Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. nóvember 1998 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ráðstefna SKÝRR

Frá forsætisráðherratíð
Davíðs Oddssonar 1991 - 2003


24. nóvember 1998



Ávarp forsætisráðherra á ráðstefnu SKÝRR um örugga
verndun persónuupplýsinga, 24 nóvember 1998



Ég fagna því, að hér á þessum degi skuli fara fram sérstakt umræðuþing um persónuvernd og afdrif hennar í heimi sífellt skilvirkari upplýsinga- og tölvutækni. Stundum er sagt að öll umræða sé af hinu góða og í þágu þeirra sem leita réttrar niðurstöðu. Ekki er þetta einhlýtt og fyrir kemur að ómarkviss umræða eykur rugling í þjóðfélaginu, enda svo misjafn tilgangur sem fyrir umræðumönnunum vakir. En hér er til umræðunnar stofnað undir réttum formerkjum, viðfangsefnið á að skýra en ekki rugla það. Það er á hinn bóginn hverju orði sannara, að framþróun í rafrænni meðferð og vistun gagna getur stefnt einkalífi fólks í hættu, ef ekki er góður vari hafður á.

Það er vert að muna, að hugtakið persónuvernd er ekki einhverskonar punt
eða skrautyrði, þótt það hafi almennt ekki borið mikið á góma í opinberri umræðu á Íslandi, þar til fyrir nokkrum mánuðum. Þvert á móti er persónuvernd samofin þeim gildum sem við viljum byggja samfélag okkar á, og því um að ræða grafalvarlegt grundvallaratriði. Í þessum hluta heims göngum við út frá því að sérhver manneskja sé einstök og að hún eigi rétt á að hafa sín einkamál út af fyrir sig. Óskilgreindur réttur fjöldans geti ekki afsakað að réttur einstaklingsins sé fótum troðinn. Blessunarlega hefur sú sýn, að virðing fyrir einstaklingnum eigi að vera í öndvegi, fengið sífellt meiri útbreiðslu um mannheima. En grundvallarforsendan um helgi hverrar manneskju er þó fjarri því að vera sjálfgefin eða tryggð í eitt skipti fyrir öll. Við heyrum því til að mynda oft fleygt í umræðu um löggæslumál, að tiltekin afbrot réttlæti æ ágengari eftirlit með fólkinu í landinu. Ástæðan er vissulega göfug og gild, sem sé sú, að koma í veg fyrir afbrot. Þá er stundum sagt sem svo, að þeir sem hafi ekkert að fela og hafi hreinan skjöld, þurfi ekki að óttast að betur sé fylgst með þeim og þeirra hegðun. En þarna er hlutunum snúið við. Fólk má eiga og á að eiga sín mál í friði, jafnvel þótt þau leyndarmál séu harla sakleysisleg og hafi ekki gildi fyrir neinn nema það sjálft. Sú alkunna staðreynd, sem þekkt hefur verið í þúsundir ára, að alltaf muni einhverjir fáir brjóta af sér gagnvart samþykktum reglum samfélagsins getur ekki réttlætt að stóri bróðir sé með ófrið við allan fjöldann.
Á hinn bóginn er það eins með viðleitni okkar til að veita persónulegum högum fólks skjól, sem önnur fróm markmið, að mikilvæg hugtök geta útvatnast ef þau eru ofnotuð eða misnotuð. Til að mynda rís nú hátt hér á landi umræða um það, hvernig við getum beitt nýjustu erfðavísindum og upplýsingatækni til að bæta heilbrigðiskerfi okkar og fjölda annarra og um leið leitast við að gæða atvinnulífið stóraukinni fjölbreyttni. Þarna er að mörgu að hyggja, ekki síst því sem lítur að mikilvægum sjónarmiðum um vernd einkalífs fólks. Fjölmargir hafa, með einlægum og ágætum rökum, bent á hvað mætti betur fara í upphaflegum hugmyndum um skipan slíkra mála. Þessar góðu ábendingar hafa verið nýttar og hugmyndir verið endurbættar og reglur gerðar ljósari og skýrari. En því miður hefur líka örlað á því að persónuverndin hefur verið notuð sem yfirskin eða tylliástæða í gagnrýni á frumvarp heilbrigðisráðherra af hálfu aðila sem munu reyna að eyðileggja það, hversu góðum breytingum sem það kann að taka. Hefur verið ótrúlega langt seilst af ýmsum virðulegum aðilum í þeirri viðleitni. Persónuvernd er enginn greiði gerður með slíkum málatilbúnaði, því hún er þá aðeins yfirskyn og notuð í annarlegum tilgangi til að ná fram óskyldum markmiðum.

Við verðum að hafa hugfast að öfgar eru aldrei rétti vegvísirinn, hvorki í þessum málum né öðrum. Sú staðreynd á jafnt við um náttúruauðlindir, upplýsingar og önnur tækifæri í okkar þjóðfélagi. Öfgar í verndun eru ekki betri en öfgar í nýtingu. Sköpun nýrrar þekkingar og nýrrar tækni þarf ekki að vera í andstöðu við friðhelgi einkalífsins, ef við höldum rétt á. Það er notkunin og beitingin á nýju þekkingunni sem öllu máli skiptir. Þetta hefur almenningur í landinu skynjað og því verið fær um að sjá í gegnum allt moldviðrið, sem þyrlað hefur verið upp.

Mannskepnan hefur hvað eftir annað í sögu sinni staðið gagnvart framandi spurningum, sem varða nýja þekkingu. Þess vegna er mönnum fyrir löngu orðið ljóst að alla þekkingu má nota bæði til góðs og ills. Við Íslendingar erum þannig sífellt að hanna betri fiskveiðitækni. Hún getur auðvitað stuðlað að ofveiði, ef henni er ekki beitt með skynsamlegum hætti og notkun hennar takmörkuð þegar það á við. Annað dæmi, sem kann að vera fjarlægt okkur Íslendingum, en er þó daglegt brauð í fréttum, er að framfarir í eðlisfræði og verkfræði valda því að hryðjuverkamenn geta notað æ skilvirkari tækni við ógnaraðgerir sínar. En um leið og við stöðvum sköpun nýrrar þekkingar af ástæðum sem þessum, erum við í raun að gangast undir að glæpamennirnir setji reglurnar. Viðbrögðin eiga auðvitað að vera þau að setja glæpastarfseminni skorður en ekki þekkingaröfluninni eða vísindamönnunum sem hana stunda. Því það er ekki þekkingin sem er vandamálið, heldur hvernig við förum með hana: Með öðrum orðum, hvernig við leitumst við að nota hana til góðs en ekki til ills. Við megum ekki gleyma því, að aukin vitneskja og betri tækni leiða ekki endilega aðeins til þeirra framfara sem við teljum okkur sjá fyrir. Ný þekking er samkvæmt orðanna hljóðan og eðli málsins ný, og því getum við aldrei vitað fyrirfram hvaða ávinninga hún muni færa okkur. Hún er oftar en ekki litla skrefið, sem reyndist forsenda þess að stóra skrefið, og reyndar stóru skrefin fram á við voru stigin. Manneskjan er ekki síður forvitin en kötturinn, en öfugt við köttinn ekki síst forvitin um eðli sitt og möguleika, og ekki má koma í veg fyrir að þessi forvitni leiði til nýrrar þekkingar, nýrra möguleika og betra mannlífs.



Ágætu gestir.
Okkar hlutverk er, og það er einmitt verkefni dagsins, hvernig við getum virkjað forvitnina í fólki til fróðleiks og þekkingar en komið um leið í veg fyrir hnýsni af hættulegum toga. Skilin þarna á milli kunna stundum að virðast óljós, en okkar er að finna þau og treysta. Aðalatriðið er að fólk fái skjól með persónuleg mál sín, og að hvorki gamlar aðferðir né nýjar uppfinningar rjúfi þá vernd. Það hefur margoft komið fram, ekki síst á undanförnum mánuðum, að þar sem persónuvernd er illa gætt hér á Íslandi eins og ótal, ótal dæmi sanna, þrátt fyrir skinhelgar ályktanir um annað, hefur ný upplýsinga- og gagnatækni ekki endilega komið við sögu. Ég tel því einboðið að þessi umræða öll muni að lokum bæta verulega vernd einkamála okkar Íslendinga en ekki veikja hana, eins og illspár hafa verið um að undanförnu. Fólk mun verða upplýstara um hvar persónuleg mál þeirra séu helst í hættu og hafa betri forsendur til að ákveða hvernig það skipar sínum málum. Við höfum í eigin hendi að ákveða að minnka heildaraðgengi að upplýsingum sem okkur eru kærar, hvort sem þær varða fjármál okkar, heilsufar eða fjölskyldur. Ég trúi því að hér muni í dag verða varpað skýrara ljósi á hvernig hægt er að nýta tæknina til að skýla okkur betur en nú er gert án þess að trúverðug tækifæri til betra lífs á Íslandi tapist á þeirri vegferð. Góðir ráðstefnugestir, gangi ykkur vel.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum