Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. desember 2001 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Áramótaávarp forsætisráðherra 2001

31. desember 2001

Áramótaávarp forsætisráðherra
í ríkissjónvarpinu 31. desember 2001

In English
Góðir Íslendingar.

Hver hátíðisdagur vekur með okkur mismunandi kenndir. Páskarnir, sönnunar- og sigurhátíð lífsins, hinn fyrsti íslenski sumardagur, vorboði barnanna, jólin hátíð ljóss og vonar og á henni miðri gamlaársdagur - kveðjustund og nýtt upphaf. Kvatt er með þakklæti og stundum trega og heilsað af hjartans gleði nýju ári með þeirri spennu og eftirvæntingu, sem hið óþekkta kallar fram í okkur. Nú vitum við vel, að hinn óþekkti tími er ekki örugg óútfyllt ávísun á gleði, velgengni, happ og hamingju, sem muni falla okkur í skaut á nýju ári. Það mun á ýmsu ganga og engum mannlegum mætti er gefið að sjá fyrir hvað það verður. Afhverju þá þessi gleði og tilhlökkun? Afhverju horfum við ekki hikandi og með varúð fram móti ókunnum tíma og til þeirra vandamála, hörmunga og erfiðleika sem hann kann að bera með sér, eins og dæmin sanna? Sýndu slík viðbrögð ekki meira raunsæi, hjá skynsömustu dýrategundinni sem jörðina byggir, einu dýrategundinni sem sumir segja að eigi von um himnaríkisvist. Ég held ekki. Við eigum að taka nýjum tíma, sem nýju tækifæri, nýjum vandamálum sem verðugum viðfangsefnum, sem tekist verði á við af afli og festu. Erfiðleikarnir eru til að sigrast á, að minnsta kosti skulum við leggja okkur öll fram í baráttunni, láta þá stækka okkur og stæla. Þegar við búum okkur undir það sem bíður okkar þá hugsum við til þess, að við stöndum ekki ein, fjölskyldan, frændur og vinir eru þar og þegar mest liggur við telst þjóðin öll til þess hóps. Og þeir, sem farnir eru, hafa svo sannarlega gert sitt til að auðvelda okkur glímuna við hvaðeina sem morgundagurinn kann að bera í skauti. Fordæmi þeirra er fagurt og við erum svo miklu betur nestuð í slaginn, en þeir voru til sinna átaka forðum tíð. "En hvað getum við ein "örþjóð" á skeri, í úfnu hafi?" er í tísku að spyrja um þessar mundir. Mér hefur alltaf þótt miður, þegar íslenskir menn nota þetta orð til að lýsa eigin þjóð. Erlendan mann hef ég aldrei heyrt gera það. Ef við sjáum okkur sjálf, sem "örþjóð", fulla af vanmetakennd nú, hvað vorum við þá í upphafi 20. aldar, þegar við hófum loks endurreisn lífsins í landinu á eigin forsendum, sjötíuþúsund Íslendingar - fátækasta þjóð í norðurálfu í fimmhundruð ár? Þá hafa menn kannski átt að líta í eigin barm og sjá þar skjálfandi hrætt olnbogabarn í útvík heimsins með enga von. En var það myndin sem fyrsti ráðherrann okkar, Hannes Hafstein, sá, þegar hann leit í barm þjóðar sinnar - í upphafi seinustu aldar? Sá hann land sem hýsti þjóð, heillum horfna, með framtíð sem gæti ekki orðið annað en spegilmynd fátækrar fortíðar? Nei öðru nær. Þó var Hannes enginn sveimhugi og því síður nokkur skýjaglópur. Hann sá vissulega erfiðleikana. Hvernig gat hann annað? Þeir blöstu við, hvar sem litið var, svo hrikalegir, að það var hvorki hægt að bægja þeim frá sér, né heldur að mikla þá fyrir sér. En hann vissi að þjóðin átti aðeins eitt svar við erfiðleikum. Það var að yfirvinna þá. Í þeirri baráttu yrði bjartsýni og þor beittustu vopnin. Og hann sagði við þjóðina:
      "Þótt þjaki böl með þungum hramm
      þrátt fyrir allt þú skalt, þú skalt samt fram."
Og bara að þetta kjarkmikla kraftaskáld mætti nú sjá, hvernig þessu hrjóstruga harðbýla landi og þjóðinni, sem þar býr, hefur miðað af því að hún svaraði kallinu og lét aldrei bugast. Hve upplitsdjörf og vongóð megum við ekki ganga á vit nýrra tíma, þegar við sjáum, sem í leiftursýn sögunnar, hvílík afrek hafa verið unnin á Íslandi á aðeins einni öld.

Það er stundum sagt, að það sé ljóður á okkar ráði og ótvírætt smáþjóðareinkenni, hve veik við séum fyrir dómum erlendra manna um okkur. Þeirra vitnisburði sé hampað, reyndar stundum hvort sem hann stendur til góðs eða ills. Nýlegt og aðgengilegt dæmi er mín eigin grein í Morgunblaðinu í tilefni áramóta. Mér þótti nokkur veigur í að geta vitnað til þess að á líðandi ári skipuðu virtar alþjóðlegar stofnanir okkur ofarlega á bekk, hvort sem litið var til þess frjálsræðis, sem atvinnulíf okkar býr við, ellegar stefnu okkar í orku- og umhverfismálum. Og ekki þótti lakara að segja að Sameinuðu þjóðirnar gáfu okkur þá einkunn að við værum í 7. sæti af 174 þjóðum þegar skoðað væri, hvar best væri að búa í veröldinni. Það er í rauninni ekkert að því að horfa til vitnisburðar þeirra sem bregða mælistiku sinni á okkar stöðu af óhlutdrægni, og bera okkur saman við aðrar þjóðir eftir samræmdum reglum. Við vitum að návígið hér heima dregur úr tiltrú á okkar eigin mati, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það snertir einnig viðkvæman streng í brjósti okkar flestra, þegar löndum okkar gengur vel á erlendum vettvangi. Við samgleðjumst þeim innilega og þykir sem hlutabréfin í okkur sjálfum hækki pínulítið, þegar þeir skora mörk, syngja hátt og snjallt, mála vel og jafnvel græða meiri peninga af iðju sinni erlendis en nokkurn gat órað fyrir að væri hægt. Og þetta er ekkert nýtt fremur en annað undir sólinni. Í vor komandi verður öld liðin frá fæðingu skáldsins Halldórs Laxness. Um hann var löngum hart deilt og um hann er enn deilt eins og menn sjá af viðbrögðum við merkri bók Hallgríms Helgasonar rithöfundar. Þær deilur snerta þó í litlu stöðu Halldórs sem mesta rithöfundar síðustu aldar á Íslandi. En um eitt verður ekki deilt. Með sigrum sínum á ritvellinum, sem síðar færðu honum æðstu viðurkenningu sem rithöfundi getur hlotnast, efldi hann öðrum mönnum fremur sjálfsmynd og sjálfstraust þessarar þjóðar. Um hann var sagt, að hann hefði í sinni tíð verið lifandi stórveldisdraumur lítillar þjóðar. Eftirlifandi ættingjar skáldsins hafa ljáð máls á því að ríkið eignist hús skáldsins, Gljúfrastein, og í framtíðinni verði þar og annars staðar í hans heimasveit Mosfellsbæ og í samstarfi við yfirvöld þar, leitast við að sýna minningu skáldsins nokkurn sóma.

Og enn gera íslensk börn garðinn frægan og gleðja með því okkur hin. Söngkonan okkar, Björk Guðmundsdóttir, er vafalítið frægasti Íslendingur, sem nokkru sinni hefur verið uppi, ef mælt er í fjölda þeirra, sem til hennar þekkja og afrek hennar dá. Áhrif Bjarkar í okkar þágu eru ómæld og er mikið þakkarefni, hvernig hún tengir ætíð líf sitt og list landinu kalda sem fóstraði hana. En um leið og við gleðjumst að verðleikum yfir okkar ágæta afreksfólki megum við ekki gleyma því að það eru margar mikilvægar persónur í þýðingarmiklum hlutverkum í gangverki þjóðar. Sumar standa upp úr um sinn og kastljósið fellur á þær. En margur annar vinnur þar afrek sem fáir virðast sjá og meta. Stundum er spurt í tilefni orðuveitinga og annarra slíkra viðurkenninga, hvort ekki sé verið að heiðra menn næstum fyrir það eitt að mæta í vinnuna. Það er í eðli slíkra hluta að í ýmsum tilvikum er virðing og sómi sýnd einstaklingnum sem táknræn viðurkenning fyrir ábyrgðarstörf í þjóðfélaginu, fremur en sem persónuleg verðleikamæling og eru þó vísast velflestir ágætlega að þvílíkri sæmd komnir. Hitt er staðreynd, að þjóðfélag nær aldrei árangri, sem heild, og kemst þaðan af síður í fremstu röð, nema þjóðin vinni sem heild af elju og þrautseigju. Og það er staðreynd að í hversdagslífi þjóðarinnar eru æði mörg afrek unninn og einatt hetjudáð sýnd, sem aldrei er hampað eða hrósað. En þótt okkur sjáist yfir slík afreksverk, vitum við vel, að þau eru unnin dag hvern um landið langt og breitt.

Við Íslendingar heimtum ekki forystusæti á alþjóðavettvangi, þegar úrslitum er ráðið, er varða margar þjóðir, heilar álfur eða jafnvel alla heimsbyggðina. En við þurfum heldur ekki að búa við neina minnimáttarkennd af því tilefni. Og við höfum alla burði til að koma okkar sjónarmiðum að og jafnvel vera öðrum fordæmi á þeim sviðum, sem okkur hefur vel vegnað. Við teljum að sú þjóð ein sé stór þjóð, sem stendur sig vel. Við skulum sannarlega öll stefna að slíkum titli á nýju ári.

Ég þakka ykkur landar mínir samfylgdina á liðnu ári og bið þess að nýja árið verði hverju og einu ykkar og okkur sameiginlega heilladrjúgt og hamingjuríkt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum