Hoppa yfir valmynd
18. desember 2012 ForsætisráðuneytiðJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra 2009-2013

Mörg tækifæri í sjónmáli

Ríkisstjórninni er stundum legið á hálsi fyrir að sinna illa atvinnumálum og atvinnuuppbyggingu. Gagnrýnin kemur oftast frá þeim sem í sömu andrá krefjast lækkunar skatta og niðurskurðar ríkisumsvifa. Þegar gengið er eftir því hverju skuli fórnað verður stundum fátt um svör. Síst af öllu vilja menn draga úr velferðarþjónustu og menntun.

En stjórnvöld hafa ríkum skyldum að gegna varðandi innviði alla og umgjörð atvinnulífs hvarvetna á landinu. Það getur verið pólitískt vandasamt að vega saman lífsgæði og jöfnun búsetuskilyrða og vandaða meðferð skattteknanna.

Engum blöðum er um það að fletta að Norðausturkjördæmið mun á næstu misserum njóta ávaxta af undirbúningi ýmissa verkefna sem mörg hver hafa þó tafist m.a. vegna þeirrar óvissu sem alþjóðleg fjármálakreppa hefur bakað fjárfestum.

Uppbygging atvinnulífs helst í hendur við góðar samgöngur. Fyrir skemmstu undirritaði Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, lánasamning vegna Vaðlaheiðarganga. Samningurinn heimilar ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast 8,7 milljarða króna lántöku vegna framkvæmdanna með samþykki Ríkisábyrgðarsjóðs.

Í eystri hluta kjördæmisins er hafinn undirbúningur að Norðfjarðargöngum, langþráðri samgöngubót, sem fjármögnuð verður að miklu leyti með tekjum af sérstöku veiðigjaldi.  Forval er nú afstaðið og ráðgert er að bjóða verkið út í upphafi næsta árs, eftir nokkrar vikur.

Sókn er besta vörnin

Á fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir að 400 milljónum króna verði varið til sóknaráætlana landshlutanna. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti samþykkt skiptingu fjárins og forsendur skiptingarinnar. Tæplega 51 milljón króna kemur í hlut Norðurlands eystra og liðlega 35 milljónir króna í hlut Austurlands. Samtals rennur liðlega fimmtungur heildarupphæðarinnar því til Norðausturkjördæmisins.

Sóknaráætlanir landshlutanna er merkileg tilraun sem unnið hefur verið að í meira en tvö ár í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.  Þær byggjast á því að hver landshluti velji fulltrúa úr sveitarstjórnum, atvinnuþróunarfélögum og frá fleiri stofnunum í héraði sem mynda samráðsvettvang. Þannig ætti að verða til skilvirk eining sem kemur fram fyrir hönd landshlutans gagnvart stjórnarráðinu.  Mótsvarandi samráðshóp (stýrinet) er síðan að finna innan stjórnarráðsins sem vinnur þvert á ráðuneytin.  Hér skal tekið fram að ríkisvaldið hefur ekki í hyggju að koma með einhverjum hætti að ákvörðunum um það hvernig auknum fjármunum sóknaráætlana verður varið í framtíðinni. Það verður í höndum heimamanna undir því skipulagi sem samist hefur um.

Orkunýting og fjölbreyttara atvinnulíf

Tækifæri Norðausturlands leynast víða. Norðmenn hafa nú ákveðið að taka þátt í leit að olíu og rannsóknum milli Íslands og Jan Mayen. Þátttaka þeirra gerir rannsóknir á Drekasvæðinu eftirsóknarverðari og dregur athygli olíufélaga að Íslandi sem fýsilegum kosti til rannsókna og eftir atvikum vinnslu olíu í framtíðinni. Sú ákvörðun norska ríkisolíufélagsins Petoro að eiga fjórðungshlut í tveimur útgefnum leyfum til leitar og rannsókna undirstrikar trú Norðmanna á verkefninu. Viðbúið er að aukinna umsvifa vegna þessa taki að gæta á næstu misserum á norðaustanverðu landinu.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á fjölbreytni í atvinnulífinu eins og vel kemur fram í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Einmitt það sjónarmið ræður því einnig að erlendum og innlendum fyrirtækjum var gefinn kostur á að gera áætlanir um kísilmálmframleiðslu  við Húsavík, þeirra á meðal Thorsil og PCC. En þótt slík framleiðsla sé ekki eins stór í sniðum og álver á Bakka skapar hún hundruð starfa á framkvæmdatíma og vel á annað hundrað störf til frambúðar. Ótalin er þá orkuöflunin við Þeistareyki og í Bjarnarflagi en virkjunarkostnaður þar verður vart minni en 40 milljarðar króna og eru verklok áætluð 2014 á báðum virkjunarstöðunum.

Við förum vitanlega að öllu með gát gagnvart náttúrunni. Rammaáætlunin um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem ég vonast til þess að unnt verði að afgreiða frá Alþingi á næstu vikum, ber vott um þá aðgát sem verður að hafa í umgengni okkar um náttúruauðlindirnar.

Skapandi greinar og ferðaþjónusta

Það er einnig sjálfsagt að halda því til haga að skapandi greinar og ferðaþjónustan hafa aukna tekjumöguleika yfir lengri tíma ársins en áður á Norðausturlandi. Gerð erlendra kvikmynda og sjónvarpsþátta hafa að hluta til farið fram í landshlutanum, jafnt sumar sem vetur, eins og sannaðist nú nýverið.  Þessi umsvif hafa veitt fjölda manns tímabundna vinnu og skapað tekjur fyrir ýmis þjónustufyrirtæki heima í héraði.  Áhugi erlendra kvikmyndafyrirtækja á landinu er m.a. til kominn vegna endurgreiðslu á 20% kostnaðar sem til fellur hér á landi. Skilyrði endurgreiðslu er að kvikmyndin eða sjónvarpsefnið sé til þess fallið að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru og stuðli að aukinni þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem standa að framleiðslunni.

Það er augljóst að dreifbýli býr mannlífinu ekki sömu skilyrði og í þéttbýli. Það þarf þó ekki að þýða að skilyrðin séu lakari ef t.d. grunnþættir velferðarþjónustu og stoðir heilsugæslunnar eru í lagi. Fjölbreytni lífshátta er jafnvel æskileg. Meginatriðið nú er að bæta lífsgæðin og lífskjörin þannig að sóst verði eftir því að búa hér á landi  hvort heldur í dreifbýli eða þéttbýli.

Í heildina mega nærri 40 þúsund íbúar Norðausturkjördæmisins bærilega vel við una enda eru margvísleg og ögrandi tækifæri í sjónmáli.

Ég óska íbúum á Norðausturlandi gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum