Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. september 2001 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Íslenska hagkerfið

Ávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra á ráðstefnu Landsbanka Íslands

Góðir gestir

Það er mér sönn ánægja að opna þessa ráðstefnu um vöxt og aukinn fjölbreytileika íslenska hagkerfisins. Yfirskrift þessarrar ráðstefnu mætti í raun nota sem lýsingu á efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar og þeirra ríkisstjórna sem hér hafa verið við völd síðan 1991. Á þessum árum hefur íslenska efnahagskerfið tekið algerum stakkaskiptum. Fram til þess tíma var hagkerfið um margt mjög ólíkt því sem gerðist meðal vestrænna þjóða, reyndar svo mjög að forveri minn einn í starfi hélt því fram í alvöru að vestræn efnahagslögmál giltu ekki hér á landi. Hið opinbera var mjög virkur þátttakandi í efnahagslífinu. Ríkisrekin fyrirtæki voru fjölmörg og störfuðu í ýmsum atvinnugreinum. Bankakerfinu var ríkisstýrt og pólitísk úthlutun á fjármagni til atvinnurekstrar var algeng og stundum æði tilviljanakennd. Ríkissjóður var rekinn með umtalsverðum halla og erlendar skuldir hins opinbera voru alvarleg ógn við velferð þjóðarinnar. Það var því mikið verk sem hófst 1991 við að gera Íslenska efnahagslífið sambærilegt við það sem best gerist hjá þeim þjóðum sem hafa þróað hagkerfi sín með sem mestum ágætum. Rekstur ríkissjóðs var tekin föstum tökum, fjármála og hlutabréfamörkuðum var gert kleift að starfa, umfangsmikilli einkavæðingu var hrundið af stað og Ísland gerðist aðili að evrópska efnahagssvæðinu. Horfið var frá sértækum aðgerðum í hagstjórn en í stað þess var beitt almennum efnahagsaðgerðum sem miðuðu að því að draga jafnt og þétt úr áhrifum hins opinbera á efnahagslífið en treyst þeim mun meira á hinn frjálsa markað. Með öðrum orðum beita sömu efnahagsstjórnun og var best hafði heppnast annars staðar í hinum vestræna heimi. Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Hagvöxtur á Íslandi hefur verið umtalsvert hærri en í langflestum löndum Evrópubandalagsins, kaupmáttur almennings hefur aukist, ríkissjóður hefur verið rekinn með myndarlegum afgangi, erlendar skuldir ríkissjóðs hafa verið greiddar hratt niður og öll umgjörð efnahagslífsins er nú önnur og betri en áður.

En umbreyting efnahagslífsins krefst stöðugar vinnu og lýkur í raun aldrei. Efnahagskerfið er í stöðugri þróun og nauðsynlegt að aðlaga það jafnóðum breyttum aðstæðum. Slík aðlögun verður best tryggð með því að færa sem mest efnahagslegt vald út á markaðin, frá hinu opinbera. Stjórnvöld sama hversu góð þau annars eru, skynja ekki alltaf hrynjandi tímans eða þau öfl sem móta hið gríðarlega flókna regluverk hins frjálsa markaðar. Íslensk stjórnvöld munu því halda áfram að treyst undirstöður markaðsbúskapar og búa þannig í haginn að efnahagskerfi landsins sé öflugt og virkt. Í þessu samhengi langar mig að nefna tvö nýleg dæmi um verkefni sem ríkisstjórn Íslands hefur unnið að. Hið fyrra er að nú á vormánuðum var lögum um Seðlabanka Íslands breytt þannig að honum var veitt fullt sjálfstæði. Vikmörk þau sem bankanum var gert að halda íslensku krónunni innan voru afnuminn og bankanum sett verðbólgumarkmið. Það er enginn vafi í mínum huga að þessi ráðstöfun mun til lengri tíma litið reynast þjóðinni heilladrjúg. Sjálfstæður Seðlabanki eykur kjölfestuna í íslenska efnahagslífinu og þrátt fyrir nokkurn óróleika á gjaldeyrismarkaðinum undanfarið þá mun þessi aðgerð styrkja íslensku krónuna og gera hana að öruggari gjaldmiðli.
Síðara atriðið sem ég vildi nefna hér er að þessa dagana stendur yfir umfangsmikil einkavæðing í tveimur af mikilvægustu atvinnugreinum landsmanna. Fyrirhugað er að selja Landssíman, sem hingað til hefur alfarið verið í ríkiseign og tvo viðskiptabanka sem eru að hluta til enn í eigu ríkisins. Með sölu þessarra fyrirtæki hefur hið opinbera alfarið dregið sig út úr þessum atvinnugreinum og er það vel.

Það er mín skoðun að hér sé um mjög spennandi fjárfestingakosti að ræða bæði fyrir innlenda sem og erlenda fjárfesta. Íslensk stjórnvöld leggja mikin metnað í að búa þannig um hnúta að íslensk sem erlend fyrirtæki sjái sér hag í því að reka starfsemi sína hér. Ég er þeirrar skoðunar að nú þegar hafi Ísland upp á margt að bjóða fyrir erlenda fjárfesta. Vel menntað og dugmikið fólk, aðgang að mörkuðum beggja vegna Atlandshafsins, stöðugt efnahagsumhverfi, gagnsætt stjórnkerfi og hátt tæknistig – allt eru þetta mikilvægir þættir sem stuðla að gróskumiklu hagkerfi. En betur má ef duga skal. Ísland er lítið hagkerfi og fjarri öðrum þjóðum og það er ekkert sjálfgefið að hingað komi erlend fjárfesting í stórum stíl. Til þess að halda framsæknum íslenskum fyrirtækjum og til að laða að erlendar fjárfestingar þurfa Íslendingar að bjóða jafngott og helst betra viðskiptaumhverfi en þær þjóðir sem þeir mæla sig helst við. Ríkisstjórnin leggur á það mikla áherslu að stjórnkerfið og lagaumhverfið séu í takt við þarfir atvinnulífsins og vinni með því að sköpun sem mestra verðmæta. Þrátt fyrir að Ísland hafi fullan og óhindraðan aðgang að innri markaði Evrópubandalagsins stendur það utan bandalagsins sjálfs og hefur því rýmri tækifæri til að sníða lagaumhverfi sínu þann stakk sem best hentar fyrirtækjum sem hér starfa en þarf ekki að hlýta tilskipunum Evrópubandalagsins í einu og öllu svo sem einsog í skattamálum. Ríkisstjórnin mun á næstu misserum lækka tekjuskatta fyrirtækja umtalsvert og þannig gera Ísland að vænlegum kosti fyrir fjárfestingar. Einnig má nefna að verið er að undirbúa lagasetningu um að fyrirtækjum verði heimilt að gera upp reiknina sína og greiða skatta sína í mynt að eigin vali. Þar með dregur úr þeirri áhættu sem að íslensku myntinni snýr og ætti það að auðvelda mjög erlendum fjárfestum að vega og meta kosti þess að fjárfesta hér á landi.

Ágætu ráðstefnugestir

Undanfarinn áratugur hefur verið áratugur framfara hér á landi. Möguleikar íslensku þjóðarinnar til að takast á við verkefni framtíðarinnar hafa aldrei verið betri. Saga okkar greinir frá því að þá hafi landinu farnast best þegar viðskiptin við útlönd voru sem mest. Þessi staðreynd er ofarlega í huga okkar Íslendinga. Við vitum að hagvöxtur og velmegun framtíðarinnar er fólgin í nánu samstarfi við umheimin og það er okkar hagur að vera fullur þátttakandi í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi. Þess sjá enda merki hvar sem litið er á Íslandi þessa dagana. deCode, líftæknifyrirtæki sem skráð er á Nasdaq hefur nær alla starfsemi sína hér á landi, erlend álfyrirtæki vilja stækka verksmiðjur sínar hér og önnur vilja byggja nýjar, íslenskir bankar hafa hafið starfsemi erlendis og fjölmörg íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi, upplýsingatækni og heilbrigðisgeiranum hafa verið að auka mjög umsvif sín á erlendri grund. Þessi þróun getur af sér öflugt og fjölbreytilegt athafnalíf, athafnalíf sem veitir einstaklingum og fyrirtækjum tækifæri til að blómstra og þjóðinni allri möguleika á velmegun og öryggi. Yfirskrift þessa málþings, Iceland –growing and diversifying er því að mínu mati lýsandi um íslenska efnahagslífið og þau tækifæri sem bíða okkar í framtíðinni.





Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum