Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. desember 2001 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Áramótagrein í Morgunblaðinu 2001

30. desember 2001

Áramótagrein forsætisráðherra
í Morgunblaðinu 30. desember 2001

Mannkyninu fleygir fram. Þekking, á hverju sem vera skal, hefur aldrei verið umfangsmeiri, almennari og það sem þýðingarmest er, hún hefur aldrei verið aðgengilegri en nú. Þekkingin er sameiginleg heiminum öllum í fyrsta sinn, vegna tölvutenginga og tækniþróunar. Þessa gætir hvarvetna til góðs, en samt erum við enn sem fyrr fjarri fullkomnum heimi. Hundruð milljóna manna í þriðja heiminum líða skelfilegan skort. Þróunaraðstoð velmegandi þjóða til þeirra er lakar standa er vel meint, en kemur að takmörkuðu haldi ef viðtökuríkinu er illa stjórnað, ofstjórnað eða, eins og oft er, hvort tveggja. Þótt hart sé að hafa orð á því, fer drjúgur hluti af alþjóðlegu hjálparfé í hundskjaft. Sagt er í hálfkæringi að fjármunir séu teknir af fátæka fólkinu í ríku löndunum til að setja í handraðann hjá ríka fólkinu í fátæku löndunum. Slík alhæfing, þótt vel sé orðuð, segir sem betur fer ekki allan sannleikann, en það eru þó óþægilega mörg sannleikskorn í henni. Góðviljaðir Vesturlandabúar hafa lengi haldið í þá von að hatur og grimmd ættu sína rót eingöngu í fátækt og fordómum og þegar sú rót hefði verið rifin upp yrði allt í heiminum gott og fegurðin ríkti ein. En málið er því miður ekki svo einfalt. Trúarofstæki og andlýðræðislegt stjórnarfar koma ásamt öðru einnig við sögu. Ekki er lengur um það deilt, að helsti heilinn á bak við voðaverkin í september, var Osama bin Laden, ágætlega menntaður auðmaður sem þótti vel í ætt skotinn í sínu heimalandi. Hann þreifst í skjóli ógnarstjórnar, sem mötuð af mútufé hryðjuverkamanna, hélt heilli þjóð í heljargreipum. Enn sem fyrr var það stjórnarfar, sem var örlagavaldurinn, skjólið sem skóp hryðjuverkamanninum skilyrðin til árásanna á almenning í Bandaríkjunum. Nú verður senn fokið í það skjól.

Hinn vestræni heimur lét sér lengst af fátt finnast um stjórnarfar og aðstæður í Afganistan eða allt þar til að landstjórnin þar dró að sér athyglina með ógnvænlegum og ógleymanlegum hætti. Nú hafa fjötrarnir verið leystir af þessari langhrjáðu þjóð og hún fengið nýja von um vænlegri tíð. Þeir góðu friðboðendur, hér á landi sem annars staðar, sem í kjölfar árásana hrópuðu á athafnaleysi og mæltu gegn aðgerðum og fyrirbyggjandi ráðstöfunum og notuðu einkum orðið hefnd í sínu hjali, virðast hafa ærna ástæðu til að hugsa sitt mál á ný.

Sérfræðingar og spekingar að spjalli fylltu umræðuþættina og sögðu okkur að allt syði upp úr og óbætanlegur skaði yrði unninn, ef tekið yrði hart á móti hatursöflunum. Þeir liggja nú lágt spekingarnir um sinn, en þeir verða vísast tilbúnir í næsta leik.

Það þarf enginn lengur að velkjast í vafa um að hryðuverkaöfl munu engu eira og öll meðul nota verði þeim gefin tækifæri. Þýðingarmesta afleiðing árásana á Bandaríkin er sú, að nú vita öll ríki heims, líka þau sem verst er stjórnað, að skjóti þau skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn og samtök þeirra verða þau sótt heim og dregin til ábyrgðar, rétt eins og skjólstæðingar þeirra.

Atlantshafsbandalagið, varnarbandalag vestrænna ríkja, þekkti sinn vitjunartíma þegar ráðist var á Bandaríkin. Ísland skarst þar ekki úr leik, þótt fyrir því væri vitaskuld talað hér á landi. Fáum ríkjum er mikilvægara en okkar, að föntum, sem fara með forsjá ríkja, sé settur stóllinn fyrir dyrnar og hryðjuverkastarfsemi sem slíkir hafa stutt sé upprætt.


II
Hinn efnahagslegi eftirleikur hryðjuverkanna varð annar og meiri en nokkur sá fyrir. Öryggi minnkaði og jafnt fólk sem fyrirtæki skutu fjárhagslegum ákvörðunum á frest um lengri tíma. Þessari óöryggisöldu skolaði einnig á okkar fjörur og hefur hún orðið til töluverðs tjóns.

Bein áhrif sjást greinilega í ferðaiðnaðinum, en þar hafa fyrirtæki tekið á sig mikil áföll og margir starfsmenn hafa misst vinnuna. Sem betur fer hafa almenn skilyrði í greininni þó farið batnandi. Ísland þykir spennandi ferðamannastaður um þessar mundir og gengisskráningin er atvinnugreininni hagstæð og olíuverð hefur farið lækkandi. Hér hafa öryggismál verið tekin föstum tökum, með ærnum kostnaði, og hefur það ekki farið fram hjá alþjóðlegum öryggisyfirvöldum. Atburðirnir í Bandaríkjunum og eftirleikurinn skullu inn í efnahagsumræðu sem fram hafði farið hér á landi, stundum undir dálítið skrýtnum formerkjum síðustu misseri. Furðu margir höfðu tekið þátt í barlómskór, sem var ekki í neinum takti við efnahagslegar staðreyndir, né þær undirstöður sem hið íslenska atvinnulíf hvílir á.

Meginskýringin mun sú, að ýmsir urðu illa úti vegna gengisbreytinga, sem urðu mun meiri en nokkur vænti, og eru þær stofnanir og sérfræðingar sem mest um slík mál fjalla ekki undanskildar. Gengislækkun krónunnar tók um sinn að lifa eigin lífi utan efnhagslegra staðreynda og fékk fóður annars vegar í gáleysislegum yfirlýsingum um framþróun efnahagslífsins og hins vegar í neikvæðum atburðum, auk óvissunnar eftir 11. september. Þar má nefna langt sjómannaverkfall, úrskurð Skipulagsstofnunar um Kárahnjúka og vaxandi ótta við uppsögn kjarasamninga og stórátök á vinnumarkaði í kjölfarið. Sömu þættir höfðu einnig neikvæð áhrif á framgang einkavæðingaráforma. Nú vísa á hinn bóginn flest teikn í aðra átt.

Árangur bandamanna í Afganistan er mjög trúverðugur og mun þegar frá líður fylla menn öryggi og auka á ný traust og tiltrú á flugið, sem ferðamáta nútímans. Myntvæðing evrunnar ætti í bráð að minnsta kosti að auka trú á þeim gjaldmiðli. Margt bendir til að efnahagslífið í Bandaríkjunum muni taka fyrr við sér en spáð hefur verið. Hér heima liggur fyrir jákvæður úrskurður Skipulagsstofnunar um álver við Reyðarfjörð og vel rökstuddur úrskurður umhverfisráðherra um Kárahnjúka. Þá eru viðræður um virkjunarmál í góðum farvegi, þótt lokaniðurstaða liggi ekki fyrir. Sjávarútvegsráðherra var kleift að auka mjög verulega aflaheimildir í mikilvægum stofnum. Aukningin nemur um 33.000 þorskígildistonnum, sem skila munu nálægt sex milljörðum króna í auknum útflutningstekjum. Þær ákvarðanir einar munu auka afgang fjárlaga úr þremur í fimm milljarða króna, á næsta ári. Engu er líkara en þessar breytingar og hin miklu áhrif þeirra hafi farið framhjá allri umræðu og jafnvel mörgum þeim sem hafa atvinnu af því að fylgjast með helstu hagstærðum.

Útflutningsatvinnuvegir standa nú mun betur en var á fyrri hluta ársins og eru þau fyrirtæki að skila miklum tekjum. Seðlabanki Íslands hefur þegar lækkað vexti um samtals 1,2% frá því sem hæst var og bersýnilega eru frekari lækkanir skammt undan. Óvissu á vinnumarkaði hefur verið eytt í bráð og ef fer sem horfir, út samningstímann. Forsendur efnahagslífsins eru því allgóðar, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Augljóst er að þær skattkerfisbreytingar sem ákveðnar hafa verið munu mjög styrkja þessa jákvæðu þróun, ekki síst þegar horft er til lengri tíma.

Hinn mikli hagvöxtur sem varð á Íslandi á árunum 1995 til 2000 skilaði öllum almenningi umtalsverðum kaupmáttarauka. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur þannig aukist um 27% frá árinu 1994. Kaupmáttur þeirra sem lægst höfðu launin hækkaði þó mest og er sú staðreynd til marks um að efnahagsbatinn skilaði sér best þangað sem hans var mest þörf.

Ör vöxtur þjóðarbúsins leiddi vissulega til nokkurrar þenslu, sem nauðsynlegt var að spyrna á móti, til að tryggja að lífskjarabatinn yrði ekki að lokum að veislukosti fyrir verðbólgudrauginn einan. Ríkisstjórnin greip til markvissra aðgerða til að varðveita stöðugleikann í efnahagslífinu. Þess var þó gætt að hvika ekki frá þeirri stefnu að beita fremur almennum hagstjórnaraðferðum en sértækum lausnum. Ákveðið var að setja íslensku krónuna á markað og falla þar með frá þeim mörkum sem Seðlabankinn hafði sett myntinni. Á sama tíma var sjálfstæði bankans aukið og honum veitt forræði yfir vaxtaákvörðunum og bankanum jafnframt sett langtíma verðbólgumarkmið. Ríkisstjórnin sýndi með því einbeittan vilja sinn til að koma í veg fyrir að verðbólgan færi aftur af stað hér á landi. Í kjölfar þessara breytinga hefur verið nokkur órói á gjaldeyrismarkaði. Það þarf ekki að koma á óvart að markaðurinn þurfi nokkurn tíma til að fóta sig við breyttar aðstæður og laga sig að nýju umhverfi. Fyrirsjáanlegt var að gengi íslensku krónunnar myndi endurspegla þá aðlögun. Þessar hræringar hafa óumflýjanlega leitt til tímabundins verðbólguskots en á móti kemur að á sama tíma hefur viðskiptahallinn dregist mjög hratt saman. Það er mikið þroskamerki á íslensku þjóðlífi að nú þykir tímabundin 8% verðbólga alvarleg ógn við efnahagslífið. Sú tíð er í fersku minni að margfalt hærri verðbólgutölur þóttu merki um vel lukkaða hagstjórn. En þó að 8% verðbólga sé ekki há í sögulegu samhengi séð, þá er hún samt sem áður tilræði við traustan kaupmátt þjóðarinnar, nái hún að búa um sig. Þess vegna skipti miklu að vel tækist að koma böndum á þensluna og tryggja að kaupmátturinn rýrnaði ekki. Efnahagsstefna ríkisstjórnar og vaxtastýring Seðlabankans eru seinvirkandi meðul, sem hafa aukaverkanir, en þau gera að lokum sitt gagn ef menn hafa úthald til að þola meðferðina til enda. Það er nú að koma í ljós.

Samkomulagið, sem náðist nú á dögunum á milli aðila vinnumarkaðarins, um að fresta endurskoðun launaliðs kjarasamninganna, ber vott um ábyrga afstöðu og traust á langtímaárangri efnahagsstefnunar. Að baki því liggur sá skilningur að hagsmunir launafólks og fyrirtækja fari saman og að verðbólga sé sú óvættur, sem verst leikur kjörinn. Á það beinast við um kjör hinna lægst launuðu, sem eiga færri leiðir en hinir til að bregðast við lakari aðstæðum. Jafnframt staðfestir samkomulagið þá skoðun að verðbólgan nú sé tímabundið vandamál og öll rök hnígi til þess að hún fari hratt lækkandi á næsta ári. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem gefin var út í tilefni samkomulagsins, var skýrt kveðið á um að aðhalds yrði gætt í ríkisfjármálum og þannig tryggður grunnur að stöðugu efnahagsumhverfi. Þetta samkomulag hefur eflt traust á íslensku efnahagslífi og dregið mjög úr ótta um að á þjóðinni dynji víxlverkan launa og verðlags öllum til skaða. Lækkandi verðbólga og stöðugleiki, stöndugur ríkissjóður og fjölbreytt atvinnulíf eru forsendur áframhaldandi hagvaxtar og kaupmáttaraukningar.

III
Sjávarútvegurinn er enn sem áður mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar, þótt aðrar stoðir styrkist og séu fleiri en áður. Það er því mikilvægt að atvinnugreinin búi við sem best skilyrði af hálfu stjórnvalda. Nóg er óvissan sem náttúran ákveður.

Hafrannsóknir eru okkur Íslendingum mikilvægari en flestum öðrum þjóðum. Miklu skiptir fyrir velferð þjóðarinnar í bráð og lengd að fiskveiðiráðgjöfin sé byggð á traustum grunni. Það voru vonbrigði þegar í ljós kom að alvarleg mistök höfðu átt sér stað í mati sérfræðinganna á þorskstofninum og ráðgjöf hefði því verið veitt á röngum forsendum. En viðbrögð stofnunarinnar og sjávarútvegsráðherra hafa verið til eftirbreytni. Forstjóri Hafrannsóknarstofnunar hefur ferðast um allt land til að funda með sjómönnum og sjávarútvegsráðherra hefur kallað eftir úttekt á stofnunni og efnt til málþings, þar sem gagnrýnendum stofnunarinnar gafst tækifæri á að viðra skoðanir sínar og ræða þær opinskátt við sérfræðinga hennar. Það er óskandi að þessar aðgerðir styrki vísindastarf stofnunarinnar og leiði til betri og vandaðri ráðgjafar. Óhjákvæmilegt er að viðurkenna að nákvæmni og óskeikulleiki er mun minni en sumir talsmenn Hafrannsóknarstofunar hafa stundum gefið til kynna á liðnum árum. En með vísan til slíkrar viðurkenningar geta menn á hinn bóginn aldrei sótt skjól fyrir hentistefnu og happa og glappa ákvörðunum um hámarksafla í sannanlega takmörkuðum fiskistofnum.

Á undanförnum árum hafa einatt staðið harðvítugar deilur um íslenskan sjávarútveg. Hefur einatt kveðið svo rammt að þeim átökum að leiða má að því rök að afkomu greinarinnar hafi staðið ógn af. Í kjölfar skýrslu auðlindanefndar, undir forystu Jóhannesar Nordals, hefur verið lagður grunnur að góðri sátt um málefni sjávarútvegsins. Það er ljóst, að þeir sem af gildum ástæðum hafa hvað fastast staðið gegn gjaldtöku á sjávarútveginn hafa gefið umtalsvert eftir af sínum sjónarmiðum, til þess að sátt mætti nást. Sjávarútvegurinn er undirstaða atvinnulífsins, ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins. Það verður því að gæta mikillar varkárni í allri umfram gjaldheimtu af greininni og gæta þess að möguleikar hennar til að vaxa og eflast verði ekki skertir þannig að óbætanlegt sé.

Þess er ekki að vænta að af leggist allar deilur um sjávarútveg á Íslandi. En með því að styðja af heilindum þá sáttargjörð, sem lögð hefur verið fram, ætti að nást bærilegur friður um greinina og hún fái þar með möguleika til að einbeita sér að því að auka verðmæti auðlindarinnar þjóðinni allri til hagsbóta. Það skiptir mestu máli.



IV
Við þessi áramót verður dreift nýjum seðlum og smápeningum í evrulöndunum. Ýmsir hér á landi virðast halda að þá loks sé verið að taka upp hina sameiginlegu mynt. Hún hefur nú verið í gildi í þrjú ár, þótt seðlarnir hafi verið ólíkrar gerðar og borið gamalkunnug nöfn, svo sem mark, franki og líra. Nú verður nafn og útlitsbreyting gerð, en gildið verður óbreytt. Þrátt fyrir að hér sé því aðeins gerð formbreyting en ekki efnisbreyting á myntinni má ætla að sálfræðileg áhrif aðgerðarinnar geti orðið nokkur. Væntingar hljóta að standa til að þau áhrif verði jákvæð á efnahagslíf landanna sem í hlut eiga. Vandamál myntbreytingarinnar munu ekki koma í ljós fyrr en efnahagslegar forsendur í einstökum löndum myntarinnar skarast og þjóðirnar fara að kalla eftir misvísandi viðbrögðum hins sameiginlega banka. Við slíkum áköllum á hann ekkert svar. Þessi hætta virðist enn mörgum hulin.

Sérstaða Íslands, hvað þetta varðar, ætti þó að blasa við hverjum manni, sem nokkurt minnsta skynbragð ber á íslenskt efnahagslíf og hve sveiflurnar sem verða í hagkerfinu hér eru ólíkar því sem gerist á meginlandinu. Þróunin hér síðustu misserin hefði reyndar átt að opna jafnvel þau augu, sem þéttast eru lokuð. Í þeim tilvikum hefur hið gagnstæða gerst og hinir efnahagslegu blindingjar hafa notað tækifærið og kallað eftir íslenskri evru og Evrópusambandsaðild, helst á morgun eða hinn, til að bregðast við tímabundnum úrlausnarefnum!

Nýjasta dæmið frá Argentínu sem rambar á barmi gjaldþrots er afar lýsandi, en hefur þó farið framhjá furðu mörgum. Það undirstrikar nauðsyn þess að megin forsendur efnahagslífs í sameiginlegu myntbandalagi séu einsleitar, ef ekki á illa að fara. Morgunblaðið, einn fjölmiðla, vakti þó athygli á þessari forsendu í leiðara á dögunum. Blaðið sagði "Ástandið í Argentínu sýnir a.m.k. að tenging lítils gjaldmiðils við annan stærri er engin skyndi- eða töfralausn í efnahagsmálum, þótt henni geti fylgt ýmsir kostir. Slíkt krefst afar aðhaldssamrar stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum og mikils sveigjanleika í efnahagslífinu. Sjálfstæðri peningastefnu er hins vegar í raun fórnað, sem gerir erfiðara að bregðast við ytri áföllum. Ein forsendan fyrir því að tengjast stærra myntsvæði er að efnahagssveiflan sé svipuð á öllu svæðinu og að helztu viðskiptalöndin noti sama gjaldmiðilinn. Því er ekki að heilsa hvað varðar Ísland og evrusvæðið við núverandi kringumstæður og að því leytinu getum við dregið lærdóma af reynslu Argentínumanna." Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð.


V
Árið 1995, þegar 150 ár voru liðin frá endurreisn Alþingis, vakti ég athygli á því, að íslenska þjóðþingið myndi hafa svipuð völd og áhrif og ráðgjafaþingið okkar frá 1845, gengju Íslendingar í Evrópusambandið og það þróaðist í þá átt sem áköfustu hugsjónamenn vildu, úr sambandi sjálfstæðra þjóða í sambandsríki. Sigurður Líndal prófessor, benti mér á, af því tilefni, að sennilega yrðu völd Alþingis þá orðin minni en ráðgjafarþingsins forðum tíð. Á þeim árum, sem liðin eru, hefur þróunin orðið örari í átt til sambandsríkis en nokkurn óraði fyrir. Nú síðast lýsti forsætisráðherra Belga, sem er í forsæti Evrópusambandsins, því yfir, að forseta Evrópu ætti að kjósa í beinni kosningu, sambandinu ætti að setja eina stjórnarskrá æðri stjórnarskrám einstakra ríkja og utanríkismál, fjármál, skattamál, atvinnumál og dómsmál ættu að ráðast á hinum sameiginlega vettvangi í Brussel. Hins vegar tók forsætisráðherrann fram að einstökum ríkjum yrði þó enn falið mikið vald, eins og hann orðaði það, og myndu þau áfram sjá um kennslumál, íþróttamál og fleiri þætti og hafa fullt forræði á útihátíðum og öllum slíkum viðbúnaði. Tillögur Belga á leiðtogafundinum í Laeken gengu í þessa átt og kommissjónin var á svipuðu róli, þótt fjarri væri að vísu, að reynt væri að gera alla draumsýn belgíska forsætisráðherrans að veruleika í þessum áfanga. Síðustu árin hefur þróunin gengið mishratt en örugglega þennan veg og ekkert skref verið stigið í gagnstæða átt, þrátt fyrir fögur fyrirheit ýmissa forystumanna í Evrópuríkjunum, þegar þeir hafa reynt að róa fólk heima fyrir. Á fyrrnefndum leiðtogafundi voru þrír ákafir sambandsríkissinnar valdir til að gera tillögur til sérstaks stjórnlagaþings Evrópusambandsins sem halda skal innan tveggja ára.

Það er fullkomlega eðlilegt, að til séu öfl hér á landi, sem ákaft vilja skoða kost og löst á Evrópusambandsaðild. En það sem hlýtur að vekja athygli og jafnvel undrun er, að þróun Evrópusambandsins virðist engu skipta fyrir þessa áhuga og ákafamenn. Slíkir menn vilja einfaldlega ganga í Evrópusambandið og virðist mega einu gilda hverskonar samband það er að verða.

VI
Við áramót horfa menn um öxl og leggja dóm á það sem nýliðið er. Menn geta þá valið úr það sem þeim þykir standa upp úr. Langt verkfall kennara stóð fram á þetta ár. Sjómannaverkfall olli miklu tjóni. Sjúkraliðaverkfall stóð lengi. Flugumferðarstjórar hafa verið með endurteknar verkfallshótanir. Pólitísk úlfúð með tilheyrandi stóryrðum um málefni öryrkja reis í tilefni óljóss dóms Hæstaréttar frá árinu á undan. Skipulagsstofnun setti virkjunaráform fyrir austan í mikið uppnám. Tónlistarkennarar og þroskaþjálfarar voru í löngu verkfalli og fleira af þessu tagi mætti tína til. Fljótt á litið virðist þetta því hafa verið hörmungar ár. En var það svo? Auðvitað ekki. Það einkennir allt sem að ofan var talið að um heimatilbúnar hrellingar er að ræða, en ekki utanaðkomandi áföll. Af því má drjúgan lærdóm draga.

Tekju megin í dálkinn má bóka betri tíðindi. Tekist hefur að verja kaupmátt launa. Íslenskir fjárfestar hafa farið mikinn erlendis sem nýleg kaup Bakkavarar er glöggt dæmi um. Álver Norðuráls stækkar um 50% á árinu. Íslensk erfðagreining gerði fimm ára samning við erlendan lyfjarisa og er mögulegt verðmæti hans sagt vera nærri 30 milljörðum króna. Sama fyrirtæki lauk gerð korts yfir erfðamengi mannsins fyrst fyrirtækja í heimi. Fjárlög voru afgreidd með góðum afgangi, þrátt fyrir samdrátt í tekjum ríkissjóðs. Lögfestar voru umfangsmiklar skattaumbætur fyrir fólk og fyrirtæki. "Íslenska samningsmarkmiðið" náðist á loftslagsráðstefnu í Marokkó. Aðilar á vinnumarkaði náðu með atbeina ríkisins mikilvægu samkomulagi sem treystir undirstöður kjarasamninga. Mjög dró úr viðskiptahalla á árinu. Ærin rök leiddu til að umhverfisráðherra hlaut að fallast á Kárahnjúkavirkjun. Sjávarútvegsráðherra sá ástæðu til að auka heildarafla í rækju, ýsu, ufsa, skarkola og steinbít sem nam um 33 þúsundum þorskígildistonna.

Þegar tekju- og gjaldadálkarnir eru skoðaðir saman kemur sem betur fer á daginn að góðkynja atburðirnir eru líklegri til að hafa varanlegri áhrif en þeir illkynjuðu. Það boðar gott.

Og til þess að forðast að leggja okkar mál í eigin gerð skulum við sjá hvaða einkunn við fengum frá öðrum. Í apríl sl. skipaði Fraser stofnunin í Kanada okkur í 15. sæti af 123 yfir þau lönd sem byggju við best frjálsræði í efnahagsmálum. Fékk Ísland einkunina átta og hefur aldrei fengið hærri einkunn. Í sama mánuði veittu bandarísku umhverfissamtökin Global Green Íslandi umhverfisverðlaun sín vegna stefnu landsins í orkumálum. Í júlí skipaði þróunaráætlun Sameinuðu þjóðana Íslandi í sjöunda sætið af 174 á lista yfir staði sem ákjósanlegast væri að búa á, þegar horft er til heildarlífsgæða.

VII
Sumir virðast halda að kjósendur meti flokka og stjórnmálahreyfingar einkum eftir því, hvaða afstöðu þau taka til þeirra dægurflugna sem fljúga hjá hverju sinni. Mér er nær að halda að þessu sé ekki þannig farið. Ég held að íslenskir kjósendur horfi fremur til þeirra megin markmiða og hugsjóna sem flokkar og forystumenn þeirra standa fyrir, og til þess hve mikla staðfestu og stefnufestu þeir sýna frá einum atburði til annars. Enda sýnir sagan að þeir sem heilsteyptastir eru í málatilbúnaði sínum duga betur til lengdar en hinir sem dansa eftir þeirri músik sem skoðanakannanirnar leika hverju sinni. Því er til dæmis oft reynt að koma til skila með yfirboðum á Alþingi Íslendinga, að einn flokkur sé meiri vinur velferðarkerfisins en annar. Fólk sér í gegnum það og veit að góð sátt ríkir um traust velferðarkerfi á Íslandi, þar sem þeir fjármunir sem menn hafa úr að spila eru vel nýttir. Hin pólitíska spurning, sem þá stendur út af, er þessi: Hvaða menn, flokkur eða flokkar eru líklegastir til að tryggja að á Íslandi sé efnahagslífinu sköpuð heilbrigð skilyrði, svo það geti gert stjórnvöldum og landsmönnum kleift að standa undir því velferðarkerfi, sem þjóðin vill búa við? Frammi fyrir þessari spurningu standa menn jafnan á Íslandi, og það mun ætíð skipta miklu að henni sé á úrslitastundum svarað rétt.

Ég þakka löndum mínum samfylgd á liðnu ári og óska þeim gleðilegs nýs árs.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum