Hoppa yfir valmynd
24. október 2012 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Ávarp forsætisráðherra við úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði

Góðir fundargestir
Um leið og ég óska okkur öllum til hamingju með þennan sögulega dag langar mig að bjóða ykkur hjartanlega velkomin til þessarar dagskrár sem er haldin í tilefni styrkveitingar úr Jafnréttissjóði.

Nú höfum við margfalt tilefni til að gleðjast. Eftir þriggja ára hlé í kjölfar hrunsins hefur starfsemi Jafnréttissjóðs verið endurvakin og hér á eftir munum við fá að samfagna með fimm styrkþegum sem allir hljóta myndarlega styrki til rannsóknarverkefna á sviði jafnréttismála.

Við munum líka heyra í nokkrum styrkþegum frá árinu 2008, en margir þeirra hafa á síðustu árum unnið sleitulaust í rannsóknarverkefnum sínum og kynna nú niðurstöður sem ekki hafa komið opinberlega fram áður.

Jafnréttissjóður er mikilvægur liður í því að efla hvers kyns rannsóknir á sviði jafnréttismála, en þar eins og á öðrum sviðum er traust þekking forsenda skýrrar stefnumótunar og skilvirkra aðgerða.

Annar merkilegur atburður mun fara fram hér á eftir, en það er undirritun fulltrúa stjórnvalda og heildarsamtaka á vinnumarkaði undir viljayfirlýsingu um stóraukið samstarf á sviði baráttunnar gegn launamuni kynja og stofnun samráðsvettvangs, aðgerðahóps, gegn launamisréttinu.

Það er margreynt að við náum ekki árangri í baráttunni gegn þessu djúpstæða vandamáli sem launamunur kynjanna er hvert í sínu horni. Við þurfum samstillt átak og einarðan vilja allra helstu lykilaðila á vinnumarkaði.

Reynsla síðustu ára hefur líka kennt okkur að það er ekki til nein ein allsherjarlausn á þessum vanda. Við þurfum að efna til margra aðgerða í senn og beita margs konar verkfærum, afmarka aðgerðir sem hægt er að grípa til strax eða innan mjög skamms tíma  um leið og við mótum sýn okkar á hvernig við getum unnið til langs tíma.

Þessi hugsun kemur fram í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var á dögunum og inniheldur 17 aðgerðir sem öllum er beint gegn launamuni kynjanna.
Til að ýta henni duglega úr vör ákvað ríkisstjórnin að flýta gerð jafnlaunaúttekta í öllum ráðuneytum. Í einhverjum tilvikum hefur komið í ljós ástæða til að leiðrétta laun í kjölfarið, ekki aðeins til að eyða launamun milli kynja heldur einnig milli starfsmanna almennt. Í slíkar leiðréttingar verður nú þegar ráðist og kynbundnum launamun innan allra ráðuneyta eytt.

Í sambærilegar jafnlaunaúttektir  verður næst ráðist í öllum stofnunum ríkisins.
Hér á eftir mun Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kynna aðgerðaáætlunina og væntanlegt samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar til sögunnar.

Í morgun bárust þær gleðifréttir að Alþjóða efnahagsráðið hefur fjórða árið í röð skipað Íslandi í efsta sætið á lista þess yfir stöðu jafnréttismála í heiminum.  Það vekur athygli að fyrstu fjögur sætin raðast svipað og í fyrra, reyndar líkt og árið 2009 einnig, en á eftir Íslandi kemur nú Finnland í öðru sæti, Noregur í þriðja sæti og Svíþjóð í því fjórða.

Það er athyglisvert að Ísland bætir stöðu sína umtalsvert á milli ára og skorar núna 0, 8640 stig og vantar samkvæmt þessari aðferðarfræði því aðeins 0,1360 stig uppá fullkomið jafnrétti. Þetta er mér sérstakt gleðiefni.

Þegar unnið var að sóknaráætlun fyrir Ísland 2020 veltum við vöngum yfir því hvaða mælikvarða um jafnrétti kynjanna við gætum sett inn í þá stefnumörkun og komumst að þeirri niðurstöðu að nýta okkur mælingar Alþjóða efnahagsráðsins.

Helsti kosturinn við hann er að mældur er árangur á 16 þáttum á sviðum atvinnulífsins, menntamála, heilbrigðismála og stjórnmála og það eru virtir fræðimenn undir hatti öflugrar alþjóðlegrar stofnunar sem beita sömu aðferðum við skoðun á 135 ríkjum.

Í sóknaráætlun fyrir Ísland 2020 er því eitt af fimmtán mælanlegum markmiðum þetta: að bæta stöðu jafnréttismála þannig að gildi jafnréttisvísitölu Alþjóðaefnahagsráðsins fyrir Ísland verði  nálægt 0,9 árið 2020.

Við mat á því hversu raunhæft þetta markmið er var litið til þess hvar sóknarfærin liggja sé tekið mið af þeim mælikvörðum sem notaðir eru. Það kemur ekki á óvart að það svið sem við sýnum hvað lakasta frammistöðu miðað við frammistöðu okkar á öðrum sviðum er atvinnulífið.

Hlutfall kvenna í æðstu stjórnunarstöðum í atvinnulífinu og í stjórnum fyrirtækja og sjóða  þarf að batna og getur batnað. Sama gildir um launamun kynjanna. Ef við bætum okkur á þessum sviðum munum við ná markmiðum okkar sem sett eru fram í sóknaráætlun fyrir Ísland 2020.

Við höfum nú þegar lagt góðan grunn að því að þetta verði að veruleika. Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða munu að fullu koma til framkvæmda á næsta ári. Við höfum jafnað hlut kynja í ríkisstjórn og í æðstu embættum ríkisins. Eins og hér mun koma betur fram ætlum við að blása til nýrrar sóknar í baráttunni gegn launamuni kynjanna hér í dag. Jafnréttismarkmiðið í Sóknaráætlun fyrir Ísland 2020 er því að mínu mati algerlega raunhæft.

Góðir gestir.
Ég vil að lokum þakka Rósu Erlingsdóttur formanni stjórnar Jafnréttissjóðs og félögum hennar í stjórninni fyrir vel unnið verk og óska væntanlegum styrkþegum til hamingju með styrkinn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum