Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. ágúst 2001 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Utanríkisráðherrar í heimsókn

Ávarp forsætisráðherra í kvöldverði fyrir utanríkisráðherra
Eystrasaltsríkjanna í Þjóðmenningarhúsinu 25. ágúst 2001


English version

Fyrir rúmum áratug tók Ísland strax undir vaxandi kröfur Eystrasaltsþjóðanna um að sovésku hernámi yrði hætt og frelsi þeirra endurheimt. Stefna Íslands ergði ekki bara Moskvuvaldið, heldur og suma bandamenn okkar í Atlantshafsbandalaginu sem óttuðust að upplausn Sovétríkjanna gæti haft hættulegar afleiðingar í för með sér.

Íslensk stjórnvöld höfðu aldrei viðurkennt innlimun Eystrasaltsríkjanna í Sovétríkin og ýmsir hér höfðu beitt sér fyrir því í kalda stríðinu að halda málinu vakandi. En rétt er að viðurkenna að fæstir töldu raunhæft að ætla að þeir myndu lifa það að ríkin endurheimtu frelsi sitt. Kúgunaraflið virtist standa á traustum fótum. En allt í einu varð eins og rofaði fyrir heiðglugga í kúgunarþykkninu. Hugsanlega var að verða lag til að endurheimta frelsið. Smáþjóðin gat ekki þagað í þessu máli af tillitsemi við stórveldpólitík eða kalda rökhyggju. Þegar allt benti til að valdaránstilraunin sem hófst í Moskvu 19. ágúst 1991 væri að renna út í sandinn varð ljóst að það hrikti í Sovétríkjunum. Það virtist sem sovétkommúnisminn væri loksins að kafna í sínum eigin lygavef, sem hann hafði spunnið í rúm sjötíu ár. Tækifærið var komið og annað ekki óhætt en að nota það strax og það fór vel á að frelsisunnandi vopnlaus smáþjóð yrði fyrsta ríkið til að taka upp stjórnálasamband við þau.

Eftir að Eystrasaltþjóðirnar urðu frjálsar á ný hafa Íslendingar fylgst með umbótastarfi þeirra og glaðst yfir þeim miklu framförum sem þegar hafa orðið. Tíu ár er skammur tími en þau hafa lyft Grettistaki.

Hluti þess átaks sem hrinda varð af stað eftir áratuga hernám og kúgun fólst í því að taka á ný upp eðlileg samskipti við umheiminn. Þar á meðal er að stefna að aðild að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu.

Hugsjónin að baki Evrópusambandinu er göfug og á rætur í hörmungarsögu álfunnar á nítjándu og tuttugustu öldinni. Segja má að vofur þeirra Napóelons, Bissmarks, Hitlers og Stalíns séu með sínum hætti helstu tilefni þeirra. ESB hefur reynst lyftistöng fyrir Evrópu og stækkun þess til austurs er afar mikilvæg fyrir velferð og stöðugleika á meginlandinu. Aðild Eystrasaltsríkjanna og annarra umsóknarríkja er brýn af efnahagslegum og pólitískum ástæðum, vegna þeirra fyrirheita sem ESB hefur gefið þessum ríkjum og vegna þess sem þjóðir þeirra hafa þegar lagt á sig til að umbryta þjóðarbúskapnum og undirbúa aðild að öðru leyti.

Því verður að treysta að áætlanir ESB standist og stækkun þess gangi hratt fyrir sig á næstu árum. Með aðild Eystrasaltsríkjanna að ESB fá þau aðgang að innri markaðnum og verða þar félagar Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu og því fögnum við. Þess má vænta að í kjölfarið dafni tvíhliða samskipti Íslands og Eystrasaltsríkjanna enn frekar en orðið er og að viðskipti milli okkar aukist.

Stækkun NATO er þegar hafin og þar reyna íslensk stjórnvöld að verða að Eystrasaltsríkjunum að liði. Sá kostur að daufheyrast við óskum nýfrjálsu ríkjanna um aðild að bandalaginu hefði verið á skjön við markmið og hugsjónir bandalagsins og grafið undan stöðugleika í Evrópu. Stækkun felur í sér sögulegt tækifæri fyrir bandalagið til aðeiga stóran þátt í að festa í sessi breytingarnar miklu sem fygldu í kjölfar falls kommúnismans og skapa nýja Evrópu byggða á frelsi og lýðræði. Stefna bandalagsins um stækkunina er skýr og afdráttarlaus. Dyr þess standa áfram opnar og engir utan þess hafa neitunarvald um stækkunina. Saga bandalagsins sýnir svo ekki verður um villst að stækkun þess verður Evrópu allri til hagsbóta og enginn hefur ástæðu til að óttast hana eða gera tortryggilega.

Í stefnu bandalagsins kemur fram að engin ríki verði útilokuð frá aðild óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra og andstöðu annarra ríkja. Þetta er skýr tilvísun til Eystrasaltsríkjanna. Á leiðtogafundi NATO sem haldinn verður í Prag í Tékklandi í nóvember á næsta ári verður frekari stækkun ákveðin. Mikilvægur þáttur í undirbúningi verður utanríkisráðherrafundur NATO í Reykjavík í maí á næsta ári. Jafnframt verður haldinn hér fundur með samstarfsríkjum bandalagsins, þeirra á meðal Eystrasaltsríkjunum.

Ekki liggur fyrir hvernig NATO mun taka á stækkunarmálinu á leiðtogafundinum í Prag, en það var ánægjulegt fyrir mig og utanríkisráðherra á leiðtogafundi NATO í Brussel í júní síðastliðnum að taka eftir að margir leiðtoganna lýstu yfir eindregnum stuðningi við frekari stækkun sem og að ýmsir þeirra nefndu sérstaklega málstað Eystrasaltsríkjanna. Því var lýst yfir af Íslands hálfu að stækkunarferilinn ætti að halda áfram þannig að öllum ríkjunum umsóknarríkjunum yrði boðin aðild sem yrði að veruleika um leið og þau stæðu við áætlun bandalagsins þar að lútandi.

Með aðild Eystrasaltsþjóðanna væru þær og Íslendingar ekki bara nánar vinaþjóðir, heldur beinlínis bandamenn og það í sjálfu Atlantshafsbandalaginu. Hver hefði trúað því forðum að möguleiki yrði á slíku?

Saga Evrópu breyttist þegar með stofnun bandalagsins fyrir rúmum fimmtíu árum og það hefur leikið lykilhlutverk í þróun mála allar götur síðan. Þar hafa ráðið mestu tengslin yfir Atlantshaf til Norður-Ameríku til Bandaríkjanna, og eftir mínum skilningi eru það einmitt þessi tengsl sem gera aðild að NATO svo eftirsóknarverða í augum Mið- og Austur-Evrópuþjóða. Þess vegna verður að sporna fast gegn öllum tilburðum til að rjúfa þau tengsl.

Við hlökkum til að fá Eystrasaltsríkin með í NATO og til þess að eiga samstarf við þau þar um að tryggja Atlantshafstengslin og efla meginreglurnar sem bandalagið byggir á.





Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum