Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. ágúst 1998 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Erfðarannsóknir og gagnagrunnar

Ávarp forsætisráðherra á ráðstefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna um erfðarannsóknir og gagnagrunna
22. ágúst 1998

Ávarp.

Það er fátítt að stjórnmál séu fyrirferðarmikil á Íslandi þegar sól rís hæst og sumartíð er. Þá vilja menn helst sinna öllu öðru fremur. Huga að fjölskyldum sínum, stunda útivist og safna kröftum fyrir komandi vetur. En þetta sumar sker sig úr. Þinghald var dregið fram í júní og síðan hafa menn bollalagt fram og til baka um banka, og um það hvort stofna eigi flokka eða leggja þá niður og loks höfum við rætt um líftækni, jafnt á kontórum sem í kirkjum. Ég er sannfærður um að hið síðastnefnda þessara atriða er það allra mikilvægasta.

Þessi umræða og sú niðurstaða sem fást mun í haust kann að hafa afar víðfeðm áhrif um langa hríð. Meðal annars mun hún hafa áhrif á það hvernig megi takast að bæta heilbrigðiskerfi okkar á næstu áratugum, beita erfðavísindum sem stýritæki í heilbrigðisþjónustunni og auðvelda okkur fyrirbyggjandi lækningar. Líklegt er að fjölmörg ný tækifæri bjóðist í menntamálum og þjóðin fái færi á að skapa enn markvissara menntakerfi en ella, ef vel úr rætist. Þær ákvarðanir, sem við tökum, kunna einnig að hafa áhrif á skilyrði til búsetu í landinu og geta gefið fjölda ungra og hámenntaðra Íslendinga kost á lífvænlegu starfi hér á landi. Einnig snertir málið einstaklinginn beint, einkamál hans, fjölgun atvinnutækifæra, batnandi lífskjör og fjölbreyttara mannlíf á Íslandi.

Aðstæður okkar Íslendinga til rannsókna á arfgengum sjúkdómum eru einstakar. Um það er ekki deilt. Við búum yfir nákvæmum heilbrigðisupplýsingum, þjóðin er einsleit og ættarvensl skýr. Ég tel engan vafa á, að þegar rætt er um að færa okkur þessar staðreyndir í nyt, séu langsamlega flestir nánast sammála um markmiðin. Auðvitað hlýtur að verða ágreiningur um leiðirnar, eins og í nær öllu sem fengist er við hér á landi. Væri reyndar skemmtilegt ef einhvern tíma tækist að finna og einangra þras- og sundurlyndisgenið, sem oft hefur staðið í vegi fyrir framförum í þessu landi.

Ég vil, góðir fundarmenn, leyfa mér í þessu ávarpi að víkja að nokkrum þáttum sem hafa verið fyrirferðarmiklir í umræðunni. Mjög hefur verið staldrað við þá hugmynd, sem er einn hluti þessa máls, að veita einkaleyfi í vissan tíma á tilteknum aðferðum. Mörgum verður órótt þegar sá þáttur er nefndur. Sjálfsagt væri best ef aldrei væri knýjandi ástæða til að veita nokkrum manni einkaleyfi á nokkru sviði. Þá væri það ekki hlutverk ríkisvaldsins að taka umdeilanlegar og umdeildar ákvarðanir um það, hvort eigi að veita slík leyfi, hvernig, hverjum og loks hve lengi slík leyfi skuli gilda. Hins vegar verður að horfast í augu við það, að á vissum sviðum þekkjum við ekki aðrar betri aðferðir. Í nær öllum atvinnugreinum er vernd eigin aðferða eða verka meginforsenda fyrir tilvist fyrirtækja. Þegar hefðbundin vara eða þjónusta á í hlut er nokkuð einfalt að skilgreina umráð og ábyrgð, en þar sem afurðir fyrirtækjanna byggjast á sérþekkingu eða aðferðafræði er þessi vernd öllu snúnari. Það er þess vegna sem ríkisvald um allan heim ver með löggjöf höfundarrétt og vörumerki og veitir svokölluð patent og sérleyfi. Allt eru þetta angar af einkaleyfi.

Heimurinn væri því til muna fátæklegri ef einkaleyfi væru ekki til. Fjölmörg lyf, sem við notum gegn allra handa sjúkdómum, sum hver lífsnauðsynleg, hefðu ekki orðið til nema vegna tímabundinna einkaleyfa. Ástæðan er einföld og augljós. Oftar en ekki háttar svo til að mikil óvissa ríkir um einstakar rannsóknarniðurstöður. Vísindamenn geta engu að síður í skjóli tímabundinnar verndar varið miklu fé til þróunar og athugana án þess að eiga á hættu að aðrir hirði á augabragði allan afraksturinn af þekkingarleitinni og þeir sjálfir sitji eftir með sárt ennið og fái ekki borið frumkvöðulskostnaðinn uppi. Dæmisagan um litlu gulu hænuna sem fann fræ segir okkur að hver og einn mun ekki leggja á sig mikið erfiði umfram aðra, ef allir geta notið til jafns þegar árangur erfiðisins skilar sér, líka þeir sem litlu eða engu hafa kostað til. Í þeim tilfellum, þar sem veiting einkaleyfa á við, er slík skipan því ekki andstæða hefðbundins samkeppnismarkaðar. Þvert á móti. Hún er forsenda þess að hvati sé fyrir frumkvöðla til að taka áhættu og skapa verðmæti, og í okkar tilfelli fyrir vísindamenn til að skapa þekkingu og stuðla að bættu heilbrigði.

Vegna þess viðfangsefnis sem við höfum til meðferðar og snýst um gagnagrunn á heilbrigðissviði er nauðsynlegt að undirstrika rækilega að veiting tímabundins einkaleyfis á slíkri aðferð á ekki að hefta aðra vísindastarfsemi, hvorki frá því sem nú er, né þá framtíðar möguleika sem síðar kunna að koma upp. Upplýsingar eru þess eðlis að þær minnka ekki þótt af sé tekið. Þvert á móti. Alkunna er að markviss nýting upplýsinga leiðir af sér nýjar. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að skipulag og meðferð heilbrigðisupplýsinga muni verða gert skilvirkara á sjúkrastofnunum landsins. Forsendur til vísindaiðkana ættu því heldur að batna. Að auki er ætlunin sú, að nefnd skipuð af heilbrigðisráðherra tryggi aðgang að afurðinni, gagnagrunninum, til þess háttar vísindastarfs, sem ekki vegur að beinum viðskiptahagsmunum sérleyfishafans, um það stutta skeið sem hann nýtur frumkvæðisréttar síns.

En málið lýtur ekki aðeins að vísindum og heilbrigðismálum, það þarf einnig að gæta þjóðarhags í fjárhagslegu tilliti. Sú aðferð sem um er rætt, til að breyta upplýsingum í verðmæti, er enn að mestu ónumið land. Hitt er á hinn bóginn borðleggjandi að sé ekki lagt í rannsóknir og þróun til að beisla þessa aðferð, verða engin verðmæti til. Menn gætu rétt eins reynt að njóta skáldsögu, sem aldrei hefur verið skrifuð. Til þess að hægt sé að leggja í þessa löngu vegferð þarf mikla orku, tíma og ekki síst þolinmóða fjárfesta sem eru tilbúnir að leggja með fjármagn út í óvissuna. Tímabundið einkaleyfi gerir ekki annað en að draga örlítið úr þeirri óvissu. Ég held að flestir geti verið sammála um, hugsi þeir málið hlutlægt, að standi vilji til þess að íslensk líftækni stuðli að sem mestum framförum í heilbrigðismálum fyrir meðalgöngu gagnagrunns, verði hún í upphafi að njóta nokkurs skjóls með þá tilteknu afurð sína og þekkingarsköpun. Áfram verður þó fullt svigrúm fyrir fleiri fyrirtæki í þessari atvinnugrein.

Virðing fyrir frumherjaréttinum hefur skírskotun langt út fyrir hátækni- og þekkingariðnaðinn einan. Við hljótum að leita svara við því hvers konar hugafar, viðleitni, metnað og mannlíf viljum við rækta með okkur. Mér þykir einsýnt að við verðum að gæta þess að bæla ekki niður frumkvæði eða gera einstaklinga áhættufælna, hvað þá þjóðina alla. Ef frumkvöðullinn á ekki að njóta neins umfram aðra og ef við ætlum að innheimta afraksturs hans áður en nokkur verðmæti hafa verið sköpuð, þá höldum við slíkum eiginleikum einfaldlega niðri. Við fáum þá hvorki notið sköpunargáfu né þrótts þjóðarinnar sem skyldi, hvorki í bráð né lengd.

Íslenska ríkið hefur hins vegar skilvirk tæki til að fá hlutdeild í verðmætum sem þegar hafa verið sköpuð í þjóðfélaginu. Of skilvirk mundu sumir segja, enda er nú leitast við að lækka skatta og álögur. Sú þjóðfélagsgerð sem við höfum verið sátt við að varðveita hefur hins vegar tryggt að munur á kjörum þeirra verst settu og hinna sem mest hafa, er hvergi minni en einmitt hér á landi. Ef til þess kemur að afrakstur af myndun og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði verði jafn gríðarlegur og sumir hafa nefnt er öruggt að allir Íslendingar fái sinn skerf. Bæði munu arður eigenda, umbun starfsmanna og dreifikerfi markaðsskipulagsins leggja þar sitt af mörkum. Þar við bætist að sérleyfishafinn myndi að sjálfsögðu bera allan þann kostnað sem skapast hjá ríkinu vegna starfsemi hans. Aðalatriðið er hins vegar að sérleyfishafinn lúti íslenskum reglum og greiði þá íslensku skatta sem ég áður gat um og fáir telja of nauma. Erlent áhættufjármagn breytir þar engu um. Ef útlendingar njóta arðs af fjárfestingum eða viðskiptum á Íslandi er það einmitt vegna þess að við erum að skapa hér verðmæti sem nýtast ekki síst okkur sjálfum. Og auðvitað er við meðferð málsins hægt að tryggja enn betur afrakstursþáttinn, telji menn það nauðsynlegt.

Íslensk stjórnvöld hafa unnið sérstaklega að því á undanförnum árum að beita almennum hagstjórnaraðferðum í landinu og tryggja að sömu leikreglur eigi hvarvetna við. Hefur þessi viðleitni þegar borið mikinn árangur. Þess vegna er því nú orðið almennt fagnað að látið hefur verið af sértækum aðgerðum, svo sem einstökum styrkjum eða sérhönnuðum innheimtuaðferðum, sem lúta síbreytilegum pólitískum dyntum. Blessunarlega er atvinnulíf okkar að verða sífellt fjölbreyttara og við njótum fjörlegs kaupmáttarbata þessi misserin. Ein af ástæðum þess er einmitt sú að stjórnarfarið er hlutlausara gagnvart atvinnugreinum en áður og að athafnalífið treystir því að samfella ríki í viðbrögðum hins opinbera. Þetta grundvallarviðhorf okkar til hlutverks ríkisvaldsins er nauðsynlegt að hafa í huga, þegar rætt er um að breyta skattkerfi okkar í sífellu eftir því sem vöxtur og viðgangur einstakra atvinnugreina breytist.

Ýmsir þykjast sjá fyrir sér að hin nýja atvinnustarfsemi sem hér er til umræðu sé ávísun á stórfelldan gróða. Það væri mikið fagnaðarefni fyrir okkur öll ef svo væri. Reyndar er ástæða til þess að hafa fulla stjórn á væntingum sínum um ofsagróða í þessu sambandi. Þótt líftæknin sé spennandi og vaxandi grein verðum við að hafa hugfast að af þeim fleiri hundruðum fyrirtækja í heiminum sem starfa á þessu sviði eru það aðeins örfá sem byrjuð eru að greiða út arð. Skýringarnar eru þær að kostnaðurinn er enn afar hár og óvissan einfaldlega mjög mikil. Vissulega eru aðstæðurnar á Íslandi heppilegar. En ef fjárhagsleg afkoma af þessari grein á Íslandi verður sérlega myndarleg eigum við á þeim tímapunkti að líta á niðurstöðuna sem góðan kjaraauka og efnahagslegan ávinning. Ofsagróða af einhverju tagi megum við hvorki að gefa okkur sem forsendu né líta á sem orðinn hlut. Gullæðið hefur fyrr gert þjóðir að glópum.

En fleira þarf að ræða en Mammons mat í þessu sambandi. Þar kemur fyrst til hið háleita markmið, bætt heilbrigðisþjónusta. En í því sambandi er brýnt , að ganga úr skugga um að réttur einstaklingana sé virtur. Hráefnið í þessa framleiðslu er upplýsingar um fólk. Þess vegna er grundvallaratriði að einkamál einstaklinga séu ekki hagnýtt gegn vilja þeirra, eins og stjórnarskráin á reyndar að tryggja. Fyrir þau okkar, sem ekki munum kjósa að standa utan gagnagrunns af þessu tagi, þarf að vernda upplýsingarnar sem allra best. Og við þurfum einnig að vita hve mikil hætta er á að slík verndi bresti. Því miður höfum við Íslendingar ekki gætt nægilega vel að því fram að þessu að sjúkrasaga tiltekinna einstaklinga komist ekki að hluta eða öllu leyti í rangar hendur. Ég held að mörgum sjúklingi brygði ef hann vissi hve margir óviðkomandi aðilar, tugir og jafnvel hundruðir, hefðu beinan og auðveldan aðgang að þeim upplýsingum sem hann hélt að hann væri að segja lækninum sínum einum í trúnaði. Slíkar upplýsingar hafa nánast legið á glámbekk á undanförnum áratugum hér á landi. Því láta hátíðleg ummæli sumra lækna, þeim sem til þekkja æði undarlega í eyrum. Það breytir ekki hinu, að gagnagrunnurinn má ekki auka á aðgengi óviðkomandi að einkamálum okkar. Þvert á móti er ætlunin að upplýsingarnar verði aftengdar persónum áður en sérleyfishafinn fær þær í hendur. Að auki er gert ráð fyrir að ekki sé hægt að einangra upplýsingar um tiltekna einstaklinga eða lítil ættartré í grunninum, þótt ópersónutengdar séu, heldur verði unnið með hópa skipaða tugum einstaklinga.

Skipan gagnagrunnsins, eins og henni hefur verið lýst, sem lúta mun ströngu eftirliti Tölvunefndar, ætti því að draga úr hættu á misnotkun. Aðalatriðið er að almenningi sé gert ljóst hvernig þessum málum er háttað, svo fólk hafi raunsannar forsendur til að ákveða hvort það vilji að upplýsingar um sig séu innan eða utan grunnsins. Því miður vantar mjög upp á að læknar hafi gert sjúklingum grein fyrir stöðu þeirra hvað þetta varðar á undanförnum árum, eins og áður sagði. Við verðum að átta okkur á að röng notkun sjúkraupplýsinga í gagnagrunni er glæpsamlegt athæfi. Það er hins vegar ekki nærri alltaf refsivert, þegar sjúkraupplýsingar um nafngreinda einstaklinga komast til rangra aðila í núverandi fyrirkomulagi. Við eigum því að nota tækifærið sem þessi umræða hefur skapað til að bæta vernd persónuupplýsinga á sjúkrastofnunum landsins og í öllu heilbrigðiskerfinu.

Ágætu gestir.

Hér á eftir fer umræða virtra sérfræðinga og hagsmunaaðila um erfðarannsóknir og gagnagrunna. Í lokin mun ráðherra vísindamála, Björn Bjarnason, taka saman niðurstöður og ræða framtíðarsýn á þessu mikilvæga sviði. Ég vil fagna því að þessi ráðstefna fari nú fram og þakka stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna fyrir þeirra framtak. Aðalatriðið er að öll helstu sjónarmið séu kynnt til sögunnar og fram komi af hvaða rótum þau eru sprottin. Með þeim hætti er okkur öllum auðveldað að mynda okkur afstöðu til málsins og komast að niðurstöðu um hvernig hollast sé og heillavænlegast að standa þessum málum svo að ávinningur okkar og annarra um víða veröld verði sem mestur.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum