Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. desember 2000 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Áramótagrein í Morgunblaðinu

Áramótagrein forsætisráðherra í Morgunblaðinu
31.desember 2000

I


Þau áramót, sem nú fara í hönd, marka árþúsundaskipti meðal þeirra þjóða heims sem miða tímatal sitt við fæðingu frelsarans. Sá atburður markaði dýpstu spor í sögu mannkyns. Þá hófst ný tíð. Vissulega tókum við Íslendingar, líkt og aðrar þjóðir með sama tímatal, forskot á sæluna fyrir ári og fögnuðum síðustu áramótum sem kveðju og komustund alda. Það er tímanna tákn að hin myndræna umgjörð árþúsundaskiptanna réði meiru um tímasetningu hátíðarhaldanna heldur en rétt rímtal.

En þótt mörgum talnaspekingi hafi runnið þetta til rifja þá er ekki um að fást og ekki hægt að leyna því að mestur ákafinn yfir aldamótum er liðinn hjá. Því gefst nú betra tóm til að líta yfir farinn veg og huga að því sem bíða kann í nánustu framtíð.

Við Íslendingar slógumst í hópinn og fögnuðum nýju árþúsundi, en um leið minntumst við þess að liðin voru eitt þúsund ár frá því að þing kom saman á Þingvöllum til þess að ákveða, hvort Íslendingar skyldu með góðu taka upp kristinn sið. Ákvörðun þingsins var heilladrjúg. Það var mikið happ fyrir Íslendinga að leiðtogar kristinna manna og heiðinna, þeir Hallur af Síðu og Þorgeir Ljósvetningagoði, voru gæfusmiðir, sem tókst á elleftu stundu að sætta hinn vígfúsa lýð með rökunum einum, á að taka upp hinn nýja sið og það án eftirmála. Mannvit og skynsemi réðu en ekki afl vopna eins og víðast hvar annars staðar varð raunin. Það var því ærið efni til að stofna til mannfundar á Þingvöllum og halda hátíð, gleðjast, fagna og þakka á þessum miklu tímamótum Engum, sem lagði leið sína til Þingvalla þessa fögru júlídaga mun líða úr minni sú mikla samkennd og hátíðarbragur sem ríkti á hinum fornhelga stað. Það er skoðun mín að þúsundir Íslendinga muni geyma þessa sumardaga á Þingvöllum árið 2000 á meðal sinna bestu minninga.

Vissulega sýnist hverjum sitt um gildi trúar í nútímasamfélagi og ýmsir höfðu á orði að of mikið hefði verið lagt í hátíðarhöldin. Öllum má þó vera ljóst að megn óánægja hefði orðið, ef ríki og kirkja hefðu ekki skapað skilyrði fyrir þá sem vildu minnast atburðanna á þeim stað sem til þess var einn fallinn. Og af slíku hlýst lágmarkskostnaður, ef nokkur sómi á að verða af. Kristin trú og þjóðkirkjan eru enn svo samofin íslenskri menningu og sögu að vart verður í sundur skilið, hvað sem síðar verður.

II

Árið 2000 var okkur Íslendingum sameiginlega happadrjúgt á flestum sviðum, þótt á ýmsu hafi gengið hjá hverjum og einum. Lista- og íþróttafólkið okkar náði góðum árangri á erlendum vettvangi og við sem heima sátum fengum að njóta margra ágætra listviðburða og er vart ofsagt að menningarlíf okkar Íslendinga standi í miklum blóma. Mikilvæg forsenda þess að listir og menning fái notið sín og almenningur þeirra, er sú að grundvöllur efnahagsstarfseminnar sé réttur. Undanfarin ár hafa verið okkur Íslendingum fádæma gjöful. Árið í ár er þar engin undantekning enda hagvöxtur mikill. Jafnframt er reiknað með að kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist enn eitt árið í röð. Íslendingar geta því borið höfuðið hátt, þá er gerður er alþjóðlegur samanburður á kjörum og lífsskilyrðum þjóða.

Mörg okkar, sem nú erum á miðjum aldri, minnumst viðtala sem Stefán fréttamaður Jónsson tók við Steinþór Þórðarson frá Hala í Suðursveit. Lýsingar hans, eftir minni, af atburðum, stórum og smáum frá æskuárum á liðinni öld þóttu með ólíkindum vegna nákvæmni um smæstu atriði. Og flest höfum við þekkt fólk sem með svipuðum hætti gat greint skilmerkilega frá löngu liðnum tíðindum og því sem borið hafði fyrir augu og menn skynjuðu að þar var engu hallað. Slíku fólki fer fækkandi og til þess liggja sjálfsagt margar ástæður. Fullyrða má, að engin þeirra sé sú að fólk sé nú verr af Guði gert en forðum og enn síður að almenn menntun sé lakari. Því hefur að vísu verið haldið fram að þeim fáu sem áður nutu menntunar og urðu oft að leggja mikið á sig hafi orðið meir úr henni en gerðist eftir að hún varð almenningseign. Þetta skiptir þó ekki máli í þessu sambandi. Sennilega má leita drýgsta hluta skýringar til þess sem stundum er kallað hugarfarsbreyting. Hraði þjóðlífsins, breytingar, sveiflur og sókn í stundarávinning hafi ekki tíma fyrir fortíðina. Viðbragðsflýtir, aðlögunarhæfni og hæfileikinn til að aka seglum eftir nýjum og nýjum vindi sé það eina sem veigur sé í. Meira að segja sé "sjóður reynslunnar" böggull sem menn eigi helst ekki að burðast með. Þannig heyrði ég nýlega tvo erlenda rekstrarsérfræðinga, fræga og virta á sínu sviði, spjalla um þróun fyrirtækja. Þeir voru báðir flóðmælskir eins og títt er um slíka menn. Þar kom umræðu þeirra að annar sagði að nú væri það víða vandamál að menn sætu uppi með hæft starfsfólk með mikla reynslu! Ég lagði betur við hlustir og hélt að manninum hefði orðið fótaskortur á tungunni og hann hlyti að bæta úr eða viðmælandinn að taka hann í bakaríið. Öðru nær. Hinn tók óðamála undir. Fyrirtæki í harðri samkeppni, sem iðulega þyrftu að gera breytingar til að standast hana, yrðu helst að losa sig við slíkt starfsfólk hið snarasta og ráða þess í stað ungt fólk, sem væri ódýrara, sæi ekki eftir því sem úrelt teldist og væri ekki hlaðið reynslu, sem þvældist fyrir því. Starfsfólk með mikla reynslu væri vissulega Akkilesarhæll í nútíma fyrirtæki. Alþjóðavæðing, opnir markaðir og dýnamísk þróun viðskiptalífsins annars vegar og gagnkvæmt tryggðarsamband innan fyrirtækis hins vegar gætu ekki lengur farið saman. Lítill vafi er á að víða örlar á hugsun af þessu tagi, en verði hún almenn mun það hafa mikil eftirköst.

En hví eru framangreind dæmi nefnd til sögu á þessum tímamótum? Það er vegna þess að þau kalla beinlínis á að staðnæmst sé stundarkorn og horft um öxl áður en lagt er á bratta komandi aldar. Í annan stað tel ég að angi af þessari þróun sé sá, að jafnvel til skemmri tíma haldist mönnum uppi að þvaðra um hluti opinberlega án þess að hafa til þess nokkrar forsendur. Ég tel til að mynda augljóst að ýmsir fréttamenn hafi fjallað um nýgenginn dóm Hæstaréttar, án þess að lesa hann sjálfir rækilega í gegn, hvað þá heldur að fá sérfróða til að útskýra hann fyrir sér, áður en hafin voru viðtöl við hina og þessa um dóminn. Og því skyldu þeir ekki vinna sér verkið svo létt, þar sem reynslan hefur sýnt að þeir komast aftur og aftur upp með það? En fjölmiðlamenn á fámennum fréttastofum í tímahraki eru ekki þeir einu. Mín stétt, stjórmálamennirnir, hafa heldur betur færst í aukana. Menn koma fram í hverjum umræðuþættinum af öðrum og fimbulfamba um mál með innistæðulausar fullyrðingar í allar áttir. Og öllum virðist sama. Það sem Bandaríkjamenn kalla "so what"-sjónarmiðið færist einnig í vöxt hér á landi.

Um fortíðina geta menn deilt ellegar lagt út af henni eins og þeir kjósa. Framtíðin er flóknari og enginn hefur hana í hendi sér. Um hana verður því ekki deilt af viti. En um hana má spá. Leiða má sitthvað að líkum og ekkert er á móti því að reyna að stikla á steinum fortíðarinnar yfir það flóð sem skilur að nútíð og framtíð. Stjórnmálamenn eru veikir fyrir slíkum gönguferðum. Það hefur aðeins borið á því að undanförnu að sumum þyki að efnahagsleg velgengni þjóðarinnar hafi staðið fulllengi og af þeirri ástæðu einni sé óhætt að bæta nokkrum bölmóði í reglubundnum og stækkandi skömmtum út í umræðuna um þau mál. Fyrir tæpum tveimur árum fullyrti einn snillingurinn að hann byggi yfir þekkingu sem aðrir gerðu ekki eða afneituðu. Hann einn heyrði tikkið í hinni tifandi tímasprengju sem myndi springa strax eftir kosningar með hvelli og efnahagslegu öngþveiti. Það hefur svo komið í hlut hans að trekkja þessa klukku aftur og aftur þegar allur vindingur hefur verið úr fjöðrinni, auðvitað í þeirri von að geta einhvern tíman sagt: "Sko, hvað sagði ég ekki?". Allar pólitískar vonir og væntingar virðast hafa verið bundnar við þetta fírverkerí framtíðar.

En hvernig er staðan? Hvað getum við stuðst við þegar horft er til næstu framtíðar? Myndin sem blasir við í báðar áttir er hagfelld. Árangur í efnahagsmálum hefur orðið mikill á síðustu árum. Hagvöxtur hefur ekki verið meiri í annan tíma og sama gildir um lífskjörin almennt. Þetta hefur ekki byggst á óvenjulegri fiskgengd eða öðrum uppgripum eins og stundum í fyrri tíð. Það eru fyrst og fremst hinar umfangsmiklu skipulagsbreytingar í hagkerfinu sem gert hafa gæfumuninn, ásamt stórfelldum vexti í nýjum atvinnugreinum og nýrri sókn og hagræðingu í hefðbundnum greinum, sem umbreytingar í efnahagslífinu gerðu mögulegar. En einmitt af þessum ástæðum er okkur auðveldað að horfa fram eftir veg. Með endurnýjun hagkerfisins síðastliðinn áratug hefur verið búið í haginn fyrir framtíðina og þess vegna blasa við mörg og álitleg sóknarfæri. Horfum um stund yfir sviðið. Hagvöxtur hefur verið ör. Störfum hefur fjölgað. Íslendingar hafa flutt heim á ný. Lífskjör hafa stórbatnað. Verðbólgan er innan viðráðanlegra marka. Rekstur ríkisins hefur aldrei verið í betra horfi. Fyrri hagvaxtarskeið hafa verið stutt, en ekkert þeirra hefur getað státað af öllu því sem að framan var nefnt, og því síður umfangsmiklum endurbótum á efnahagskerfinu, sem ekki eru bundnar við eitt hagvaxtarskeið. Þær breytingar fela í sér að sveiflur á milli hagvaxtartímabila verða nokkru minni en ella.

Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að slá ekki nógu fast á þensluna. Hún hefur svarað og sagt að hún hafni gamaldags úrræðum sem notuð hafa verið til að slá á einkenni þenslu, en myndi einbeita sér að því að draga úr þenslunni sjálfri. Það tæki lengri tíma en gömlu aðferðirnar en væri varanlegra. Ljóst er orðið að nú dregur úr ofhita í efnahagslífinu eins og lofað var. Þá er hrópað að kreppan sé að koma! Ekki er fótur fyrir því. Stóra myndin sem við blasir er mjög hagfelld. Ágæt skilyrði eru til að ná miklum árangri í íslenskum efnahagsmálum á næstu 5-10 árum, ef sæmilega er á haldið. Í fyrsta lagi eiga skipulagsbreytingar á efnahagsgerðinni enn eftir að skila miklu. Í öðru lagi er mikið vaxtarrými fyrir nýju atvinnugreinarnar. Í þriðja lagi eru fiskistofnar í góðu meðallagi og gætu farið vaxandi og í fjórða lagi er áhugi á að stórauka álframleiðslu hér á landi á næstu 10 árum, svo að nokkrir þættir séu nefndir til sögu. Það er því ekkert sem bendir til að illa fari í íslensku efnahagslífi á næstunni. Þeir stjórnmálamenn sem sjá ekkert nema svartnættið framundan eru ekki burðugir leiðsögumenn fyrir aðra inn í framtíðina.
III

Einn markverðasti atburður ársins var undirritun kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins. Samningarnir einkenndust af ábyrgð og víðsýni og vilja til að tryggja og efla kaupmátt fólks. Í febrúar á næsta ári verður gengið úr skugga um að forsendur kjarasamninga hafi haldið. Megin forsendan var að verðbólgan héldist innan ákveðinna marka. Að undanförnu hafa heyrst fullyrðingar um að verðbólgan sé við það að fara úr böndunum og um síðustu mánaðamót fór talsmaður Samfylkingar hamförum í þeim efnum. Það hlýtur að hafa komið þessum bölsýnismönnum nokkuð á óvart þegar verðbólgumælingar sýndu tíu dögum síðar núll prósent verðbreytingar á milli mánaða. Fjármálastofnanir, svo sem FBA, hafa spáð því að verðbólga á Íslandi verði sambærileg við það sem gerist í helstu viðskiptalöndum okkar. Nú munar 1,3% á verðbólgu hér og meðaltali Evrópusambandsríkja. Það vekur athygli að verðbólga er mest hjá Írum, í Lúxemborg og á Spáni, sem eru í myntsamstarfinu en lægst hjá Bretum og Svíum sem eru utan þess. Það eru því allar líkur á að forsendur kjarasamninganna haldi og landsmenn búi áfram við frið á almenna vinnumarkaðinum.
IV

Á árinu lagði Auðlindanefnd undir forystu Jóhannesar Nordal fram tillögur sínar um stjórn fiskveiða. Vinna nefndarinnar var með ágætum og má öruggt telja að lagður hafi verið grunnur að sátt um þetta mikla deilumál sem svo mjög hefur skipt þjóðinni í fylkingar. Ekki þarf að brýna fyrir Íslendingum mikilvægi þess að einhugur náist um þennan helsta atvinnuveg þjóðarinnar svo að hann geti skilað sem mestum verðmætum til þjóðarbúsins. Álitsgerð Auðlindanefndar skiptir því miklu. En einmitt vegna mikilvægis sjávarútvegs áttuðu menn sig á að sátt yrði aldrei keypt því verði að samkeppnisstaða hans skertist og afraksturinn minnkaði.

Við Íslendingar eigum afkomu okkar undir skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Umhverfisvernd hlýtur því að gegna lykilhlutverki í allri efnahagsumræðu hér á landi. Jafnframt er það nauðsynlegt að við forðumst allar öfgar í þessu sambandi. Umhverfisvernd á að tryggja okkur mannfólkinu í bráð og lengd hin bestu skilyrði í sambýli okkar við náttúruna. Þýðingarmikið er að náttúran veiti okkur sem ríkulegastar gjafir, hvort sem við drögum fisk úr sjó, bjóðum ferðamenn velkomna eða nýtum líftækni til að skapa verðmæti úr áður ónýttum auðlindum. Við megum aldrei skemma hin náttúrulega höfuðstól, en það er bæði rétt og skylt að nota rentu hans til betra lífs í landinu. Það var því ánægjuleg frétt sem barst hingað á dögunum að hópur sérfræðinga í samvinnu við Columbia- og Yale háskólana í Bandaríkjunum hafi komist að þeirri niðurstöðu að Ísland væri eitt umhverfisvænasta land heimsins. Þessi niðurstaða er um leið staðfesting á því, að við erum á réttri leið í þessum mikilvægu málum og að þeir sem mest eiga undir nýtingu náttúrunnar fara að jafnaði best með hana.

V

Í maí næstkomandi verða liðin fimmtíu ár frá því að Ísland og Bandaríkin gerðu með sér varnarsamning. Varnarsamstarfið hefur reynst farsælt þennan langa tíma, enda hvílir það á skýrum gagnkvæmum skuldbindingum Íslands og Bandaríkjanna og þjónar öryggishagsmunum beggja og bandamanna þeirra í Atlantshafsbandalaginu.

Þegar öryggisstefna Íslands var í mótun á árunum eftir síðari heimsstyrjöld var orðið víst að brátt mundi aftur reyna á lýðræðisríkin í baráttu við alræðis- og yfirgangsöfl, að þessu sinni við kommúnismann undir forystu Sovétríkjanna. Flestum var orðið ljóst að óvarlegt yrði að treysta á hlutleysi í þeim átökum sem nú kynnu að vofa yfir. Ísland skipaði sér því hiklaust í sveit með lýðræðisríkjunum til þess að taka þátt í að verja sameiginleg gildi og tryggja frið. Allt gekk það eftir.

Kalda stríðinu lauk með ósigri alræðisaflanna vegna staðfestu ríkjanna í Atlantshafsbandalaginu en áratugurinn sem liðinn er frá þeim stórviðburðum hefur minnt rækilega á að ekki má sofna á verðinum. Áfram verður að halda hiklaust fram gildum lýðræðisins og vinna gegn öflum sem virða frelsi og mannréttindi að vettugi og ógna friði og stöðugleika.

Atlantshafsbandalagið hefur í hálfa öld tryggt öryggi bandalagsríkjanna og á undanförnum árum verið fremst í flokki við að reyna að skapa varanlegan frið í Evrópu. Í Evrópusambandinu er stefnt að sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu. Ísland er sátt við vilja sambandsins til öflugri þátttöku í vörnum þessa heimshluta og til að taka á sig auknar byrðar. En afleiðingin má ekki verða veikara NATO á aðra hönd og evrópskt kerfi á hina, sem líður fyrir skort á afgerandi forystu. Þannig verður að búa um hnúta að samskipti bandalagsins og Evrópusambandsins verði traust og evrópsku bandalagsríkjunum sex utan Evrópusambandsins verði tryggð eðlileg þátttaka í öryggis- og varnarmálasamstarfi sambandsríkjanna. Við höfum unnið ötullega að þessu með sérhagsmuni Íslands og heildarhagsmuni Atlantshafsbandalagsins að leiðarljósi.

Íslensk stjórnvöld hafa horft til þess, hvernig megi efla framlag Íslands til alþjóðlegra öryggismála og gert áætlanir um aukna þátttöku Íslendinga í friðargæslu. Slíkt er í samræmi við gildismat og skuldbindingar okkar og þjónar öryggishagsmunum þjóðarinnar. Íslendingar sinna friðargæslu á Balkanskaga með lögreglumönnum, læknum og hjúkrunarliðum. Rík áhersla er lögð á skjóta þátttöku borgaralegra starfsmanna og sérfræðinga í friðargæslu einkum við verkefni sem lúta að myndun þjóðfélagsstofnana og sköpun skilyrða fyrir varanlegum sáttum milli stríðandi fylkinga.

Utanríkisþjónustan færir út kvíarnar á næsta ári með opnun tveggja nýrra sendiráða, í Japan og Kanada, og þessi lönd opna sendiráð hér. Viðskipti við Kanada fara ört vaxandi. Tengslin við Kanadamenn hvíla á gömlum merg og sameiginlegum arfi vegna þess fjölda Vestur-Íslendinga sem þar er í landinu. Íslendingar eiga mikilla hagsmuna að gæta í Japan og sendiráð þar opnar nýja möguleika til öflugra viðskipta við önnur Asíuríki og auka ferðamannastraum þaðan auk þess að gefa kost á samskiptum af ýmsu öðru tagi sem gagnast á fjölmörgum sviðum.

Fyrir skömmu kom alvarlega til álita í Evrópusambandinu, vegna kúariðufárs þar á bæjum, að taka ákvarðanir sem hefðu stórlega skaðað íslenska fiskimjölsframleiðslu. Að því kom þó ekki enda hefur fiskimjöl ekkert með kúariðu að gera. Íslensk stjórnvöld gerðu og verulegt átak til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ríki í ESB og framkvæmdastjórn þess, þar sem mikið var í húfi.

Í kjölfar þessa máls hefur verið hent á lofti að það sé dæmi um nauðsyn þess að Íslendingar séu innan dyra í ESB. Það er ekki sannfærandi málflutningur. Innan ESB hefðum við líkt og nú þurft að vinna með ríkjum með sameiginlega hagsmuni á þessu sviði. Um málið gilti ekki neitunarvald heldur var því ráðið með atkvæðagreiðslu þar sem þurfti aukinn meirihluta fyrir ákvörðun. Sú niðurstaða sem málið fékk hefði með öðrum orðum verið hin sama hvort sem Íslendingar hefðu verið í ESB eða ekki. Enda er heitt trúuðum evrópusinnum orðið flest hey í harðindum ef það eru veigamikil rök að Íslendingar verði að ganga í Evrópusambandið til að kynna þeim sem þar eru innandyra að fiskar og jórturdýr séu harla ólíkar skepnur.

Ókostir þess að ganga í ESB fyrir Íslendinga eru kunnir. Þeir voru síðast staðfestir í viðamikilli skýrslu sem utanríkisráðherra lagði nýlega fyrir Alþingi. Síðan hefur það gerst, sem við var búist, að á leiðtogafundi ESB í Nice í Frakklandi fyrr í þessum mánuði var ákveðið að breyta verulega atkvæðavægi innan þess á kostnað smáríkja í sambandinu. Stigin voru skref til að skerða fullveldi einstakra ríkja, þótt þau hafi ekki orðið eins stór í þessari atrennu og sumir óttuðust. En áfram var þó haldið á þeirri braut.

Þá er áfram ljóst að EES-samningurinn stendur undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar á sínum tíma. Auðvitað þurfa menn að halda vöku sinni, en engin ástæða er til að ætla að utanríkisþjónustan sé ekki því starfi vaxin. Stundum er bent á hér að gangi Norðmenn í ESB verði Íslandi og Liechtenstein ofviða að reka samninginn fyrir sitt leyti. En þegar EES samningurinn var gerður var gert ráð fyrir að félagar okkar, Austurríki, Finnland, Svíþjóð og Noregur gengju í ESB. Norðmenn hættu svo reyndar við aðild 1994, árið sem EES-samningurinn gekk í gildi, en hinar þjóðirnar þrjár gengu í ESB.

Þannig voru mestar líkur á því á sínum tíma að Ísland og Liechtenstein yrðu ein eftir og olli ekki teljandi áhyggjum. Ekki má gleymast, eins og bent er á í skýrslu utanríkisráðherra, að styrkur Íslands og Liechtensteins lýtur að því að ESB þyrfti að eiga frumkvæði að því að EES samningnum yrði sagt upp. Uppsögn samings væri mjög ólíkleg, enda þyrfti uppsögn að hljóta samþykki allra þjóðþinga ESB-ríkjanna, þar á meðal Norðurlandanna og fleiri ríkja sem ekki mundu sætta sig við slíka framkomu í garð tveggja vinaþjóða.

Allir þættir þessara mála eru kunnir og margræddir. Þó er sjálfsagt að halda þeirri umræðu áfram. En þá mega menn ekki víkja sér undan að skýra hvaða kostir við aðild vega þyngra en þeir ókostir sem við blasa og margstaðfest er að mundu fylgja aðild Íslands að Evrópusambandinu. Umræða sem einkenndist af óskhyggju um að ókostir aðildar geti horfið eins og dögg fyrir sólu í ímynduðum aðildarviðræðum við ímyndað Evrópusamband, yrði hins vegar ekki að gagni. Menn verða að ræða málin á grundvelli staðreynda, rökstyðja hvað áynnist með aðild og segja skýrt hverju þeir telja fórnandi.
VI

Þjóðskáldið séra Matthías Jochumson orti eitt sinn svo til brottfluttra landa sinna í Vesturheimi:
Særi" ég yður við sól og báru,
særi yður við líf og æru:
yðar tungu (orð þó yngist)
aldrei gleyma} í Vesturheimi!

Skáldið vissi að ekkert varðveitti betur þjóðernið en að geta hugsað á og talað íslensku. Matthíasi var í mun að sambandið við Íslendingana í Vesturheimi rofnaði ekki, þeir skyldu eftir sem áður teljast til íslenskrar þjóðar. Þrátt fyrir eggjan skáldsins hlaut svo að fara að landar okkar brottfluttir samlöguðust nýjum heimkynnum, tæku upp aðra tungu og nýja siði. En þótt þeim hafi mjög fækkað sem enn tala íslensku á meðal afkomenda vesturfaranna þá má enn sjá ,,megin-þráð yfir höfin bráðu, þann er lönd og lýði bindur" sem skáldið góða orti um.

Hátíðarhöldin á meðal Vestur-Íslendinga á árinu tókust mjög vel. Ég átti því láni að fagna að taka þátt í hátíðinni og skynjaði enn þann mikla áhuga sem frændur okkar í vesturvegi hafa á uppruna sínum. Er óskandi að hér séu endurvakin mikil og góð samskipti milli okkar Íslendinga og frænda okkar í Kanada.

Við fögnuðum því sérstaklega á árinu að nú eru eitt þúsund ár liðin frá því að forfeður okkar fundu Vesturheim. Landafundanefnd stóð að mikilli kynningu vestan hafs á þessum atburði. Er það samdóma álit að vel hafi tekist til í alla staði og Ísland notið mikillar athygli fjölmiðla og almennings. Vandasamt er að mæla í krónum og aurum afrakstur starfa Landafundanefndar þótt vel hafi gengið. En á okkur Íslendingum hvílir sú skylda að halda á lofti afrekum forfeðra okkar. Leifur Eiríksson var íslenskur maður, Guðrún Þorbjarnardóttir var íslensk kona og viðleitni okkar til að minna umheiminn á afrek þeirra og landkönnun íslenskra manna í Vesturálfu, hálfu árþúsundi á undan öðrum Evrópumönnum, verður ekki metin til fjár.

En hugprýði þeirra og dirfska og hve óttalaus og hnarreist þau gengu til móts við hið óþekkta í leit sinni að nýrri og betri heimi má gjarnan verða okkur fyrirmynd er við göngum á vit nýrrar aldar.

Ég þakka löndum mínum samfylgdina á liðnu ári og bið þeim heilla og blessunar á nýju ári.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum