Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. nóvember 1998 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Stefnuræða 1998

Stefnuræða
Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra
1. október 1998


Herra forseti.

Í dag hefst síðasta þing þessa kjörtímabils. Það er ekki ofsögum sagt að það hafi verið viðburðarríkt, enda hafa fjölmörg stór mál fengið afgreiðslu. Erfitt er að finna mörg önnur kjörtímabil í sögu lýðveldisins þar sem jafnmiklum árangri hefur verið náð og hagur borgaranna hefur breyst jafnmikið til batnaðar og á þessu. Kemur hér margt til. Þegar horft er til baka til upphafs kjörtímabilsins og skoðað er, hverjar voru væntingar manna í kosningunum, sem fóru á undan, hvaða baráttumál stjórnmálaflokkarnir settu á oddinn, þá sést árangurinn í skýru ljósi. Menn höfðu haft þungar áhyggjur af því, að kaupmáttarhrunið sem hófst 1988, væri óbreytanlegur veruleiki, tjón sem þjóðin fengi seint bætt. Kaupmáttarhrunið sjálft hafði að vísu verið stöðvað og við vorum farin að fikra okkur í rétta átt. En fæstir sáu fyrir að stökkið fram á við yrði svo stórt og ávinningurinn jafn mikill. Kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna á mann hefur orðið milli 17 og 18 prósent á árunum 1996 til 1998. Á sama tíma hefur hún orðið aðeins rúmlega fjögur og hálft prósent í löndunum sem við berum okkur saman við. Það þykir þó ekki slakt í þeim löndum. Kaupmáttur Íslendinga hefur þannig vaxið nærri fjórum sinnum hraðar en í samanburðarlöndunum. Slíkur árangur var óþekktur á Íslandi. Þrátt fyrir miklar launahækkanir er hagur atvinnuveganna góður, þegar á heildina er litið. Góð afkoma þjóðarbúsins skilar sér þannig bæði til heimila og fyrirtækja. Og fyrir þessar sömu kosningar höfðu menn miklar áhyggjur af atvinnuleysinu, það var rauði þráðurinn í öllum ræðum frambjóðenda. Atvinnuleysið hefur minnkað jafnt og þétt á þessu kjörtímabili og er nú með því minnsta sem þekkist um víða veröld. Það er mikið gleðiefni.

Við höfðum líka verulegar áhyggjur af lánstrausti þjóðarinnar út á við, vegna vaxandi skuldasöfnunar hins opinbera og þess óróleika, sem verið hafði í efnahagsmálum, ekki síst á níunda áratugnum. Hér hefur viðsnúningurinn kannski orðið mestur. Á þessu ári og hinu næsta eru Íslendingar að greiða niður skuldir ríkisins um 30 þúsund milljónir króna. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir sem hafa strax áhrif, því vaxtabyrðin fer nú minnkandi frá ári til árs. Þeir fjármunir, sem við þurfum að setja til hliðar, til að greiða útlendingum vexti af lánum okkar, fara nú ört lækkandi. Og við upphaf kjörtímabilsins höfðu margir frambjóðendur áhyggjur af því, að Ísland yrði undir í samkeppni við önnur ríki. Urðu ýmsir til að fullyrða, að þar sem Ísland hafnaði því að gerast aðili að Evrópusambandinu, mundi landið dragast hratt aftur úr. Reyndin varð ekki sú. Ekki aldeilis. Samkvæmt þeim mælistikum, sem taldar eru öruggastar og alþjóðlegar stofnanir beita, hefur Ísland skipað sér í fimmta sæti þeirra þjóða, sem mestrar velferðar njóta í heiminum öllum. Og lánstraust þjóðarinnar vex ár frá ári, að mati þeirra stofnana sem fremstar standa í þeim fræðum. Slíkir dómar eru ekki eingöngu til þess fallnir að gleðja metnaðarfulla þjóð, heldur eru þeir hreinn ávinningur fyrir hana í beinhörðum peningum. Vaxtabyrði okkar lækkar vegna þess að við njótum vaxandi trausts.

Við upphaf kjörtímabilsins héldu margir að það kynni að hamla framförum að við værum illilega bundin á klafa gamallar verkaskiptingar í íslensku atvinnulífi. Fjárfestingar höfðu staðið í stað og margvíslegar tilraunir til að bæta úr höfðu ekki dugað. Hæstvirtur iðnaðar- og viðskiptaráðherra og þeir aðrir sem þar hafa tekið til hendi á kjörtímabilinu geta glaðst yfir góðum árangri það sem af er og enn hafa menn mörg járn í þessum eldi. Og nýjar útflutningsgreinar hafa nýtt sér þau hagstæðu skilyrði sem frjálsari efnahagsstefna hefur skapað. Nú er svo komið að útflutningstekjur af hugbúnaði eru að nálgast 2000 milljónir króna á ári. En slíkur útflutningur var óþekktur fyrir fáeinum árum. Þetta er heldur betur búbót fyrir íslenskt samfélag. Auðvitað fagna flestir þessari jákvæðu þróun, en stjórnarandstaðan kýs að hafa það svo, að allur þessi árangur hljóti eingöngu að vera ytri aðstæðum að þakka. Hinir erlendu lánshæfis einkunnagjafar eru ekki sömu skoðunar. Í þeirra umsögnum, sem og annarra alþjóðlegra stofnana, kemur þvert á móti fram, að það er einmitt stefna stjórnvalda, sem haft hefur úrslitaáhrif: Breytingar á löggjöf í frjálsræðisátt, stöðugleiki á vinnumarkaði, skynsamlegir kjarasamningar, breytt skattastefna og minni bein afskipti af atvinnulífinu hafa ráðið úrslitum um þessa góðu vegferð.

Á hinn bóginn er rétt að gera sér grein fyrir, að þótt við getum gert ráð fyrir að Íslendingar muni áfram njóta velmegunar, aukins hagvaxtar og bætts kaupmáttar, þá er óhjákvæmilegt að setja fyrirvara við slíka spá. Við erum vissulega á réttri leið, en við vitum að því miður eru til þeir aðilar í þjóðfélaginu, sem vilja beygja út af þeirri braut. Þeir, sem taka snögglega beygju, þegar þeir eru staddir á beinu brautinni, fara út af og kollkeyra sig og þá aðra sem glepjast á að vera með í för. Við höfum nýlega séð uppskrift af slíkri kollsteypu. Hún var tilkynnt sem forskrift að efnahagsstefnu nýs flokkabræðings til fjögurra ára. Þeir aðilar, sem kynntu þá stefnu sína svo, hafa af skiljanlegum ástæðum verið á harðahlaupum á undan sjálfum sér og stefnu sinni síðustu daga, og vilja sumir ekki lengur við afkvæmið kannast. Þessa sögu þekkjum við. Það breytir engu, þótt sumir hafi kosið á gamaldags hátt að hafa uppi stóryrði um þá sem vöktu athygli á, hvílík ómynd allur sá málatilbúnaður var. Eftir situr vissan um það, að þessir aðilar, sem hafa sýnt á spilin sín, eru albúnir til þess að beina þjóðinni í hið gamla far, og þar með setja efnahagslegan ávinning hennar í uppnám. Ef svona færi fram myndi mat alþjóðlegra stofnana á getu okkar í samkeppni falla hratt. Lánshæfi landsins mundi þegar minnka og vaxtakjörin versna. Óróleikinn innanlands yrði þó enn erfiðari viðureignar. Um þetta útspil þarf ekki að hafa fleiri orð.

Svo sem venja stendur til hafa háttvirtir þingmenn fengið í hendur lista yfir lagafrumvörp sem koma munu til kasta Alþingis. Sá listi sýnir að háttvirtra þingmanna bíður mikið starf. Þótt kosningavetur fari í hönd og það hafi áhrif á vinnubrögð er óhætt að gera ráð fyrir að um flest mál verði þokkalegur friður og þau fái málefnalega meðferð. Hæstvirtur fjármálaráðherra hefur lagt fram fjárlagafrumvarp sitt. Þar er byggt á að ríkissjóður verði rekinn hallalaus. Útgjöldum verður haldið í skefjum og vaxandi tekjur eru notaðar til að greiða niður skuldir ríkisins, ekki síst hinar erlendu skuldir. Ég er ekki í vafa um að sú stefna er í fullu samræmi við þjóðarviljann. En þrátt fyrir aðhald, sem óhjákvæmilegt er að sýna við núverandi aðstæður, er gert ráð fyrir hærri framlögum en áður til mikilvægra málaflokka, svo sem menntamála, heilbrigðismála og félagsmála. Á öllum þessum sviðum erum við Íslendingar sem betur fer í fremstu röð og það er ófrávíkjanlegur ásetningur ríkisstjórnarinnar að halda þeirri stöðu.

Atvinnuleysið hefur minnkað jafnt og örugglega á kjörtímabilinu. Það sparar ríkinu mikið fé og fleiri störf skapa ríkinu og sveitarfélögum auknar tekjur. Ríkisstjórnin ákvað að lækka skatta í áföngum, bæði á fyrirtækjum og einstaklingum. Tveir áfangar skattalækkana hafa þegar átt sér stað og síðasta skrefið verður stigið nú í janúarbyrjun, þegar skattar lækka enn, um leið og laun hækka í samræmi við samninga. Við trúðum því staðfastlega að þessar breytingar mundu auka áræði fólks og fyrirtækja, og ríkið stæði því ekki verr, þegar þau áhrif kæmu að fullu fram. Það hefur gengið eftir. Okkar skattkerfi er þannig upp byggt, að þegar tekjurnar aukast hjá einstaklingunum, þá nýtur ríkið góðs af því og fær heldur meira í sinn hlut, en tekjuaukningin ein gæfi tilefni til. Þegar tekjur einstaklinga dragast á hinn bóginn saman, þá tekur skattkerfið með mildari hætti, en annars staðar gerist, á þeim breytingum. Skattalækkunarstefna ríkisstjórnarinnar er að skila miklum árangri og er auðvitað miklu heppilegra að ganga fram með þessum hætti, en að auka tekjur ríkissjóðs með beinum skattahækkunum. Þær draga úr þrótti einstaklinga og fyrirtækja, og búa til vítahring aukinna skatta og minnkandi tekna. Hugmyndum, sem settar hafa verið fram og draga úr skilvirkni staðgreiðslukerfis skatta, er algjörlega hafnað af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Við höfum heyrt yfirlýsingar forystumanna stjórnarandstæðinga, um að þeir vilji hækka fjármagnstekjuskatt í allt að 40%. Hér eru menn enn að leika sér með gáleysislegar hugmyndir. Ef þessar hugmyndir formanns Alþýðuflokks gengju eftir yrðu þær rothögg á sparnaðinn í landinu og myndu kalla á mikla vaxtahækkun. Ekki þarf að lýsa þeim erfiðleikum fyrir íslenska framleiðslustarfsemi, sem slíku myndi fylgja. Útflutningur og þar með tekjur þjóðarinnar myndu dragast hratt saman. Þessar hugmyndir eru dæmi um þá skammsýni, og afturhvarf til fortíðar, sem mjög bar á í þeim tillögum sem frægar urðu á dögunum.

Áður var vikið að aukningu fjárfestinga á Íslandi. Uppbygging á borð við þá, sem orðið hefur í líftækni og erfðarannsóknum, er afar mikilvæg. Á þeim vettvangi gefst nú hundruðum vel menntaðra Íslendinga færi á að glíma við vel launuð og áhugaverð störf. Vísindaleg þekking fær útrás í íslensku atvinnulífi allri þjóðinni til heilla. Í þessu ævintýri felast nýir möguleikar á stórbættu heilbrigðiskerfi, um leið og skotið er fleiri stoðum undir íslensk lífskjör. Þær breytingar, sem orðið hafa í efnahagslegu umhverfi gera það að verkum að minni hætta er á, að þensla í kjölfar uppgangs í atvinnulífi, leiði til kollsteypu eins og stundum gerðist við áþekkar aðstæður.

Nú er beitt almennri hagstjórn í landinu og leitast við að tryggja að sömu leikreglur eigi hvarvetna við. Sértækar aðgerðir heyra sögunni til. Árangurinn blasir við. Atvinnulíf okkar er að verða sífellt margbrotnara og jafnframt hæfara til að bregðast við síbreytilegum aðstæðum. Stjórnarfarið er nú hlutlausara gagnvart einstökum atvinnugreinum en áður. Nú má treysta því að samfella ríki í viðbrögðum hins opinbera, og að það refsi ekki fyrir áhættu og frumkvæði.

Enn þarf þó þjóðin að reiða sig á að okkur takist hönduglega að sækja sjóinn, vinna fisk og selja til útlanda. Það er ekki um það deilt, að núverandi skipan fiskveiða stuðlar að mikilli verðmætasköpun. Víðast hvar annars staðar í heiminum er sjávarútvegur hins vegar þungur baggi. Vék hæstvirtur utanríkisráðherra skilmerkilega að þessum þáttum í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nú fyrir skemmstu. Það er því með nokkrum ólíkindum þegar stjórnmálaflokkar eða framboðsbræðingar segjast vilja kasta fiskveiðistjórnunarkerfi okkar í heild sinni fyrir róða, án þess að geta bent á, hvað koma eigi í staðinn. Þeir, sem sýna slíkt ábyrgðarleysi, ætla sér bersýnilega ekki í bráð að leita eftir því að mega hafa forystu fyrir þjóðinni.

Á hinn bóginn er ljóst að ýmsir þættir er varða sjávarútvegsmál hljóta að lúta endurskoðun og lagfæringum. Þjóðin þarf að eiga betri aðgang að upplýsingum um undirstöðuatvinnugrein sína en verið hefur. Þá er mjög þýðingarmikið að nú er að störfum svokölluð auðlindanefnd, sem allir flokkar eiga aðild að. Þessi þverpólitíski vettvangur er kjörinn til að skoða æsingalaust og án fordóma þætti sem lúta að nýtingu auðlinda og afrakstri af þeim.

Það er lykilatriði að þjóðin upplifi hagkvæma auðlindanýtingu í landinu sem þjóðarheill. Bein og formleg bönd þar á milli verða að vera traust. Má í því sambandi horfa til nýfenginnar reynslu af því hvernig Íslendingar tóku breytingum á eignarfyrirkomulagi Landsbanka Íslands. Þúsundir landsmanna flykktust til að eignast hlut í þeim rekstri. Mjög margir taka nú þegar þátt í útgerð víðs vegar um landið, svo ekki sé talað um ef eignatengsl í gegnum verðbréfa-, hlutabréfa- og lífeyrissjóði eru tekin með í reikning. Að auki njóta landsmenn hagkvæmrar nýtingar á sjávarfangi í gegnum niðurgreiðslu skulda útvegs við opinbera aðila, blómlega sambúð hans við aðrar greinar, vaxandi skattgreiðslur frá fyrirtækjum á þessu sviði og dreifikerfi opins hagkerfis á þeim verðmætum sem í greininni skapast. Það er sem sagt einfaldlega engin tilviljun að Íslendingar njóta ríflegs kaupmáttarbata á sama tíma og sjávarútvegurinn er í sókn. Hins vegar ætti að skoða vandlega hvort hið opinbera geti í samvinnu við forráðamenn í útvegi beitt sér fyrir aðgerðum sem leiða myndu til þess að enn fleiri Íslendingar, jafnvel stærsti hluti þjóðarinnar, tækju beinan þátt í útgerð. Með því yrði skýrara að hér er um þjóðargrein að ræða, sem öllum nýtist. Verði hinn mikli gróði í þessari grein sem sumir spá og sumir virðast óttast, þá myndi hann fljóta hratt út í þjóðfélagið og tortryggni yrði minni en ella.

Það skiptir íbúa hinna dreifðu byggða öllu að undirstöðuatvinnuvegur þeirra sé þróttmikill, njóti ekki lakari kjara en aðrar greinar og búi við almennt traust landsmanna. Stefnumótun í byggðamálum, sem stjórn Byggðastofnunar undirbjó og kynnt var á Alþingi sl. vor verður flutt og afgreidd á þessu þingi. Ekki er vafi á, að hún á að geta veitt góða viðspyrnu í byggðamálum, verði vel á eftir fylgt og vonandi snúið vörn í sókn. Langtímaáætlun í vegagerð, sem nú er í fyrsta sinn unnið eftir, verður einnig mikilvægt tæki í þeirri baráttu. Hagur bænda, sem verið hefur þröngur, fer nú nokkuð batnandi og er það mikið fagnaðarefni. Hafa bændur sýnt mikið þolgæði við erfiðar aðstæður og eru samningar þeirra við ríkisvaldið nú smám saman að skila þeim og neytendum betri hag. Gróska í ferðaþjónustu, sem er mikil um þessar mundir, ýtir undir væntingar manna. Þarna felast miklir möguleikar, sem búa þarf í haginn fyrir og mun ekki síst landsbyggðin fá mikinn styrk af þessum vaxtarbroddi íslensks atvinnulífs.

Herra forseti.
Ísland býr enn við ríka sérstöðu, þótt það sé nú í nánari snertingu við alþjóðlegt umhverfi en áður. Þá sérstöðu landsins á að viðurkenna og nýta. Í mjög athyglisverðri ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sagði hæstvirtur utanríkisráðherra: "Það er órökrétt og ósanngjarnt að neita löndum um réttinn til að nýta hreina og endurnýjanlega orku til iðnaðar og leyfa á sama tíma að iðnaður, sem notast við mengandi jarðefnaeldsneyti, sé settur á fót annars staðar."

Ísland er og verður í fremstu röð á sviði umhverfismála. Það þýðir á hinn bóginn ekki að forystumönnum þjóðarinnar beri ekki að sjá til þess, að Íslendingar búi við sanngjörn skilyrði, þegar ákveðnum þáttum umhverfismálanna er markaður rammi með alþjóðlegum samþykktum. Íslensk stjórnvöld væru að bregðast hlutverki sínu með ámælisverðum hætti, ef þau gættu ekki hagsmuna Íslendinga að þessu leyti, eins og hæstvirtur utanríkisráðherra og hæstvirtur umhverfisráðherra hafa af einurð gert fyrir okkar hönd.

Á alþjóðlegri ráðstefnu í Japan á síðasta ári um aðgerðir til að draga úr losun svonefndra gróðurhúsalofttegunda var samþykkt Kyoto-bókunin, sem svo er kölluð. Þar er gert ráð fyrir að á Íslandi geti losun slíkra lofttegunda að hámarki verið tíu prósentum meiri á árunum 2008 til 2012 en hún var árið 1990. Þetta torveldar okkur að nýta íslenska orku með þeim hætti sem vonir höfðu staðið til. Engin þjóð myndi í alþjóðasamningi fórna baráttulaust möguleikum sínum til að bæta lífskjör sín með nýtingu auðlinda sinna.

Iðnríkin, sem gengist hafa undir að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um fáein prósent, eiga fæst í erfiðleikum með að ná því markmiði. Það gera sum þeirra með því að leggja af mjög mengandi starfsemi, sem þegar er orðin óhagkvæm og úrelt. Slíka kosti eiga Íslendingar ekki. Á hinn bóginn gjöldum við þess að hafa að mestu lokið hitaveituvæðingu landsins fyrir árið 1990, en Kyoto-bókunin er miðuð við það ártal. Hefði hitaveituátakinu ekki verið lokið fyrir þennan tíma ættu Íslendingar þar innistæðu og ættu auðveldara með að fallast á niðurstöðu fundarins í Kyoto.

Unnið er að því að afla sjónarmiðum Íslands fylgis á alþjóðavettvangi. Það skaðar hins vegar hagasmuni landsins út á við, ef þessi viðleitni er gerð tortryggileg heima fyrir. Almennt er viðurkennt að hrein og endurnýjanleg orka er forsenda stóriðju á Íslandi. Með þeirri nýtingu er einmitt dregið úr mengun í heiminum. Gagnvart okkur gengur því Kyoto-bókunin þvert á sín eigin markmið.

Herra forseti.
Í opinberri heimsókn til Grænlands, sl. sumar gafst kærkomið tækifæri til að rækta tengslin við grannþjóðina í vestri. Grænlenska landsstjórnin er mjög áhugasöm um að efla samskipti og samstarf á milli þjóðanna. Gefin var út sameiginleg yfirlýsing forsætisráðherra Íslands og formanns landsstjórnar Grænlendinga um aukna samvinnu á ýmsum sviðum, svo sem í heilbrigðis-, menningar-, viðskipta- og í sjávarútvegsmálum. Varðandi hið síðasttalda er byggt á ítarlegum samstarfssamningi, sem sjávarútvegsráðherrar landanna undirrituðu í júlí í sumar.

Ákveðið var að eiga samstarf um að minnast þess, að árið 2000 munu löndin fagna því að þúsund ár eru liðin frá því er Leifur heppni Eiríksson fann Ameríku. Leitast verður við að vekja athygli umheimsins á sameiginlegum arfi þjóðanna og nýta hið sögulega tilefni til að styrkja samvinnu íslenskra og grænlenskra aðila í ferðaþjónustu.

Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar vilja auka samstarf sín á milli. Til að undirstrika þann vilja hefur verið ákveðið að taka upp reglubundna samráðsfundi forsætisráðherra Íslands, lögmanns Færeyja og formanns grænlensku landsstjórnarinnar. Þjóðirnar þrjár hafa ríka samkennd og sameiginlega hagsmuni og þurfa að eiga náið samráð um alþjóðlega þróun og samninga sem snerta málefni hafsins og sameiginlega fiskistofna.

Ísland tekur við formennsku í norrænu ráðherranefndinni um næstu áramót. Norræn samvinna er Íslendingum afar mikilvæg enda einn af hornsteinum utanríkisstefnunnar. Það er gleðiefni hve vel hefur tekist að laga norrænt samstarf að aðild Svíþjóðar og Finnlands að Evrópusambandinu og gerbreyttum aðstæðum í álfunni. Norræn samvinna er orðin fjölbreyttari og efnismeiri en áður og um leið enn mikilvægari vettvangur fyrir Ísland til að tryggja hagsmuni sína í Evrópu. Í formennskutíð Íslands verður leitast við að styrkja þessa þróun og efla umræðu og samráð milli Norðurlandanna um alþjóða- og öryggismál.

Atlantshafsbandalagið verður fimmtíu ára á næsta ári. Áfangans verður minnst í apríl næstkomandi á leiðtogafundi bandalagsins í Washington. Á afmælisárinu hefst nýr kafli í sögu bandalagsins, en þá fá inngöngu þrjú ríki, sem áður voru í Varsjárbandalaginu sáluga. Það er til marks um styrk og velgengni NATO, að flest öll Evrópuríki utan þess sækjast eftir því að komast þar inn fyrir dyr. Kúvending forystumanna Alþýðuflokksins í afstöðu til sameiginlegra öryggishagsmuna vestrænna ríkja hefur valdið áhyggjum og vakið upp spurningar um trúverðuleika og stefnufestu.

Herra forseti.
Á síðastliðnum vetri var kynnt ný skólastefna fyrir grunn- og framhaldsskóla landsins. Um hana náðist víðtæk sátt í samfélaginu. Ritun nýrra aðalnámskráa fyrir þessi skólastig er á lokastigi en þær munu taka gildi frá og með næsta hausti. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir allt að 260 milljónum króna í sérstök verkefni til að tryggja að nýju skólastefnunni sé fylgt myndarlega eftir. Kennaramenntun verður efld, gert verður átak í endurmenntun kennara og farið í aðgerðir til að bæta námsráðgjöf. Fé verður varið til greiningar á sérþörfum nemenda og sérstök áhersla lögð á upplýsingatækni innan skólakerfisins. Þær þúsundir milljóna króna, sem nú þegar renna til skóla landsins, munu nýtast enn betur en áður, þegar skólarnir hafa skýrari markmið í daglegum störfum sínum. Framkvæmd nýrrar skólastefnu er forsenda þess að íslenskir skólar geti í framtíðinni veitt nemendum menntun sem stenst samanburð við hið besta sem þekkist.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir fjárveitingum til umfangsmikils átaks á sviði upplýsingatækni og umhverfismála á vegum Rannsóknarráðs Íslands. Framlagið tekur mið af áætlun til nokkurra ára sem Rannsóknarráðið hefur lagt fram að ósk menntamálaráðherra en samtals er áætlað að veita 580 milljónum króna til verkefnisins á næstu árum.

Á vegum félagsmálaráðuneytisins hefur á kjörtímabilinu verið unnið að uppstokkun á fjölmörgum málaflokkum sem undir það falla. Eru vandfundin önnur ár þar sem jafnmiklar breytingar hafa orðið á einu málasviði. Nægir að nefna í því sambandi nýjar heildstæðar reglur um samskipti á vinnumarkaði og gjörbreytingar í húsnæðismálum sem leysa munu úr margvíslegum vanda þar. Á þessu kjörtímabili hefur sveitarfélögum fækkað og viðfangsefni þeirra og ábyrgð vaxið í sama skyni. Áfram verður haldið á þeirri braut.

Hér á landi er jafnrétti kynjanna með því besta sem þekkist meðal þjóða heims. Það dregur þó ekki úr ríkisstjórninni að leitast við að bæta stöðuna því enn hallar á konur á ýmsum sviðum samfélagsins og á karla á öðrum sviðum þess. Stefnt er að því að leggja fyrir yfirstandandi þing frumvarp til nýrra jafnréttislaga þar sem gætir nýrrar sýnar í þessum mikilvæga málaflokki.

Á sviði dóms- og lögreglumála hefur orðið byltingarkennd breyting á undanförnum árum og hefur skilvirkni dómskerfisins og réttaröryggi borgaranna aukist stórlega. Áfram verður haldið á þeirri braut. Þá er upplífgandi og eykur okkur styrk að heyra hvað alþjóðleg samtök, sem berjast gegn spillingu í opinberri stjórnsýslu, hafa að segja um Ísland. Samkvæmt niðurstöðum alþjóðlegrar könnunar sem samtökin létu gera, er Ísland eitt óspilltasta land í heimi og fær einkunina 9,3 af 10 mögulegum. Við getum öll verið stolt af.

Herra forseti, góðir áheyrendur.
Nokkurs ótta hefur gætt í heiminum vegna óvissu um efnahagsþróun í Asíu og Suður-Ameríku, og vandamála sem Rússland hefur búið við undanfarin ár og ekki sér fyrir endann á. Þessir atburðir ýta undir varfærni af okkar hálfu. Sagan kennir okkur, að efnahagskreppa er iðulega að verulegu leyti mannanna verk. Brugðist er rangt við og afturkippur í ytri aðstæðum er magnaður upp með mannlegum mistökum. Þess vegna verða menn nú að fara með gát og tefla ekki í tvísýnu hinum mikla ávinningi sem við höfum þegar náð og eigum enn í vændum, ef vel verður á haldið. Ef við stöndum staðfastlega við stefnuna, sem svo miklu hefur skilað, bendir flest til þess að góðærið megi framlengja öllum til heilla. Að því skulum við stefna. Ég þakka þeim sem hlýddu.

    Efnisorð

    Var efnið hjálplegt?
    Takk fyrir

    Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

    Af hverju ekki?

    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum