Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. febrúar 2002 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Viðskiptaþing Verslunarráðs Íslands 2002

12. febrúar 2002.

Ræða Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra
á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands


Viðskiptaþing er góður vettvangur til að hugleiða frelsi í viðskiptum, inntak hugtaksins, og hvernig því reiðir af í hörðum heimi. Baráttunni fyrir frelsi lýkur aldrei, hvort sem það snýst um sjálfstæði þjóðarinnar eða rétt okkar til að leita lífshamingjunnar, hvert með sínum hætti. Frelsið er sem sagt ekki fyrirhafnarlaust og það fæst ekki frítt. Þvert á móti gerir það miklar kröfur. Við berum sjálf ríkasta ábyrgð á okkar málum, virðingu okkar og velferð og við berum einnig ábyrgð hvert gagnvart öðru. Samfélag, sem setur frelsið í öndvegi, er ekki samfélag án ábyrgðar eða samfélag þar sem tilgangurinn helgar öll meðul. Markaðshagkerfið, sem á sína uppsprettu í frelsi einstaklingsins, sýnir okkur þetta betur en nokkuð annað. Það laðar fram í okkur allt það sem þarf til að ná árangri: Kapp, útsjónarsemi, djörfung og framtak og það tryggir betur en nokkurt ríkiskerfi að ávinningurinn dreifist sem best um þjóðfélagið. Þetta er ekki ókönnuð og ósönnuð klisja. Þetta er niðurstaða sem við Íslendingar höfum fundið vel á eigin skinni. Á síðustu tíu árum höfum við fært hagkerfi okkar æ nær hreinum markaðsbúskap og uppskorið ríkulega. Frá 1995 hefur þjóðarframleiðslan vaxið upp undir 30% og kaupmáttur launa viðlíka. Margt hefur því áunnist, en ýmsu er enn ólokið, eigi að tryggja að sá kraftur og sköpunargleði, sem býr með þjóðinni, fái útrás, henni allri til heilla. En þótt vel hafi miðað er ekki óhætt að líta á íslenska markaðskerfið sem sjálfgefinn hlut, sem haldi hvað sem á dynur, hvernig sem við förum með það. Við megum ekki gleyma því, að það byggir ekki einungis á frelsi, heldur ekki síður á virðingu fyrir þeim reglum, skráðum og óskráðum, sem nauðsynlegar eru til að markaðurinn njóti almenns trausts. Samkeppnin er kapphlaup, þar sem hver hleypur með sínu lagi eftir sinni braut og reynir að komast sem mest hann má. Það á enginn að vinna sigra með því að bregða fæti fyrir andstæðinginn eða með því að leggja þeirra brautir um brekkur en hlaupa sjálfur á sléttri grund. Íslenski markaðurinn er ekki stór. Þær reglur sem sníða honum stakk verða að vera einfaldar og skynsamlegar og til þess fallnar að tryggja heilbrigða samkeppni öllum til heilla. Án samkeppni snýst markaðurinn upp í andhverfu sína. Án samkeppni rætast frýjunarorð óvina frelsisins og markaðurinn verður tæki í höndum þeirra sem maka krókinn á kostnað almennings í landinu.

Það er hlutverk stjórnvalda að búa þannig um hnúta að regluverk markaðarins sé skynsamlegt og eftir því sé farið. Það þýðir ekki að stjórnvöld eigi að vera með nefið ofan í hvers manns koppi og því síður að þau eigi að ráðskast með það hver verslar við hvern, hvenær eða á hvaða verði þau viðskipti ganga fyrir sig. En stjórnvöldum ber að tryggja að samkeppnin eigi séns. Fái einhver einn aðili ofurvald á markaði, misnotar það og kæfir samkeppni í fæðingu með einokunarafli ber stjórnvöldum að sýna viðkomandi gula spjaldið og láti hann ekki segjast þá það rauða. Sá sem hér stendur er ekki í vafa um að þegar til mjög langs tíma er litið þá sé markaðurinn einfær um að tryggja samkeppnina og þar með hag neytenda. En sú vissa breytir ekki því að réttlætanlegt er að flýta þeirri þróun.

Á undanförnum vikum hefur nokkuð verið rætt um samkeppni á matvörumarkaði. Þar er svo komið að samkeppni virðist meiri í orði en á borði. Heimilin í landinu verða að geta treyst því að raunveruleg samkeppni ríki um verð og þjónustu á þessum markaði. Stjórnvöld hljóta að telja það skyldu sína að fylgjast gaumgæfilega með því sem fer fram á markaðnum og reyna að gæta þess að neytendur séu ekki hlunnfarnir. En þótt stjórnvöld geri sitt, þá eru það mennirnir á markaðnum sem mestu um það ráða, hvort að kostir hans nýtast til fulls. Misnotkun á markaði skemmir að lokum fyrir öllum. Traustið tapast og án trausts er frjáls markaður lítils virði.

Góðir ráðstefnugestir.
Forystumenn launþega og atvinnurekenda gerðu með fulltingi og atbeina ríkisstjórnarinnar samkomulag um að fresta endurskoðun kjarasamninga sem fyrirhuguð var í febrúar. Þessi frestun var gerð í trausti þess að spár um lækkandi verðbólgu gengu eftir. Samkomulag þetta staðfestir tiltrú á efnahagsstefnunni, sem á undanförnum misserum hefur miðað að því að draga úr þenslu og varðveita þann mikla kaupmáttarauka, sem fengist hefur. Samkomulagið staðfestir einnig ríka ábyrgðartilfinningu. Þeir, sem að því stóðu, vita að ekkert skaðar hagsmuni launþega og atvinnulífsins alls meira en viðvarandi verðbólga. Ákvarðanir ýmissa fyrirtækja um að styðja við markmið desembersamkomulagsins bera einnig vott um samkennd og myndarskap og skilning á mikilvægi þess að ákvæði kjarasamninganna haldi. Full ástæða er til að þakka það framtak. Ríkisvaldið tók fullan þátt í þessum aðgerðum eins og vera bar.

Úrtölumenn, sumir með vonda samvisku, segja að þessar aðgerðir séu einhvers konar málamyndagjörningur og allt verði látið laust eftir verðmælingu í maí. Þessi skoðun á sér ekki nokkra stoð. Verðbólga fer nú mjög lækkandi. Seðlabankinn spáir að verðbólgan verði um 3 % á árinu í stað 9,4% verðbólgu ársins á undan. Viðskiptahallinn hefur minnkað hraðar en flestir gerðu ráð fyrir. Þjóðhagsstofnun spáði því til að mynda í júní s.l. að hallinn árið 2001 yrði 73 milljarðar en raunin varð allt önnur. Hallinn varð 43 milljarðar samkvæmt nýjustu tölum Seðlabankans og gangi spár fjármálaráðuneytisins eftir verður hann á bilinu 25 til 30 milljarðar á þessu ári. Áætlað er að auknar aflaheimildir skili 8 milljörðum króna í þjóðarbúið og er sjávarútvegurinn nú á góðri siglingu. Umhverfisráðherra hefur greitt götu virkjunar við Kárahnjúka og þar með aukið mjög líkurnar á að samningar takist um byggingu álvers á Austurlandi. Ríkissjóður verður áfram rekinn með afgangi eins og verið hefur mörg undanfarin ár. Innstreymi gjaldeyris mun verða meira en útstreymi á árinu, sem rennir styrkari stoðum undir íslensku krónuna og eykur þar með mjög líkurnar á því að verðbólgan verði vel innan þeirra marka sem stefnt er að. Það bendir því allt til þess, ágætu fundarmenn, að okkur hafi tekist að vinna bug á þenslunni sem fylgdi hinum mikla hagvexti áranna 1995 til 2000. Sameiginlegt átak ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins mun duga til að festa í sessi árangur liðinna ára. Verðbólgumælingin í morgun, -0,3%, eykur mjög líkurnar á að rauða strikið haldi. Þið sem sitjið í þessum sal getið ráðið úrslitum um að það gangi. Það mun létta okkur öllum róðurinn. Það er því kjörið tækifæri til að horfa fram á veginn og huga að því á hverju næsta hagvaxtarskeið okkar Íslendinga verði grundvallað. Íslenskt atvinnulíf hefur tekið stakkaskiptum á síðustu 10 árum. Það er nú fjölbreyttara og öflugra en nokkru sinni fyrr. Engin leið er að spá fyrir hvaða atvinnugreinar það verða sem mestum hagnaði skila eða leiða framfarasókn íslensks atvinnulífs á næstu árum. Slíkar vangaveltur reynast jafnan haldlitlar og tilgangslausar þegar upp er staðið. Hitt skiptir meiru að grundvöllurinn er góður, aflið er til staðar og viljinn ríkur til að standa sig og skara framúr. Nú, sem endranær, er það hlutverk stjórnvalda að tryggja að þjóðinni séu búnar þær aðstæður að kraftur hennar fái notið sín að verðleikum. Sé rétt á haldið þarf enginn að efast um að við Íslendingar verðum lengi enn í fararbroddi þeirra þjóða sem geta boðið þegnum sínum hvað best lífskjör.

Stjórnvöld búa ekki til hagvöxt eða velmegun. Miklu algengara er að þau með ofstjórn og afskiptasemi komi í veg fyrir slíkar framfarir. Farsæl stjórnvöld reyna eftir megni að auka athafnafrelsi einstaklinganna, lágmarka afskipti sín og skattheimtu. Enginn vafi er á því að skynsamleg stjórn ríkisfjármála á undanförnum árum gerir okkur kleift að auka svigrúm atvinnulífsins til mikilla muna. Lánsfjárafgangur áranna 1998 til 2002 er áætlaður um 100 milljarðar króna og er þeim varið til að greiða niður beinar skuldir ríkissjóðs, lífeyrisskuldbindingar eða til að bæta stöðu ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands. Þessar niðurgreiðslur leiða til lækkunar á vaxtakostnaði ríkissjóðs en varlega áætlað er talið að 100 milljarða króna niðurgreiðsla á skuldum leiði til 5 milljarða króna vaxtalegs ávinnings ríkissjóðs á ári.

Þessi fyrirhyggja í rekstri ríkissjóðs hefur veitt ríkisstjórninni svigrúm til að lækka skatta myndarlega, bæði á fólk og fyrirtæki. Þann fyrsta janúar síðastliðinn lækkaði tekjuskattur á fyrirtæki úr 30% í 18% ásamt því að eignarskattur fyrirtækja var lækkaður úr 1,2% í 0,6%. Þessar skattalækkanir skapa fyrirtækjum á Íslandi ný tækifæri til að sækja fram, auka verðmætasköpun og framleiðni og bæta þannig enn frekar lífskjör íslensku þjóðarinnar. Það er ekki úr vegi að nefna það hér að viðbrögð ýmissa stjórnmálamanna við þessum skattalækkunum voru nokkuð misjöfn. Flestir tóku þeim fagnandi, minnugir þess mikla ábata sem féll þjóðinni í skaut þegar tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður úr 50% í 30%. Öðrum, eins og gengur, þótti þessi aðgerð vera hrein afglöp. Frumlegasta mótbáran var þó sú að þessi skattalækkun nýttist einungis þeim fyrirtækjum sem skiluðu hagnaði, en kæmi að litlum notum fyrir þau fyrirtæki sem rekin væru með tapi og var ekki laust við að nokkurrar vandlætingar gætti þegar þetta samsæri ríkisstjórnarinnar með gróðafyrirtækjunum var afhjúpað. Hins vegar er hætt við að menn lækkuðu seint tekjuskatt, ef sú skattabreyting ætti aðallega að duga þeim fyrirtækjum sem tapa og greiða ekki skatt. En þessum nýstárlegu hagspekingum virtist ekki hafa komið til hugar að fyrirtæki sem einhverra hluta vegna er rekið með tapi er ætlað að snúa því tapi í hagnað sem allra fyrst. Annars er slíkum rekstri sjálfhætt. Þegar hagnaði er náð mun það greiða lægri skatta en áður og verðmæti þess aukast sem því nemur.

Nýlegar alþjóðlegar kannanir sýna að Ísland er í hópi þeirra ríkja þar sem auðveldast er að stofna fyrirtæki. Það, ásamt því að skattar á fyrirtæki eru með þeim hagstæðustu sem bjóðast, er góður jarðvegur fyrir frjálst atvinnulíf og við megum vænta góðrar uppskeru á næstu árum og áratugum, ef þessi skilyrði verða varðveitt.

Engum blöðum er um það að fletta að hagvöxtur á Íslandi er nátengdur skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda landsins. Náttúruvernd og náttúrunýting fara vel saman. Skynsamleg rök, vísindaleg þekking og yfirveguð umræða eru líkleg til að skila þjóðinni góðum afrakstri af auðlindum sínum án þess að raska jafnvægi eða gæðum náttúrunnar. Allt orkar tvímælis þá gert er og því eru upphrópanir eins og þær að náttúran skuli ávallt njóta vafans merkingarlaust lýðskrum. Öllum framkvæmdum fylgir vafi um hver áhrif verða á náttúruna, til langs eða skamms. Ef regla lýðskrumarans gilti þá gætum við hvergi virkjað, hvergi byggt og í raun hvergi verið. Þá væri að vísu efanum í huga Hamlet danaprins eitt að fullu og spurningu hans um að vera eða ekki vera væri auðsvarað.

Ákvörðun umhverfisráðherra um að heimila virkjunarframkvæmdir á Austurlandi og íslenska ákvæðið í Kyoto bókuninni leggja góðan grunn að framtíðarnýtingu orkugjafa á Íslandi. Þær raddir, sem sögðu ráðherrann ófæran um að komast að faglegri niðurstöðu vegna pólitísks þrýstings hafa þagnað. Úrskurðurinn var til fyrirmyndar og varðar veginn um hvernig staðið skuli að slíkum ákvörðunum í framtíðinni. Sama gilti um þá niðurstöðu sem fékkst í Kyoto samkomulaginu. Með rökum tókst Íslendingum að sýna fram á að okkar kröfur voru sanngjarnar og þær myndu stuðla að bættri umgengni við náttúruna. Það er betra fyrir heimsbyggðina alla að nýta endurnýjanlega og hreina orku sem við eigum nóg af hér á Íslandi, heldur en að brenna olíu eða gasi með tilheyrandi mengun andrúmsloftsins. Á þetta lögðum við Íslendingar áherslu og á okkar sjónarmið var hlustað. Með þessu höfum við skapað svigrúm fyrir áframhaldandi uppbyggingu stóriðju, sem án efa á eftir að skipta sköpum um hagvöxt á Íslandi.

Megin aflvaki hagvaxtar um ókomin ár mun byggjast á menntun þjóðarinnar. Hugvit þarf við hagleikssmíðar og allar landsins náttúruauðlindir yrðu lítils virði ef ekki væri til þekking til að nýta þær. Stundum er í opinberri umræðu gerður greinarmunur á þekkingariðnaði og öðrum iðnaði. Slík aðgreining er löngu úrelt, hafi hún nokkru sinni átt rétt á sér. Allur iðnaður er þekkingariðnaður. Íslenskur sjávarútvegur er þar gott dæmi um. Veiðar, vinnsla, markaðssetning og sala krefjast þekkingar og kunnáttu á hæsta stigi. Hátækniþjónusta tengd sjávarútvegi er orðin umtalsverð útflutningsgrein og framleiðniaukning í þessari mikilvægustu atvinnugrein okkar Íslendinga mun í framtíðinni eiga rætur sínar í nýtingu þekkingar og tækni á öllum stigum framleiðslunnar.

Rétt eins og greinarmunur á milli þekkingariðnaðar og annars iðnaðar er merkingarlítill þá hafa skil á milli svo kallaðra grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna orðið óskýr. Þau vísindi sem starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar byggja á kunna einhverju sinni að hafa þótt fjarlæg allri atvinnustarfsemi. En nú er svo komið að eitt umsvifamesta fyrirtæki á Íslandi byggir alla sína starfsemi á vísindum sem fæsta gat dreymt um að nokkru sinni yrðu stunduð utan veggja háskólans. Er það mikið ánægjuefni að sjá hvernig tekist hefur til við uppbyggingu þessa mikla fyrirtækis og ástæða til að vænta mikils af því og starfsemi því tengdu á næstu árum. Ríkisstjórn hefur nú til skoðunar ný áform fyrirtækisins og þann atbeina sem hún kann að þurfa hafa að því máli. Er þar um mjög áhugavert mál að ræða, sem getur haft mikla þýðingu.

Engum vafa er undirorpið að íslenskt atvinnulíf á allt undir því að hafa aðgang að vel menntuðu vinnuafli og öflugum vísindastofnunum. Björn Bjarnason menntamálaráðherra hefur á undanförnum árum unnið ötullega að því að efla íslenskt menntakerfi þannig að um munar. Það er nú fjölbreyttara og markvissara en áður var og er einkar ánægjulegt að verða vitni að því mikla framboði af margvíslegri menntun sem nú er í boði á vegum einkaaðila. Fjölbreytileikinn eykur líkur á því að sérhver finni sér menntun við hæfi og á sama tíma svarar menntakerfið mun betur þörfum margbreytilegs atvinnulífs. Óumdeilanlegt er að íslenskt menntakerfi hefur undir forystu menntamálaráðherra tekið stórt stökk fram á við og eigum við eflaust eftir að njóta góðs af því um langa tíð.

Ágætu fulltrúar á viðskiptaþingi
Eitt stærsta hagsmunamál okkar Íslendinga er að við getum átt blómleg og hindrunarlaus viðskipti við aðrar þjóðir. Alþjóðavæðing viðskiptalífsins er stórkostlegt sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga. Víðtækt viðskiptafrelsi og hinar stórstígu framfarir í fjarskiptatækni hafa ásamt góðum samgöngum til og frá landinu rofið einangrun íslensks viðskiptalífs í eitt skipti fyrir öll. Mikið ríður á að stjórnvöld skynji vel þessa breyttu tíma og aðlagi íslenskt viðskiptaumhverfi til samræmis við þá. Skattalækkunin sem tók gildi nú í janúar mun styrkja stöðu Íslands í samkeppninni við önnur lönd. Hófleg skattheimta er ekki einvörðungu vel til þess fallin að laða til landsins erlend fyrirtæki, hún kemur einnig í veg fyrir að innlend fyrirtæki færi starfsemi sína út fyrir landsteinana. Alþjóðavæðingin knýr þannig fram samkeppni á mill stjórnvalda um að bjóða sem best umhverfi fyrir fyrirtæki, bæði innlend sem og erlend. Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um að afnema verðbólgureiknisskil og gefa fyrirtækjum kost á að færa uppgjör sitt í þeirri mynt sem best hentar er hluti af þessari mynd. Árangur af þessum aðgerðum er nú þegar sýnilegur. Íslensk fyrirtæki, sem höfðu flutt starfsemi sína til eða voru alvarlega að hugleiða slíkan flutning hafa í kjölfar þessara breytinga snúið frá slíkum ákvörðunum. Ég er sannfærður um að þessar breytingar munu verða íslensku athafnalífi til mikils framdráttar og ryðja brautina fyrir enn frekari umbætur.

Alþjóðavæðingin, þetta mikla tækifæri okkar Íslendinga, breytir því ekki að ríki Evrópu eru okkar lang mikilvægustu markaðir. Samskipti okkar við þessi ríki, hvort heldur sem er við Evrópusambandið eða við einstök ríki álfunnar eru því megin viðfangsefni utanríkisstefnu okkar Íslendinga.
Frá samskiptum Íslands við Evrópusambandið er tryggilega gengið með EES-samningnum, sem veitir okkur að heita má óheftan aðgang að innri markaði sambandsins. EES-samningurinn stendur enn, átta árum eftir gildistöku hans, fyllilega undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar og virkar eins og til stóð. Auðvitað koma upp ágreiningsmál við framkvæmd á svo flóknu og víðfeðmu fyrirbæri sem þessi samningur er. Þau eru þó ótrúlega fá og snúast ekki um þá stóru hagsmuni sem hann tryggir, heldur um tæknileg framkvæmdaratriði. Nýlegt dæmi lýtur að tilskipun um skráningu, markaðssetningu og meðferð sæfiefna, en það eru til dæmis skordýra- og rottueitur, sótthreinsiefni og rotvarnarefni. Þá er nefnt til sögunnar ónóg þátttaka í nefndum á vettvangi framkvæmdastjórnar ESB. Þetta eru nefndir sem fjalla um atriði eins og neytendamál og hreinlæti og hollustu á vinnustöðum.

Að þessum atriðum ber vissulega að hyggja sem og tæknilegri uppfærslu texta EES-samningsins til samræmis við breytingar sem orðið hafa á sáttmálum ESB á undanförnum árum. Það er eðlilegt eftir átta ár, að slíkur prófarkalestur eigi sér stað. Hins vegar er ljóst að engin stórvandamál eru á ferðinni og engir stórir hagsmunir í hættu. Samt telur formaður Samfylkingarinnar, einn íslenskra stjórnmálaforingja, að við verðum að ganga í ESB af því EES-samningurinn hafi veikst og dugi ekki. Áþreifanleg rök eru ekki færð fyrir þessari skoðun, eða vill formaður Samfylkingarinnar að Íslendingar gangi í ESB, gefi eftir hluta af fullveldi sínu, missi yfirstjórn á íslenskum sjávarútvegi til að fá tóm til nefndarstarfa um hreinlæti á vinnustað og hafa bærileg áhrif á reglugerð um rottueitur. Yrðu áhrif af því tagi virði þeirra árlegu á annan tug milljarða sem aðild að stækkun ESB mundi sannanlega kosta okkur eftir stækkun þess? Mundu þau vega upp aðra ókosti aðildar fyrir Ísland sem margoft hafa verið ræddir og um fjallað í mörgum skýrslum?

Stækkun Evrópusambandsins kallar á vissa hagsmunagæslu af okkar hálfu. Með henni stækkar hið evrópska efnahagssvæði og mun á næstu árum ná til landa eins og Póllands, Tékklands, Eystrasaltsríkjanna og fleiri ríkja í Mið- og Austur-Evrópu. Samkvæmt skýrslu sem utanríkisráðuneytið og önnur fagráðuneyti unnu í fyrra er almennt útlit fyrir að stækkunin hafi fremur jákvæð áhrif fyrir Ísland. Þess ber þó að gæta að EFTA hefur gert fríverslunarsamninga við löndin sem hafa sótt um aðild að sambandinu, og hvað vissar sjávarvörur varðar njótum við betri aðgangs að mörkuðum flestra þessara ríkja en að innri markaði ESB. Þetta á einkum við síld, hörpudisk, humar og unnar laxaafurðir en einnig nokkra aðra sjávarvöruflokka. Útflutningur til umsóknarríkja ESB er reyndar hverfandi lítill, en vissulega gæti hann vaxið eitthvað standi hugur íslenskra fyrirtækja til þess og er þá einkum horft til síldarafurða. Sanngjarn markaðsaðgangur EFTA-ríkjanna í nýjum ríkjum í ESB lýtur að reglum alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og sambandinu ber að leysa málið samkvæmt því. Það er því ekki með nokkru móti hægt að álykta af þessum þáttum að EES-samningurinn virki ekki, og enn síður er það þannig vaxið að við verðum að ganga í Evrópusambandið neiti það að sýna okkur þá sanngirni sem því ber að gera, varðandi útflutning á síld til Póllands, sem er óverulegur um þessar mundir, hvað sem síðar verður.

Miklu skiptir að við séum á varðbergi gagnvart breytingum á vettvangi ESB. Um síðustu áramót var sameiginlega myntin, evran, sett í umferð. Eðlilegt er að sú spurning vakni hvort það þýði að við verðum að hrekjast í ESB af því við eigum ekki um annað að velja en taka þátt í myntsamstarfinu. Það væri mikið óráð. Gengi evrunnar endurspeglar auðvitað aðstæður í stóru ríkjunum í ESB en ekki hinum smáu. Hvar værum við stödd ef erfiðleikar kæmu upp á Íslandi, vandi eins og aflabrestur eða verðlækkun á sjávarvörum á erlendum mörkuðum, á sama tíma og gengi evrunnar væri á uppleið? Jú, þá mundi blasa við annað tveggja, bullandi atvinnuleysi eða ölmusa frá ESB.
Stundum er bent á að vextir séu lægri í ESB en á Íslandi til marks um óhagræði af því að standa utan ESB og evrunnar. En ég spyr, hvert væri vaxtastigið í ESB ef menn hefðu þar á bæjum notið sama hagvaxtar og Íslendingar hafa gert á undanförnum árum og ef þeir byggju við því sem næst ekkert atvinnuleysi en ekki við tveggja stafa tölu eins og nú er? Víst er að hér hefði allt sprungið í loft upp ef við hefðum búið við vexti Evrópubankans á síðustu árum. Verðbólgan væri þá ekki áætluð 3% á þessu ári.

Góðir fundarmenn.
Þið segið réttilega "betur má ef duga skal." Fréttirnar af verðlagsmælingum í morgun eru gleðilegar. Vonir um vaxtalækkanir eru orðnar raunhæfar. Það er ánægjulegt að úrvalsvísitala hefur hækkað um 25% frá því í ágúst s.l. Það er gott að væntingavísitalan fer hækkandi. Það vekur vonir að viðskiptahallinn er að minnka úr 70 milljörðum í 25 milljarða. Það er vænlegt að verðbólga er að lækka úr 9,4% á ári í 3%. Það er gott að skuldbindingar ríkisins hafa lækkað um eitt hundrað milljarða. Það er fagnaðarefni að fyrirtækjaskattar hafa lækkað úr 50% í 18% og að eignaskattarnir séu á útleið. Það er stórkostlegt að kaupmáttur hafi aukist um 30%. Það er gott að við höfum enn stjórn á eigin málum og borgum ekki á annan tug milljarða nettó á ári til ESB. Allt er þetta nokkuð gott, en sjálfsagt má betur gera ef duga skal.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum