Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2012 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Sinnaskipti Sjálfstæðisflokksins

Það skiptir miklu máli að vandað sé til allrar ákvarðanatöku þegar kemur að meðferð eigna og krafna gömlu bankanna. Ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa verið einhuga um að gæta að fjármálastöðugleika sé ekki ógnað þegar kemur að úrlausn þessara mála. Upphlaup og pólitísk látalæti eiga ekki við þegar um jafnmikilvægt og flókið mál er að ræða. 
Það er því sérstök ástæða til að fagna auknum áhuga þingflokks Sjálfstæðisflokksins á leiðum til þess að verja krónuna og þar með kjör landsmanna gegn mögulegu útflæði eigna erlendra kröfuhafa. Formaður þingflokksins, sagði til dæmis á beinni línu DV fyrir helgina: „Aðalatriðið er að það náist samstaða um stefnuna í þessu máli og þar leikur forsætisráðherra lykilhlutverk, hún þarf að leiða saman ASÍ, SA, stjórnina og stjórnarandstöðuna í stefnumótun.“

Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði  í fréttum Stöðvar 2 síðastliðinn fimmtudag að „þingið verður að hafa síðasta orðið.“ Auðvitað eigum við að vera bandamenn í þessu máli. Engu að síður er nauðsynlegt að leiðrétta nokkur atriði sem og halda öðrum til haga.

Vel upplýst mál

Í fyrsta lagi er það ekki rétt sem Bjarni Benediktsson hefur haldið fram að upplýsingar hafi ekki legið fyrir um vandann samfara mögulegu hundruða milljarða útstreymi eigna til dæmis við væntanlegt uppgjör til erlendra kröfu­hafa úr þrotabúum Glitnis og Kaupþings. Það var meðal annars sá vandi sem varð til þess að Alþingi styrkti gjaldeyrishöftin 12. mars síðastliðinn með lagasetningu. Það er hins vegar mikilvægt að almenningur átti sig á því að allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði gegn frumvarpinu af ástæðum sem eru mér ráðgáta. Samt höfðu allir þingmenn, líka þingmenn Sjálfstæðisflokksins, fyrir framan sig greinargerð með frumvarpinu þar sem meðal annars stóð: „Í frumvarpi þessu er lagt til að tilteknar fjármagnshreyfingar á milli landa, sem verið hafa heimilar til þessa, verði takmarkaðar. Er það gert vegna þess að þær gætu að óbreyttu grafið undan áætlun um losun fjármagnshafta og valdið alvarlegum óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði, sem aftur gæti leitt til verulegrar gengislækkunar krónunnar, höggvið stór skörð í gjaldeyrisforða þjóðarinnar eða hvort tveggja.“ Það er ótrúlegt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki áttað sig á alvöru málsins og greitt atkvæði gegn þessari lagasetningu.

Í öðru lagi hafa Sjálfstæðismenn gert afar mikið úr hugsanlegri vá vegna nauðasamninga gömlu bankanna. Nú hefur hins vegar komið í ljós að váin vegna umræddra nauðasamninga er líklega minni en margir ætla. Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir íslenska ríkið ráða vel við skuldir sínar en Ísland glími hins vegar við greiðslujafnaðarvanda. Staðfest hefur verið að Seðlabankinn hefur þær nauðsynlegu heimildir til þess að hemja og koma í veg fyrir hverskyns útflæði gjaldeyris sem fellt gæti krónuna og kollvarpað stöðugleika. Löggjöfin 12. mars var því nauðsynleg og setti erlendar eignir slitastjórnanna undir höftin eins og Bjarni og Illugi Gunnarsson vita jafn vel og aðrir. 

Eitt mikilvægasta verkefnið

Ég elti hins vegar ekki ólar við það að þingmenn Sjálfstæðisflokksins reyndu að fella frumvarpið um gjaldeyrishöftin í mars síðastliðnum. Sinnaskipti þeirra eru jákvæð og vitanlega mikilsvert að geta ráðið bót á þeim langvinna sjúkdómi eftirhrunsáranna sem hengjan svonefnda og gjaldeyrishöftin eru. Við þurfum til dæmis að fara yfir það hvort enn sé þörf lagabreytinga vegna gjaldeyrishaftanna og hvort breyta þurfi áætlun um afnám þeirra. Ég gat um þessi mál í stefnuræðu minni á Alþingi 12. september síðastliðinn. Þar sagði ég meðal annars: „Þrátt fyrir þann mikla og góða árangur sem náðst hefur liggur fyrir að efnahagsmálin, og ekki síst gjaldmiðlamálin og gjaldeyrishöftin, verða meðal mikilvægustu viðfangsefna næstu mánaða og missera. Flestir viðurkenna að rétt var að setja tímabundnar skorður við útflæði erlends gjaldeyris í kjölfar hrunsins og að varasamt sé að viðhalda gjaldeyrishöftum til lengri tíma, enda líklegt að það skjól sem þau veittu í upphafi snúist upp í  andhverfu sína þegar til lengdar lætur.“

Samstarf um lausnir

Verkefnið er stórt og mikilvægt. Víðtæk samstaða um þau skref sem taka þarf um afnám gjaldeyrishaftanna  er afar æskileg og í raun nauðsynleg. Ég sé hins vegar ekkert að því að Seðlabankinn hafi það sérstaka hlutverk áfram að gæta hagsmuna þjóðarinnar í þessum efnum með þeim valdheimildum sem löggjafarþingið hefur fært honum í glímunni við það sérstæða og mikilvæga verkefni að verjast frekari gengis- og gjaldeyrisáföllum sem gætu sett heimilin og rekstur fyrirtækja í alvarlegt uppnám. Sem fyrr stendur ríkisstjórnin sína vakt og það er gott að vita til þess að Sjálfstæðisflokkurinn er loksins tilbúinn að gera hið sama.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum