Hoppa yfir valmynd
Ræður og greinar Bjarna Benediktssonar

Ræða forsætisráðherra á ársfundi Seðlabankans 30. mars 2017

Ágætu ársfundargestir.

Ég ávarpa ykkur nú í fyrsta sinn sem forsætisráðherra en síðustu þrjá ársfundi hef ég staðið hér í þessum sporum sem fjármála- og efnahagsráðherra. Við stjórnarmyndun voru málefni Seðlabanka Íslands færð til forsætisráðuneytisins. Náin tengsl verða engu að síður áfram á milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabankans á ýmsum sviðum. Þar má nefna fjárhagsleg samskipti Seðlabanka og ríkissjóðs, gengismál og losun fjármagnshafta, samskipti um efnahagsmál og samskipti við lánshæfismatsfyrirtæki og alþjóðastofnanir.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar segir að forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands verði endurmetnar, meðal annars í ljósi breytinga sem orðið hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar með stórsókn ferðaþjónustunnar og ört vaxandi gjaldeyrisforða. Þetta starf er þegar komið af stað með þriggja manna verkefnisstjórn, en víðtækt samráð verður við innlenda og erlenda sérfræðinga, þingflokka, aðila vinnumarkaðarins og háskólasamfélagið. Markmið endurskoðunarinnar er að finna þann ramma peninga- og gengisstefnu sem til lengri tíma litið er heppilegastur til að styðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Endurskoðunin gengur út frá þeirri forsendu að krónan verði í næstu framtíð gjaldmiðill Íslendinga. Miðað verður við að fjármagnshreyfingar til og frá landinu verði eins frjálsar og kostur er og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Það er tímabært að fara í þessa vinnu nú. Langt er síðan heildstæð umræða var tekin um valkosti Íslendinga í peninga- og gengismálum. Verðbólgumarkmiðið var tekið upp árið 2001 með yfirlýsingu forsætisráðherra og Seðlabankans og lögum um Seðlabankann var breytt. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og hagkerfið gengið í gegnum óvenjulegar hæðir og lægðir. Lítill tími hefur gefist í endurreisninni eftir hrun til að gaumgæfa peningastefnu til lengri tíma ef frá er talin viðamikil skýrsla Seðlabankans frá 2012 um valkosti okkar í peninga- og gengismálum. Nú eru höftin að baki og ytri aðstæður þjóðarbúsins með eindæmum hagstæðar. Þetta er því rétti tímapunkturinn til að taka góða og opna umræðu um kosti og galla ólíkra valkosta.

Það er engin töfraformúla til sem jafnar sveiflur og viðheldur stöðugleika. Mögulegar lausnir á hluta vandans skapa nýjar áskoranir og ógnir á öðrum sviðum. Hlutverk krónunnar í endurreisninni hefur verið ótvírætt og er alþjóðlega viðurkennt. Fall krónunnar við hrunið leiddi til betri samkeppnishæfni útflutningsatvinnuvega og bjó til kjöraðstæður til að gera Ísland að eftirsóknarverðum ferðamannastað. Búhnykkir, eins og betri viðskiptakjör á erlendum mörkuðum og farsæl lausn á greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins, hafa einnig hjálpað til við að styrkja efnahaginn.

Krónan hefur því leikið stórt hlutverk í þjóðarbúskapnum. Styrkur hennar hefur átt stóran þátt í að skapa stöðugt verðlag í þrjú ár og betri kaupmátt almennings en dæmi eru um. Kaupmáttur Íslendinga hvort sem er í innlendri eða erlendri mynt hefur ekki áður verið meiri. Þegar meðallaun Íslendinga eru flutt yfir í evrur og borin saman við nálægar þjóðar á þeim grundvelli sést sterk staða Íslands glöggt.

Við útflutningsatvinnugreinum blasir önnur mynd. Þær sjá ekki stöðugleikann í rekstrarumhverfi sínu. Þær taka á sig fjórðungshækkun launa og lífeyrisgreiðslna á stuttum tíma auk mikillar gengisstyrkingar. Framlegð ferðaþjónustufyrirtækja, sjávarútvegsfyrirtækja, nýsköpunarfyrirtækja og iðnfyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum fer því hratt minnkandi og samkeppnisstaða þeirra versnar.

Allt lýtur þetta lögmálum hagfræðinnar. Krónan styrkist vegna sterkari stöðu Íslands. Hver einasta viðbótarkróna sem kemur inn í þjóðarbúið

 

  • vegna ferðamanns sem lætur drauminn um Íslandsferð rætast,
  • vegna betra verðs sem fæst fyrir sjávarafurðir á erlendum mörkuðum,
  • vegna stöðugleikaframlaga sem slitabú bankanna leggja til ríkisins,

 

gerir Ísland sterkara og kemur fram í sterkara gengi.

Áskoranir okkar eru því af jákvæðum toga. Frá því að forseti Alþingis lýsti yfir stofnun lýðveldisins á Þingvöllum fyrir rúmum sjö áratugum síðan höfum við aldrei staðið betur efnahagslega. Það er vissulega sterk staðhæfing að fullyrða að lýðveldið hafi aldrei staðið betur í efnahagslegu tilliti en lengri tíma samanburður á helstu hagtölum, mælikvörðum á hagsæld og alþjóðlegum rannsóknum, renna styrkum stoðum undir hana. Við erum í hópi hinna lánsömu Norðurlandaþjóða sem hefur tekist að búa til betri og jafnari samfélög en dæmi eru til um í mannkynssögunni að mati tímaritsins The Economist. Í augum alþjóðasamfélagsins erum við fyrirmyndarsamfélag þar sem efnahagsleg velferð er mikil, gæðunum jafnar skipt en annars staðar og jafnrétti og umburðarlyndi ríkir.

Efnahagur okkar stendur því á traustari grunni en fyrr og hagsæld okkar er mikil. En getum við misst fótanna í efnahagsmálum? Já, svo sannarlega. Vísasta leiðin til þess er sundurlyndi og óhóf. Að við nýtum ekki góða stöðu okkur til framdráttar. Að við kunnum ekki fótum okkar forráð.

Hagsveiflur hafa fylgt samfélögum frá alda öðli. Það skiptast á skin og skúrir - mögur ár og góð ár. Fyrr á tímum voru sveiflurnar bundnar við náttúruleg skilyrði. Síðustu aldir hafa verið þróuð hagfræðileg stjórntæki til að minnka þessar sveiflur. Þau hafa haft áhrif í átt til sveiflujöfnunar en því fer fjarri að tekist hafi að útrýma sveiflum. Staða þjóða er einnig síbreytileg, sumar standa standa sig betur en aðrar til lengri eða skemmri tíma, byggja á samstöðu, finna nýjar auðlindir eða nýta nýja tækni - aðrar missa fótanna eða verða fyrir þungum búsifjum af náttúrunnar eða manna völdum. Þetta er lífsins gangur.

Sveiflujöfnun og stöðugleiki er eftirsóknarverður. Allar ríkisstjórnir á Íslandi setja stöðugleika í efnahagsmálum á oddinn í stjórnarsáttmála. Óðurinn til stöðugleikans er settur fram þó vitað sé að lítil þjóð sem byggir á útflutningi náttúruauðlinda hlýtur, eðli málsins samkvæmt, að búa við meiri náttúrulegar sveiflur en stórar þjóðir sem byggja á stöðugri iðnaðarframleiðslu. En ákvæði um stöðugleika er sett fram í því skyni að ná nauðsynlegri samstöðu um að beita hagstjórnartækjum til að minnka sveiflur fremur en magna þær.

Við getum gert betur í að minnka sveiflur. Það er stór kostur við íslenska þjóð að hún er harðdugleg til verka, fljót að laga sig að breyttum aðstæðum og einnig fljót að breyta aðstæðum. En í þessum kosti felst einnig löstur – óþolinmæði. Við sættum okkur ekki við hægar breytingar – við þurfum að laga allt strax og helst í gær. Breytingar upp á 3% á ríkisframlögum, launum eða öðrum efnahagsstærðum, sem þykja eðlilegar í öðrum löndum, eru hér á landi ekki taldar vera upp í nös á ketti því þörfin sé tíföld. Við setjum okkur ekki stefnur til lengri tíma heldur viljum beita þunga okkar, vilja og dugnaði til að laga allt óréttlæti og ósanngirni. Núna. Og taka svo til við næsta. Og svo koll af kolli.

Þessi aðferð er því miður ekki líkleg til að skila árangri. Hún magnar sveiflurnar. Stjórnvöld finna mjög fyrir þessum þrýstingi við gerð fimm ára fjármálaáætlunar en hún verður kynnt á morgun. Það er sama hvar borið er niður, alls staðar er þörf fyrir mikið viðbótarfjármagn. Í flestum tilfellum er unnt að færa sterk rök fyrir þjóðhagslegri hagkvæmni þess að auka verulega við fjárveitingar í viðkomandi verkefni. Vandinn er sá að þó þjóðhagsleg hagkvæmni sé fólgin í hverju verkefni fyrir sig er hið sama ekki hægt að segja um verkefnin þegar þau eru lögð saman. Þá kemur að hinum beiska efnahagslega veruleika.

Í fjármálaáætlun fyrir 2018–2022 verður skýr forgangsröðun sem byggist á stjórnarsáttmálanum. Ríkisstjórnin mun nýta það efnahagslega svigrúm, sem skapast með góðri stöðu þjóðarbúsins og lækkun skulda, til að forgangsraða sérstaklega í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Ríkisstjórnin leggur þannig fram stefnur til fimm ára á öllum málefnasviðum ríkisins og tengir saman stefnur og fjármagn.

Þá leggur ríkisstjórnin fram áætlun í skattamálum sem gengur út á að minnka álögur á almenning á kjörtímabilinu en auka álögur á ferðaþjónustuna. Þetta er rétti tímapunkturinn til að halda áfram með kerfisbreytingar í virðisaukaskattskerfinu. Það er ekki sama ástæða og áður var til að ívilna ferðaþjónustunni með því að hafa hana í lægra þrepinu. Þess utan er það mikilvægt frá hagstjórnarlegu sjónarhorni að bregðast við gríðarlegri aukningu ferðamanna til landsins.

Sú samfélagsbylting sem átt hefur sér stað á síðustu árum með stórauknum ferðamannastraumi hefur haft gríðarleg áhrif á mörgum sviðum. Sem dæmi má nefna efnahagsleg áhrif til góðs og ills á aðrar atvinnugreinar, áhrif á umhverfisvernd og áhrif á húsnæðismarkað.

Áhrifin á umhverfisvernd eru umtalsverð og ber að rannsaka betur. Ég gluggaði um daginn í 30 ára gamla skýrslu framtíðarnefndar sem Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, setti á laggirnar. Þá voru erlendir ferðamenn innan við 100 þúsund talsins á ári en engu að síður hafði verið verulegur vöxtur í langan tíma. Í skýrslunni segir að flest bendi til að sókn á helstu ferðamannastaði á hálendinu sé komin yfir þolmörk náttúrunnar á þessum stöðum og að í mikið óefni verði komið ef ferðamönnum haldi áfram að fjölga um 10% á ári þannig að þeir verði komnir í um 800 þúsund árið 2010. Margt athyglisvert er hægt að setja fram um ferðamannastrauminn, til dæmis það að á þessu og næstu tveimur árum muni að líkindum vera fleiri á landinu, Íslendingar sem útlendingar, heldur en voru hér samtals á fyrstu 1100 árum Íslandsbyggðar.

Ástæða er til að hafa áhyggjur af húsnæðismarkaði en ljóst er að áhrif ferðaþjónustunnar á markaðinn eru mikil. Þörf fyrir nýtt húsnæði er mikil, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Það er jákvætt að byrjað er að byggja nýtt húsnæði víða á landsbyggðinni eftir áratugahlé en vandinn felst í lágu húsnæðisverði í samanburði við byggingarkostnað. Á höfuðborgarsvæðinu hefur lóðaframboð engan veginn fullnægt eftirspurn. Stjórnvöld hafa takmarkað vald á framboðshliðinni en hafa þó lagt sitt á vogarskálarnar, t.d. með einföldun á byggingarreglugerð til að gera kleift að byggja ódýrari og hagkvæmari íbúðir og með því að setja lög og fjármagn í stofnstyrki félagslegs húsnæðis. Á eftirspurnarhliðinni hafa stjórnvöld hækkað húsnæðisbætur og lagt grunninn að tíu ára skattahagræði fyrir ungt fólk sem vill nýta séreignarsparnað til að draga úr húsnæðiskostnaði. Þetta er mikilvægt en eftir stendur að mikið vantar upp á framboðshliðina. Hér verður sérstaklega Reykjavíkurborg að gyrða sig í brók en furðulegt er að sjá að á síðustu fimm árum hefur íbúum Kópavogs fjölgað meira en í Reykjavík þó höfuðborgin sé þrisvar sinnum fjölmennari. Í húsnæðismálum þarf Reykjavík einfaldlega að gera miklu betur.

Góðir gestir.

Til þess að við náum settu marki verður opinber hagstjórn og vinnumarkaður að stilla saman strengi sína. Að beiðni aðila vinnumarkaðarins settu ríkisstjórn, sveitarfélög, Seðlabankinn og Samtök atvinnulífsins Þjóðhagsráð á laggirnar á síðasta ári til að fjalla um samspil opinberrar hagstjórnar og vinnumarkaðar. Launþegahreyfingin kaus á síðustu stundu að vera ekki með í Þjóðhagsráði. Næsti fundur verður ráðsins verður í næstu viku.

Vinnumarkaðurinn er Akkilesarhæll íslenskrar hagstjórnar um þessar mundir. Það er hver höndin upp á móti annarri á vinnumarkaði eins og glöggt má heyra þegar forystumenn samtaka á almennum og opinberum vinnumarkaði greina frá áherslum sínum. Það er engin samstaða um það að hækka sérstaklega lægstu laun eða taka sérstaklega tillit til menntunar. Það er einfaldlega engin samstaða um það að hækka laun einstakra starfsstétta umfram aðrar. Þá er engin samstaða um viðmiðunartímabil launa sem nota skal til samanburðar. Í þessu efni erum við komin mjög skammt á veg í samanburði við Norðurlandaþjóðirnar.

Það eru engir aðrir kostir í stöðunni en að fylgja því rammasamkomulagi sem helstu aðilar á vinnumarkaði hafa undirritað. Stjórnvöld hafa undirgengist það samkomulag og við það verður miðað í þeim kjaraviðræðum sem framundan eru. Það er mikils um vert að varðveita þann mikla árangur sem náðst hefur. Laun hafa hækkað um 250 milljarða króna á tveimur árum og meðalheildarlaun fullvinnandi um u.þ.b.125 þúsund á mánuði. Á sama tíma hefur verðbólga verið um og innan við 2%. Það er ekki sjálfgefið að það takist að varðveita þennan árangur. Engin peningastefna eða ríkisfjármálastefna megnar að varðveita stöðugleika í höfrungahlaupi.

Besta tækifæri sem við höfum til kjarabóta við núverandi aðstæður er lækkun vaxta. Vextir munu þó vart lækka að ráði nema Seðlabankinn og fjármálamarkaðurinn trúi því að böndum verði komið á höfrungahlaup á vinnumarkaði og ríkisútgjöld. Margt er þó jákvætt í spilunum. Betra lánshæfismat ríkisins gefur ríkinu og öðrum markaðsaðilum færi á betri vaxtakjörum. Þá hafa væntingar markaðsaðila til langtíma verðbólgu verið í samræmi við verðbólgumarkmið að undanförnu sem er skýr vísbending þeirra um traust á kjölfestu peningastefnunnar.

Lækkun vaxta er mikið hagsmunamál fyrir heimili, fyrirtæki og ríkissjóð. Í grófum dráttum eru heimili að borga um 100 milljarða á ári í vaxtagjöld, fyrirtæki önnur en fjármálafyrirtæki yfir 200 milljarða og ríkissjóður um 80 milljarða. Lækkun vaxta um eitt prósentustig gæti lækkað vaxtagjöld skuldsettra heimila um 20 milljarða á ári og fyrirtækja og ríkissjóðs um samtals 70 milljarða. Lægri vaxtagjöld ríkissjóðs auka útgjaldasvigrúm hans og lægri vaxtagjöld fyrirtækja auka getu þeirra til lækkunar verðs á vöru og þjónustu svo fremi sem samkeppni sé næg.

Góðir gestir.

Að lokum vil ég lýsa yfir mikilli gleði og ánægju með losun hafta og þakklæti til allra þeirra sem að því verki stóðu.

Það eru ekki nema um tvö ár síðan talið var að greiðslujafnaðarvandi þjóðarbúsins væri allt að því óleysanlegur vegna þeirra miklu eigna sem erlendir aðilar ættu hér. Vandinn vegna innlendra eigna slitabúa föllnu bankanna var um mitt ár 2015 metinn á 900 milljarða króna og 1200 milljarðar króna ef aðrar eignir erlendra aðila í íslenskum skuldabréfum og innstæðum væru teknar með. Til samanburðar var landsframleiðslan þá um 2000 milljarðar króna.

Meginstefið í vinnu stjórnvalda var að leysa greiðslujafnaðarvanda Íslands þannig að unnt væri að aflétta fjármagnshöftum án ótilhlýðilegrar áhættu hvað varðaði þjóðhags- og fjármálastöðugleika. Lausnin varð að tryggja að gengi krónunnar félli ekki, að aðgengi íslenskra fyrirtækja að erlendum mörkuðum yrði ekki lakara, að alþjóðlegar skuldbindingar væru virtar og áhætta í ríkisfjármálum væri takmörkuð.

Farið var yfir hverja eign í hverju slitabúi fyrir sig og greiðslujafnaðarvandinn við hverja eign metinn og mótvægi fundið. Eignir slitabúanna voru ólíkar og því var lausnin margþætt. Sumar eignir var unnt að framselja beint til ríkisins á meðan aðrar eignir kröfðust annarrar meðhöndlunar.

Þetta tókst afar vel eins og haftaafnámsferlið í heild sinni. Það er ástæða til að gleðjast yfir afnámi hafta og hvernig til hefur tekist í endurreisninni. Mér finnst að íslenskir stjórnmálaflokkar, embættismenn og aðrir hlutaðeigandi megi berja sér á brjóst fyrir góðan árangur í endurreisn eftir bankahrunið. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar setti neyðarlögin, ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fór í miklar aðhaldsaðgerðir, ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks leysti greiðslujafnaðarvandann og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar rak smiðshöggið á verkið.

Nú eru höftin að baki og endurreisninni lokið. Við taka nýjar áskoranir.

Það hefur oft verið sagt að það sé erfiðara að stjórna á Íslandi þegar vel árar en þegar þrengir að. Ég tel að það sé mikill sannleikur í þessu. Um leið og við gleðjumst yfir þeim ánægjulegu tímamótum sem verða við haftalosunina og þeim árangri sem náðst hefur, skulum við því muna að þetta var, samkvæmt kenningunni, auðveldi tíminn. Nú tekur erfiða tímabilið við, í hagstjórnarlegu tilliti.

Það hafði svo sem enginn lofað því að þetta yrði auðvelt.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira