Hoppa yfir valmynd

Ávarp ráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir - háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra


Árið 2022 var mjög viðburðaríkt ár í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, enda er það auðvitað ótrúlega spennandi tækifæri að fá að skapa í fyrsta sinn á Íslandi ráðuneyti sem sameinar þessar stoðir í okkar mikilvæga samfélagi. Háskólamenntun, vísindi, rannsóknir, nýsköpun, fjarskipti, stafræn umbreyting og hátækniiðnað. Undir ráðuneytið heyra málaflokkar og verkefni sem áður heyrðu í raun undir fimm mismunandi ráðuneyti. Ráðuneytið hóf starfsemi 1. febrúar í fyrra og strax í upphafi settum við okkur þá línu að ráðuneytið myndi bera þess merki að hafa orðið til árið 2022.

Við breyttum ekki bara skipuritinu og hlutverki skrifstofa. Samhliða því breyttum við vinnu-og verklaginu, hvernig við vinnum. Við afnámum líka stimpilklukkuna, héldum vinnustofur í stað þess að skipa starfshópa, auglýstum störf óháð staðsetningu. Auk þess var ég reglulega með opna viðtalstíma víða um landið þar sem mér gafst tækifæri til að eiga stutt og milliliðalaust samtal um málefni tengd málaflokkum ráðuneytisins.

Á árinu kynntum við síðan sókn í þágu háskóla og samfélags. Við settum af stað Samstarf háskóla sem var kynnt haustið 2022 en verkefninu var ætlað ýta undir meira samstarf háskólanna. Jafnframt hófst vinna við nýtt reiknilíkan háskólanna, en nýju reiknilíkani er ætlað að auka gæði og skilvirkni háskólanáms, draga úr brottfalli, hvetja til rannsókna og alþjóðlegs samstarfs en líka ýta undir að námsframboð sé í takt við þarfir nútímasamfélags með jafnrétti að leiðarljósi. Þá hefur markvisst verið unnið að undirbúningi sameiginlegrar innritunargáttar háskólanna. Með henni bætist þjónusta við umsækjendur til muna auk þess sem yfirsýn og gagnsæi eykst.

Við kynntum líka aðgerðaáætlun stjórnvalda í netöryggi á liðnu ári ásamt netöryggisstefnu Íslands til 2027, mikilvægir áfangar sem munu leiða til stórstígra áfanga í netöryggi hjá samfélaginu öllu og færa Ísland framar í alþjóðlegum samanburði. Einnig voru ný fjarskiptalög samþykkt sumarið 2022 sem munu stuðla að áframhaldandi uppbyggingu og framþróun á fjarskiptamarkaði. Þá hófst og lauk lagningu fjarskiptasæstrengs frá Íslandi til Írlands, en með tilkomu hans eykst fjarskiptaöryggi Íslands tífalt.

Við greiddum líka leið fyrir alþjóðlega sérfræðinga til landsins með tveimur frumvörpum um breytingu á atvinnuleyfum, bæði tryggðum við það að við séum mjög samkeppnishæf og gerum það auðveldara og hraðara fyrir alþjóðlega sérfræðinga að koma hingað til lands og starfa í okkar flottu fyrirtækjum og nýsköpun. En ekki síst líka að tryggja námsmönnum sem stunda nám við háskólana á Íslandi að vera hér og hafa atvinnu- og dvalarleyfi til þriggja ára að námi loknu.

Síðast en alls ekki síst var á haustmánuðum 2022 hafinn undirbúningur að þingsályktunartillögu um þekkingarsamfélag og framtíðarsýn Íslands. Stefnumótandi aðgerðir til að efla þekkingarsamfélag á Íslandi til ársins 2025. Stefnan byggir á þeirri sýn ráðuneytisins að lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærumsé að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Í því felst að hægt sé að vaxa út úr sveiflukenndu efnahagsástandi með því að beina sjónum okkar að alþjóðageiranum og hugverkaiðnaðinum, en þar undir heyra fyrirtæki sem fá útflutningstekjur sem byggja á öðru en okkar takmörkuðu auðlindum.

Forsenda slíks vaxtar eru breyttar áherslur í menntakerfinu, vísindum, nýsköpun, sjálfbærum þekkingariðnaði og upplýsingatækni, en líka gervigreind með öflugum fjarskiptum og netöryggi. Með því að virkja hugvitið getum við skapað aðstæður fyrir innlenda og alþjóðlega sérfræðinga í spennandi störf hér á landi. Stefnumótandi aðgerðum um eflingu þekkingarsamfélags er ætlað að leysa úr læðingi þá krafta sem myndast með því að samþætta hugmyndir og hreyfiaflið í þessum málaflokkum ráðuneytisins. Með þessum kröftum getum við nefnilega skapað ný störf og ný tækifæri á Íslandi, aukið vöxt og verðmætasköpun íslensk atvinnulífs og bætt lífsgæði þjóðarinnar til lengri tíma.

Ég hlakka til ársins 2023!

Horfa á ávarpið

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum