Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. júní 1995 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Þjóðhátíðarræða 17. júní 1995

17. júní 1995


Ávarp forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, 17. júní 1995


Góðir Íslendingar,

Hinn 1. júlí n.k. verða eitthundrað og fimmtíu ár liðin frá endurreisn Alþingis Íslendinga. Það eru mikil tímamót, þótt rétt sé, að hið endurreista þing hefði á þeim tíma takmörkuð áhrif á þróun íslenskra mála. Endurreisnin var því um sinn aðeins táknræn, en mikilvægi hennar fólst ekki síst í viðurkenningunni á þjóðarsérstöðu Íslands í danska ríkjasambandinu. En umfram allt var þar stigið skref í sjálfstæðisbaráttunni, lítið skref á langri leið - en baráttumenn sjálfstæðisins, Jón Sigurðsson og sveit hans, vissu, að þótt seint kynni að sækjast, yrði hér eftir ekki aftur snúið.

Alþingishúsið hér við suðurenda vallarins reis 35 árum eftir endurreisn þingsins og hefur síðan verið megin umgjörð hins íslenska þingræðis. Vorstörfum þingsins lauk fyrir tveimur dögum og þingmenn hurfu loks á vit sumarsins eftir snarpa lotu. Það má til sanns vegar færa, sem sagt hefur verið, að engum öðrum vinnustað megi líkja við Alþingishúsið. Hvergi annars staðar hafi helmingur starfsmanna það megin hlutverk að draga í efa ágæti hins helmingsins og finna úrræðum hans flest til foráttu. Ráðherrar á hverjum tíma gera sér grein fyrir að á vinnustaðnum er fjöldi vaskra manna, karla og kvenna, sem hafa það að keppikefli að koma þeim í bobba og hafa frammistöðu þeirra í flimtingum. Þessi mynd er þó, sem betur fer, aðeins lítill hluti af þeirri stjórnunaraðferð sem kennd er við lýðræðið og er meingölluð stjórnunaraðferð, en nýtur þess jafnan að önnur skárri hefur hvergi fundist.

Íslendingar liggja sjaldnast á því, að þeim þykja forystumenn þeirra æði oft misvitrir, er þeir ráða málum þjóðarinnar til lykta. Þó mun þeim flestum þannig farið að kjósa að hin lýðræðislega stjórnun landsins fari fremur fram í íslensku stjórnarráði og á íslensku þingi en á framandi kontórum manna, sem enginn hefur kosið og enginn getur náð til. Íslendingar eru Evrópuþjóð í besta skilningi þess orðs og vilja nánasta samleið eiga með nágrönnum sínum í Evrópu. Vel hefur tekist til um að finna samskiptaform í viðskiptalegum og menningarlegum efnum fyrir þessa góðu granna. Svokölluð Evrópumál eru ekki ofarlega á baugi í íslenskri þjóðmálaumræðu. Kannski er það einmitt vegna þess gifturíka millivegs sem fannst fyrir okkar hönd. Innan Evrópusambandsins og í einstökum Evrópusambandslöndum eru deilur þó meiri og átakalínur skarpar. Kannanir sýna, að íbúar þeirra landa, sem sögðu já við inngöngu í Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslum á síðastliðnu ári, sjá nú margir eftir öllu saman. En það er of seint að iðrast. Þjóðaratkvæðagreiðslur um Evrópumál eru aldrei endurteknar, ef meirihlutinn segir já, aðeins ef hann segir nei.

Í gamalgrónari löndum Evrópusambandsins eru deilurnar einnig harðvítugar Þeir, sem ákafastir eru Evrópusinnar, vilja ganga götu Evrópusamstarfsins á enda, aðrir una glaðir við sitt eins og nú er, en þriðji hópurinn vill snúa þróuninni við. Væri Ísland í Evrópusambandinu og gengi samrunastefnan til þess endapunkts, sem trúuðustu samrunamennirnir þrá, mætti með sanngirni segja, að staða hins íslenska Alþingis yrði mjög áþekk því, sem hún var á fyrstu dögum hins endurreista þings, fyrir 150 árum síðan.

En rúmum mánuði áður en hið íslenska Alþingi var endurreist og ljós kviknaði á litlu skari í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, slokknaði annað ljós og íslensk vonarstjarna hvarf af himni. Jónas skáld Hallgrímsson, listaskáldið góða, lifði ekki endurreisn Alþingis, en hann vissi, að hverju stefndi. Og hann vissi einnig að slíkt þing yrði að hafa traustan grundvöll með þjóðinni og hlyti að endurspegla þjóðarviljann og skynja sviptingar í þjóðarsálinni, ef vel ætti að takast til.

"Traustir skulu hornsteinar
hárra sala
Í kili skal kjörviður
bóndi er bústólpi,
bú er landstólpi,
því skal hann virtur vel."

Í merkingu okkar tíma og okkar dags er hver maður bóndi og stólpi búsins og hver fjölskylda er bú og þar með stólpi landsins. Lát þessa fátæka skálds, þessa góða skálds, var mikill atburður og 150. ártíð hans er enn mikill atburður. Íslenskir fjölmiðlar, ekki síst Alþýðublaðið og Morgunblaðið, gerðu minningu skáldsins góða verðug og myndarleg skil og enn sem fyrr mátti skynja að Jónas Hallgrímsson á vin í íslensku þjóðinni. Það skyldi heldur engan undra. Þjóðin hefur ekki í mörgum öðrum átt betri vin og ljóðin hans eru enn í dag að rækta þá vináttu við þjóðina, og munu halda því áfram um alla framtíð.

Um daga Jónasar Hallgrímssonar var mikill munur á móðurríkinu, Danmörku og hinum hrímhvíta kletti, hinum kalda klaka ríkisins í norðri. Munurinn á aumasta koti og hárri höll nægir vart til samanburðar á Reykjavík og Kaupmannahöfn árið 1845. En hvorki Jónas skáld eða Jón forseti efuðust eitt augnablik um tilverurétt þjóðar sinnar, þrátt fyrir það og því síður flögraði að þeim, að þessi þjóð gæti ekki séð málum sínum borgið, fengi hún til þess traust og tækifæri.

Nú, 150 árum síðar, getur Ísland borið sig kinnroðalaust saman við hvaða þjóð sem er. Þetta land hefur ótal kosti, sem margur þráir, sem annars staðar býr. Því er þyngra en tárum taki, þegar velmenntað og velmeinandi fólk er uppfullt af vanmetakennd fyrir þjóðarinnar hönd. Þeir, sem lengst ganga, segja að Ísland geti í besta falli nýst sem verstöð til að tryggja þjóðinni mannsæmandi líf í útlöndum. Reyndar búa fleiri Íslendingar nú við slík skilyrði á þjóðarinnar vegum og á hennar kostnað en nokkru sinni áður, og ætti það fremur að vera til marks um getu þjóðarinnar, en um takmörk hennar. Hann er stærri himingeimurinn á milli vanmetakenndar þeirrar, sem ég gerði að umtalsefni, og heilbrigðs þjóðarsjálfstrausts, en sá himingeimur er, sem nú sem fyrr skilur að háa hnetti.

Í tilefni þjóðhátíðardags berast íslensku ríkisstjórninni fjölmargar heillaóskir frá forystumönnum erlendra ríkja og Íslendingar erlendis hugsa flestir heim. Við metum slíkar kveðjur og hlýjar hugsanir. En fáar kveðjur taka fram kveðjunni góðu sem listaskáldið sendi heim árið fyrir andlátið:

"Nú andar suðrið; sæla vindum þíðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr, sem fer
með fjaðra bliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engil, með húfu og rauðan skúf, í peisu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín."


Fræðimenn hafa skrifað leikandi lærðar greinar um stúlkuna eða stúlkurnar sem Jónas söng um í kvæðum sínum. En íslensku þjóðinni er alveg óhætt enn í dag að taka til sín kveðjuna, sem þrösturinn góði bar frá skáldinu. Ísland, fagurt og frítt og þjóðin, sem landið byggði, átti elsku hans - þjóðin var ekki sísta stúlkan hans, þjóð með húfu og rauðan skúf, í peisu. Jónas kunni Ísland að meta. Við, sem nú erum uppi, skulum einnig sýna, að við kunnum gott að meta.

Góðir Íslendingar,

Ég óska ykkur öllum, nær og fjær, gleðilegs þjóðhátíðardags og góðra stunda.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum