Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. mars 2000 HeilbrigðisráðuneytiðIngibjög Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra 1995-2001

Frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnarlögum - flutningsræða

Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra:

Flutt á 125. löggjafarþingi
23. mars 2000

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997.

Campylobacter-sýkingar hafa lengst af verið tiltölulega fátíðar hér á landi. Á þessu varð breyting árið 1998. Sýklafræðideild Landspítalans tilkynnti sóttvarnalækni í ársbyrjun 1999 um aukinn fjölda innlendra tilfella á árinu 1998. Þegar ljóst var að aukningin virtist halda áfram árið 1999 boðaði sóttvarnaráð fulltrúa yfirdýralæknis og Hollustuverndar ríkisins til fundar þar sem vandinn var ræddur og lagt var á ráðin um aðgerðir.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem þá lágu fyrir var líklegast talið að campylobacter-sýkingarnar stöfuðu af menguðum kjúklingum en mikilvægt þótti að kanna aðra möguleika einnig. Beindust aðgerðir að því að kynna fyrir almenningi hættuna sem stafar af ófullnægjandi meðferð matvæla, einkum kjúklinga. Jafnframt voru lögð drög að umfangsmiklum aðgerðum til rannsóknar á útbreiðslu campylobacter-mengunar í matvælum og umhverfi.

Ríkisstjórnin veitti sumarið 1999 fjármuni til þess að flýta rannsóknum á útbreiðslu campylobacter-mengunar í dýrum, matvælum og umhverfi. Í kjölfarið var birt skýrsla um könnun á útbreiðslu campylobacter og orsökum sýkinga í mönnum ásamt tillögum um aðgerðir.

Var skipuð nefnd um framkvæmd mála vegna útbreiðslu campylobacter. Nefndin taldi boðleiðir til að uppræta smit ekki nægilega skýrar og þar af leiðandi erfitt að samræma aðgerðir um landið allt. Þegar hætta væri á útbreiðslu smitnæmra sjúkdóma sem ógnað gætu heilsu manna þyrfti að veita tilteknum aðilum heimild til að afla nauðsynlegra gagna og hafa yfirumsjón með aðgerðum til að meta og uppræta smithættu. Lagði nefndin til að sérstök samstarfsnefnd tæki að sér þetta hlutverk.

Í frv. er gert ráð fyrir að heilbr.- og trmrh. skipi sérstaka samstarfsnefnd, þegar þörf skapast, sem hafi það hlutverk að afla nauðsynlegra gagna og hafa yfirumsjón með aðgerðum til að meta og uppræta smit. Gert er ráð fyrir að nefndin verði skipuð þremur mönnum, sóttvarnalækni, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, einum manni tilnefndum af Hollustuvernd ríkisins og öðrum af yfirdýralækni.

Frv. gerir ráð fyrir að nefndin hafi aðgang að nauðsynlegum gögnum og öllum stöðum sem hún telur nauðsynlegt að skoða og geti fengið til þess aðstoð lögreglu ef með þarf. Þegar nefndin telur þörf á gefur hún öllum þeim sem hafa eftirlit með dýrum, matvælum og umhverfi fyrirmæli um að grípa án tafar til allra nauðsynlegra aðgerða til að uppræta smit.

Frv. gerir ráð fyrir að sóttvarnalæknir geri faraldsfræðilega rannsókn á uppruna smits ef hópsýking eða farsótt sem ógnar heilsu manna brýst út. Hefur sóttvarnalæknir í slíkum tilvikum sama rétt til að fá upplýsingar og til skoðunar og samstarfsnefndin.

Reynslan sýnir að oft eru það sýkingar í mönnum sem verða fyrstar til að gefa vísbendingar um uppruna smits. Því er sífelld vöktun og greining á orsökum alvarlegra sýkinga forsenda þess að hægt sé að grípa snemma til aðgerða áður en hópsýking eða farsótt fer úr böndum. Slíkar aðgerðir eru eitt megináhersluatriði sóttvarnalaganna.

Með frv. er einnig lagt til að heimilt verði að setja ákvæði í reglugerð um læknisrannsóknir á fólki ef tilmæli berast um það frá sóttvarnalækni. Er með því verið að bregðast við tilmælum sóttvarnalæknis en hann telur mikilvægt að hafa slíka heimild í lögum þegar talin er hætta á að næmar sóttir sem ógnað geti almenningsheill berist til landsins.

Útlendingar sem EES-samningurinn tekur ekki til og sækja um dvalarleyfi og/eða atvinnuleyfi þurfa að kröfu Útlendingaeftirlitsins að framvísa heilbrigðisvottorði áður en umsókn þeirra er yfirfarin. Hafa þessar aðgerðir stuðst við tilmæli og dreifibréf landlæknis fram að þessu. Hér er því verið að setja slíka heimild í lög en þó með vissum takmörkunum.

Loks eru í frv. ákvæði sem kveða skýrar á um ábyrgð sóttvarnalæknis, kostnað vegna framkvæmda laganna og um greiðsluhlutdeild sjúklinga. Sama gildir um heimild til að veita undanþágu frá greiðsluhlutdeild sjúklinga. Slík undanþáguheimild verður að vera fyrir hendi þegar sjúklingar leita til göngudeildar smitsjúkdóma vegna greiningar og meðferðar tilkynningarskyldra smitsjúkdóma, þegar sjúklingar eru kvaddir til rannsókna til að leita að smiti og þegar fólki er gert að sæta læknisrannsókn.

Virðulegi forseti. Í ræðu minni hef ég lauslega farið yfir aðdraganda þess að ég legg fram frv. til laga um breytingu á sóttvarnalögum. Aðalástæða breytinganna er að nauðsynlegt er að hafa einfaldar og skýrar reglur í sóttvarnalögum um það hvernig skuli bregðast við hópsýkingum og farsóttum. Einnig er mikilvægt að hafa í lögum heimild til að krefjast þess að fólk sem kemur til landsins frá svæðum þar sem smitsjúkdómar eru landlægir fari í læknisrannsókn ef það vill dvelja hér á landi.

Ég tel mikilvægt að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum