Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. desember 2001 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Fundur Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs

Reykjavík
1. desember 2001

Ávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra
á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs
Sunnusal, Hótel Sögu

Þessi virðulegu samtök gáfu mér síðast tækifæri til að ávarpa fund Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs í tilefni af fimmtíu ára afmæli Atlantshafsbandalagsins. Það var í maí árið 1999, þá stóð lofthernaður Atlantshafsbandalagsins gegn Júgóslavíu vegna Kósóvó sem hæst. Þá reyndi á hvort til staðar væri vilji til að stöðva öfl sem ógnuðu friði í Evrópu. Atlantshafsbandalagið sýndi mikla staðfestu og náði þess vegna settum markmiðum. Einræðis- og kúgunaröflum var sýnt í tvo heimana og fengu þá lexíu sem þau og aðrir þurftu.

Núna, tveimur og hálfu ári síðar, eru í gangi óhjákvæmleg eftirmál hinna hryllilegu hryðjuverka sem framin voru gegn bandarísku þjóðinni 11. september. Hernaðurinn í Afganistan er ekki fyrst og fremst knúinn af hendarþorsta, eins og sumir klassískir andstæðingar Bandaríkjanna og Nato hafa látið liggja að. Það er verið að refsa þeim sem bera ábyrgð á hræðilegum glæp og reyna að koma í veg fyrir fleiri ódæði. Jafnframt er hafin barátta gegn alþjóðlegum hryðjuverkaöflum til að kveða niður ógn við frið og öryggi í heiminum og skjóta þar með skildi til varnar þeim gildum sem við viljum síst vera án. Bush forseti hefur í senn sýnt festu og stillingu og sannað að hann býr yfir ríkulegum leiðtogahæfileikum. Stefna Bandaríkjanna hefur verið afar skýr og honum hefur tekist að knýja fram einstæða samstöðu, jafnt innan sem utan Bandaríkjanna.

Daginn eftir árásina á Bandaríkin lýsti Atlantshafsbandalagið yfir að hún jafngilti árás á öll bandalagsríkin samkvæmt fimmtu grein Norður-Atlantshafssáttmálans. Ísland bar að sjálfsögðu ábyrgð á þessari yfirlýsingu eins og önnur ríki bandalagsins. Hún er í samræmi við þær skuldbindingar sem við tókumst á hendur á sínum tíma vegna sannfæringar um að með bandamönnum okkar í Nato ættum við sameiginleg gildi og örlög að verja. Þetta er í fyrsta sinn sem fimmta grein Norður-Atlantshafssáttmálans, kjarnagrein hans verður virk.

Barátta gegn hryðjuverkamönnum, handbendum þeirra og hjálparhellum kallar á einarða alþjóðlega samstöðu. Ríkisstjórn Íslands mun ekki hvika í stuðningi við þá baráttu. Hernaðurinn í Afganistan hefur gengið framar vonum, þótt enn geti dregist nokkuð að endahnúturinn verði rekinn á allar aðgerðir. En baráttan gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi er rétt að byrja. Hún kann að taka langan tíma. Á ýmsu mun ganga, barátta við slík öfl verður aldrei blúndulögð.

Alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi þrífst ekki nema í skjóli ríkisvalds. Fleiri en Talibanar í Afganistan eru sekir um stuðning við hryðjuverkamenn. Einangraðar aðgerðir gegn Afganistan duga ekki. En vonandi tekst að rjúfa tengsl annarra við hryðjuverkastarfsemi með mildari meðulum en þeim sem ein hafa dugað á Talibana. Þegar kemur að því að þrýsta á önnur lönd um breytta hegðun mun mjög reyna á alþjóðlega samstöðu í baráttunni. Þá verða drunurnar frá 11. september hljóðari en nú og því fá úrtöluraddirnar meiri hljómburð.

Í ljós hefur komið að hernaðurinn í Afganistan nýtur meiri stuðnings en margur ætlaði. Það er augljóst af fréttum frá Afganistan að allur almenningur fagnar því að Talibanar eru hraktir frá völdum og lítur réttilega svo á að hernaður Bandaríkjamanna beinist gegn kúgurunum en ekki fólkinu í landinu. Að þessu leyti er um frelsisstríð að ræða. Ofstæki og hatur hryðjuverkaaflanna í garð Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda nær þannig ekki til almennings í Afganistan. Þá hefur stríðið í Afganistan ekki leitt til þess andófs sem "sérfræðingar" spáðu að mundi magnast í löndum múslima, með óviðráðanlegum afleiðingum.

Hryðjuverkaöflin hafa sýnt að þau svífast einskis og mundu t.d. ekki skirrast við að nota gereyðingarvopn kæmu þau höndum yfir þau. Því er áríðandi að koma í veg fyrir að gereyðingarvopn komist í hendur hryðjuverkasamtaka. Hið sama gildir um þau ríki sem lúta stjórn siðlausra þrjóta, sem til alls eru vísir. Slík ríki verða nú að fá að finna fyrir ofurþunga almenningsálitsins í heiminum. Í þessu sambandi verður að nefna að það er ekki líðandi fyrir alþjóðasamfélagið að Írak neiti vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna um að sinna störfum sínum í landinu. Vopnaeftirlitinu var komið á með vopnahléssamningum eftir að Írakar voru reknir út úr Kúvæt fyrir tíu árum vegna þess að vitað var að þeir höfðu lengi reynt að framleiða gereyðingarvopn af ýmsu tagi, þar á meðal kjarnorkuvopn.

Viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna á Írak verður oft fyrir lítt ígrundaðri gagnrýni. Almenningur í Írak líður fyrst og síðast fyrir harðstjórnina sem drottnar yfir landinu. Íraksstjórn hefur leyfi til að selja alla þá olíu sem þarf til að kaupa matvæli og lyf fyrir, en hún nýtir þá undanþágu ekki til fulls. Þess vegna líður almenningur skort. Þetta gerir Hussein og hyski hans til að reyna að þvinga Vesturlönd til að aflétta banninu. Yrði honum að ósk sinni væri verið að senda þau skilaboð að ill meðferð harðstjóra á eigin þjóð dugi til að þvinga Vesturlönd til undirláts. Glæpastjórnir tækju slíku fagnandi.

Framhjá því verður ekki litið að gereyðingarvopn í höndum ríkja af framangreindu tagi er ógn. Þeirri skoðun vex fiskur um hrygg að bregðast þurfi við henni meðal annars með eldflaugavarnarkerfi. Þetta var umdeilt mál fyrir árásirnar á Bandaríkin þótt fjöldi ríkja, þar á meðal Rússland, hefði viðurkennt að ógnin væri til staðar. Afstöðu íslenskra stjórnvalda í þessu efni var lýst á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í júní síðastliðnum. Bent var á að ný og vaxandi ógn væri að verða til vegna útbreiðslu gereyðingarvopna og eldflaugatækni. Tekið var fram að Ísland fagnaði frumkvæði Bandaríkjanna að samráði í Atlantshafsbandalaginu um viðbrögð við þessari ógn; viðbrögð sem byggðu annars vegar á eldflaugavörnum og hins vegar á samningum um takmörkun vígbúnaðar og aðgerðum til að hefta útbreiðslu gereyðingarvopna. Eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum er þess að vænta að alþjóðlegur stuðningur við slíka stefnu aukist verulega.

Hryðjuverkin hafa hvatt ríki til að sameina kraftana og skapað tækifæri til að bæta samskipti. Þannig eru nú til umræðu í Atlantshafsbandalaginu hugmyndir um að koma á nánari tengslum þess og Rússlands en fyrir voru með samstarfssamningi þeirra frá árinu 1997. Mikilvægt er að nýta öll ný tækifæri til samstarfs við Rússland á tilteknum sviðum eins og varðandi varnir gegn hryðjuverkum. Jafnframt verður auðvitað að gæta þess að bandalagið geti áfram tekið eigin ákvarðanir á eigin forsendum, enda er ekki verið að leggja til að Rússar fái neitunarvald.

Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í Prag haustið 2002 á að taka ákvarðanir um frekari stækkun þess til austur. Mikilvægur þáttur í undirbúningi stækkunarinnar verður utanríkisráðherrafundur NATO í Reykjavík í maí næstkomandi. Stækkunin felur í sér sögulegt tækifæri fyrir bandalagið til að festa í sessi breytingarnar miklu sem fylgdu í kjölfar falls kommúnismans og skapa þar með nýja Evrópu, byggða á frelsi og lýðræði.

Í stækkunarmálinu reyna íslensk stjórnvöld að verða Eystrasasaltsríkjunum að liði en í ár voru liðin tíu ár frá því Ísland hafði forystu um það meðal vestrænna ríkja að styðja kröfur Eystrasaltsþjóðanna um að sovésku hernámi yrði hætt og frelsi þeirra endurheimt. Í stefnu Atlantshafsbandalagsins kemur fram að engin ríki verði útilokuð frá aðild óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Þetta er ekki síst skýr tilvísun til Eystrasaltstríkjanna. Þá á margítrekuð afstaða bandalagsins um að ekkert ríki utan þess hafi neitunarvald um stækkunina fyrst og síðast við Eystrasaltsríkin vegna andstöðu Rússa við aðild þeirra.

Auðvitað liggur ekki endanlega fyrir hvernig Atlantshafsbandalagið mun taka á stækkunarmálinu á leiðtogafundinum í Prag, en málstaður Eystrasaltsríkjanna virðist njóta mikils og vaxandi stuðnings innan bandalagsins. Ísland hefur lýst því yfir að eðlilegast væri að öllum umsóknarríkjunum yrði boðin aðild, sem yrði að veruleika um leið og þau uppfylltu fyrirliggjandi skilyrði bandalagsins. Í þeim efnum eru Eystrasaltsríkin fremst í flokki ásamt Slóveníu.

Annað stórt mál á dagskrá Atlantshafsbandalagsins lýtur að samskiptum þess og Evrópusambandsins með tilkomu öryggis- og varnarmálastefnu sambandsins. Af Íslands hálfu hefur í þessu máli verið lögð áhersla á að Evrópuríkin í bandalaginu, sem ekki eru í ESB, taki þátt í öryggismálastefnu sambandsins með ásættanlegum hætti enda hefur NATO lýst yfir að hún snerti hagsmuni allra bandalagsríkjanna. Evrópsku bandalagsríkin utan ESB eru auk Íslands, Noregur, Pólland, Tékkland, Ungverjaland og Tyrkland. Þátttökumálið er að mestu í höfn en ESB á eftir að semja við Tyrki um aðkomu þeirra að ákvörðunum um hugsanlegar aðgerðir ESB, sem Tyrkland tæki þátt í. Slíkt samkomulag mundi treysta enn frekar þátttöku evrópsku bandalagsríkjanna utan ESB í öryggismálastefnu þess.

Aðalatriði er að hafa hreinar línur í öllum samskiptum samtakanna tveggja og þannig tengist þátttökumálið öðru áhersluatriði íslenskra stjórnvalda. Við styðjum mótun öryggismálastefnu á vettvangi ESB en við teljum að þannig verði að búa um hnútana að hún styrki en veiki ekki tengsl bandalagsins yfir hafið til Norður-Ameríku. Þau eru lykilforsenda íslenskra öryggismála í bráð og lengd. Íslensk stjórnvöld hljóta að treysta því, vegna þess hve mikið er í húfi, að rétt verði haldið á þessum málum. Það þýðir í stuttu máli að þrátt fyrir samvinnu ESB-ríkjanna í öryggismálum verði Atlantshafsbandalagið áfram hinn raunverulegi vettvangur fyrir samráð og ákvarðanir um mál sem varða öll bandalagsríkin.

Saga Evrópu breyttist þegar með stofnun bandalagsins fyrir rúmum fimmtíu árum og það hefur leikið lykilhlutverk í þróun mála allar götur síðan, ekki síst vegna tengslanna við Bandaríkin. Í maí voru liðin fimmtíu ár frá því er Ísland og Bandaríkin gerðu varnarsamninginn sem gerði Ísland að mikilvægum hlekk í Atlantshafstengslunum. Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna horfir enn sem fyrr til hagsmuna vinalandanna beggja og er einnig áfram þáttur í Atlantshafstengslunum og trúverðugleika þeirra.

Góðir fundarmenn,
Í kjölfar hryðjuverkanna eru efnahagshorfur í heiminum um sinn lakari en ella. Fyrir hryðjuverkin höfðu þær versnað sakir stórfelldrar lækkunar hlutabréfa og áhrifa hækkaðs olíuverðs. Óvissa í kjölfar hryðjuverkanna hefur að sjálfsögðu haft neikvæð áhrif á væntingar einstaklinga og fyrirtækja. Það kann að seinka þeirri uppsveiflu sem áður hafði verið búist við að hæfist í byrjun næsta árs. Ísland fer ekki varhluta af þessu. Flest bendir þó til að samdrátturinn verði skammvinnur og að efnahagslífið taki fljótlega að rétta úr kútnum í flestum aðildarríkjanna.

Á ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar nýverið náðist samkomulag um að hefja nýja lotu samningaviðræðna um aukið frelsi í heimsviðskiptum. Þótt niðurstöðu sé ekki að vænta fyrr en eftir nokkur ár var samkomulagið engu að síður kærkomið við núverandi aðstæður. Viðskiptafrelsi er enn sem fyrr vísust leið til hagvaxtar og aukinnar velferðar í veröldinni. Fyrir Íslendinga var ánægjulegt að sérstakt baráttumál þeirra, afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi komst á dagskrá fyrirhugaðra samningaviðræðna. Markmiðið er að setja reglur um beitingu ríkisstyrkja og stuðla að afnámi þeirra. Náist þetta fram mun það styrkja samkeppnisstöðu þjóða eins og Íslendinga, sem leitast við að reka sjávarútveg á viðskiptalegum grunni. Afnám ríkisstyrkja mundi einnig minnka sókn og vernda fiskistofna sem víða eru ofveiddir. Ísland átti ásamt fleiri ríkjum frumkvæði að þessu máli á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og leiddi undirbúning þess.

Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið, EES, tryggir Íslendingum aðgang að innri markaði ESB. Hins vegar er rétt að huga að tæknilegri aðlögun samningsins að samrunaþróuninni í ESB á öðrum sviðum en lýtur að innri markaðnum og viðskiptum. Það verk á ekki og má ekki mikla fyrir sér, því að þar er nánast um handavinnu að ræða. Jafnframt þarf að gæta þess að stækkun sambandsins til austurs skaði ekki íslenska viðskiptahagsmuni í umsóknarríkjunum. Ekkert bendir þó til að svo verði enda ber ESB að leysa það mál samkvæmt reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Áfram blasa við margir og margumræddir ókostir fyrir Ísland af aðild að ESB. Ekkert hefur komið fram annað en órökstudd barnaleg óskhyggja um að hægt sé að semja sig frá öllum þessum göllum en hirða þá bita sem bragðbetri væru. Auk þessa er ljóst er að beinn árlegur kostnaður Íslands af aðild að ESB mundi hlaupa á mörgum milljörðum króna, af ástæðum sem eru kunnar.

Þeir sem vilja að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu verða að segja nákvæmlega hvað vinnst og með afdráttarlausum hætti hverju er til fórnandi fyrir aðild. Óljóst og ósannfærandi tal um aukið pólitískt vægi getur aldrei orðið næg undirstaða aðildarumsóknar. Loks er rétt að hafa í huga að alþjóðavæðingin veitir Íslendingum ný tækifæri og það væri óráðlegt fyrir Ísland að binda sig um of ESB sem í eðli sínu er lokaður klúbbur, sem lítur eigin lögmálum í þéttari og þéttari skógi reglugerða og tilskipana, sem hafa sjaldnast fengið neina raunverulega lýðræðislega meðferð.

Hagsmunir íslensku þjóðarinnar og aðstæður hennar fara alls ekki saman við það sem ræður för í ranni ESB. Sem dæmi má nefna möguleika Íslands til að laða að erlenda fjárfestingu. Ísland er ekki beint í alfaraleið og því ekki sjálfgefið að erlendir fjárfestar horfi til landsins. Einnig hefur opnun fjármálamarkaða leitt til þess að auðvelt er fyrir íslensk fyrirtæki að flytja starfsemi sína á erlenda grund þyki þeim svo henta. Það er því mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa fullt forræði yfir viðskiptaumhverfinu á Íslandi. Ríkisstjórnin hefur nýlega samþykkt að lækka tekjuskatta fyrirtækja úr 30% í 18% og gera fleiri umbætur á íslenska skattaumhverfinu, ekki síst til þess að vekja athygli og áhuga erlendra og innlendra fjárfesta. Íslensk fyrirtæki sem höfðu í fullri alvöru lagt á ráðin um að flytja starfsemi sína til útlanda hafa mörg þegar lýst því yfir opinberlega að vegna skattabreytinganna muni þau starfa áfram á Íslandi.

Á undanförnum mánuðum hefur verið nokkuð flökt á íslensku krónunni á gjaldeyrismarkaði og gengi hennar hefur lækkað. Þetta hefur leitt til tals um að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Virðast sumir jafnvel halda að slík aðgerð sé álitleg lausn á skammtíma vandamáli. Krónan, segja þeir, er bersýnilega of smá mynt til þess að hún geti þjónað tilgangi sínum sem trúverðugur gjaldmiðill. Óvissa um gengisþróun komi í veg fyrir erlendar fjárfestingar og skaði íslenskt atvinnulíf.

Vitanlega er óvissa í gengismálum óheppileg fyrir atvinnulífið og þjóðfélagið allt. Lækkun á gengi krónunnar nú á rætur sínar fyrst og fremst að rekja til viðbragða hagkerfisins við þenslu á undanförnum misserum. Í sjö ár áður en gengisóróa fór að gæta var íslenska krónan ein stöðugasta myntin í Evrópu og stóð vel af sér mikla lækkun evrunnar. Krónan var þó hvorki stærri né smærri mynt á þeim árum en hún er nú.

Allt bendir til að núverandi vandi sé tímabundinn og leysist um leið og hagkerfið hefur aðlagast nýjum aðstæðum. Gengi krónunnar fór lengra niður en efnahagslegar ástæður voru fyrir og virðist nú vera að rétta sig við. Þegar gengið fór hæst í maí í fyrra var það á hinn bóginn of hátt. Nú mun það smám saman leita jafnvægis, sem byggjast mun á íslenskum forsendum og íslenskum aðstæðum. Það er lykillinn að íslensku efnahagslífi, sem menn mega ekki kasta frá sér. En gengi evrunnar mun aldrei taka mið af því sem gerast kann á Íslandi, þótt við værum í Evrópusambandinu. Til þess er hagkerfi okkar einfaldlega allt of lítið. Við stæðum því frammi fyrir óbærilegum og óleysanlegum vandamálum, ef til dæmis illa áraði í útflutningsgreinum okkar á sama tíma og mikill uppgangur væri í efnahagslífi Þýskalands og Frakklands. Þá væri sameiginlega myntin að styrkjast á sama tíma og íslenskt atvinnulíf væri að veikjast og þá yrði íslenskt efnahagslíf tætt í sundur.

Ég hef heyrt menn segja að evran sé að taka gildi um næstu áramót. Það er einhver misskilningur. Evran hefur gilt í tvö ár. Nú er aðeins verið að dreifa hinni sameiginlegu mynt, en allir gjaldmiðlar í Evrulandi voru festir fyrir löngu.

Samskipti Íslands við Evrópusambandið hafa mikla þýðingu, ekki bara vegna mikilla viðskipta heldur einnig vegna sögulegra og menningarlegra tengsla Íslendinga við þjóðir í sambandinu. Þó Ísland sé ekki á leið í Evrópusambandið þá erum við Evrópuþjóð í hinum góða skilningi orðsins og eigum því samleið með öðrum þjóðum álfunnar. Við getum haft ótrú á sumu því klúðri sem kommissaraveldið í Brussel hefur komið á í ofstýringaráráttu sinni, en elskað og virt Evrópu sem fyrr. Þar er ekkert samasemmerki á milli. Evrópusambandið á rætur í hörmungasögu Evrópu á tuttugustu öldinni og byggir á göfugri hugsjón um varanlegan frið í álfunni. Hin nána samvinna ríkjanna innan sambandsins hefur hvað það snertir verið árangursrík og þjóðunum til heilla. Sameiginleg gildi og sameiginlegir hagsmunir eru ein besta trygging fyrir friði sem möguleg er. Allt frá árinu 1949 hefur ekki ríkt neinn vafi á hvar Ísland skipar sér í sveit, þegar mest er í húfi og treysta þarf frið og lýðræði. Kompás Íslands verður áfram rétt stilltur í þessum efnum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum