Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. maí 2001 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

50 ára afmæli varnarsamstarfs

Ávarp forsætisráðherra á málþingi í tilefni af
fimmtíu ára afmæli varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna
Þjóðmenningarhúsið, 4. maí 2001


Vinátta Íslands og Bandaríkjanna er náin og traust. Löndin tvö eru þó um margt ólík og er þá ekki eingöngu átt við augljósan mun á stærð og fólksfjölda og það sem af því leiðir. Samskiptin eru fjölbreytt og viðskipti blómleg og menningartengsl ágæt og báðar þjóðirnar horfa til heims- og alþjóðamál út frá forsendum lýðræðis og mannréttinda. Varnarsamningurinn og varnarsamstarfið valda því að samskiptin við Bandaríkin eru nánari en Ísland á við nokkuð annað ríki. Fimmtíu ára varnarsamstarf tveggja ríkja er vísast nokkuð einstakt fyrirbæri í sögunni. Það er því rík ástæða til að gera sér dagamun á þessum tímamótum og fagna löngu og farsælu samstarfi Íslands og Bandaríkjanna.

Menn bundu vonir við að síðari heimsstyrjöldin yrði síðasta stórstyrjöldin. Fylkingar bandamanna riðluðust þó fljótt og blikur voru á lofti. Öllum mátti ljóst vera að kæmi enn til stórveldastríðs í Evrópu mundi hildarleikurinn fyrr en varði berast út á Atlantshaf. Öryggi Íslands yrði í hættu vegna hernaðarlegs mikilvægis landsins. Nýliðin saga hafði sannað í eitt skipti fyrir öll að einhliða yfirlýsing vopnalausrar þjóðar um hlutleysi væri haldlaus.

Aðild Íslands að NATO og gerð varnarsamningsins við Bandaríkin voru því rökrétt skref í þróun íslenskrar öryggismálastefnu þegar ógnin frá kommúnismanum óx stöðugt á árunum eftir stríð. En þetta voru erfiðar ákvarðanir fyrir fámenna þjóð sem öðlast hafði langþráð sjálfstæði fáeinum árum fyrr. Og það var vitað að þær mundu mæta miklu andófi innanlands og kynda undir ofstæki íslenskra kommúnista, sem þá voru mjög hallir undir Moskvuvaldið, í garð samstarfs við vestræn ríki. En leiðtogar lýðræðisflokkanna biluðu ekki á ögurstundu. Þeir horfðu til reynslunnar af styrjöldinni og þeir höfðu ennfremur sannfæringu fyrir því að þyrfti Ísland að velja, bæri að skipa því í bandalag lýðræðisríkjanna. Með þeim ætti þjóðin sameiginleg örlög og gildi. Það val væri í raun forsenda þess að tryggja mætti raunverulegt sjálfstæði þjóðarinnar á ógnartímum.

Daginn sem atkvæði voru greidd á alþingi um aðildina að Atlantshafsbandalaginu gerðist sá einstaki atburður í sögu okkar að miklar óeirðir urðu við þinghúsið og ráðist var að því með svo miklu afli, að lögreglan hefði orðið undir ef fylkingar lýðræðissinna hefðu ekki skipað sér í hennar sveit. Þarna mátti litlu muna. Þetta var upphafið að endurteknum mótmælaðgerðum af ýmsum toga næstu áratugi gegn aðildinni að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin og Keflavíkurstöðinni. Öryggisstefnan varð þannig eitt af stærstu deilumálum íslenskra stjórnmála.Vissulega voru sannir ættjarðarsinnar og þjóðernissinnar meðal andstæðinga varnarsamstarfsins og Keflavíkurstöðvarinnar. En þegar á leið tók þjóðernishyggjan breytingum í takt við umheiminn og íslenskt þjóðfélag þannig að Keflavíkurstöðin var ekki lengur álitin ógn við menningu og tungu þjóðarinnar í sama mæli og framan af. Hinar hörðu deilur á tímum kalda stríðsins um öryggisstefnuna voru því fyrst og fremst að undirlagi háværs og vel skipulags minnihluta sem hamaðist við að gera framgöngu NATO ríkjanna, en einkum Bandaríkjanna tortryggilega og naut til þess beins og óbeins atbeina erlendra afla. En þegar á reyndi stóð ætíð drjúgur meirihluti Íslendinga að baki varnarstefnunni.

Lok kalda stríðsins afhjúpuðu klúðrið í kommúnistaríkjunum og skjalfestu árásarstefnu Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins og undirróður þeirra í lýðræðisríkjum. Á Íslandi stóðu þeir uppi meðal sigurvegara, sem staðið höfðu á verði og stutt höfðu NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Hinir flýttu sér að fela fortíð sína. Deilur um öryggisstefnuna hjöðnuðu mjög í kjölfarið.

Nú fimm áratugum eftir gerð varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna gegnir NATO enn lykilhlutverki við að byggja nýja Evrópu á meginreglum lýðræðis og tryggja þannig öryggi í álfunni allri. Þetta gerir bandalagið meðal annars með nánu samstarfi við fyrrum Varsjárbandalagsríki og með stækkun í austurátt. Aðild að NATO stendur þeim ríkjum einum til boða sem búa við traust lýðræði og í friði við nágranna sína.

En NATO er ekki töfraorð eða trygging í sjálfu sér, sem ekki skipti máli hvernig farið er með. Allt hvílir þetta endanlega á tengslum bandalagsins yfir hafið til Norður-Ameríku. Þau skipta áfram sköpum fyrir öryggi og stöðugleika í Evrópu. Þetta þarf hvorki að skýra eða sanna í þennan hóp. En til marks um það eru átökin á Balkanskaga og sókn Mið- og Austur-Evrópuríkja eftir aðild að NATO.

Járntjaldið er horfið, múrinn er fallinn og þar með gufaði kalda stríðið upp. Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna hvílir nú á varanlegum öryggishagsmunum landanna beggja og bandamanna okkar í Atlantshafsbandalaginu. Þessara hagsmuna er auðvitað gætt með mun minni viðbúnaði en þurfti til að mæta aðstæðum í kalda stríðinu, en þeir lúta auk varna Íslands að eftirliti og almennu öryggi á Norður-Atlantshafi. Varnarsamstarfið horfir enn sem fyrr til hagsmuna vinalandanna beggja og er einnig áfram þáttur í Atlantshafstengslunum og trúverðugleika þeirra.

Ég vil þakka utanríkisráðherra Íslands fyrir að bjóða til þessa málþings og nota tækifærið til að þakka Bandaríkjunum og fulltrúum þeirra hér fyrir langt og farsælt samstarf og varnarliðinu sérstaklega fyrir vel unnin störf fyrr og síðar.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum