Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. ágúst 1999 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Hólahátíð 1999

Ávarp á Hólahátíð 15. ágúst 1999


Kæru hátíðargestir

Það er okkur hjónum sæmd og gleði að fá að taka þátt í hátíðarhöldum hér á Hólum, einum merkasta helgi- og sögustað íslensku þjóðarinnar, og hefja daginn með því að hlýða á okkar mikla prédikara tala af stól Hóladómkirkju. Það eykur okkar gleði að nú eru margvísleg tímamót framundan, tímamót sem vel hafa verið undirbúin af kirkjulegu og veraldlegu valdi í landinu og reyndar fleiri aðilum, eftir því sem við á. Og allt snýst þetta tilstand að nokkru um tímann og því þá ekki að víkja að honum í upphafi máls.

"Það var mikil óöld í miðbænum í dag", sagði fréttaþulurinn er hann lýsti því þegar unglingar slettu úr klaufunum eftir próf. "Ljótt er að heyra en það leið fljótt hjá", sagði reyndur hlustandi þá. "Hann stendur sig ótrúlega vel, gamla brýnið, þrátt fyrir háan aldur", er sagt í fótboltalýsingunum um þrítugan framlínumann. Svona er tíminn til í margri mynd og erfitt að útskýra fyrirbærið. Það er þó sennilega ekki þess vegna sem sumir vilja helst drepa tímann og rekin er margvísleg starfsemi til að auðvelda mönnum þá iðju, sem ætti kannski að vera refsivert eða að minnsta kosti ámælisvert, því oft er haft á orði að tíminn sé dýrmætur. Svo eru hinir sem segjast ekki geta komið því í verk sem þeir vilja, því þeir hafi ekki tíma, en hafa ekki athugað að það er alls ekki víst að menn hafi tímann – það er sennilega tíminn sem hefur þá, þegar grannt er skoðað. Og nú stöndum við öll á öndinni yfir því að árið 2000 sé að ganga í garð og aldamót verði í lok þess. Stærsti hluti mannkyns er þó annað hvort beint eða andlega utan við það tímatal. Okkur kristnum mönnum ætti á hinn bóginn ekki að koma á óvart að Kristur lifi enn í þessum heimi, að minnsta kosti hljótum við að vera sammála um að 2000 ár séu ekki stór hluti af eilífðinni – "þúsund ár – dagur ei meir" höfum við þegar sungið í hundrað ár hér á landi og erum vonandi rétt að byrja þann söng.

Allt er þetta satt og rétt og jafnvel bæði gott og blessað. En nú er það einu sinni svo að við höfum fyrir löngu komið okkur saman um að ár með núlli fyrir aftan tölu séu önnur og meiri en hin árin. Þetta stendur hvergi skrifað, svo ég viti, en svona er þetta. Það væri talinn hálfvitlaus maður sem héldi stórafmæli er hann yrði 53 en lét sem ekkert væri þegar hann varð fimmtugur. Þó er 53 ára afmælið óneitanlega þremur árum meira afrek en hið fyrra, en það hefur ekkert með málið að gera, af einhverjum ástæðum, sem við vitum ekki hverjar eru. Og að þessu gefnu, þá er ekki að undra að glatt verði á hjalla og margs verði minnst, ekki síst hér á landi á næstunni. Sá hluti mannkyns sem fagnar árinu 2000 hefur í flestum tilfellum ekki öðru sambærilegu að fagna og því og þykir ærið. Við eigum auðvitað okkar hlut í árinu 2000, en eins og vant er þá höfum við sérstöðu. Það er nefnilega þríheilagt hjá okkur einum. Auk ársins 2000 fögnum við því að hafa fundið Ameríku einum fimmhundruð árum á undan öðrum og það sem meira er að þúsund ár séu frá því að þjóðin gekk Kristi á hönd á Þingvöllum við Öxará. Og þar lutu menn lögum en véku ekki nauðugir fyrir vopnum eins og sumstaðar annars staðar varð raunin. Ég er ekki viss um að við hefðum að öðrum kosti glaðst jafn fölskvalaust yfir þeim mikla atburði og við ætlum að gera á þessum tímamótum. Ef blóð hundruða manna hefði verið skírnarvatnið fyrir þúsund árum væri öðruvísi horft til þeirra atburða nú. Afrekið á Þingvöllum árið 1000 verður enn meira fyrir þá sök að þar voru ekki síst vígamenn og stórbokkar saman komnir, menn sem margir hverjir og kannski flestir voru vanir að láta vopnin tala og hlusta lítt á aðrar ræður. Og dæmin annars staðar frá um ódæðin og voðaverkin sem framin voru í nafni þess sem einn verður með sanni kallaður friðarhöfðingi voru mörg og ljót. Enn í dag þykjast menn tala í nafni hans og umboði þegar þeir sprengja aðra kristna menn til ólífis eða limlestingar, og það upplýstir nútímamenn í nágrenni okkar hér í Norður-Evrópu. Þar eimir enn af deilum sem lauk hér á landi fyrir 450 árum og þau heilögu setur Hólar og Skálholt voru helstu leiksvið þeirrar sögu og öxin og höggstokkurinn þýðingarmestu leikmunirnir.

Kristnir menn hér á landi geta kinnroðalaust horft þúsund ár um öxl til hinnar stóru stundar á Þingvöllum og þeir geta gert meira en það. Þeir munu fagna og þakka af heilum hug um landið allt. Fyrstu skrefin hafa þegar verið stigin í ýmsum prófastdæmum, nú í dag í höfuðborginni og mun hver atburður síðan reka annan allt til Þingvallahátíðarinnar sjálfrar á sumri komanda.

Við Íslendingar, sem nú erum á dögum, teljum afrek Þorgeirs goða og þeirra sem að ráðum hans fóru okkur til tekna. Með sama hætti höldum við okkar hlut á lofti nú þegar 1000 ár eru frá því að landar okkar litu Ameríku augum fyrstir hvítra manna svo vitað sé. Við stærum okkur ekki síður af verkum þeirra landa okkar sem færðu sögurnar og kvæðin á skinn. Við böðum okkur í ljómanum skæra sem lýsir inn í allar aldir af sálmum séra Hallgríms og annarra íslenskra skálda og andans manna.

Við færum þessi afrek forfeðranna öll eignamegin í dálkana í bókunum okkar. En við teljum á hinn bóginn minni ástæðu til að færa í hinn dálkinn það sem aflaga fór í gegnum aldirnar. Heimóttarháttur og hleypidómar, úrræðaleysi og sundurþykkja dró einatt mátt úr þessari fátæku þjóð. Sinnuleysi við að nýta gagn og gæði landsins til sæmilegs lífs, hjátrú og hindurvitni sem oft þjökuðu þessa þjóð og dró úr þreki hennar er ekki fært í okkar bækur. Ekkert af því er hluti af arfinum sem við erum svo stolt af og stærum okkur af þegar tilefni gefst. Sama gildir um forfeður okkar. Við veljum þá líka eftir því sem best fer á. Bent hefur verið á að flestir Íslendingar telji sig komna af Agli Skallagrímssyni en enginn af vinnumanni hans. Nærtækara er hér á þessum stað að nefna til sögunnar Jón Arason sjálfan. Því af honum munum við flest komin með nokkuð öruggri vissu.

Séra Sveinn komst í Íslandssögu fyrir seinheppni eins og fleiri menn er hann minnti Jón biskup Arason á að líf væri eftir þetta líf. Mun Jóni Arasyni hafa þótt illa til fundið hjá egginu að taka að kenna hænunni á leið hennar undir öxina og tryggði Sveini fyrir vikið eilíft líf með svari sínu. Ekki veit ég hvað Séra Sveinn átti af afkvæmum en engan mann hef ég hitt sem rekur sig til hans. Löngum höfum við kallað forfeður okkar til vitnis ef mikið liggur við. Maður sem sótti um innflutningsleyfi fyrir vöru 1936 fékk synjun með þessum rökstuðningi frá formanni innflutningsnefndarinnar: "Ekki brúkuðu forfeður vorir regnhlífar."

Kannski getum við nútímamennirnir treyst því að síðari kynslóðir muni aðeins færa í sínar bækur það skásta af verkum okkar, og telja það sér til tekna og upphefðar á ókomnum öldum. Það gera þeir verði þeir líkir okkur. En það gefur okkur tilefni til að keppa að því að eitthvað verulegt megi færa í dálkinn tekna megin þegar 21. öldin verður síðar gerð upp. Óöld getur staðið í eina kvöldstund í miðbænum og er öllum gleymd upp frá því. Gullöld getur ýmist verið það góða skeið þegar skrifaðar voru ódauðlegar sögur eða það augnablik þegar af munni heiðingjans hljómaði setningin um bergkastalann á Þingvöllum: "Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn." Og gullöld getur sú öld sem senn kveður einnig kallast því í hennar tíð hafa efnaleg gæði og hagur alls almennings batnað með ótrúlegum hætti, og eru engin dæmi um slíkar framfarir í annan tíma.

Er það ekki tilhlökkunar- og vonarefni, að næsta öld verði talin jafnvel enn fremri þeirri sem nú kveður? Höfum við betra mark að setja okkur en það að gera okkar besta hvert og eitt, svo þannig megi fara? Við ráðum vissulega ekki ein för eða úrslitum um hvernig til muni takast. En við getum þó lagt okkar af mörkum. Það sýna mannanna verk á nýliðnum hundrað árum.

Á allra síðustu árum aldarinnar höfum við fært okkar litla þjóðfélag í alveg nýtt horf. Rétt er að viðurkenna að það gerðum við sumpart því við áttum ekki annars kost. Við höfum sett okkur þau markmið að lifa og hrærast í samfélagi þjóðanna, taka hiklaus þátt í þeirri hörðu samkeppni sem veröldin bíður upp á. En við höfum jafnframt, mörg hver strengt þau heit að stuðla að því að þjóðin týni ekki sjálfri sér í öllu því ölduróti og ólgusjó og þeim hvassa vindi sem nú þarf að sigla. En það er meira en að segja það. Fljótt geta mál snúist svo á hinn verri veg, að ekki verði við ráðið, fari menn fram með glannaskap og óhófi.

Í heimi þar sem allt er falt og hvorki er skeytt um skömm eða heiður, er jafnvel hið besta og skærasta í arfi lítillar þjóðar naumast talið þess virði að færa til bókar. Mörgum Íslendingum virðist nú orðið finnast þjóð, tunga og föðurland fyrirferðamiklir pinklar og tæpast þess virði að borga fyrir þá yfirvigt í reisum fólks og fjármuna um veröldina. Vissulega erum við ekki hrædd við átök á alþjóðlegum markaði. Við höfum sýnt að við stöndum vel allan samanburð við aðrar þjóðir og heiðarleg samkeppni er okkur að skapi. En okkur er engin nauðsyn þess að fórna öllu sem íslenskt er né heldur að færa síðasta orðið í okkar málum í annarra hendur.

Fargi var létt af frjálshuga fólki um allan heim þegar múrinn féll og kommúnisminn flaut yfir hrunið steypuvirkið og fjaraði út. En það mikla land Rússland með öllum sínum náttúrukynstrum og -kostum fær ekki notið sín, því stjórnkerfið og efnahagslífið nær ekki að þroskast og virðist um þessar mundir einkum lúta lögmálum glæpalýðs og eiturlyfjabaróna. Blóðpeningar þeirra flæða um Evrópu og skapa þar ótta og öryggisleysi. Menn sem engar leikreglur virða, leitast við að þvo illa fengið fé sitt í fjármálakerfum þjóðanna. Margir stjórnmálaforingar í Evrópu telja þetta mestu ógnun sem nú sé við að eiga á Vesturlöndum.

Við Íslendingar, sem svo nýlega höfum opnað okkar hagkerfi, þurfum að gæta þess að verða ekki leiksoppur slíkra afla. Efnahagskerfið verður að vera opið og einfalt en jafnframt gagnsætt og byggt á trausti. Lykilorðið er traust. Á Þingvöllum treystu menn sáttarorðum Þorgeirs Ljósvetningagoða, vitsmunum hans og velvilja. Í þúsund ár hafa menn sett traust sitt á kærleik Krists í þessu landi. Í því trausti munum við ganga á vit nýrrar aldar, sem einstaklingar, sem fjölskyldur, sem þjóð - íslensk þjóð í eigin landi, með þeim ásetningi að verða Guði til ánægju og dýrðar á afmælisári og upp frá því.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum