Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. mars 2001 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Óvelkomin(n) í eigin landi

Ávarp forsætisráðherra á ráðstefnunni
Óvelkomin(n) í eigin landi
á Húsavík 23. mars 2001


Ágætu gestir:

Yfirskrift þessarar ágætu ráðstefnu sem hér er í þann mund að hefjast er áhugaverð - jafnvel allt að því ögrandi. Leita á svara við þeirri spurningu hvort við Íslendingar séum óvelkomnir í okkar eigin landi. Það er yfirfærð merking annarar spurningar, sem sagt þeirrar hvort saman fari nýting auðlinda landsins og verndun einstakrar náttúru þess. Enginn ætlast til að að þessi umræða verði til lykta leidd hér og nú, en víst hreyfa ráðstefnuhaldarar máli sem á erindi við alla Íslendinga, hvar sem þeir annars búa.

Spurningin um hvort við séum velkomin í þessu landi er ekki ný af nálinni. Ingólfur og þau Hallveig þóttust orðin óvelkomin í eigin landi og svo var um fleiri landa þeirra. Þau hjón tóku hatt sinn og staf eða hjálm sinn og sverð og héldu út hingað. Þá var hér mikil náttúra en ekkert fólk. Síðar á öldum hefur spurningin örugglega sótt að Íslendingum aftur og aftur þegar náttúran gekk svo hart fram að lá við landauðn. Nákvæmlega þúsund árum eftir að landnám hófst lögðu þúsundir íslenskra þurfalinga enn á djúpið í vesturátt, óvelkomnir í landinu sem þeir elskuðu. Fyrir vestan hafa þeir og þeirra afkomendur komist til manns en sjá þó harðbýla landið enn í hillingum fegurðar. Mörgum bóndanum og bústýrunni hefur sjálfsagt þótt sem eldgos, hafís og snjóavetur hafi verið skýr skilaboð frá íslenskri náttúru (svo notað sé orðalag kaffihúsaspekinga) um að þau væru ekki velkomin á þessu eylandi. Enda var það svo að öldum saman þótti sú náttúra ein fögur sem gaf fyrirheit um góða uppskeru og skjólgóða byggð. Minni hrifningu vöktu hrikaleg fjöll, beljandi stórfljót og snæviþaktar jökulbreiður. Þegar kappinn Gunnar Hámundarson leit um öxl sá hann bleika akra og slegin tún. Honum fannst fallegt heim að líta, hlíðin fögur og hann snéri því við. Og þegar kerlingu, konu Jóns í Gullna hliði Davíðs Stefánssonar, hafði verið sagt frá fagurgrænum túnum og reisulegum höfuðbólum himnaríkisfeðga beið hún ekki boðanna og henti skjóðunni með sálartetri Jóns síns, bersyndugum og síbölvandi, inn fyrir, beint inn í eilífa himnasæluna, stöngin inn framhjá Lykla-Pétri í markinu. Það var ekki fyrr en síðar, þegar okkur hafði tekist að búa þannig í haginn að náttúran hætti að vera hin mikla ógn og örlagavaldur að fjöllinn, stórfljótin og jöklarnir urðu okkur verulega til yndis og ánægjuauka. Nú dregur óspillt íslensk náttúra margan Íslendinginn aftur heim frá útlöndum og þá finnur stressuð sál nútíma Jóns helst frið þegar hann sleppur úr ys og þys hversdagsins á vit fjalla og jökla. Sjálfsagt myndi kerlingin hans spara sér sporin til himna og henda skjóðunni í Dettifoss til að tryggja þeim karli eilífa umhverfislega sælu. En hvað sem slíkum og þvílíkum vangaveltum líður ættu nútímamenn að geta horft til þessara þátta í sæmilegu jafnvægi.

Þau tvö sjónarmið að annað hvort sé landið til að nýta eða þá til að njóta kunna að skarast. En það á ekki að vera ofviða okkur að finna þolanlega lausn þrátt fyrir það. Okkur Íslendingum hefur hingað til tekist vel að samrýma þessi tvö sjónarmið. Þjóð sem lifir í svo nánu sambandi við náttúruna eins og við gerum, þjóð sem á allt undir skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda sinna, hennar hagsmunir eru að vernda náttúruna og nýta hana um leið. Sjálfbær nýting er ekki upphafið merkingarlítið tískuorð hér á landi eins og stundum vill verða í umræðu um náttúruvernd annars staðar. Fiskimiðin okkar í kringum landið, orkan í fallvötnunum, bullandi hverir og öll hin náttúruundrin, allt eru þetta auðlindir sem við hljótum að nýta okkur til hagsbóta án þess að glata þeim eða vinna illbætanlegt tjón. Langtímahagsmunirnir okkar eru þeir að auðlindirnar nýtist ekki einungis okkur sem nú lifum heldur fái komandi kynslóðir að minnsta kosti jafn góð og helst betri tækifæri til að nýta landsins gagn og gæði og hafa yndi af tign þess og fegurð.

Ég er þeirrar skoðunar að aldrei verði skilið á milli náttúruverndar og nýtingu okkar mannanna á náttúrunni enda hníga engin rök til slíks aðskilnaðar - þvert á móti. Náttúran er okkur mönnunum bæði til gagns og gamans og við eigum við hana ríkar skyldur. En heilbrigð náttúruverndarstefna hlýtur jafnan að horfa til gróandi þjóðlífs og efnalegra framfara. Það að saman fari nýting náttúrunnar og verndun hennar er ekki aðeins ein af mörgum mögulegum lausnum sem standa til boða. Hún er eina raunhæfa lausnin. Öfgar í umræðu um umhverfismál lúta sömu lögmálum og öfgar er snúa að öðrum þáttum. Við Íslendingar höfum flest litlar mætur á þeim atvinnu-umverfisverndarsinnum sem sjá í mannskeppnunni holdgerving alls ills hér á jörðinni. Auðvitað hefur manneskjan iðulega gengið gáleysislega fram gagnvart náttúrunni og það stundum svo að aldrei verður úr bætt. Flest verstu dæmin um það finnast í gömlu austantjaldslöndunum, þar sem látið var líta út sem að alþýðan réði öllu. Slík óhæfuverk og einnig þau sem unnin hafa verið annars staðar gefa mönnum ekki frítt spil til að mála skrattann á vegginn. Skrattinn er óskemmtilegt veggskraut. Æ ofan í æ spá sjálfskipaðir umhverfisvitringar því að nú sé mannkynið endanlega komið á ystu brún. Ekki verði haldið lengur áfram, því náttúruauðlindirnar séu komnar í þrot og draga verði úr neyslu, hagvexti og helst allri athafnasemi manna hvaða nafni sem hún kann að nefnast. Markaðsbúskap virðist illa treyst, þótt reynslan af sameignarbúskapnum sé mun verri. En jafn oft og slíkar spár hafa komið fram hafa þær verið afsannaðar. Gamall maður sagði eitt sinn að olíulindir heimsins hefðu verið að þorna upp frá því að hann fyrst myndi eftir sér. Ný tækni hefur gert mönnum kleift að finna og nýta nýjar olíulindir og enn er það svo að olíubirgðir heimsins fara vaxandi en ekki öfugt. Rétt er að hafa hugfast að ný tækni og nýir orkugjafar munu fyrr en síðar leysa olíu af sem megin orkugjafa heimsins. Steinöld lauk ekki vegna þess að menn skorti steina og grjót heldur vegna þess að þeir fundu hagkvæmari og betri leiðir til að gera sér tæki og tól. Það er því nauðsynlegt þegar við ræðum um umhverfismál og sambúð okkar við náttúruna að við einblínum ekki á okkar örstutta spor í göngu kynslóðanna sem er ekki meira en örskotsstund í eilífðinni heldur reynum að átta okkur á þeim möguleikum sem framfarir og þróun á sviði vísinda og tækni geta leitt af sér til lengri tíma. Og hvað markaðsöflin áhrærir þá er hollt að hafa í huga að í þeim ríkjum þar sem markaðsfyrirkomulagið er hvað öflugast, þar sem eignarrétturinn er hvað best varinn og lögmál markaðarins hvað sýnilegust, að einmit þar eru umhverfismál í hvað bestum farvegi. En það breytir ekki því að til eru þeir og til verða þeir sem reiðubúnir eru til að fórna öllu á altari auðsins. Slíkum verðum við að setja þær skorður sem halda.

Góðir gestir
Það er mikilvægt að koma saman og ræða opinskátt um hvernig við stöndum best í senn að umhverfismálum og uppbyggingu hér á landi. Skilningur á mismunandi skoðunum og sjónarmiðum er mikilvægur og með því að kalla fram fjölbreytt viðhorf og ræða þau með opnum huga er líklegt að okkur miði eitthvað áfram í þessum efnum. Það er því með ánægju sem ég lýsi hér með þessa ráðstefnu setta.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum