Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. nóvember 1999 HeilbrigðisráðuneytiðIngibjög Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra 1995-2001

Frumvarp til laga um málefni aldraðra - flutningsræða

Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra:

Flutt á 125. löggjafarþingi
22. nóvember 1999

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um málefni aldraðra.

Frv. er samið í samræmi við ákvæði í núgildandi lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989, sem kveður á um að lögin skuli endurskoða innan fimm ára frá gildistöku þeirra. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra hóf endurskoðun á lögunum og lagði fram drög að frv. Drögin voru send ýmsum samtökum aldraðra til umsagnar, fagfélögum og stjórnvöldum sem fara með málefni aldraðra. Bárust umsagnir frá 19 aðilum. Skipuð var nefnd embættismanna og sérfræðinga til að fara yfir umsagnirnar og endurskoða frv. Í framhaldi af því lagði ég fram frv. í febrúar sl., en það náði ekki fram að ganga.

Frumvarpið hefur enn verið endurskoðað og hafa nokkrar breytingar verið gerðar á textanum. Aðalbreytingin er að ákvæði um að heilbr.- og trmrh. skuli eiga fulltrúa í stjórn stofnana fyrir aldraða hefur verið fellt út. Aðrar breytingar eru smávægilegar lagfæringar á orðalagi.

Í frv. er gert ráð fyrir breyttri framsetningu laganna, markmið gerð einföld og skýr og tiltekin hugtök skilgreind. Sem dæmi má nefna að orðið aldraður er skilgreint í frv. sem einstaklingur sem er orðinn 67 ára gamall. Hugtak þetta er ekki skilgreint í núgildandi lögum og hefur það leitt til óskýrleika í framkvæmd. Er stuðst við aldursmark ákvæða almannatryggingalaga um ellilífeyri. Í frv. er einnig skilgreint hugtakið öldrunarmál, en það eru þau mál sem varða aldraða og heyra undir yfirstjórn heilbr.- og trmrh. Lögð er mikil áhersla á þátttöku aldraðra í ákvörðun um eigin málefni og reynt að einfalda ákvarðanatöku og framkvæmd.

Ein mikilvægasta breytingin frá núgildandi lögum er að gert er ráð fyrir fjölgun fulltrúa í samstarfsnefnd um málefni aldraðra og að skipun nefndarmanna fari fram að loknum alþingiskosningum en ekki sveitarstjórnarkosningum. Samkvæmt núgildandi lögum sitja þrír fulltrúar í nefndinni skipaðir af heilbr.- og trmrh., einn tilnefndur af Öldrunarráði Íslands, annar tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og sá þriðji án tilnefningar. Tveir fulltrúar bætast við samkvæmt frv., einn tilnefndur af Landssambandi eldri borgara og annar án tilnefningar. Fulltrúar án tilnefningar verða því tveir og skal annar þeirra hafa fagþekkingu á málefnum aldraðra.

Rökin fyrir því að stækka samstarfsnefndina eru fyrst og fremst mikilvægi hennar. Nefndin fer með stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra en árlegt ráðstöfunarfé hans er um hálfur milljarður króna. Nefndin ber því mikla ábyrgð og þótti rétt að dreifa henni á fleiri hendur. Það er einnig í samræmi við nútímastjórnsýsluhætti að hafa fulltrúa sérhópa með í ráðum þegar hlutast er til um mál varðandi þá. Samkvæmt núgildandi lögum sjá þrír aðilar um þjónustu við aldraða, þ.e. öldrunarnefndir, öldrunarmálaráð og þjónustuhópar aldraðra. Það gefur augaleið að slíkt fyrirkomulag er ekki hagkvæmt, sérstaklega í fámennum byggðarlögum.

Frv. gerir ráð fyrir því að öldrunarnefndir og öldrunarmálaráð verði lögð niður og að þjónustuhópar aldraðra verði styrktir. Þjónustuhópar aldraðra hafa verið virkastir af þeim hópum sem starfa samkvæmt núgildandi lögum og með því að efla þá er verið að taka mið af reynslu og einnig er það til hagræðis og einföldunar.

Frv. gerir ráð fyrir að þjónustuhópar aldraðra verði skipaðir með formlegri hætti en nú er, að fjölgað verði úr fjórum í fimm fulltrúa og að þjónustuhópur verði í hverju heilsugæsluumdæmi. Sveitarstjórnir í umdæmi heilsugæslustöðva skipa fulltrúa í þjónustuhópa aldraðra, en samkvæmt núgildandi lögum er það öldrunarnefnd sem kveður menn til starfa í þjónustuhóp. Það er óbreytt að í hópum sitji læknir og hjúkrunarfræðingur, en nýmæli að þau séu tilnefnd af héraðslækni. Tveir fulltrúar í þjónustuhópi eru án tilnefningar og einn fulltrúi tilnefndur af samtökum eldri borgara á svæðinu. Skipun fulltrúa sem tilnefndur er af samtökum eldri borgara er nýmæli og því enn verið að leggja áherslu á þátttöku aldraðra í ákvörðunum um eigin málefni. Mjög mikilvægt er að skýrar reglur gildi um skipun og verkefni þjónustuhópa aldraðra þar sem þeir gegna afar þýðingarmiklu starfi. Þeir eiga á starfssvæði sínu að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra og samhæfa þjónustu. Þeir eiga jafnframt að gera tillögur um öldrunarþjónustu á starfssvæðinu og leitast við að tryggja að aldraðir fái þá þjónustu sem þeir þarfnast og kynna þeim þá kosti sem í boði eru. Þeir hafa einnig það mikilvæga starf að meta þörf aldraðra fyrir vistun á stofnunum.

Framkvæmdasjóður aldraðra mun áfram hafa það hlutverk sem hann hefur samkvæmt núgildandi lögum, þ.e. hann á að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt. Í því felst að sjóðurinn fjármagnar byggingu þjónustumiðstöðva, dagvista og stofnana fyrir aldraða. Einnig fjármagnar sjóðurinn rekstur og stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum. Þess má sérstaklega geta að endurbætur á stofnunum teljast vera hluti af rekstri þeirra. Ákvæði í núgildandi lögum um tekjur sjóðsins eru óbreytt í frv.

Nauðsynlegt er að bæta þekkingu á öldrunarmálum í þjóðfélaginu þar sem öldruðum á eftir að fjölga verulega næstu áratugina. Það þarf að kynna málefni aldraðra fyrir almenningi til að auka skilning á aðstæðum þeirra og aðbúnaði. Í frv. er það nýmæli að Framkvæmdasjóður aldraðra veitir fjármagn til að styrkja kennslu og kynningu á öldrunarmálum. Þá er heimilt að styrkja minni háttar rannsóknir og kannanir sem koma öldruðum til góða. Einnig styrkir sjóðurinn starf þeirra nefnda í ráðuneytinu sem vinna lögum og reglugerðum samkvæmt að framgangi öldrunarmála.

Virðulegi forseti. Málefni aldraðra hafa verið mjög til umræðu að undanförnu og m.a. verið bent á að endurskoðun á lögum um málefni aldraðra sé bæði tímabær og mikilvæg. Því er það fagnaðarefni að þessari endurskoðun er lokið. Frv. einfaldar og skýrir lögin og síðast en ekki síst eykur það verulega þátttöku aldraðra í ákvörðunum um eigin málefni. Slík þátttaka er mikilvæg þar sem meiri hluti eftirlaunafólks er við góða heilsu og getur tekið ákvarðanir um eigin málefni. Aldraðir eru ekki einsleitur hópur heldur hópur þjóðfélagsþegna með ólíkar þarfir og lífssýn.

Ég tel mikilvægt að á því ári sem Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað öldruðum takist að afgreiða frv. frá hinu háa Alþingi. Ár aldraðra hefur orðið til þess að fólk, aldraðir og ungir, hefur velt fyrir sér á nýjan hátt heilbrigðis-, félags- og fjármálum aldraðra hér á landi, enda hefur öflugt starf verið unnið á vegum nefnda. Dagur aldraðra er einmitt setningardagur þingsins, 1. október, svo það er mjög við hæfi að mál aldraðra fái brautargengi á þessu þingi.

Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum