Hoppa yfir valmynd
10. október 2012 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra á BSRB þingi í október 2012

 

Ágætu þingfulltrúar.
Á þessu ári fagnar BSRB sjötíu ára afmæli. BSRB ber aldurinn svo sannarlega vel. Samtökin eru í stöðugri endurnýjun og eru afgerandi þjóðfélagsafl sem tekur afstöðu til kjaramála og samfélagsmála í víðum skilningi og lætur sig velferðarmálin varða. 
Á tímamótum sem þessum er hollt að minnast þess að samtökin voru stofnuð á miklum umbreytingatímum í íslensku samfélagi. Fæst okkar sem hér erum saman komin í dag getum gert okkur grein fyrir þeim aðbúnaði og kjörum sem sem launþegum bauðst árið 1942.
Ótal framfaraskref hafa verið stigin á þessum sjötíu árum og saman hafið þið og forverar ykkar unnið gríðarlega mikilvægt starf fyrir íslenskt samfélag.

Ágætu BSRB félagar.
Sá söngur heyrist nú víða á ný og úr ýmsum áttum að hin raunverulegu verðmæti samfélagsins verði öll til á einkamarkaði og þeim mun minni sem umsvif hins opinbera séu, því betra. Frelsi einkaframtaksins til athafna, lágir skattar og afskiptaleysi hins opinbera muni færa öllum betra líf.
Þetta eru kennisetningar sem lifa og nærast á þeirri hugmynd að hver sé sjálfum sér næstur og að samfélagslegar stofnanir og samstarfsverkefni séu sjaldnast af hinu góða.
Ef þetta er rétt ættu þjóðfélög þar sem umfang hins opinbera er mikið, þar sem samhjálp og félagshyggja eru í hávegum höfð að vera fátæk og lítt samkeppnisfær við önnur þjóðfélög. En hverjar eru staðreyndirnar, hvað segja hagtölur?
Þær eru allar samhljóða; ríkustu samfélögin eru þau sem verja umtalsvert og raunar meiru en við Íslendingar til velferðar og samneyslu. Ekki einungis það heldur raða  þessi norrænu velferðarríki sér í efstu sæti á mælikvarða samkeppnishæfni, jöfnuðar og félagslegs réttlætis.
Tilvist og rekstur þeirra grunnþátta samfélagsins sem undir hið opinbera heyra, eru í raun forsenda þess að hægt sé að tala um siðað samfélag og mannlega reisn. Þetta er það viðhorf sem allir ættu að tileinka sér gagnvart opinberum rekstri og þeim samfélagslegu verkefnum sem við þar rekum og viljum ekki að lúti lögmálum hins frjálsa markaðar.
Þegar við skoðum nánar hin norrænu velferðarríki blasir líka við að þau hafa stýrt sínum fjármálum af festu, þau glíma hvorki við viðvarandi fjárlagahalla né óhóflegar skuldir. Þar ríkir meiri sátt milli stjórnmálaflokka og launþegahreyfingar um að velferð þurfi að reisa á traustum grunni opinberra fjármála. 
Sameiginlegt verkefni okkar Íslendinga eftir hrun hefur hinsvegar verið að vinna úr því þjóðargjaldþroti sem allt virtist stefna í. Allir hafa lagt af mörkum til þessa risavaxna verkefnis, launafólk, fyrirtæki og stofnanir, heimilin, félagsamtök, lífeyrisþegar og sveitarfélög og sá árangur sem nú blasir hvarvetna við er sameign þjóðarinnar allrar.
Hjá ríkinu hefur þetta  tekist með blandaðri leið niðurskurðar og skattabreytinga þar sem skýr forgangsröðun hefur miðað að því að hlífa velferðarkerfinu, menntakerfinu og löggæslunni og færa byrðarnar í samfélaginu í vaxandi mæli á breiðari bökin og þau fyrirtæki sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar – ekki síst sjávarútveg og orkufreka starfsemi.
Að verja velferðina og vinnuna hefur verið meginverkefni ríkisstjórnarinnar en milli 15 og 20 þúsund störf töpuðust í hruninu og tekjur ríkissjóðs hrundu, nánast á einni nóttu. Lífskjörin verður að byggja á varanlegum grunni, þau má ekki taka að láni eins og bitur reynsla kennir.
Þessi vegferð er að takast og til marks um það er að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að  í fyrsta sinn frá hruni verði  heildarjöfnuður jákvæður  sé litið framhjá óreglulegum liðum og frumjöfnuðurinn, hinn eiginlegi rekstur ríkisins, verður þá jákvæður sem nemur um 60 milljörðum króna.
Staðreyndin er einnig sú að við verjum nú stærri hluta af þjóðarkökunni til velferðarmála en árin 2007 til 2008, en í þessum samanburði eru atvinnuleysisbætur ekki meðtaldar.
Við höfum náð að snúa taflinu við í ríkisfjármálum án þess að ríkið taki til sín stærri hluta þjóðarkökunnar en áður.
Á næsta ári er gert ráð fyrir að skatttekjur ríkissjóðs verði  um 27% landsframleiðslunnar, en fyrir hrun fór ríflega 31% landsframleiðslunnar í skatta. Öndvert við það sem ætla mætti af opinberri umræðu, þá hafa tekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga lækkað um rúm 500.000 á hvern einstakling ef borin eru saman árin 2007 og 2011 og það er sá veruleiki sem við höfum verið að laga okkur að.
En það skiptir ekki minna máli að jafna byrðum skatta með réttlátum hætti á þegna samfélagsins, hlífa þeim svo sem verða má er lakast standa.
Við breytum skattkerfinu í fjölþrepakerfi sem jók skattbyrði hinna tekjuhæstu en lækkaði skattbyrði lágtekjufólks og á sama tíma breyttum við bótakerfinu þannig að barnabætur, vaxtabætur og greiðslur almannatrygginga nýttust betur þeim sem lakar stóðu. Niðurstaða þessa var að skattbyrði á 6 af hverjum 10 heimilum lækkaði og jöfnuður í samfélaginu jókst umtalsvert. 
Í upphafi þessa kjörtímabils var einnig lagt af stað með metnaðarfull áform um endurskipulagningu opinberrar þjónustu og breytingar innan Stjórnarráðsins. Markmið breytinganna voru að nýta þá fjármuni sem til skiptanna eru á sem árangursríkastan hátt, verja grunnþjónustu, auka skilvirkni í ríkisrekstri og einfalda stjórnsýslu og þjónustu.
Þessi markmið hafa flest gengið ágætlega eftir en það hefði  aldrei verið mögulegt nema með mikill, góðri og jákvæðri þátttöku starfsmanna hins opinbera. 
Ég dreg því enga fjöður yfir það að við höfum öll þurft að færa fórnir til að koma ríkissjóði í var.  Allar stéttir opinberra starfsmanna hafa tekið á sig aukið vinnuálag og kjör hafa rýrnað, ekki síður en á almennum markaði. Mikilvægt framlag  ykkar allra á þessum erfiða tíma vil ég þakka af heilum hug.

Ágætu þingfulltrúar.
Í hnotskurn var okkar leið, íslenska leiðin út úr kreppunni: að hlífa lægri tekjuhópum, jafna kjörin, vernda atvinnu og beita velferðarkerfinu til varnar.
Tölur staðfesta að bærilega hefur tekist til  og vísa ég þá í skýrslur Þjóðmálastofnunar.  Til að mynda kemur þar fram að það tók Finna heil 17 ár að koma atvinnuleysi niður undir það sem tíðkaðist árin fyrir kreppuna þar í landi upp úr 1990.
Í skýrslunni er leiddur í ljós mismunur á aðgerðum stjórnvalda hér á landi og á Írlandi í kjölfar krepunnar. Sá samanburður er sannarlega athyglisverður. En á Írlandi lögðust þyngstu byrðar kreppunnar á lægstu tekjuhópana á meðan kjör hinna tekjuhærri skertust ekki.
Samkvæmt nýjustu skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem Þjóðmálastofnun vitnar til, námu niðurfelldar skuldir heimilanna á Íslandi um síðustu áramót nálægt 12 prósentum af vergri landsframleiðslu.
Innan við eitt prósent af landsframleiðslunni í Bandaríkjunum hefur verið varið til skuldaafskrifta í frá upphafi fjármálakreppunnar þar í landi. Aðgerðirnar á Íslandi eru þannig mun viðameiri en samsvarandi aðgerðir í Bandaríkjunum.
Með kjarasamningunum sem gerðir voru vorið 2010 voru stigin margvísleg framfaraspor. Svo fátt eitt sé nefnt mun starfshópur sem fjallar um samræmingu lífeyrisréttinda skila áliti fyrir árslok, persónuafsláttur er á ný verðtryggður, bætur almannatrygginga hafa hækkað umfram almenn laun og starfsendurhæfingarsjóði hefur verið skipaður nýr og betri grundvöllur.
Á sviði mennta- og vinnumarkaðsmála hafa verið stigin stór skref með því að bjóða þúsund atvinnuleitendum upp á menntaúrræði og tryggja öllum 25 ára og yngri framhaldsskólavist. 
Með kjarasamningum er auðvitað stefnt að því að bæta eða verja kaupmátt launafólks, án þess að verðbólga eða atvinnuleysi vaxi. Við getum státað af góðum árangri á  þessum kvörðum.
Kaupmáttur launa hefur vaxið um 6% frá því samningurinn var gerður og kaupmáttur lágmarkslauna enn meira, eða um 11%. Raunar er það svo að kaupmáttur lágmarkslauna er meiri nú en um mitt ár 2008. Ég bendi líka á að kaupmáttur lágmarksframfærslu lífeyrisþega hefur stóraukist og er nú um 15% meiri en í ársbyrjun 2008.
Í gær barst okkur síðan frá Hagstofu Íslands, afar ánægjuleg staðfesting á því að ráðstöfunartekjur Íslendinga eru aftur farnar að aukast og það umtalsvert. Samkvæmt tölum Hagstofunnar jukust ráðstöfunartekjur heimilana um 9,6% milli áranna 2010 og 2011 og kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um 5,1%.
Þetta er afar mikilvægt að hafa í huga, ekki síst í ljósi þess að ein af niðurstöðum nýrrar skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands var sú  að lækkun ráðstöfunartekna árin 2009 og 2010 vegna gengisfalls krónunnar og verðbólgu hafi lagt mun þyngri byrðar á heimilin í landinu en hækkun skuldanna sjálfra gerði eftir bankahrunið 2008.
Í áðurgreindri skýrslu var lækkun barnabóta talin veikleiki í varnarstöðunni um velferðina. Á fjárlögum næsta árs er ráðgert að hækka þær í 10 til 11 milljarða króna eða um allt að 30 af hundraði.
Við vitum að þessi hækkun  nægir ekki fyllilega til að mæta skerðingum sem hófust löngu fyrir bankahrun. En hvort tveggja, verulega auknar vaxtabætur og auknar barnabætur, sýna viðleitni ríkisstjórnarinnar til þess að nota skattkerfið til þess að létta fjárhagsbyrðar, ekki síst ungra barnafjölskyldna.
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er einnig gert ráð fyrir að framlög til Fæðingarorlofssjóðs verði aukin um 800 milljónir króna og er það hluti af stefnu stjórnvalda um sérstakan stuðning við barna- og fjölskyldufólk og endurreisn fæðingarorlofssjóðs.
Gert er ráð fyrir að fyrstu skrefin verði tekin við að endurheimta fæðingarorlofsgreiðslur eins og þær voru fyrir hrun. Þá verður lagt til að fæðingarorlof  lengist í áföngum í tólf mánuði á næstu árum. Unnið er að útfærslu þeirra breytinga og útfærslu lengingu orlofsins og er gert ráð fyrir að leggja fram frumvarp þess efnis á þessu þingi.
Á komandi vetri verða einnig innleiddar mikilvægar breytingar varðandi húsnæðismál landsmanna, breytingar sem ætlað er að efla leigumarkaðinn og tryggja fjölbreyttari kosti í húsnæðismálum.
Tillögurnar miða m.a. að því að auðvelda rekstur kaupleiguíbúða og leigufélaga og aðlaga húsaleigubætur að nýju húsnæðisbótakerfi í áföngum á árinu 2013 til að styrkja stöðu leigjenda.
Þá er verið að leggja lokahönd á lagafrumvarp sem hefur það markmiðið er að gera almannatryggingar ellilífeyrisþega einfaldari og réttlátari og koma í veg fyrir víxlverkanir í samræmi við fyrirheit um endurskoðun almannatrygginga auk þess að lækka skerðingarhlutföll lífeyrisgreiðslna vegna tekna.

Ágætu BSRB félagar.
Í lokin vil ég fara nokkrum orðum um jafnréttismál, og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka BSRB sérstaklega fyrir árverkni  í þeim málum.
Ýmsir áfangasigrar hafa unnist í jafnréttismálum á liðnum árum. Í fyrsta skipti í Íslandssögunni er fullt jafnræði í æðstu embættum stjórnsýslunnar. Helmingur ráðherra og ráðuneytisstjóra eru nú konur.  Í fyrsta skipti hafa konur náð hinu 40 prósenta, nú lögbundna lágmarki, í nefndum og ráðum Stjórnarráðsins.
Kynjakvótinn sem núverandi stjórnarmeirihluti innleiddi og gildir um stjórnir lífeyrissjóða, opinber fyrirtæki og hlutafélög með yfir fimmtíu starfsmenn hefur þegar leitt til fjölgunar kvenna í stjórnum en hann kemst að fullu til framkvæmda í september á næsta ári. Fyrir þann tíma þarf fjöldi kvenna í stjórnum þessara félaga nánast að tvöfaldast. 
Eitt er þó það svið þar sem ég verð að lýsa vonbrigðum mínum yfir og það eru jafnlaunamálin. Það er mjög miður að ekki gangi hraðar að vinna á launamun kynjanna þó einnig þar færumst við í rétta átt.
Vert er að minna á greiningu Þjóðmálastofnunar á þróun launamunar kynjanna fyrir hrun annars vegar og í tíð þessarar ríkisstjórnar hins vegar. Greiningin byggir á gögnum Hagstofunnar og sýnir minnkandi mun, úr 30-35% í 13-20%, eftir því við hvaða launahugtak er miðað.
Kynbundinn launamunur mælist engu að síður enn alltof hár og hér hafði ég vonast eftir miklu meiri og áþreifanlegri árangri og þeim árangri skulum við ná.
Í síðustu viku samþykkti ríkisstjórnin að útrýma kynbundnum launamun innan allra ráðuneyta. Að því er nú unnið og fljótlega verða aðgerðir kynntar í því efni. Ríkisstjórnin samþykkti jafnframt að í framhaldi af því verði farið í sambærilegar aðgerðir hjá öllum stofnunum ráðuneytanna og unnin aðgerðaráætlun þar að lútandi í samráði við forstöðumenn þeirra.
Í vikunni sem leið samþykkti ríkisstjórnin einnig sérstaka áætlun til að vinna á launamun kynjanna með aðgerðum sem snúa bæði að ríkinu sem atvinnurekanda sem og að samfélaginu í heild. Við höfum boðið aðilum vinnumarkaðar til samstarfs um framkvæmd hennar og um þessar mundir er verið að þróa þann samstarfsvettvang.
Þá hefur nýr jafnlaunastaðall verið unninn og kynntur en honum er einmitt ætlað að nýtast fyrirtækjum og stofnunum til að innleiða vinnubrögð og leiðir sem tryggja að kynin njóti sömu launa fyrir sambærileg störf. Innleiðing hans stendur fyrir dyrum á næstu mánuðum.
Ég bind vonir við allar þessar aðgerðir og þetta væntanlega samstarf, því ég held að við öll, aðilar vinnumarkaðar, stjórnvöld og fleiri, deilum áhyggjum yfir þessum þráláta vanda sem launamunur kynjanna er og bíðum öll jafn óþreyjufull eftir að sjá sýnilegri og raunverulegan árangur. Þar verðum við að leggjast saman á árarnar.

Ágætu þingfulltrúar.
Ég minntist hér í upphafi á að BSRB væri 70 ára á þessu ári. Það er góður aldur og jafnframt tækifæri til þess að meta hvað áunnist hefur og hvað framundan er. Ég trúi því að með samtakamætti takist okkur að byggja hér upp til framtíðar fyrirmyndarsamfélag sem byggir á jafnræði og virðingu, ekki síst fyrir okkar sameiginlegu mikilvægu samfélagsverkefnum. Samfélag sem virðir verk allra sem leggja hönd á plóg.
Gildi jöfnuðar, mannúðar og samfélagslegrar ábyrgðar hefur sjaldan verið mikilvægara en nú, þegar íslenskt samfélag vex og dafnar á ný. Í þetta sinn verðum við að tryggja að lífskjarasóknin nýtist samfélaginu öllu.
Ég óska ykkur velfarnaðar í ykkar mikilvægu störfum og árangursríks þings.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum