Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. febrúar 1999 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Viðskiptaþing Verslunarráðsins 1999

10. febrúar 1999



Ávarp forsætisráðherra á Viðskiptaþingi VÍ


Ávarp.

Mér finnst ekki ónýtt að fá tækifæri til að ávarpa Viðskiptaþing við aðstæður eins og þær sem nú ríkja. Efnahags- og viðskiptalíf þjóðarinnar stendur í miklum blóma um þessar mundir. Vöxtur athafnalífsins er ör, uppsveiflan skilar sér til alls almennings og nær allir hafa vinnu sem þess óska.

Hinu má ekki gleyma að efnahagskerfi þjóða sveiflast upp og niður. Stundum gengur vel, eins og núna hjá okkur, svo koma tímabil þar sem illa árar. Við Íslendingar höfum einmitt fjölmörg slík dæmi úr fortíðinni. Því má spyrja: Er þessi velgengni okkar núna ekki einungis með hefðbundnu sniði? Munum við ekki sigla niður í öldudal aftur? Og getur verið að við höfum sjálf lítið um það að segja hvenær og með hvaða hætti hagsveiflan dregur okkur aftur niður?

Við sumum þessara vangaveltna eru engin afgerandi svör. Við getum til að mynda ekki haldið því fram að ríkjandi uppsveifla muni vara til eilífðarnóns. Við getum heldur ekki sagt til um það með nokkurri vissu hvort og þá hvenær eða að hve miklu leyti muni halla undan fæti. Við getum hins vegar fullyrt að núverandi uppsveifla er að mörgu leyti ólík flestum þeim sem við höfum upplifað á undanförnum áratugum.

Ríkið er til að mynda ekki að taka lán fyrir aukinni þjónustu sinni, eins og oft var gert áður í góðæri. Þvert á móti er það að greiða hratt niður skuldir sínar. Þannig verðum við mun betur í stakk búin að takast á við mögru árin sem örugglega eiga sinn tíma í framtíðinni, enda lækkar vaxtakostnaður okkar jafnt og þétt og lánskjör íslenskra fyrirtækja batna.

Verðlagt er stöðugt í landinu til margra ára, ólíkt því sem við höfum fyrr átt að venjast. Þær fjárfestingar sem lagt er út í í slíku árferði eru að jafnaði betur skipulagðar og grundaðar en hinar sem stofnað er til við sífelldar og óútreiknanlegar kostnaðarhækkanir. Gengi íslensku krónunnar er þar að auki skráð á markaði og lýtur því hörðu húsbóndavaldi markaðsaflanna.

Innviðir hagkerfisins hafa verið treystir. Fyrirtæki búa nú við heilbrigðan aga markaðarins, en geta ekki hlaupið undir verndarvæng hins opinbera þegar illa tekst til í rekstri. Stórar sértækar aðgerðir heyra sögunni til, að minnsta kosti miðað við núverandi stjórnarstefnu.

Erlendar fjárfestingar hafa tekið kipp. Það eru með öðrum orðum ekki aðeins við sjálf sem höfum trú á efnahagslífi okkar heldur telja fjölmargir erlendir fjárfestar fé sínu vel borgið með athafnasemi á Íslandi.

Fiskveiðistjórnunarkerfi okkar kemur nú í veg fyrir það sem áður var alsiða, að hækkandi fiskverð á erlendum mörkuðum valdi hraðri offjárfestingu í skipastól landsmanna. Í staðinn nota menn batann til að greiða niður skuldir, fjárfesta erlendis, hagræða í rekstri eða greiða þúsundum nýrra eigenda arð.

Hagkerfið er orðið fjölbreyttara en áður var. Auk fiskveiða og fiskvinnslu, sem í alþjóðlegum samanburði standa afar sterkt að vígi, hefur orkufrekur iðnaður rutt sér enn frekar til rúms, tölvuiðnaður og hugbúnaðargerð hefur á örfáum árum orðið afar fjörmikill, líftæknin hefur skotið rótum í landinu, ferðaþjónustan vex ár frá ári auk þess sem hátækniiðnaður tengdur sjávarútvegi blómstar í þeirri sambúð, útflutningur þess konar búnaðar hefur reyndar fimmfaldast á þessum áratug. Við erum með öðrum orðum að skjóta æ fleiri stoðum undir afkomu okkar.

Allt eru þetta atriði sem ekki eiga að koma á óvart og hafa oft komið fram í opinberri umræðu. Okkur er þó hollt að rifja þau upp. Þau segja okkar í fyrsta lagi að það skiptir máli hvaða umgjörð hið opinbera setur fyrirtækjunum. Við erum ekki aðeins óvirkir þiggjendur efnahagsbatans, heldur höfum við lagt okkar af mörkum. Mér þykir einsýnt að veikt ríkisvald og vanhugsaðar ákvarðanir fyrir og í niðursveiflum hafi haft afgerandi áhrif á hve djúpar og langvarandi slíkar efnahagslægðir hafi reynst hér á landi. Orðtakið segir: "Ef þú ert ofan í holu, hættu að moka." En það er einmitt það sem margir skildu ekki, þegar þeir duttu í efnahagsholurnar og grófu sig sem óðast dýpra og dýpra.

Það er afar auðvelt að glutra niður góðri stöðu. Það er álíka auðvelt og að borða of mikið og fitna, miðað við að reyna að grenna sig aftur. Ég þekki það af eigin reynslu. Slík glappaskot krefjast lítils af okkur í samanburði við það átak að koma okkur í þá stöðu sem við erum nú í. Til að mynda er sífellt sótt að ríkissjóði um aukin útgjöld. Virðist þrýstingurinn reyndar verða sífellt meiri eftir því sem okkur miðar meira áfram. Þeir sem hafa lyklaráð að ríkiskassanum þurfa því að vera aðhaldssamir og varkárir, ef ekki á að skapast hætta. Ég þarf síðan vart að taka fram hvað gerist ef þeir fá umboð til að sjá um þessa sjóði, sem fyrirfram hafa lýst yfir að allir eigi að fá allt sem þeir óska. Það er svona svipað og ef bændur létu minkinn hafa lykilinn að dyrunum að hænsnakofanum. Með slíkum aðferðum fer bati hins opinbera rakleiðis í súginn, samhliða því að fjölmörg tækifæri fara forgörðum. Óstöðugt verðlag og háir vextir sjá þá til þess í sameiningu.

Það er lykilatriði að í efnahagsmálunum sé vaxtastiginu gefinn góður gaumur. Það fer ekki sérlega hátt í umræðunni, þótt mikilvægt sé, að langtímavextir hafa verið að lækka jafnt og þétt undanfarin misseri. Ýmis konar athafnamennska og atvinnuskapandi starfsemi, sem við of hátt vaxtastig er óhagkvæm, hefur þannig orðið að veruleika í stað þess að fara framhjá okkur. Gera má ráð fyrir að raunvextir af verðtryggðum lánum til langs tíma verði einungis um og yfir 3,5% á næstu misserum, sem er gleðilegt í ljósi þess að fyrir aðeins tveimur árum var talið að afar erfitt yrði að komast niður fyrir hinn sálfræðilega 5% múr, sem svo var nefndur. Vextirnir, sem áratugum saman hafa verið hærri hér á landi en í löndunum í kringum okkur, eru þannig að nálgast það sem þar gerist. Þó eru margir grannar okkar að reyna að knýja áfram hagkerfi sín, á meðan við erum frekar á varðbergi gagnavart því að efnahagsvél okkar ofhitni. Miðað við þróunina má gera ráð fyrir að vextir séu hér á landi nú að nálgast langtímajafnvægi.

Við erum þannig að verða komin út úr því ástandi að vextir séu sérstaklega háir og þrúgandi. Hið háa vaxtastig átti vissulega sínar skýringar og var í raun nauðsynlegt miðað við stöðu mála. Eftir að velferðarkerfi atvinnulífsins var tekið úr sambandi í upphafi áratugarins urðu vextirnir til þess að óhagkvæmni í rekstri fyrirtækja var engin miskunn sýnd og atvinnulífið í landinu var knúið til að sýna betri afkomu. Sú viðleitni, þegar hún fór að skila sér, liðkaði síðan fyrir kjararsamningum og bætti hag lífeyrissjóðanna. Hins vegar er eðlilegt að vextir lækki, þegar hagkerfi okkar verður sífellt sterkara í gerð sinni. Lækkandi vextir hafa jafnframt jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn, sem verður fyrir vikið fýsilegri sparnaðarkostur. Hinir háu vextir á bréfum, sem ríkið gaf út, beindi fólki í allt of miklum mæli frá þátttöku í atvinnulífinu, sem aftur þýddi minni framleiðni og lægri laun.

Við sjáum núna fram úr þessu óeðlilega ástandi til langs tíma. Vissulega munu skammtímavextir sveiflast svo einhverju nemur. Seðlabankinn þarf að geta haft svigrúm til þess á hverjum tíma að laga skammtímavexti að takmarkinu um stöðugt gengi og, að lokum, um stöðugt verðlag. Okkur á hins vegar að geta lukkast að halda langtímavöxtum lágum og í jafnvægi. Þannig eiga breytingar þær á fjármálamarkaðinum sem þessi misserin eiga sér stað, s.s. sameining sjóða, hlutafélagavæðing og sala hlutabréfa, að vera síðustu stóru skrefin í ferli umbóta á þessu sviði. Með áframhaldandi sölu ríkisfyrirtækja, sem bæði eflir hlutabréfamarkaðinn enn og eykur hagkvæmni í efnahagslífi okkar, á hinn almenni rammi efnahagslífsins að vera vel viðunandi.

Það er hins vegar mín skoðun að þar megi ekki við sitja. Víðast hvar á jarðkringlunni hefur "hið opinbera" tilhneigingu til að bregða fæti fyrir fyrirtækin í smáum en útbreiddum stíl. Lengi hafa forsvarsmenn atvinnulífsins haft af því áhyggjur að við Íslendingar kynnum að vera taka smám saman upp þann ósið ýmissa ríkja að njörva alla okkar starfsemi niður í reglur og fyrirmæli. Hið opinbera telur sér skylt að fylgjast með sífellt fleiri þáttum athafnalífsins og mannlífsins. Í tvígang á undanförnu ári hefur verið óskað eftir því við þingið að frumvarp sem varðar eftirlit hins opinbera og reglusetningu verði afgreitt. Með því á að reyna að koma böndum á reglustýringu hins opinbera og vinna gegn óhagkvæmni í hagkerfinu af völdum smásmugulegra reglusetningar eða of ítarlegs eftirlits. Sumir þingmenn telja að borgurunum kunni að verða stefnt í hættu með því að þrengja heimildir hins opinbera til reglustýringar, eða með því að endurskoða opinbert eftirlit. Þeir hafa gert sitt ýtrasta til að í veg fyrir afgreiðslu málsins. Nú verður enn látið á vilja þingsins reyna.

Svo sem ég áður gat er síðan mikilvægt að áfram verði haldið að koma ríkisbönkunum í dreifða einkaeigu almennings. Eins þarf að gaumgæfa ýmsa kosti varðandi fjarskiptamarkaðinn og í framhaldinu orkumarkaðinn. Þessi atriði kannast flestir við. Hitt skiptir líka máli, þótt ekki sé eins það eins umfangsmikið í tölum talið, að við endurskoðum hvernig bakstuðningi stjórnvalda við ýmsa kima atvinnulífsins eigi að vera háttað. Við erum að reka Byggðastofnun, Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, Útflutningsráð, fjárfestingaskrifstofu viðskiptaráðuneytisins, Ferðamálaráð, rannsóknarstofnanir atvinnuveganna og ýmsa slíka starfsemi. Margt gott verk hafa þessar stofnanir unnið. Langt er þó í frá að við höfum komið upp óskeikulu kerfi sem ekki megi breyta. Hluti af þessu fyrirkomulagi öllu átti við þegar efnahagsmál okkar voru með allt öðrum hætti en þau eru í dag. Þarna þarf því að huga að hugsanlegum breytingum á næstu misserum.

Góðir gestir.

Yfirskrift Viðskiptaþings er að þessu sinni Alþjóðavæðing atvinnulífsins. Mikið hefur verið rætt og ritað um þetta hugtak og bæri sjálfsagt í bakkafullan lækinn ef ég ætlaði mér hér að gera einhvers konar akademíska úttekt á því. Hins vegar vil ég víkja nokkrum orðum að því sem ég varð vitni að fyrir örfáum dögum í þessu efni. Ég fékk tækifæri til að kynnast starfsemi ýmissa íslenskra fyrirtækja í Mexíkó. Sem dæmi má nefna íslensk-mexíkóska samvinnu í að veiða sardínu, sem er flokkuð og fryst í Mexíkó, flutt þaðan til Malasíu og soðin niður, og síðan seld víðs vegar um Asíu. Við fáum væntanlega að heyra betur um þetta í erindi Róberts Guðfinnssonar hér á eftir. Eins má nefna íslenska toghlera, sem eru framleiddir í Mexíkó og seldir til Bandaríkjanna, Chile, Argentínu og Uruguay. Hér er alþjóðavæðingin kristaltær. Og allir njóta góðs af, í þeirra dæmi Íslendingarnir, Mexíkanarnir og notendur framleiðslunnar. Þar koma saman sérfræðiþekking, staðbundin þekking og þekking á þörfum framandi markaða. Vissulega tekur útrás af þessum toga tíma, og ekki er víst að alltaf sé hægt svo auðveldlega að heimfæra vissa sérþekkingu á gjörólíkar aðstæður. Þessi þróun er samt sem áður afar jákvæð, og í raun nauðsynleg litlum þjóðum eins og okkur. Á það bæði við um athafnasemi íslenskra frumkvöðla á erlendri grundu sem og erlent áhættufjarmagn og erlenda þekkingu hér heima. Um þetta þarf vonandi ekki lengur að deila.

Hinu gleymum við þó stundum að hvorki íslenskir víkingaleiðangrar nútímans, né erlendar fjárfestingar hér heima, koma af sjálfu sér. Við þurfum að rækta garðinn okkar, sagði skáldið. Það á við hér. Við þurfum að halda efnahagslegum skilyrðum stöðugum og traustum, bæði til að íslensk fyrirtæki hafi þol til að leggja í framkvæmdir erlendis sem hugsanlega skila ekki arði jafn harðan, og einnig til þess að útlendingar vilji standa í rekstri hér á landi. Við verðum ennfremur að haga löggjöf okkar þannig að alþjóðlegt fjárstreymi fari sem mest hér um. Að því erum við til dæmis að vinna með frumvarpi um alþjóðleg viðskiptafélög, sem félagar Verslunarráðs þekkja sérstaklega vel. Við þurfum líka að sníða menntun unga fólksins okkar að nýjum þörfum og nýjum tækifærum. Má þar til dæmis nefna aukna áherslu á rannsóknir og upplýsingatækni og eins þarf að styrkja afbragðsnemendur til framhaldsnáms í ríkari mæli en áður hefur gerst. Forsenda alls þessa er að við gerum sífellt meiri kröfur til sjálfra okkar og að okkur verði ljóst að það nýtur enginn kosta alþjóðavæðingarinnar nema leggja nokkuð á sig.

En þótt flestir telji að hinn nýi heimur eigi að vera sem opnastur setja ýmsir fyrirvara. Slíkir varnaglar eiga sumir rétt á sér. Menn spyrja: Stofnar alþjóðavæðingin litlum menningarsamfélögum ekki í hættu? Steypast ekki allir í sama mót? Og eru fjármálakreppur sumra landa og óróleiki í hinu alþjóðlega hagkerfi ekki líka dæmi um að alþjóðavæðingin getur gengið of langt? Risafyrirtæki eru á móti landamærum, en eru þau ekki líka á móti þjóðum? Það er ekki óeðlilegt að svona sé spurt.

Mín skoðun er sú að við Íslendingar eigum ekki að þurfa að óttast um menningu okkar eða tungu þótt heimurinn minnki og frelsi aukist í samskiptum hvers kyns landa á milli. Við höfum einfaldlega svo sterka samkennd og ríka þörf á að rækta sameiginlegan arf, markmið, og gildismat. Þjóðernishyggja er góð, þegar hún birtist með þessum hætti.

Og varðandi það, hvort frelsi í fjármagnsflutningum milli landa skapi ekki stundum vandamál og hættur, þá er því ekki að neita. Ekki síst þegar lítil fjármálakerfi eiga í hlut. En höft á fjármálamarkaði eða einangrunarstefna af hvers kyns tagi mun hafa enn stærri vandamál í för með sér. Kreppan mikla fyrr á öldinni ætti að vera okkur nægt víti til varnaðar. Við Íslendingar hljótum að opna hagkerfi okkar enn meira en nú er, og tryggja þannig aukinn sveigjanleika og skjóta enn fleiri stoðum undir efnahagslíf okkar. Þannig stöndum við best að vígi í hinni alþjóðlegu samkeppni. Ekki með hinu; að girða okkur af og horfa óttaslegin á umheiminn.

En upp úr stendur, og sú er bæði forsendan og niðurstaðan, að sé ekki baklandið, hið íslenska efnahagslíf, í lagi, verður allt tal um alþjóðavæðingu fjasið eitt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum