Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. maí 1995 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Stefnuræða á vorþingi 1995

STEFNURÆÐA

DAVÍÐS ODDSSONAR FORSÆTISRÁÐHERRA
Á VORÞINGI, 18. maí 1995

Herra forseti, góðir Íslendingar,

Ný ríkisstjórn tók við völdum í landinu eftir kosningarnar sem fram fóru 8. apríl síðastliðinn. Ríkisstjórnin var mynduð aðeins 15 dögum eftir kosningarnar og því skapaðist engin óvissa um stjórn landsins og þróun efnahagsmála, eins og stundum hefur gerst þegar stjórnarmyndunarviðræður hafa dregist mjög á langinn.

Okkar kjördæma-, og einkum kosningaskipan, leiðir til þess að samsteypustjórnir fara að jafnaði með fyrirsvar landsmála. Sjaldnast er ljóst fyrir kosningar hvers konar samstarf tekst á milli flokka eftir kosningar, því oftast nær ganga flokkar til kosninga með algjörlega óbundnar hendur, hvað það varðar. Niðurstaðan varð sú, að stærri stjórnarflokkurinn úr síðustu ríkisstjórn og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn tóku höndum saman um stjórn landsins næstu fjögur árin. Ekki verður annað sagt, en að sú niðurstaða sé í fullu samræmi við úrslit kosninganna og vilja kjósenda eins og hann má lesa út úr niðurstöðum talnanna. Sjálfstæðisflokkurinn var í forystu í síðustu ríkisstjórn og hélt velli í kosningunum. Framsóknarflokkurinn leiddi stjórnarandstöðuna og jók fylgi sitt verulega. Auðvitað voru áherslur þessara tveggja flokka nokkuð ólíkar í kosningunum. Bæði vegna þess að þeir eru ólíkrar gerðar og vegna hins, að flokkarnir komu til kosninganna úr gagnstæðum áttum. Annar flokkurinn leiddi stjórn og hinn stjórnarandstöðu. Engu að síður verður ekki annað sagt en sú stefnuyfirlýsing, sem flokkarnir komu sér saman um, sé rökrétt framhald af kosningabaráttu þeirra. Í stefnuyfirlýsingunni kemur fram, að lögð er áhersla á traust, öryggi og festu á öllum sviðum þjóðlífsins. Það á að varðveita þá stöðu í efnahagslífinu, sem náðst hefur, en jafnframt að gefa fólkinu í landinu og fyrirtækjum þess möguleika á að nýta vel vilja sinn til verka og tryggja jafnræði þeirra í samkeppni við erlenda aðila. Í stefnuyfirlýsingunni eru tíunduð nokkur helstu áhersluatriði sem fylgja verður fast eftir, eigi að ná þeim markmiðum sem ég lýsti. Jafnframt hafa flokkarnir ákveðið að vinna sérstaka verkefnaáætlun, sem verði tilbúin til kynningar fyrir þingi og þjóð á haustdögum. Þar verður gerð grein fyrir helstu þáttum og útfærslu þeirra verkefna sem stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar tekur til.

Herra forseti,

Bati er nú að verða á flestum sviðum efnahagslífsins og mikilvægt er að þar verði enginn afturkippur. Hinu er þó ekki að leyna, að það tekur tíma fyrir þjóð að vinna sig út úr sjö ára stöðnunarskeiði. það verður ekki gert á einum degi eða einum mánuði, en ekki er óeðlilegt að ætla að á fjögurra ára kjörtímabili megi takast að byggja atvinnulífinu traustan grundvöll, stuðla að bættum kjörum í landinu og minnkandi atvinnuleysi. Könnun þjóðhagsstofnunar á atvinnuástandi í apríl 1995, sem birt var 12. þessa mánaðar, sýnir að nú telja atvinnurekendur æskilegt að fjölga nokkuð starfsmönnum, en fyrir ári síðan töldu þeir sig þurfa að fækka fólki töluvert. þetta eru mikil og góð umskipti.

Um allan hinn vestræna heim ber nú mjög á ótta um að velferðarkerfið sé að komast í þrot. Forystumenn í stjórnmálalífi, sem og leiðtogar launþegahreyfingar og forráðamenn atvinnulífs, hafa af þessu vaxandi áhyggjur. Nú má halda því fram, að velferðarkerfið sem slíkt njóti nánast óskoraðs stuðnings allra stjórnmálaafla í landinu, rétt eins og raunin er í nálægum löndum. Það er því ekki vegið að velferðarkerfinu utan frá, á pólitískum forsendum, heldur er meinsemdin innvortis, liggur í kerfinu sjálfu og stjórnlitlum vexti þess, langt umfram það, sem hagvöxtur hefur gefið tilefni til á hverjum tíma. Velferðarkerfinu verður hvorki haldið við hér á landi né annars staðar með auknum lántökum, hvort sem er erlendum eða innlendum. Auðvitað er sá kostur til að ýta vandanum á undan sér einhver misseri eða jafnvel ár með stórkostlegum halla á ríkissjóði og söfnun skulda. Það verður ekki gert endalaust. Slík stefna myndi springa fyrr en síðar. Þá myndi blasa við að sársaukafullur og stórfelldur niðurskurður væri óhjákvæmilegur. Núverandi ríkisstjórn vill ekki fara þá leið. Hún vill stöðva sjálfvirkni í útgjöldum ríkissjóðs á þessum sviðum sem öðrum í tæka tíð án þess að raska velferðarkerfinu sjálfu. Hún vill með kerfisbreytingum nýta þá fjármuni, sem varið er til stærstu útgjaldaráðuneyta og einstakra framkvæmda með sem bestum hætti, til þess að undirstaða velferðar verði treyst, og takast megi með ráðdeild og skilvirkni að veita sambærilega þjónustu og sambærilegt öryggi með svipuðum fjármunum og nú er gert. Með sama hætti verður stefnt að nýskipan í ríkisrekstri, fjölgun útboða, sameiningu stofnana, fleiri þjónustusamningum og breyttu launakerfi sem eflir ábyrgð og frumkvæði stjórnenda. Keppikefli ríkisstjórnarinnar verður að ná jafnvægi í fjármálum ríkisins á kjörtímabilinu. Það er oft haft á orði, að almenningur í landinu hafi lítinn áhuga á hugtökum á borð við ríkissjóðshalla eða jöfnuð í ríkisfjármálum. Umræður um slíka þætti fari fyrir ofan garð og neðan og eigi ekki mikinn hljómgrunn. Vel má vera að þetta sé rétt, en hitt er þó fagnaðarefni að á síðustu misserum hefur aukist skilningur á því, að til lengdar verður ekki eyðslu okkar, sem nú erum á dögum, velt yfir á framtíðina. Hún mun einfaldlega ekki rísa undir slíkri skuldabyrði. En það er ekki síður mikilvægt að afkoma ríkissjóðs og rekstur hans er ekki eingöngu spurning um skuldir næstu kynslóða, heldur hefur óhagstæð afkoma ríkissjóðs þegar áhrif á allt okkar daglega líf. Það er nefnilega óhrekjanleg staðreynd að gangi ríkissjóður harðar fram en tekjur hans leyfa, er hann kominn í bullandi samkeppni við atvinnulífið og einstaklingana í landinu. Þanþol efnahagslífsins leyfir ekki þá togstreitu og margs konar fylgikvillar koma í ljós. Einn sá versti er, að lánsfjáreftirspurn hins opinbera ýtir undir að vextir verði óeðlilega háir. Sem betur fer hefur tekist að tryggja að vextir eru nú svipaðir hér á landi og gerist í okkar nágrannalöndum. En það má ekki mikið út af bera svo vaxtahækkanir verði. Því er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar og þau fyrirheit sem þar eru gefin til þess fallin að treysta grundvöll lágra vaxta og ýta undir vaxtalækkun þegar fram í sækir.

Ríkisstjórnin hefur einsett sér að taka skattakerfið til endurskoðunar og mun leitast við að eiga um það gott samráð við helstu aðila á vinnumarkaði. Markmiðið verður að draga úr skattsvikum, að lækka jaðarskatta, sem eru bersýnilega orðnir truflandi og ganga gegn réttlætisvitund manna um jafnræði í skattheimtu. Um leið verður leitast við að einfalda skattakerfið og gera það öllum skiljanlegra. Skattaívilnunum verður beitt til þess að hvetja almenning í landinu til að leggja áhættufé í atvinnufyrirtæki. Hugsunin er sú, að undirbúningur allra þessara breytinga fari strax af stað og verði lokið á næsta ári þannig að niðurstöðu megi ná um þessi efni í tengslum við þá kjarasamninga, sem gerðir verða í lok þess árs.

Það er ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að auka umsvif ríkisins á þessu kjörtímabili. Áfram verður unnið að einkavæðingu í ríkisrekstri og í fyrstu verður lögð áhersla á að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða. Sama máli gegnir um fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkisins sem eru í samkeppni við einkaaðila. Unnið verður að sölu ríkisfyrirtækja á kjörtímabilinu í samræmi við ákvarðanir Alþingis.

Í kosningaslagnum sem nýlega er afstaðinn gáfust okkur þingmönnum fjölmörg tækifæri til að eiga skoðanaskipti við fjölda kjósenda. Við tókum eftir því, að nokkurs óróleika gætir um skipan sjávarútvegsmála víða um landið. Það þarf ekki að koma á óvart að farvegur óánægju og gagnrýni í þessum mikla málaflokki sé margslunginn. Skoðanir eru mjög skiptar og fara eftir aðstæðum á hverjum stað, nálægð við fengsæl mið hefur áhrif á afstöðu manna, svo og með hvaða hætti uppbyggingu skipaflota og vinnslu í landi er háttað. Ríkisstjórnin leggur áherslu á, að sjávarútvegurinn búi við festu í starfsskilyrðum og þar sé ekki tjaldað til einnar nætur. Á hinn bóginn verður leitast við að bregðast við þeirri gagnrýni og þeim umkvörtunarefnum sem mest bar á í kosningabaráttunni. Í stefnuyfirlýsingunni segir, með leyfi forseta, að ríkisstjórnin hyggist: "tryggja stöðug og góð rekstrarskilyrði útflutningsgreina og stuðla að nýsköpun og sókn í vöruþróun og markaðssetningu." Áréttað er að byggt sé að mestu á aflahlutdeildarkerfi í sjávarútvegi en banndagakerfi svonefndra krókabáta verði tekið til endurskoðunar. Síðan segir: "Skapað verður svigrúm til að rétta hlut þeirra aflamarksbáta sem harðast hafa orðið úti vegna minnkandi þorskafla. Öflugar líffræði- og hagkvæmnirannsóknir eru forsenda skynsamlegrar fiskveiðistjórnunar og eðlilegrar þróunar hennar. Sérstök áhersla verður lögð á að bæta umgengni um auðlindir sjávar. Tryggja þarf hagsmuni Íslands varðandi veiðar utan fiskveiðilögsögunnar með því að afla málstað Íslands fylgis á alþjóðavettvangi og með samningum við aðrar þjóðir. Stefnt er að því að festa í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar og að stjórn fiskveiða og rétti til veiða skuli skipað með lögum." Það er ánægjuefni að margt bendir nú til þess að uppbyggingarstefna í nýtingu sjávarfangs sé loks að bera nokkurn árangur og það jafnvel fyrr en menn gátu ætlað. Þýðingarmikið er að draga ekki of víðtækar ályktanir á þessu stigi af takmörkuðum upplýsingum þótt margt bendi til þess að við séum að komast yfir það versta hvað þorskinn varðar.

Í tiltölulega knappri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er vikið nokkuð að öðrum þáttum en þeim sem ég hef þegar gert að umræðuefni. Þar er meðal annars fjallað um þá erfiðleika, sem landbúnaður og úrvinnslugreinar hans hafa átt í, og sérstaklega áréttað að búvörusamning frá 1991 þurfi þegar að taka til endurskoðunar, m.a. með hliðsjón af þeim mikla vanda sem sauðfjárbændur sérstaklega standa frammi fyrir. Stjórnarflokkarnir eru sammála um að treysta verði tekjugrundvöll bænda og nefna til sögunnar hvað það varðar að nauðsynlegt sé að losa um framleiðsluhömlur og auka sveigjanleika í framleiðslustjórn, stuðla að nýsköpun og fjölbreyttari atvinnu til sveita og auðvelda bændum breytingar á búháttum og búskaparlok. Gæta verður vel að hagsmunum neytenda í þessu sambandi, enda eiga neytendur og framleiðendur, þegar grannt er skoðað, ríka sameiginlega hagsmuni. Á undanförnum árum hefur mikið átak verið gert í vegagerð og ríkisstjórnin mun meðal annars, til að efla byggð í landinu, tryggja markvissar framkvæmdir í samgöngumálum.

Í alþjóðlegri umræðu ber nú, meira en oft áður, á rökræðum um gildi þekkingar og skipun menntamála í einstökum löndum. Nú þegar margar auðlindir veraldar virðast fullnýttar þá horfa þjóðirnar til þekkingar sem þess brunns sem lengi megi ausa úr. Er nú svo komið að flestar þjóðir telja, að því hærra sem menntunarstigið sé í löndunum því betur standi þjóðirnar að vígi í hinni hörðu alþjóðlegu samkeppni um betri lífskjör. Fjárfesting í menntun og þekkingu sé líklegri til að skila arði en fjárfesting í sumum öðrum þáttum hefðbundinar framleiðslu og þjónustu. Það hlýtur því að vera verðugt verkefni ríkisstjórnar og þings á þessu kjörtímabili að tryggja að Ísland verði ekki eftirbátur annarra í þessum miklvæga málaflokki.

Það kom glöggt fram í kosningabaráttunni, sem er nýafstaðin, að skipulag og framkvæmd húsnæðismála hvílir mjög þungt á mörgum og sérstaklega hefur yngra fólkið áhyggjur af því, að erfiðara sé nú en löngum fyrr að koma þaki yfir höfuð nýstofnaðrar fjölskyldu. Ríkisstjórnin mun því leita leiða til þess að greiða götu þess unga fólks sem er að eignast sína fyrstu íbúð. Jafnframt verður hugað að stöðu þeirra sem þegar búa við húsnæðisskuldir vegna lána ríkisins og freistað að finna möguleika á lengingu slíkra lána. Tengingar húsnæðismála og skattamála og þróun jaðarskatta kemur til sérstakra álita þegar verkefnaáætlun vegna þessa málaflokks verður kynnt.

Herra forseti,

Fyrr í þessum mánuði minntust menn þess að fimmtíu ár eru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldar í Evrópu. Af því tilefni var ég viðstaddur hátíðahöld í Moskvu í boði Rússlandsforseta ásamt þjóðhöfðingjum og ráðherrum frá tugum annarra ríkja.

Heimstyrjöldin síðari er mesta blóðbað sem sögur fara af. Talið er að um fimmtíu miljónir manna hafi týnt lífi í styrjöldinni. Ísland lenti í lykilstöðu í orrustunni miklu á hafinu milli Evrópu og Norður-Ameríku. Talið er að rúmlega eitt hundrað íslenskir sjómenn hafi farist beinlínis vegna styrjaldarinnar. Þessi blóðtaka er hlutfallslega álíka mikil og margar miklu fjölmennari þjóðir urðu fyrir. Þá er ljóst, að hefði Þýskaland nasismans sigrað í hernaðinum á meginlandinu, sem munaði ekki miklu, hefði það leitt til langvarandi styrjaldar á Atlantshafi og stórátaka um Ísland.

Af síðari heimsstyrjöldinni má draga margar ályktanir. Ég vil leyfa mér að vekja sérstaka athygli á þremur atriðum.

Fyrsti lærdómur lýðræðissinna af síðari heimsstyrjöldinni var sá, að þegar öfl á borð við nasisma fara á kreik, verður að halda þeim í skefjum af fullri hörku. Þrátt fyrir þá friðarást sem lýðræðisþjóðum er eiginleg, þurftu þær að horfast í augu við að hernaður væri í senn réttlætanlegur og óumflýjanlegur þrátt fyrir fórnir og hörmungar.

Í annan stað er viðurkennt að brugðist var of seint við ógnuninni frá nasismanum. Í kalda stríðinu gegn kommúnismanum stóðust Atlantshafsbandalagsríkin prófið og sigruðu að lokum án styrjaldarátaka. Þau hafa einnig síðan gert sér skýra grein fyrir nauðsyn þess að halda áfram samvinnunni í Atlantshafsbandalaginu til að tryggja öryggi og stöðugleika í Evrópu. Þess vegna verður aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin áfram þungamiðja öryggisstefnu þjóðarinnar.

Þriðji lærdómur lýðræðissinna af síðari heimstyrjöldinni var sá, að vildu þeir tryggja til langframa réttlátan frið yrðu hugsjónir lýðræðis og réttarríkisins að breiðast út um heiminn. Í kjölfar kalda stríðsins hefur þessum hugsjónum vaxið ásmegin, en nýfengið lýðræðið er víða brothætt og annars staðar býr stór hluti mannkyns við einræði og skort á grundvallarréttindum.

Barátta fyrir útbreiðslu lýðræðis og mannréttinda heldur því áfram. Íslendingar eru vopnlaus þjóð, en þeir geta eigi að síður tekið virkan þátt í þessari baráttu og þannig stuðlað að friði og stöðugleika í heiminum.
Ísland hefur í þessu skyni tekið þátt í umfangsmiklu alþjóðlegu samstarfi og á margvísleg samskipti við nágranna sína, ekki síst Evrópuríkin. Málefni Evrópusambandsins eru um þessar mundir í mikilli deiglu. Mikil óvissa ríkir um svonefnda ríkjaráðstefnu sambandsins og almennt er talið að nýr forseti Frakklands hafi töluvert aðrar áherslur en fyrirrennari hans. Hagsmunum Íslands er vel borgið í núverandi stöðu eins og kunnugt er. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að hún vilji: "Treysta samskiptin við Evrópusambandið á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, fylgjast náið með þróun mála innan sambandsins á næstu misserum og kynna íslenska hagsmuni fyrir aðildarríkjum þess. Áhersla verður lögð á að tryggja viðskiptasamstarf og önnur samskipti Íslands við Bandaríkin. Kannaðar verða hugmyndir, sem fram hafa komið um fríverslunarsamstarf Bandaríkjanna og annarra Atlantshafsríkja og hvort í þeim felist sóknarfæri fyrir íslensk fyrirtæki."

Herra forseti,

Ég vil víkja nokkrum orðum að þeim viðkvæmu og alvarlegu deilum sem við Íslendingar höfum átt í vegna stjórnunar fiskveiða, ekki síst á úthafinu. Ekki er hægt með neinni sanngirni að halda því fram, að Íslendingar hafi ekki staðið með ábyrgum hætti að stjórnun fiskveiða, hvort sem er í eigin lögsögu eða á alþjóðlegu hafsvæði. Framganga okkar, bæði á úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og í samningaviðræðum um Barentshaf og um norsk-íslensku síldina, gefur ekkert annað til kynna. En góður vilji okkar dugar ekki einn. Til þess að leysa þessar deilur þarf líkt og í öllum öðrum milliríkjadeilum pólitískan vilja allra samningsaðila. Við Íslendingar höfum sýnt slíkan vilja. Við höfum verið reiðubúnir til að takmarka veiðar okkar á alþjóðlegu hafsvæði í Barentshafi gegn sanngjörnum kvóta, sem fæli í sér mun minni afla en íslenskir sjómenn gætu náð án slíkra samninga. Við höfum boðið að afli og kvóti yrði tengdur stærð þorskstofnsins í Barentshafi, þannig að okkar kvóti félli niður ef stofninn færi niður fyrir tiltekin mörk. Frá því að síldarstofninn hrundi undir lok sjöunda áratugarins hafa Íslendingar ítrekað óskað eftir viðræðum um þann stofn. Þegar Norðmenn féllust loks á að þær viðræður gætu farið fram, vorum við reiðubúnir til þess að líta framhjá allri þessari forsögu og einnig því, að Norðmenn hafi einhliða ákveðið kvóta fyrir sig og Rússa, án eðlilegs samráðs við okkur. Við vorum tilbúnir til þess að semja um sanngjarna hlutdeild í þessum veiðum, líkt og við höfum nefnt í Barentshafi, og að hún yrði minni en við gætum veitt án samninga. Allar fiskifræðilegar forsendur voru fyrir slíkum samningi um síldina. Það má segja að nú sé komið einstakt tækifæri til að ná samningum vegna þeirra stóru árganga síldar sem væntanlegir eru á næstu tveimur árum. Samningsumleitunin átti einungis við veiðarnar í ár, en hefði veitt aukið svigrúm fyrir samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum í framtíðinni. Því miður hafa viðsemjendur okkar ekki haft sama pólitíska vilja og pólitíska þrek til að ná samkomulagi, hvort heldur í Barentshafi eða í síldinni og hefur skort mikið upp á. Mér sýnist augljóst að meginástæðan sé sú, að mál þessi séu í einhvers konar pólitískri klemmu eða hnút hjá viðsemjendum okkar og það leiði til þess að verulega skorti á að nægilegur vilji og sveigjanleiki sé fyrir hendi af þeirra hálfu til að ná samkomulagi. Þetta er miður og auðvitað bindum við vonir við að þessi sjónarmið verði skaplegri hjá okkar viðsemjendum á næstunni, svo fljótlega megi koma á ábyrgri fiskveiðistjórnun á úthafinu. Gerist það ekki er veruleg hætta á að öll þessi mál fari í enn harðari hnút. Það er ekki í samræmi við hagsmuni ríkjanna sem hér eiga hlut að máli. Það er ekki í anda norræns samstarfs og það er ekki í samræmi við vilja núverandi ríkisstjórnar.

Herra forseti,

Það vorþing, sem nú er nýhafið, mun taka nokkur mikilvæg mál til úrlausnar. Ríkisstjórnin væntir þess að hún geti átt gott samstarf við þingið allt um framgang þeirra mála og jafnframt skipun þingmála á kjörtímabilinu í heild. Ef við höldum þeirri festu sem fengist hefur og göngum hægt um dyr efnahagsbatans er bjart framundan í íslensku þjóðfélagi. Hagvöxtur hér á landi að undanförnu stenst fyllilega samanburð við það sem hefur verið að gerast annars staðar. Landsframleiðsla jókst í fyrra um 2,8% og áætlað er að hún aukist um 3% á þessu ári. Þetta eru nánast sömu hagvaxtartölur og að meðaltali í aðildarríkjum OECD fyrir sömu ár. Jafnframt er efnahagur Íslendinga traustari en oft er látið í veðri vaka. Þannig er landsframleiðsla á mann nú um 7% meiri en að meðaltali í OECD og 23% meiri en að meðaltali í Evrópuríkjum OECD. Sé aðildarríkjum OECD raðað eftir verðmæti landsframleiðslu á mann er Ísland nú í 8. sæti af 25 ríkjum. Gera má ráð fyrir því að þorskafli fari hægt en örugglega vaxandi og sæmilegar vonir eru um að álver í Straumsvík verði stækkað. Ástæða er til að ætla að framkvæmdir við Hvalfjarðargöng geti hafist næsta haust og stöðugt gengi og skaplegir vextir muni tryggja að útflutningsiðnaðurinn vaxi enn á næstu árum og jafnframt að ferðaþjónustan eflist. Vaxtarsprotarnir eru því margir og tækifærin fjölmörg og því er mikið í húfi að vel sé haldið á þeim spilum, sem þjóðin hefur nú á hendi. Ríkisstjórnin mun leggja mikla áherslu á að auka samheldni þjóðarinnar, tryggja samvinnu vinnuveitenda og launþega og að sátt ríki milli dreifbýlis og þéttbýlis. Samstillt átak og góð sátt með mönnum mun tryggja að afkoma okkar allra fari batnandi ár frá ári, á því kjörtímabili sem nú er nýhafið. Ég þakka áheyrnina.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum