Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. desember 1998 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Áramótagrein í Morgunblaðinu 1998

Áramótagrein forsætisráðherra 1998

1
Þeir sem fylgjast með fótbolta komast ekki hjá því að sjá hvílík fagnaðarlæti brjótast út þegar boltinn, sem allt snýst um, hafnar í netinu. Tugir þúsunda áhorfenda hendast á fætur og leikmennirnir faðmast og kyssast eins og ættingjar sem hittast eftir hálfrar aldar aðskilnað. Þetta getur gerst oft í leik. Áhorfandinn veit að markið er skref í átt að sigri í þessum tiltekna leik og leikurinn getur verið skref í átt að sigri í deildinni og sigur í deildinni skref í alþjóðlega keppni og svo koll af kolli. En áhorfandinn veit líka af biturri reynslu að jafnvel margra marka forskot í leik dugar ekki alltaf. Hægt er að glutra niður góðum leik og tapa og týna þeim tækifærum sem að sýndust innan seilingar.

Minnir þetta mjög á mannlífið. Við Íslendingar höfum á síðustu árum stigið mörg góð skref fram á við, unnið álitlega sigra, smáa og stóra, ekki síst á sjálfum okkur og erum því í nokkurri sigurvímu. En góðum tækifærum er hægt að glutra niður. Og þótt sigurgleðin sé góð, þá er sjálfumgleðin afleit og nokkuð óbrigðul uppskrift að afleikjum. Ekkert er á móti því, að gleðjast yfir því sem vel hefur gengið, en þýðingarmeira er að hafa augun fremur á framtíðinni en fortíðinni. Við verðum að hugsa meira um það sem ógert er en það sem gert er, þótt okkur kunni að hafa tekist vel. Sjálfsagt er og eðlilegt að við, hvert og eitt, og eins sameiginlega, leyfum okkur meira en áður, þegar hagur fer batnandi. En óráðsíu höfum við ekki efni á og munum aldrei hafa. Taumlaus óráðsía er ofjarl alls efnahagsbata. Við skulum hafa hugfast að batnandi hagur skapar ekki aðeins skilyrði til þess að láta meira eftir okkur á fjölmörgum sviðum. Hann veitir okkur einnig svigrúm til ráðdeildar, þ.e. til að greiða niður gamlar skuldir og leggja dálítið fyrir. Þannig framlengjum við efnahagsbatann fyrir alla og bætum eigin stöðu í bráð og lengd. Þetta höfum við sem böslum við búskap ríkisins leitast við að gera. Á tveimur árum munum við greiða niður skuldir ríkisins um 30.000 milljónir króna. Þetta eru ekki bara stórar tölur á blaði. Þetta er hreinn bati fyrir okkur öll, því fyrir vikið munum við greiða 6.000 milljónum króna minna í vexti á næsta kjörtímabili!

Mjög er í tísku um þessar mundir að halda því fram að efnahagsbatinn fari framhjá mörgum, reyndar hélt prestur nokkur því fram í sjónvarpi nýlega að hann færi fram hjá flestum! Það liggur fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um 10% á árinu að meðaltali, til viðbótar varanlegri kaupmáttaraukningu síðustu ára. Ekki er hægt að benda á nokkurt land annað þar sem kjör fólks hafi batnað svo ört. Kjarasamningar voru gerðir til lengri tíma en áður og þóttu forystumenn launþega taka með því verulega áhættu. Það er athyglisvert að þessir kjarasamningar munu þegar upp verður staðið hafa skilað launþegum meiri árangri en nokkrir aðrir fram að þessu. Það liggur fyrir, að munur á hæstu og lægstu tekjum er hvergi í heiminum minni en hér á landi. Allar tölur, sem hægt er að styðjast við sýna að efnahagsbatinn hefur skilað sér til alls almennings. En þá má spyrja: Hafa þá allir borið jafnmikið úr býtum? Svarið við því er nei. Bati hefur orðið hjá öllum en þó mismikill eins og óhjákvæmilegt er í opnu markaðskerfi. Þá er enn spurt: Er ekki hægt að stýra batanum þannig að allir fái jafnan hlut af ávinningnum? Og svarið er, að slíkt hefur verið reynt við ýmsar aðstæður, bæði hérlendis og erlendis. Afleiðingin hefur jafnan orðið sú að batinn, sem átti að koma, hefur enginn orðið. Verr hefur verið af stað farið en heima setið. Þær erlendu alþjóðastofnanir sem hver af annarri hafa verið að gefa Íslandi ágætiseinkunn fyrir stjórn efnahagsmála, hafa ekki eingöngu nefnt til skýringar lækkun skulda, opnara efnahagslíf og stöðugleika. Sérstaklega er tekið fram að til fyrirmyndar sé hve jafnt þjóðarauðurinn skilar sér til landsmanna. Betra dæmi um það hafa þær hvergi fundið annars staðar. Okkur ætti að þykja hvað vænst um þá einkunn, þó hinar séu vissulega uppörvandi.
2
En hvers má vænta, spyrjum við á gamlársdag. Hvað boðar nýárs blessuð sól? Og þrátt fyrir þúsund ára framfarir og tröllaukna tölvuvæðingu verður fátt um svör, sem áreiðanleg eru. Við grípum þá oftast til þess ráðs að gefa okkur nokkrar forsendur, byggðar á dæmum úr liðinni tíð. Því næst setjum við okkur rúm skekkjumörk og fáum svo útkomu. Hún er sú, að enn sé bjart framundan í efnahagsmálum íslensku þjóðarinnar. Fyrsta forsendan sem ég gef mér fyrir þeirri niðurstöðu, er að áfram verði staðið af festu við stjórn landsmála. Næsta forsenda er öruggari, en hún byggir á því að þær fjárfestingar sem við höfum verið að leggja í að undanförnu og skýra að hluta mikinn viðskiptahalla, munu fara að gefa af sér tekjur á næstu árum. Þá eru nú fleiri vinnandi hendur á Íslandi með næg verkefni en nokkru sinni áður. Þær munu færa okkur aukna auðlegð. Hugvit fyllir nú fleiri aska en menn gátu ímyndað sér fyrir aðeins sjö árum. Útflutningstekjur af þess háttar starfsemi hafa aukist hraðar en í nokkurri annarri.

Enn treystir það spána að erlendir ferðamenn verða um 227 þúsund á þessu ári og þeim hefur fjölgað um 15% á milli ára og tekjur af þeim verða um 14 þúsund milljónir króna. Þá er olíuverð með allra lægsta móti og viðskiptakjör almennt í góðu horfi, þótt ólíklegt sé að þau batni enn. Fiskistofnar virðast flestir vera í þokkalegu ástandi þótt sumir standi veikar en aðrir. Vaxtakostnaður okkar erlendis fer ört lækkandi og lítill vafi er á að sameiginleg Evrópumynt mun auðvelda okkur róðurinn í útflutningi, þótt samkeppnisstaða gagnvart einstökum Evrópulöndum kunni að þyngjast nokkuð.

Þessir þættir og fleira sem nefna mætti til sögunnar benda ótvírætt til að horfurnar geti verið góðar. Við hljótum áfram, að byggja á því sem búið er að koma í gott horf. Auka þarf skilyrði og þar með vilja til alls almenns sparnaðar. Stilla verður skattheimtu í hóf. Takmarka verður reglustýringu á vegum hins opinbera. Auka þarf ráðdeild í búskap ríkisins. Þar hefur mikill árangur náðst, eins og sést á því að skattar eru lækkaðir jafnt og þétt, þótt framlög til heilbrigðismála og menntamála séu aukin og engu að síður tekst að greiða niður erlendar og innlendar skuldir í stórum stíl.

3
Þrír fjölmiðlar veittu ríkisstjórn Íslands frumkvöðulsverðlaun sín nýlega. Slíkt hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar. Þeir sömu fjölmiðlar tóku að sönnu skýrt fram, að þeir væru þó alls ekki að veita ríkisstjórninni allsherjar gæðastimpil! Sá fyrirvari var að vísu óþarfur fyrir þá sem fylgst hafa með skrifum og fréttum þessara fjölmiðla, sem iðulega gagnrýna verk ríkisstjórnarinnar hart. Það var ekki með þessum verðlaunum verið að hrósa ríkisstjórninni fyrir að skapa sem flest ný störf hjá hinu opinbera, heldur fyrir að gefa færi á að í framtíðinni geti mörg, góð og vellaunuð störf orðið til annars staðar. Það er með öðrum orðum ætlast til að ríkisvaldið sé vinsamlegt frumkvöðlum en leggi ekki stein í götu þeirra. Ég tel reyndar frumkvöðla ársins þær níutíuþúsund manneskjur sem keyptu sér hlut í Búnaðarbanka Íslands og sendu þar með stjórnvöldum skýr skilaboð um í hvaða farveg einkavæðing ætti að fara.

Vinstri menn hafa breyst til batnaðar á síðari árum og var það óhætt. Enn hafa þeir þó mikið fúlt nesti í sínu farteski, sem þeir þyrftu að losna við. Töluð orð þeirra eru að sönnu jákvæðari í garð atvinnulífs en áður, en hugmyndir þeirra og tillögur eru það ekki. Enn eru þeir við það heygarðshorn t.a.m. að vilja innheimta sérstakan arð af verkum frumkvöðla áður en arðurinn verður til. Með því er dregið úr vilja frumkvöðla til að taka áhættu sem skilar okkur öllum arði ef vel tekst til.

Á morgun lækkar tekjuskattur þriðja árið í röð. Því miður mun þessarar lækkunar ekki sjá stað í þeim mæli sem ráðgert var, því höfuðborgin ákvað að leysa þessa lækkun til sín að stórum hluta. Er vont að Reykjavík hafi skipt um stefnu frá því sem áður var og vilji nú einungis vera þiggjandi í efnahagsmálum þjóðarinnar en ekki jákvæður áhrifavaldur.
4
Miklar umræður urðu á Alþingi og víða í þjóðfélaginu um svokallað gagnagrunnsfrumvarp, sem nú er orðið að lögum. Ekki eru til mörg dæmi um að frumvörp, sem svo mikill þingmeirihluti var fyrir, hafi fengið jafn ríkulegan tíma í umræður, jafnt innan Alþingis og utan. Þótti ýmsum þó ekki nóg talað, þótt vandséð hljóti að vera hvað ósagt var málinu til framdráttar eða gegn því. Lítill vafi er á því að Alþingi steig með afgreiðslu sinni heillaspor. Það hefur veitt tækifæri til stórbrotinnar starfsemi á sviði læknavísinda, sem vonir standa til að skila muni margvíslegum arði og er þá seinast talað um fjárhagslegan arð. Fari svo að þessi starfsemi skili þeim ofsagróða, sem sumir ætla og virðast jafnvel óttast, er nokkuð einsýnt að þá hafi áður náðst stórkostlegur árangur á sviði lyfja- og læknisfræði. Verði lítill eða enginn árangur á einkaleyfistímanum, sem er skammur, munu fjárfestar sitja uppi með skarðan hlut. Sagt var í útvarpi á dögunum að andstæðingar gagnagrunnsfrumvarps minntu helst á andstæðinga símans forðum tíð og þeirra yrði minnst sem slíkra. Slík lýsing er ósanngjörn á alla lund. Í fyrsta lagi er það röng skýring að þeir bændur sem mótmæltu símanum hafi verið illa gefnir menn og andsnúnir framförum. Deilan var annars eðlis eins og menn ættu að vita. Um hið síðara dæmið vita þeir glöggt, sem töldu sér skylt að lesa greinar og fylgjast með málinu að öðru leyti, að margar verðugar og nauðsynlegar athugasemdir og rök voru sett fram af hálfu þeirra sem voru andsnúnir málinu eða höfðu á því fyrirvara. Þeir sem fylgdu málinu geta ekki af nokkurri sanngirni neitað því, að álitaefnin voru mörg og um sumt var ekki hægt að gefa óyggjandi og "skotheld" svör. En að öllu samanlögðu og virtu ákváðu þeir engu að síður að styðja málið. Einstaka andstæðingar málsins gengu auðvitað allt of langt, eins og verða vill þegar hart er deilt. Fáeinir höfðu jafnvel uppi heitingar um að lúta ekki lögunum. Þessi þáttur málsins er að baki og þýðingarmest er nú, að góðir menn og víðsýnir leggi sig fram um að framhald þess geti orðið hinu íslenska samfélagi til heilla.
5
Mikið hefur verið deilt um sjávarútvegsmál að undanförnu eins og löngum fyrr. Ekki hefur verið auðvelt að fóta sig á þeirri umræðu, svo tilfinningaþrungin sem hún hefur oft verið og laus í reipum. Pólitískir pótintátar sem helst kunna að ala á óánægju hafa talið sig finna þarna fengsæl mið. Hefur þó afli þeirra verið fremur rýr, þótt hugmyndaauðgi í beituvali hafi verið lítil takmörk sett. Þeir sem æst hafa til óánægjunnar hafa því miður fátt lagt marktækt til mála, til lausnar þess vanda sem þeir þykjast sjá. Þó er það svo, að margt benti til að þar væri að verða nokkur breyting á síðustu misserin. Mér er enginn launung á því, að með mér höfðu vaknað vonir um að sú stund væri að nálgast, að menn næðu í senn áttum og sáttum. Svo kom dómur Hæstaréttar landsins. Þeir fjölmiðlar sem hafa kallað þann dóm hinn mesta á öldinni uggðu ekki að sér frekar en aðrir og létu alveg hjá líða að fylgjast með málatilbúnaðinum fyrir réttinum. Enda voru öll þau merki sem þaðan bárust og menn kunna að lesa úr, þess eðlis að ekkert benti til að þar væri stórmál á ferðinni. Síðan hafa menn þrasað og þráttað um hvað þessi dómur þýddi og hvort dómurinn væri réttur eða rangur. Menn mega vissulega deila um hvort dómur sé réttur eða rangur. Sú umræða getur verið gagnleg og fróðleg, en hún leiðir aldrei til afgerandi niðurstöðu. Dómurinn var endanlegur og á að vera endanlegur. En dómur sem er endanlegur, þarf að vera skýr. Auðvitað er fyrst og fremst horft á niðurstöðuna, en það veldur ruglingi ef aðdragandi hennar er ekki ljós. Þá taka menn að rífast af þunga og þrótti um hvað dómurinn þýðir. Ekkert er heldur hægt að finna að slíkum þrætum og síst ef dómsúrlausnin hefur gefið tilefni til þeirra. En vandamálið er, að af þeim þúsundum, sem af list geta þráttað um dóminn, þurfa 63 einstaklingar að bregðast við honum. Þeir kunna sumir að hafa þá sannfæringu að dómurinn sé illa grundaður, illa saminn og rangur að auki. Aðrir í þeim hópi geta talið, að hann sé vel uppbyggður, skýr og ljós og falli vel að þeirra pólitísku markmiðum. Og því næst þurfa þeir að laga lögin að því sem þeir telja, að dómurinn segi stjórnarskrána rúma. Ríkisstjórnin tók þann kost, sem að hennar mati var einn fær, og leggur til þær breytingar einar sem niðurstaðan ótvírætt bendir til. Stjórnarandstæðingar hafa komið vígreifir í ræðustól og fordæmt þennan málatilbúnað. Þeir hafa ítrekað verið beðnir um að flytja breytingartillögur við frumvarpið án árangurs. Þeir hafa ítrekað verið beðnir um að lýsa tillögum sem þeir myndu lögleiða ef þeir hefðu styrk til, en án árangurs. Eina sem þeir hafa haft fram að færa er að hóta meirihluta löggjafarvaldsins með dómurum Hæstaréttar! Heldur er það óskemmtilegt framlag það.

Vitur maður sagði, að tómt mál væri að tala um hvort einstakir dómar Hæstaréttar væru rangir eða réttir. Þeir væru niðurstaða. Og hann bætti við: "Og þá tekst Hæstarétti best til, þegar sú niðurstaða verður endir allra deilna."

Við verðum að vona að sú ganga sem hafin var í samkomulagsátt í sjávarútvegsmálum, hægum en öruggum skrefum, megi hefjast á ný. Utanríkisráðherra hafði orð á því, að nauðsynlegt kynni að vera að breyta stjórnarskránni til að ónýta þá lagaóvissu sem túlkun ýmissa aðila á dómi Hæstaréttar skapaði. Hann varð þegar í stað fyrir fúkyrðum lýðskrumara sem fela sig á bak við fræðiheiti. Fullyrt var að ráðherrann ætlaði að breyta jafnréttisákvæði stjórnarskránnar, sem væri óskammfeilin ósvífni af hans hálfu. Ráðherrann hafði ekki minnst einu orði á þá grein. Hún er í samræmi við slíkar greinar í stjórnarskrám annarra Evrópuríkja, en enginn í þeim löndum hefur túlkað greinina með sama hætti og íslenski hæstirétturinn virðist gera, eins og dómsmálaráðherra hefur bent á. Ef stjórnarskránni yrði breytt nú væri það eingöngu gert til þess að leysa úr lagaóvissu og skapa frið og öruggt umhverfi í sjávarútvegi. Forsenda slíkra breytinga hlyti að vera sú að skapa sjávarútvegi góð skilyrði til reksturs og um leið að allvíðtæk samstaða næðist um niðurstöðuna. Slík breyting yrði að þykja leið til sáttar en ekki sundrungar. Fráleitt væri að orða breytingar á stjórnarskrá, sem auka myndu úlfúð.

Jafnvel þótt dómur Hæstaréttar sé túlkaður þröngt eins og óhjákvæmilegt er, hefur hann sett hag smábátaeigenda í mikla óvissu. (Væri hann túlkaður rúmt hefði hann sett allt fjármálakerfið, svo ekki sé talað um hag landsbyggðarinnar, í fullkomið öngþveiti og réttaróvissu og málaferli myndu standa árum og áratugum saman).

Sjávarútvegsráðherra var því skylt að leggja fram frumvarp til laga til að leitast við að greiða úr þeim flækjum sem upp voru komnar. Vonandi næst sæmileg samstaða um það mál, en líklegt er þó að vegna hins nýja dóms verði ekki hægt að finna leið, þar sem allir smábátaeigendur telja sig jafnvel setta, eftir sem áður.
6
Á árinu hafa atburðir minnt á að ýmsar hættur ógna enn friði og öryggi í veröldinni. Hæst hafa borið Kósóvó-deilan og barátta við stjórnina í Írak. Í báðum þessum málum hafa íslensk stjórnvöld tekið einarða afstöðu sem er byggð á grundvallarþáttum í utanríkisstefnunni. Þannig hefur Ísland stutt alþjóðlegar aðgerðir gegn kúgun og mannréttindabrotum í Kósóvó og skipað sér í sveit þeirra sem vilja þvinga Íraksstjórn til að standa við samninga um afvopnun og fara að ályktunum Sameinuðu þjóðanna í þeim efnum.

Ítrekað hafði komið í ljós að orðum Íraksstjórnar var í engu treystandi eins og er reyndin þegar einræðisstjórnir eiga í hlut. Loftárásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak fyrr í þessum mánuði urðu mönnum vonbrigði en mönnum var orðið fullljóst að framganga Saddam Hussein myndi kalla á slíkar árásir, fyrr eða síðar.

Ábyrgðin á loftárásunum hvílir alfarið á herðum Íraksstjórnar. Sama á við um viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna á Írak sem vissulega bitnar á þeim sem síst skyldi, saklausum almenningi í landinu. En gæfu Sameinuðu þjóðirnar eftir og afléttu viðskiptabanninu nú væri Íraksstjórn og öðrum einræðisstjórnum send röng skilaboð. Skilaboðin væru að þeir sem láta sig engu varða velferð þegna sinna geti notað þjáningar þeirra sjálfum sér til framdráttar í deilum við aþjóðasamfélagið. Loks er það svo að Íraksstjórn hefur haft tryggar tekjur af olíusölu vegna undanþágu sem Sameinuðu þjóðirnar hafa veitt frá viðskiptabanninu sem nægja vel til að almenningi verði séð fyrir nauðsynjum, þar á meðal lyfjum. En valdhafarnir í Írak kjósa að verja fénu til annarra og illra verka og að auki til að standa undir munaði og óhófi sjálfra sín.

Fyrst og síðast snýst baráttan gegn Íraksstjórn og Kósóvódeilan um gamalt vandamál: hvernig bregðast eigi við ógnarstjórnum og glæpaöflum; hvort menn læra af sögunni eða endurtaka fyrri mistök.

Stofnun Atlantshafsbandalagsins átti ekki síst rætur í lærdómi sem dreginn var af sögunni þegar mistókst að koma í veg fyrir grimmdaræði nasismans. Ekki fer milli mála að óhjákvæmilegt var að bregðast við ógnuninni frá einræði kommúnismans af þeirri festu, sem Atlantshafsbandalagið sýndi í kalda stríðinu. Eftir kalda stríðið hefur bandalagið áfram reynst ómissandi eins og átökin á Balkansskaga eru til marks um.

Á nýja árinu, þegar þess verður minnst að fimmtíu ár eru liðin frá stofnun Atlantshafsbandalagsins hefst nýr og afar merkur kafli í sögu þessa einstaka bandalags, þegar þrjú Mið- og Austur-Evrópuríki, Pólland, Tékkland og Ungverjaland verða tekin inn í það. Á leiðtogafundi bandalagsins í Washington í apríl verður mótuð stefna um hvernig staðið verður að því að taka inn fleiri ný aðildarríki, sem er lykilatriði í að skapa nýja Evrópu.

Atlantshafsbandalagið stuðlaði að því að festa í sessi sameiginlegt lýðræðislegt gildismat þjóða Vestur-Evrópu eftir síðari heimsstyrjöld og tryggði ytra öryggi þeirra. Hvort tveggja var forsenda samrunaþróunarinnar í Evrópubandalaginu sem nú er orðið að Evrópusambandinu. Samrunaþróunin byggir á hugsjón, þeirri hugsjón að með því að tengja þjóðfélögin sem nánustum böndum megi forða illdeilum sem leitt geta til stríðs.

Um áramótin verða tímamót í þróun Evrópusambandsins þegar ellefu ríki þess stofna Efnahags- og myntbandalag Evrópu. Þetta er örlagaríkt mál í sögu Evrópu og verður vonandi álfunni allri til framdráttar.

Efasemdir eru enn uppi um málið í Evrópusambandinu, eins og sést af því, að ekki eru öll sambandsríkin með í för, heldur kjósa sum að standa utan við og sjá hverju fram vindur. Þá hefur verið bent á að brýnna væri fyrir öryggi og velferð í Evrópu, að hraða stækkun Evrópusambandsins til austurs. Hún mun dragast, ekki síst vegna innri mála Evrópusambandsins. Útlit er nú fyrir að mörg ár líði þar til Mið- og Austur-Evrópuríki fá inngöngu í sambandið.


Með sameiginlegum gjaldmiðli í Evrópusambandinu er stefnt að því að koma á meiri hagkvæmni í viðskiptum á innri markaði sambandsins, stuðla að aukinni samkeppni og lækkun verðlags, sem eykur hagvöxt og kaupmátt. Þó er umdeilt bæði hvort og í hve miklum mæli þessi áhrif skili sér.

Íslensk stjórnvöld hafa fylgst grannt með undirbúningi að stofnun Efnahags- og myntbandalags Evrópu og látið kanna áhrif þess á íslenskt efnahagslíf. Fram hefur komið að eins og nú horfi muni stofnun myntbandalagsins ekki hafa grundvallarbreytingar í för með á fyrirkomulagi gengismála hér á landi. Þótt löndin ellefu sem verða með í stofnun myntbandalagsins vegi nokkuð þungt í utanríkisviðskiptum Íslands er hlutur þeirra ekki yfirgnæfandi. Miklu munar að Bretland, stærsta markaðsland Íslendinga, tekur ekki þátt í stofnun myntbandalagsins.

Aðrar helstu niðurstöður samráðshóps sem ríkisstjórnin skipaði og samanstóð af fulltrúum víða að, voru þær að tækist vel til í myntbandalaginu muni það almennt hafa ýmis jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Viðskiptakostnaður íslenskra fyrirtækja minnki og aukin hagkvæmni innan myntbandalagsins muni skila sér til íslenskra neytenda. Á hinn bóginn kunni myntbandalagið að einhverju marki að veikja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart evrópskum keppinautum. Erfitt sé að meta nú hvernig hin jákvæðu og neikvæðu áhrif muni koma fram á næstu árum. Efnahagslegur stöðugleiki og traust efnahagsstjórn á Íslandi gagnist atvinnulífinu best til þess að mæta aukinni samkeppni frá fyrirtækjum innan myntbandalagsins, sem muni búa við stóran heimamarkað og tiltölulega lága vexti. Þannig er í áliti samráðshópsins lögð rík áhersla á mikilvægi þess að Íslendingar haldi sjálfir vel á sínum málum.

Nú á dögunum var birt skoðanakönnun um Evrópusambandið og afstöðu Íslendinga til þess. Niðurstaðan var athyglisverð. Þar kom fram að þetta mál er ekki ofarlega á áhugasviði Íslendinga um þessar mundir. Þannig töldu aðeins rúm 12% sig mjög fylgjandi aðild og aðeins um 18% mjög andvíg aðild. Þessi niðurstaða undirstrikar að þetta álitamál hefur ekki forgang hér á landi og flestum er ljóst að engum tækifærum er glatað. Ísland yrði að borga verulega með sér við inngöngu og vitað er að slík aðild stendur því til boða þegar Ísland teldi það fýsilegt. Annmarkar á aðild gera hana ekki álitlegan kost eins og málin standa, hvað sem síðar verður.
7
Hálendi landsins hefur orðið okkur flestum aðgengilegra á síðustu árum. Ríkisstjórnin hefur með nýjum lögum um þjóðlendur, skipulagsmál og sveitarstjórnarmál á hálendinu lagt mikið af mörkum til að tryggja þar öruggari stjórnsýslu, en lengi hafði ríkt þar um óvissa og all mikil sjálftaka réttinda átt sér stað. Íslendingar verða að nýta þær auðlindir sem landið býr yfir til að tryggja framtíðarafkomu sína. En aðgát skal höfð við slík verk. Ofvirkjun eða ofverndun eru ekki leiðarljósin sem við fylgjum á þeirri vegferð. Stundum er sagt að ekki eigi að tala um hálendismál út frá tilfinningum heldur rökum. Hér er rétt að staldra við. Það skyldi ekki vera að einmitt hér sé undantekningin sem regluna sanni. Að einmitt í þessu máli sé óhjákvæmilegt að tilfinningarnar fái jafnan aðgang að vogarskálunum og staðreyndafærslur og röksemdir.

Það má halda því fram að tilfinningaleg rök hafi jafnvel verið efnahagslegum rökum yfirsterkari þegar sjálfstæðisbaráttan var knúin fram til sigurs á sínum tíma. Og tilfinningarnar ganga ekki endilega eingögnu til liðs við annað sjónarmiðið en ekki hitt, í þessu álitaefni. Barátta byggðarlagana fyrir austan fyrir tilveru sinni eru að hluta til byggð á ríkum tilfinningum og út frá þeim styðja þau skynsamlega nýtingu þeirra auðlinda sem á hálendinu finnast. Í þessari umræðu á ekki að úthýsa neinum sjónarmiðum nema þeim sem byggð eru á ofsa og öfgum.

Ég hef í þessu ávarpi nefnt til sögu nokkra þætti sem ofarlega hafa verið í umræðu. Mörgu mikilvægu hefur þó verið sleppt. Mun síðar gefast tækifæri til að gera þeim þáttum skil. Vil ég að lokum þakka Íslendingum samstarfið á liðnu ári og óska þjóðinni heilla og guðs blessunar á því næsta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum