Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2012 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Tíu milljarðar í atvinnusköpun

Íslendingar hafa gengið í gegnum erfiða tíma frá hruni fjármálafyrirtækjanna. Sérhvert heimili hefur fært fórnir á þessum árum og margt er óunnið. Íslendingar geta hins vegar horft yfir sviðið og glaðst með erlendum fréttaskýrendum sem velta fyrir sér hvernig okkur tókst að hraða endurreisn eftir bankahrunið, koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi og verja velferðarkerfið. En við vitum að dagleg úrlausnarefni eru ærin í þágu fólksins í landinu.

Sem betur fer eiga Íslendingar framúrskarandi stofnanir og kunnáttufólk sem gengur daglega til verka við að setja fram haldgóð gögn um framvinduna í þjóðfélaginu. Hagstofa Íslands gaf til að mynda út þjóðhagsspá áranna 2012 til 2017 fyrir rúmri viku. Spáin gerir ráð fyrir að landsframleiðsla aukist um 2,7% á þessu ári og 2,5% 2013. Þetta er meiri hagvöxtur en víðast hvar um þessar mundir í nálægum löndum. Hagvöxtur er merki um aukna verðmætasköpun sem þjóðin leggur sig fram um að stuðla að.

Án umsvifa heimila og fyrirtækja væri hér lítill vöxtur. Þá segir í þessari nýju þjóðhagspá Hagstofunnar að með „auknum þrótti í efnahagslífinu og að hluta vegna átaksverkefna Vinnumálastofnunar hefur atvinnuleysi minnkað talsvert að undanförnu“. Atvinnuleysi er böl sem bera að taka á með öllum tiltækum ráðum og því ber að fagna sérstaklega þessari þróun. 

Græna hagkerfið, skapandi greinar og nýsköpun

Í síðustu viku kynnti fjármála- og efnahagsráðherra að tryggðir hefðu verið rúmlega 6 milljarðar króna til fjárfestinga og framkvæmda undir merkjum fjárfestingaáætlunar ríkisstjórnarinnar á næsta ári. Fjármagnið kemur einkum sem arður af eignarhlutum ríkisins í bönkunum. Áður var búið að tryggja fjárfestingaáætluninni 4,2 milljarða króna með sérstöku veiðigjaldi sem lögleitt var fyrr á árinu. Samtals verður því 10,3 milljörðum króna varið á næsta ári til atvinnusköpunar og eflingar innviða samfélagsins samkvæmt fjárfestingaáætluninni.

Þetta er fagnaðarefni og sýnir að ríkisstjórninni hefur enn eina ferðina tekist ætlunarverk sitt, nú í þágu uppbyggingar í atvinnulífinu. Áður hafði verið tryggt fjármagn til samgöngubóta, meðal annars gerðar Norðfjarðarganga, en verkið verður boðið út eftir áramótin. Viðbótarfjármagnið nemur 2,5 milljörðum króna. Þetta eru verkefni sem um munar en markmiðið er aukin fjárfesting og fjölgun starfa.

Hitt er ekki síður mikilvægt, að fjárfestingaráætlunin felur í sér nýjar áherslur og nýja sýn á atvinnulífið. Þessar áherslur falla prýðilega saman við margt það sem fram kemur í nýlegri skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey. Þar segir meðal annars frá því að raunvöxtur á Íslandi hafi verið minni síðastliðin 30 ár en í nágrannalöndunum. Hins vegar eru dregin fram spennandi sóknarfæri fyrir Ísland sem ríkisstjórnin hefur fullan hug á að nýta sér í náinni framtíð. Fjárfestingaáætlunin gerir nefnilega ráð fyrir auknum stuðningi við rannsóknar- og tæknisjóði. Þeim eru ætlaðir 1,3 milljarðar króna sérstaklega á næsta ári. Nefna má aukna áherslu á græna hagkerfið svonefnda. Ætlunin er að leggja 500 milljónir króna á næsta ári í grænan fjárfestingarsjóð og 280 milljónum króna verður varið til þess að styðja við grænar áherslur fyrirtækja.

Breytt hagkerfi með nýjum áherslum

En þar með er ekki allt upp talið. Kvikmyndasjóður fær nánast tvöfalt hærra framlag en áður, 250 milljónir króna renna aukalega til verkefnasjóða fyrir aðrar skapandi greinar og Netríkið Ísland fær 200 milljónir króna í sinn hlut.

Forvígismenn ferðaþjónustunnar hafa undanfarnar vikur brugðist hart við áformum um að hækka virðisaukaskatt greinarinnar til jafns við aðrar greinar. Það mál hefur ekki enn verið til lykta leitt, en þeir hinir sömu geta glaðst yfir því að allt að 500 milljónum króna verður varið í nafni fjárfestingaáætlunarinnar til uppbyggingar ferðamannastaða sem eru undir sífellt meira álagi vaxandi fjölda ferðamanna. Einnig er ráðgert að verja 250 milljónum króna til að efla innviðina á friðlýstum og eftirsóttum svæðum.

Það verður því ekki annað séð en að fjárfestingaáætlun falli vel að þeirri sýn sem fram kemur í Íslandsskýrslu McKinsey sem forsætisráðuneytið hefur nú tekið til sérstakrar skoðunar. Ríkisstjórnin hefur því sett aukinn kraft í fjölgun starfa þar sem fjárfestingar í innviðum samfélagsins og í hinu græna og skapandi hagkerfi eru sett í forgang.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum