi með samþykkt stóraukinna veiðigjalda í lok síðasta þings, náð í höfn gríðarlega stórum áfanga á þeirri vegferð að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið og tryggja þjóðinni réttlátan arð af auðlind sinni, þá var því miður komið í veg fyrir að hægt væri að ljúka því máli með heildarendurskoðun kerfisins.
Róttækar breytingar á fiskveiðikerfinu voru eitt af stóru kosningamálunum fyrir fjórum árum og umboð stjórnarflokkanna til að ná fram þessum mikilvægu breytingum ætti því að vera hafið yfir allan vafa.
Hvort sem samkomulag tekst um efnislega niðurstöðu málsins eða ekki, verður ekki öðru trúað en að sátt geti náðst um afgreiðslu málsins í samræmi við vilja meirihluta Alþingis. Allt annað gengi gegn því lýðræðislega skipulagi sem við höfum byggt okkar stjórnskipan á.
Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða þarf einnig að afgreiða á komandi þingi. Það mál var afar langt komið við þinglok síðastliðið vor og nauðsynlegt að ljúka því sem fyrst á þessu þingi.
Afgreiðsla þessa máls mun marka tímamót og tryggja fagleg vinnubrögð við undirbúning virkjanaframkvæmda á Íslandi og sporna gegn því  að í framtíðinni verði viðkvæmum og verðmætum náttúrusvæðum fórnað á altari skyndigróða eða sérhagsmuna einstakra stóriðjuvera.
Með afgreiðslu rammaáætlunar má segja að stjóriðjueinstefna fyrri áratuga víki loks fyrir atvinnustefnu nýrra tíma, atvinnustefnu sem byggir á forsendum sjálfbærs græns hagkerfis.
Á komandi vetri munum við einnig leggja fram skýrslu og frumvörp í samræmi við niðurstöður auðlindastefnunefndar forsætisráðuneytisins, sem nýverið skilaði tillögum sínum. Tillögur nefndarinnar byggja á því að tryggja varanlegan eigna- og yfirráðarétt þjóðarinnar yfir sameiginlegum auðlindum og jafnræði og gagnsæi við úthlutun nýtingarréttar og meðferð arðs af auðlindum. 
Um er að ræða raunhæfar tillögur um stefnu og aðgerðir, sem hafa það að markmiði að skapa sem víðtækasta sátt í samfélaginu um auðlindamál þjóðarinnar, án þess þó að ganga á rétt komandi kynslóða. Þannig má í senn binda enda á áratuga deilur um auðlindamál og ná ásættanlegum stöðugleika til framtíðar.

Góðir Íslendingar.
Senn líður að lokaáfanga á merkri vegferð sem hófst þegar víðtæk samstaða flestra stjórnmálaflokka náðist á Alþingi vorið 2010 um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þótt sú ferð hafi ekki reynst áfallalaus hefur árangurinn og uppskeran verið góð og í fullu samræmi við væntingar.
Einstigið á milli varðanna sem Alþingi reisti hefur verið fetað. Frá Alþingi til þúsund manna þjóðfundar, frá þjóðfundi til sérfræðinganefndar og frá sérfræðinganefndinni til stjórnlagaráðs, sem skipað var í samræmi við niðurstöðu almennra og lýðræðislegra kosninga, niðurstöðu sem ekki hefur verið dregin í efa efnislega, enda þótt annmarkar hafi talist vera á formlegri framkvæmd kosninganna.
Sú leið sem Alþingi varðaði vorið 2010 var afar metnaðarfull. Hún var síðast en ekki síst lýðræðisleg og Alþingi Íslendinga til mikils sóma. Með ákvörðun sinni sýndi Alþingi því skilning að heildstæð endurskoðun stjórnarskrárinnar er stærra mál en svo að það verði alfarið til lykta leitt innan veggja Alþingis, heldur þurfi jafnframt að tryggja ríka aðkoma almennings að endurskoðunarferlinu öllu.
Þjóðaratkvæðagreiðslan þann 20. október næstkomandi felur í sér einstakt tækifæri fyrir íslenska þjóð til að hafa bein áhrif á mótun þeirra gunnreglna sem samfélag okkar verður byggt á til framtíðar.
Þetta er tækifæri sem enginn kosningabær Íslendingur ætti að láta fram hjá sér fara, því engin trygging er fyrir því að annað eins tækifæri muni gefast aftur á komandi árum.
Jákvæð niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslunni mun fela í sér skýr skilaboð til Alþingis um að ljúka endurskoðunarferlinu á grundvelli tillögu stjórnlagaráðs.
Í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu verða ekki einungis greidd atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs í heild sinni heldur munu kjósendur einnig fá einstakt tækifæri til að segja álit sitt á nokkrum mikilvægum úrlausnarefnum sem taka þarf afstöðu til í tengslum við nýja stjórnarskrá.
Má þar nefna hvort náttúrauðlindir sem ekki eru í einkaeigu skuli lýstar þjóðareign, hvort auka eigi persónukjör í kosningum til Alþingis, hvort jafna eigi atkvæðavægi kjósenda, hvort stjórnarskráin eigi að innihalda ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi  og hvort tryggja eigi rétt fólks til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál.
Mikilvægt er að þjóðin gefi Alþingi skýra leiðsögn í þessum efnum enda hefur reynslan sýnt að þessi mál hafa reynst Alþingi erfið úrlausnar.

Góðir landsmenn.
Vandaðar tillögur stjórnlagaráðs byggja á traustum grunni hins norræna þingræðisskipulags þar sem Alþingi Íslendinga er ótvírætt skipaður sess sem æðsta valdastofnun samfélagsins.
Þá er hlutverk forseta Íslands, ráðherra og ríkisstjórnar skýrt nánar sem og verkaskipting þeirra á milli. Auk þess sem kveðið er á um ýmis önnur mikilvæg og markverð nýmæli sem skort hefur á í íslenska stjórnskipan.
Nefni ég þar val forsætisráðherra og stjórnarmyndanir, framsal ríkisvalds vegna alþjóðasamstarfs, ákvæði um náttúru Íslands og náttúruauðlindir, um upplýsingarétt almennings og frelsi fjölmiðla, um faglega skipun embættismanna, um sjálfstæði sveitarfélaga, um meðferð utanríkismála, og um beina aðkomu þjóðarinnar að stjórnarskrárbreytingum svo dæmi séu tekin.

Frú forseti.
Alþingi Íslendinga hefur þá skyldu gagnvart almenningi að nálgast það úrlausnarefni sem nú liggur fyrir af mikilli virðingu og metnaði. Láta verður af deilum um formsatriði og snúa sér að efni máls. Þar kunnum við að hafa mismunandi sýn á tiltekin atriði en þó er þar fleira sem sameinar okkur en sundrar.
 Við viljum öll byggja hér réttlátt, heiðarlegt og opið lýðræðislegt samfélag. Við viljum byggja stjórnarfar okkar á traustum grunni hins norræna þingræðisskipulags og við viljum gæta þess að mannréttindi borgaranna séu ávallt tryggð.
Fyrirliggjandi tillögur stjórnlagaráðs geta orðið grundvöllur að nýrri og bættri skipan í samfélagi okkar. Við skulum því sameinast um að ljúka verkinu. Skýr leiðsögn í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október næstkomandi mun hafa mikið að segja um hvernig stjórnarskrá þjóðin muni búa við í framtíðinni.

Góðir landsmenn.
Ný stjórnarskrá er ekki eina breytingin sem núverandi ríkisstjórn hefur unnið að á stjórnkerfi landsins. Öll þekkjum við breyttar leikreglur við skipan hæstaréttardómara, ný heildarlög um Stjórnarráð Íslands, innleiðingu siðareglna og fækkun ráðuneyta úr 12 í 8, sem allt hefur nú þegar tekið gildi.
Þetta er án nokkurs vafa umfangsmesta breytingaferli sem Stjórnarráð Íslands hefur gengið í gegnum frá upphafi og það hefur og mun með varanlegum hætti efla Stjórnarráðið til að takast á við sín viðfangsefni.
Breytingarnar eru tímabærar og í takt við alþjóðlega og innlenda þróun. Á það ekki síst við um hið nýja atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, þar sem atvinnugreinar munu njóta meira jafnræðis en áður og vaxandi og þjóðhagslega mikilvægar greinar svo sem ferðaþjónusta og verslun og þjónusta fá þann sess sem lengi hefur verið kallað eftir.
Nú þegar hefur stofnunum ríkisins fækkað um tæplega 20% og þeim mun fækka um 30% ef frumvörp sem nú liggja fyrir þinginu verða afgreidd í óbreyttri mynd.
Árangur okkar í efnahagslegu endurreisninni gerir okkur nú kleift að styrkja stöðu velferðarkerfisins. Á komandi þingi munu verða lagðar fram tillögur um breytt  almannatryggingakerfi og eflingu fæðingarorlofsins, meðal annars með hækkun hámarksgreiðslna og lengingu orlofsins í 12 mánuði í áföngum. Einnig verða innleiddar mikilvægar breytingar varðandi húsnæðismál landsmanna sem efla leigumarkaðinn og tryggja fjölbreytta kosti í húsnæðismálum.
Í skýrslu um áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar, sem kynnt verður í næstu viku, kemur fram að megnið af greiðsluvanda heimilanna vegna skulda var til kominn fyrir hrun bankanna í október 2008, eða meira en 2/3 hlutar  vandans.
Skuldavandi heimilana náði hámarki á árinu 2009 en síðan þá hefur markvert dregið úr honum. Nú árið  2012 lætur nærri að skuldastaða íslenskra heimila  sé svipuð og hún var var árin  2006 til 2007.
Úrræði stjórnvalda og fjármálastofnana hafa því raunverulega skilað árangri þó áfram verði vissulega haldið.
Samkvæmt skýrslunni hafa skuldir heimilana verið lækkaðar um 15-20% og veruleg hækkun vaxtabóta hefur létt skuldabyrðar heimilanna umtalsvert. Á síðastliðnu ári var  30% vaxtakostnaðar endurgreiddur og í ár tæplega 27%.  Væntanleg hækkun barnabóta á næsta ári bætir síðan um betur fyrir ungar barnafjölskyldur, sem margar fóru illa út úr hruninu.

Frú forseti.
Nú á nýju löggjafarþingi mæta þingmenn vonandi til leiks endurnærðir eftir gott sumarhlé og búa sig undir annasaman og áhugaverðan vetur á Alþingi, en öll gegnum við hlutverki í því að endurheimta á nýjan leik traust á þessari mikilvægu stofnun samfélagsins.
Það er einlæg von mín og trú að þessa löggjafarþings verði minnst fyrir aga, vönduð vinnubrögð og sanngjarna málsmeðferð á stórum og mikilvægum málum sem skipta munu miklu um framtíð íslensku þjóðarinnar.
Ég óska þingmönnum og landsmönnum öllum allra heilla.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum