Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. mars 2000 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ársfundur Seðlabanka Íslands 2000

Ávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra á ársfundi Seðlabankans
29. mars 2000



Fundurinn hér í dag er fyrsti ársfundur Seðlabankans eftir að hann var fluttur til innan Stjórnarráðsins, frá viðskiptaráðuneytinu til forsætisráðuneytisins. Breyting þessi var harla eðlileg enda Seðlabankinn ekki hefðbundinn bankastofnun eða viðskiptabanki, heldur einn hornsteina þeirrar efnahagsstefnu sem rekin er í landinu á hverjum tíma. Forsætisráðuneytið hefur sem kunnugt er með höndum samræmingu þeirra ákvarðana ríkisvaldsins sem lúta að efnahagsmálum. Mikilvægt er að hafa boðleiðir stuttar og skýrar, og var þessi tilflutningur gerður í þeim anda.

Breytingin sem varð á lagaramma Seðlabankans um áramótin fólst eingöngu í að færa forræði bankans til innan stjórnkerfisins. Af ráðnum hug var ekki farið í neinar eiginlegar efnisbreytingar á löggjöf um Seðlabankann, svo ekki væri verið að blanda saman eðlisólíkum málum og markmiðum. Með þessum stjórnskipulega flutningi bankans gefst hins vegar tilefni til þess að endurskoða nú í heild sinni löggjöfina um hann. Bankanum hefur verið falið að draga saman efni og áhersluatriði, sem ríkisstjórnin mun svo vinna úr og leggja fyrir þing í frumvarpsformi. Lögin um bankann eru komin til ára sinna og frá því að þau voru sett hefur margt í umhverfi hans tekið stórstígum breytingum. Fjármálakerfi okkar Íslendinga, og reyndar fjölmargir aðrir innviðir hagkerfis okkar, eru nú í allt annarri mynd og lúta öðrum lögmálum en var fyrir aðeins áratug.

Nokkur umræða varð í þjóðfélaginu síðast þegar bankastjóri var ráðinn að þessum banka. Ekki var þó um það deilt að sá er ráðinn var, Finnur Ingólfsson, er prýðilega hæfur til að gegna starfinu. Fjölmargir hæfileikamenn sóttu ásamt Finni um stöðuna, þar á meðal sumir af lykilmönnum bankans, ásamt öðrum góðkunnum og vel menntuðum mönnum. Þegar lagareglum um starfsmannahald ríkisins var síðast breytt fórst fyrir að tryggja, að ekki væri að lögum skylt að auglýsa stöðu bankastjóra í Seðlabanka Íslands. Engin slík skylda á við um sams konar stöður annars staðar í heiminum. Gæta þarf að því að fella þessa skyldu niður við breytingar á lögum um bankann. Áfram verði þó auðvitað heimilt að auglýsa starfið, en ekki lengur skylt.

Nokkuð er í tísku hér á landi að tala um að réttast væri að einhvers konar seðlabankaeinvaldur fari með forystu í stofnun af þessu tagi. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að ekki eigi að fækka bankastjórum niður í einn, eins og margir halda fram. Seðlabankinn er ekki fyrirtæki í samkeppni á markaði, heldur hafa ákvarðanir bankastjórnar Seðlabankans pólitíska hlið og hafa áhrif á svo að segja alla þegna landsins. Því er nauðsynlegt að mál séu skoðuð frá mörgum sjónarhornum áður en bankastjórnin setur þann efnahagslega kúrs, sem henni ber að setja. Um þetta atriði gildir hið sama og um auglýsingaskylduna, að í hinum stóra heimi sem við berum okkur svo oft saman við, hygg ég að ekki séu til dæmi um það, að einum manni sé falið ákvörðunarvald seðlabanka, þrátt fyrir útbreiddan misskilning um annað.

Við endurskoðun þá, sem áður var getið, þarf hins vegar að huga að tengslum bankans við forsætisráðherra og ríkisstjórn á hverjum tíma. Oft heyrist sagt að sjálfstæði íslenska seðlabankans sé lítið. Þótt kannast megi við að sú fullyrðing sé ekki að öllu leyti röng, er hún það í veigamiklum atriðum.

Bankinn er í reynd sjálfstæður í sínum málum. Hann þarf vissulega að hafa tiltekið samstarf við ríkisstjórnina, og á að vinna að sömu efnahagsmarkmiðum og ríkisstjórn. Ég fæ ekki séð að það sé skynsamlegt eða einhverjum til heilla að Seðlabankinn vinni að einhverjum öðrum markmiðum í efnahagsmálum en ríkisstjórnin. Hitt er annað mál að Seðlabankinn á að hafa heimild og skyldu til að kynna ríkisstjórn skoðun sína og sjónarmið, þó einkum ef þau stangast á við stefnu eða framkvæmd ríkisstjórnar í efnahagsmálum. Og hann, en ekki ríkisstjórnin, á að meta á hverjum tíma hvernig hann nýtir sín tæki og úrræði til að vinna að hinum sameiginlega málstað.

Það er svo í öllum löndum að seðlabönkum eru sett pólitísk markmið í lögum og kveðið á um verkaskiptingu seðlabanka og annarra stjórnvalda og samstarf þeirra á milli. Munurinn á þessum banka og öðrum seðlabönkum, sem menn hafa kallað til vitnis um að búi við ríkt sjálfstæði, er því að mínu viti nokkuð minni en komið hefur fram í umræðunni.

Vandlega þarf að huga að öllum þessum þáttum og fleirum í endurskoðun þeirri sem ég nefndi að nú muni eiga sér stað. Þannig má segja að það hafi verið spor aftur á bak þegar ákveðið var að ráða skyldi bankastjóra Seðlabankans aðeins til fimm ára í senn, vegna þess að þá er framtíð hvers bankastjóra meira í höndum ráðherrans en áður var. Að því leytinu má segja að sjálfstæði hans hafi verið veikt, sem var örugglega ekki meiningin.

Í framangreindri endurskoðun þarf einnig að taka tillit til fleiri þátta en Seðlabankans eins. Nú er svo komið að Hagstofan, Þjóðhagsstofnun og Seðlabankinn heyra undir einn og sama ráðherra. Með þeirri stöðu gefst færi á að skoða verkaskiptingu milli þessara stofnana að nýju og huga að því hvar henti að samþætta verkefni og stokka upp að öðru leyti.

Góðir gestir.

Almennir kjarasamningar í landinu eru langt komnir. Á næstu dögum kemur í ljós hvort félagsmenn Flóabandalagsins svokallaða fallast á þann samning sem gerður hefur verið. Grundvallaratriði er, að með samningunum megi takast að standa vörð um hinn gríðarlega kaupmáttarbata undanfarinna ára og að lagður verði grunnur að áframhaldandi sókn í kaupmætti. Stórfelldar hækkanir á innistæðulausum launatöxtum mundu einfaldlega draga úr kaupmætti, eins og svo oft hefur gerst á undanförnum áratugum. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti reynt að stuðla að því að samningar komist á, meðal annars með skattalækkun, hækkun tryggingabóta og auknum barnabótum. Vissulega er vafasamt að slaka á aðhaldi í ríkisfjármálum á tímum fullrar atvinnu og ofhitnunar á mörgum sviðum hagkerfisins. En hvað er hér í húfi? Með þeim kjarasamningum sem hafa verið undirritaðir er verið að festa í sessi að skynsamlegir kjarasamningar séu gerðir til þriggja ára í senn eða jafnvel lengur. Þetta er grundvallarbreyting frá því sem áður var og eitt veigamesta atriðið í áframhaldandi stöðugleika. Þetta þarf að hafa í huga þegar þáttur ríkisins er metinn.

Á móti þessum aðgerðum í tengslum við kjarasamningana verður spornað gegn aukinni þenslu með margvíslegum hætti. Í fyrsta lagi stendur fyrir dyrum einkavæðing sem bindur fé og styrkir reyndar hugsanlega gjaldeyrisforðann í leiðinni. Þá stefnir ríkisstjórnin að því að næstu fjárlög verði afgreidd með enn meiri afgangi en í ár, sem þó var sá mesti hingað til.

Síðast en ekki síst er í fjármálaráðuneytinu nú verið að leggja lokahönd á frumvarp, sem hvetja mun fólk til að auka sparnað sinn verulega, verði það að lögum. Þar verður meðal annars kveðið á um að frádráttarbær heildariðgjöld atvinnurekenda og launþega til lífeyrissparnaðar geti samtals numið allt að 20% af launum, með ákveðnu hámarki þó í krónum talið. Hér er umtalsverð almenn rýmkun, á þeim hluta launagreiðslna sem geta verið frádráttarbærar frá skatti með skipulögðum lífeyrissparnaði og njóta því skattfrestunar þar til að útborgun úr lífeyrissjóði kemur til. Í þessu felst með öðrum orðum markviss hvatning til aukins sparnaðar. Til viðbótar mun ríkið auka mótframlag sitt til hins frjálsa viðbótarlífeyrissparnaðar, sem í dag nemur 0,2% af launum, í 0,4%. Með þessum breytingum styrkja Íslendingar enn stöðu sína sem forystuþjóð á sviði lífeyrismála.

Einnig verður á næstunni lagt fram frumvarp þar sem settar verða reglur um skattalega meðferð kaupréttarsamninga á hlutabréfum hjá starfsmönnum fyrirtækja. Hugmyndin er að styðjast ekki síst við bandarískar fyrirmyndir varðandi skattlagningu á þessari nýjung í kjörum starfsmanna. Kaupréttur sem hluti launakjara hefur verið að ryðja sér til rúms hér á landi og hefur þann augljósa kost að gera smám saman æ fleiri launamenn að eignafólki. Verður þess gætt að slíkur réttur nái til allra starfsmanna í hverju fyrirtæki en ekki fárra útvalinna.

Til skamms tíma skiptir þó mestu að skapaður er umtalsverður ávinningur af auknum lífeyrissparnaði, bæði hjá vinnuveitendum og launþegum. Þessar aðgerðir falla vel að þeim auknu áherslum á lífeyrissparnað, sem til dæmis koma fram í samningum Flóabandalagsins og Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Með þeim áformum um einkavæðingu og um mikinn afgang á fjárlögum sem ég áður gat um, eru þessar aðgerðir hugsaðar sem samræmt átak til aukins þjóðhagslegs sparnaðar.

Þörfin fyrir aukinn sparnað er einmitt knýjandi nú á næstunni. Það gengur enginn að því gruflandi að brýnasta verkefnið í efnahagsmálum í augnablikinu er að koma niður verðbólgunni. Minni eyðsla og aukinn sparnaður er lykilatriði í því viðfangsefni. Vonir standa til þess að matarverð muni á næstunni ekki halda áfram að þrýstast upp eins og verið hefur. Húsnæðisverð heldur hins vegar áfram að hækka á höfuðborgarsvæðinu, þótt myndarlegar aðgerðir í lóðamálum gætu í einu vetfangi dregið verulega úr spennu á þeim markaði. Olíuverð mun lækka á næstunni með því að dregið verður úr framleiðslutakmörkunum olíuríkjanna. Ég hef áður rætt um launamálin og þær væntingar sem gerðar eru til samningana. Þeir breyta þó ekki hinu að skortur á vinnuafli í tilteknum greinum mun óhjákvæmilega auka launakostnað nokkuð þar enn um sinn, og umfram það sem kjarasamningar ákveða.

Þótt brýnasta verkefnið í efnahagsmálum sé að ná niður verðbólgunni þá þarf til lengdar litið einnig að tryggja jafnvægi í þjóðarbúskapnum út á við eins og það birtist í jöfnuði viðskipta við útlönd. Á undanförnum áratugum var lengst af halli á utanríkisviðskiptum okkar og erlendar skuldir þjóðarinnar fóru því vaxandi. Árin 1993 til 1995 varð breyting á og afgangur var á viðskiptajöfnuði. Vegna hinnar miklu uppsveiflu í efnahagsmálum síðustu árin hefur aftur orðið halli á utanríkisviðskiptunum. Á sama tíma hafa landsmenn byrjað að kaupa erlend verðbréf í miklum mæli og eiga því orðið umtalsverðar eignir erlendis. Þetta er gjörbreyting frá því sem áður var og veldur því að staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum hefur ekki versnað, þegar litið er til skulda og eigna, þrátt fyrir viðskiptahallann. Þvert á móti var t.d. staðan gagnvart útlöndum betri í lok síðasta árs en hún var í lok ársins 1995.

Þetta eru mjög ánægjulegar staðreyndir en breyta þó ekki því að til lengdar þarf að draga úr viðskiptahallanum og treysta þannig stöðu þjóðarbúsins. En það á ekki að gera með skyndiaðgerðum sem sett geta allt á annan endann. Það þarf að gerast hægt og bítandi á næstu árum. Þess vegna er mikilvægt að skynsamlegir kjarasamningar verði nú gerðir til þriggja ára og þess vegna þarf áfram að stefna að verulegum afgangi á ríkissjóði næstu árin. Hér koma einnig við sögu þær aðgerðir til aukins sparnaðar einstaklinga sem áður voru nefndar. Í þessu sem öðru, er lýtur að efnahagsmálum, þarf að hafa hugfast það fyrirbæri sem kallað hefur verið "sálfræði efnahagslífins" og sem leikur sífellt stærra hlutverk. Ein af ástæðum efnahagsþróunarinnar hér á landi undanfarið er mikil bjartsýni um ört batnandi hag í framtíðinni. Væntingar af þessu tagi hafa tvær hliðar. Annars vegar eru þær aflvaki framfara og hins vegar geta þær verið svikulir sveifluvaldar. Það virðist liggja í þjóðareðli Íslendinga að væntingar þeirra sem hóps sveiflast óvenju mikið. Það kemur skýrt fram þegar hagsveiflur hér á landi eru skoðaðar.

Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga við ákvarðanir um fjárskuldbindingar fram í tímann að hafa jafnan nokkurt borð fyrir báru, og veðja ekki öllum sínum aur á eina tölu. Efnahagsskilyrði geta hvenær sem er tekið dýfu um stund, bæði smáa og stóra, og þá er skynsamlegt að hafa hagað fjármálum sínum þannig að skammvinn skakkaföll hafi ekki úrslitaáhrif. Þetta gildir vitaskuld bæði um fyrirtæki og heimili, og ekki síður um sveitarfélögin og þjóðarfjölskyldufyrirtækið, ríkið sjálft.

Góðir gestir.

Nokkuð hefur mætt á Seðlabankanum undanfarna mánuði. Bankinn hefur sýnt árvekni og þrautseigju í sinni aðhaldssömu peningastefnu, með vaxtahækkununum, auknum sveigjanleika gengisstefnunnar, aðgerðum gegn óhóflegum útlánum bankanna og fleiru. Björninn er þó ekki unninn. Næstu misseri verða afar mikilvæg í því verkefni að halda efnahagsumhverfinu áfram stöðugu og draga úr vaxtarverkjum í hagkerfinu. Ég hlakka til góðs samstarf um þau efni við Seðlabankann og hans ágæta starfsfólk.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum