Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. mars 2002 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ársfundur Seðlabanka Íslands 2002

26. mars 2002

Ræða forsætisráðherra, flutt á ársfundi Seðlabanka Íslands 26. mars 2002


Góðir gestir.
Ár er nú liðið síðan frumvarp um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands var kynnt á ríkisstjórnarfundi. Ríkisstjórnin ákvað að sú skipan mála sem þar var lögð fram myndi þá þegar taka gildi. Þar með var ákveðið að sjálfstæði Seðlabankans yrði aukið frá því sem áður var og bankanum sett skýrt markmið, að viðhalda stöðugu verðlagi. Þessar breytingar sem gerðar voru á stjórnun peningamálastefnunar voru í samræmi við það sem best hefur þótt reynast á alþjóðavettvangi. Viðbrögð stjórnmálamanna,
fjármálasérfræðinga og annarra þeirra sem gerst þekkja til þessara mála voru enda á einn veg. Almenn ánægja var með hina nýju tilhögun og þótti hún gefa góð fyrirheit um áframhald ábyrgrar peningamálastefnu. Hitt er annað mál að breytingin var gerð við óvenjulegar og á ýmsa lund erfiðar aðstæður. Hæpið var að bankinn gæti varið stöðugt gengi við þær aðstæður sem þá voru og segja mátti að slík vörn orkaði þar að auki tvímælis, jafnvel þótt bankinn hefði fjármálalega burði til hennar. Hið nýja boðorð, verðbólgumarkmið bankans, fékk því ekki óskabyrjun, miklu fremur hlaut bankinn eldskírn í upphafi nýs ferils. Fullyrða má að bankinn hafi mikið af þessu lært og komist vel frá.

Engum vafa er undirorpið að efnahagsleg velferð þjóðarinnar er mjög undir því komin að vel takist til við stjórn peningamála og því afar mikilvægt að öll sú umgjörð sem þeirri stjórn er búin sé skynsamleg og vandlega hugsuð. Nú hefur grunnurinn verið mældur og lagður, og þegar nútíð og nálæg framtíð verða orðin saga mun loks liggja fyrir endanlegur dómur um hversu til tókst og hve vel stjórnendum bankans auðnaðist að byggja á þeim grunni.

Frá því að við hittumst hér síðast hafa mikil umskipti orðið í þjóðarbúskap okkar Íslendinga. Samfelldur hagvöxtur á undanförnum árum hafði leitt til nokkurrar þenslu sem óumflýjanlegt var að takast á við. Tryggja varð með öllum mögulegum ráðum að tugprósenta kaupmáttaraukning undanfarinna ára fuðraði ekki upp á verðbólgubáli eins og svo oft hafði gerst áður í sögu þjóðarinnar. Eins og við var að búast voru ýmsir sem mikluðu það verkefni fyrir sér. Viðskiptahallinn var í þeirra huga stórkostleg og óyfirstíganleg vá sem fyrr en síðar myndi knésetja allt íslenska efnahagslífið. Í kjölfarið hryndi kaupmáttur, friður yrði úti á vinnumarkaði og allur ávinningur launafólks á undanförnum árum yrði unnin fyrir gýg. Heimsendaspádómar eru ekki nýir af nálinni, sólaruppkoman í morgun var enn ein staðfestingin á að þeir hafa enn ekki gengið eftir. En óneitanlega kom það nokkuð á óvart hversu margir voru reiðubúnir til að tala niður íslenska hagkerfið og íslensku krónuna og sáu ekki aðra glætu í sínu heimatilbúna svartnætti en að afsala sér ábyrgð á efnahagsmálum þjóðarinnar og sækja sér ímyndað skjól í ranni Evrópusambandsins.

Efnahagsþróunin undanfarið ár hefur fært okkur Íslendingum heim sanninn um hversu miklu það skiptir fyrir okkur að búa við sveigjanlega hagstjórn sem getur tekið mið af þeim aðstæðum sem hér eru uppi. Vitanlega var gengislækkun íslensku krónunnar sársaukafull og henni fylgdi tímabundið verðbólguskot en í kjölfar hennar hafa orðið alger umskipti á viðskiptajöfnuði okkar Íslendinga. Viðskiptahallinn, sem spáð var að yrði rúm 10% af þjóðarframleiðslu okkar Íslendinga árið 2001 dróst saman eins og hendi væri veifað og ný spá Þjóðhagsstofnunar gerir ráð fyrir að hann verði einungis um 2% af þjóðarframleiðslunni árið 2002. Spá Þjóðhagsstofnunar sýnir reyndar svo ekki verður um villst að tekist hefur að vinna bug á þenslunni. Í kjölfar eins mesta hagvaxtarskeiðs Íslandssögunnar er spáð einungis hálfs prósents samdrætti í þjóðarframleiðslu á þessu ári, tæplega 2% hagvexti á næsta ári og síðan um 3,5% vexti á ári í framhaldinu. Þjóðhagsstofnun spáir að verðbólgan, sá forni fjandi, verði um 2,6% frá upphafi til loka ársins og gangi sú spá eftir sem allt bendir nú til, þá höfum við Íslendingar náð að stýra efnahagsmálum okkar á þann veg að þrátt fyrir erfiða aðlögun hagkerfisins þá heldur kaupmáttur enn áfram að vaxa, nú áttunda árið í röð.

Þessi samtíma saga ætti að vera okkur drjúgur vitnisburður, sem varðar leið til framtíðar. Evran kann að endurspegla ágætlega aðstæður á meginlandi Evrópu og taka mið að efnahagsþróuninni í Þýskalandi og Frakklandi og þeim væntingum sem gerðar eru til hagkerfa þessara helstu bandalagsríkja. Það þarf á hinn bóginn mjög frjótt ímyndunarafl og yfirgripsmikið þekkingarleysi til að komast að þeirri niðurstöðu að evran geti nokkru sinni endurspeglað íslenskt hagkerfi og íslenskan veruleika. Það er staðreynd að íslenska efnahagslífið sveiflast ekki í fullum takti við efnahagslíf Evrópulandanna, og þau meginöfl sem ráða framvindu mála hér á landi eru ekki þau sömu og ráða för á evrusvæðinu. Atvinnuleysi í evrulöndum er nú tæp níu prósent og er þar þó miðað við miklu lægri starfslokaaldur en gildir hér á landi. Halda menn virkilega að þetta mikla atvinnuleysi hafi ekki áhrif á ákvarðanir um stýrivexti? Við Íslendingar búum við 2% atvinnuleysi. Er það svo, að þessar ólíku aðstæður réttlæti sömu vexti eða er það kannski draumur þeirra sem hvað harðast ganga fram í að teyma þjóðina inn í Evrópusambandið að við komum okkar málum þannig fyrir að atvinnuleysið verði svipað og þannig næðist fram aðlögun að vaxtastefnu Evrópska Seðlabankans ? Eða trúa menn því í fullri alvöru að þeir stýrivextir, sem nú eru í evrulöndunum sem miðast við það að reyna að rífa upp hagvöxt í löndum eins og Þýskalandi, hefðu hentað hér á landi í þeirri baráttu sem við höfum háð að undanförnu við þensluna. Ég held ekki. Þvert á móti sýnir reynsla okkar Íslendinga nú svo ekki verður um villst að sveigjanleiki í hagstjórn er grundvallaratriði ef takast á að verja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.

Seðlabanki Íslands hefur nú fullt forræði á vaxtaákvörðunum. Bankinn reynir á hverjum tíma að láta vaxtastigið endurspegla þær aðstæður sem uppi eru í efnahagslífinu. Það er á valdi bankans að halda vöxtum háum eða lágum, allt eftir því hvað bankinn telur heppilegt hverju sinni. Bankinn hefur á undanförnum misserum beitt mjög háum stýrivöxtum. Það hefur bankinn gert í þeirri trú að nauðsynlegt væri að sýna mikið aðhald í peningamálastefnunni til að tryggja að verðbólgan fari ekki af stað með þeim hörmulegu afleiðingum sem við Íslendingar þekkjum svo allt of vel. Ekki fer á milli mála að þeir sem um vaxtamál véla innan bankans telja að hér hefði allt verið fyrir löngu farið í bál og brand ef stýrivextir bankans væru þeir sömu og stýrivextir Evrópska Seðlabankans. Sú ákvörðun að auka sjálfstæði bankans, setja honum verðbólgumarkið og fela honum forræði yfir vaxtaákvörðunum var einmitt byggð á þeirri forsendu að þar með væri best tryggt að stefnan í peningamálum þjóðarinnar væri í samræmi við efnahagsaðstæður bæði í bráð og lengd.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar, peningamálastefnan, og ábyrg afstaða aðila vinnumarkaðarins hafa nú tryggt mjúka lendingu efnahagslífsins. Dregið hefur úr spennu á vinnumarkaði, umsnúningur hefur orðið á viðskiptajöfnuðinum, gengi íslensku krónunar hefur styrkst og haldist stöðugt og verðbólga nálgast nú óðfluga það mark sem bankanum var sett að halda henni innan. Það er því eðlilegt að síðustu vikur og mánuði hafi mjög verið horft til Seðlabankans og vaxtaákvarðana hans. Þétt taumhald bankans var óumdeilanlega nauðsynlegt á meðan hallaði undan fæti. Nú er jafnara undir og því ber að fagna að bankinn meti það svo að vaxtalækkunarferill geti nú hafist í þeim tilgangi að íslenskt efnahagslíf fái betra svigrúm til að vaxa og dafna. Eins og fram kom hjá formanni bankastjórnar hér áðan mun bankinn þó fara að öllu með gát eins og honum er auðvitað bæði rétt og skylt.

Góðir fundarmenn.
Það hafa orðið kaflaskil og nú horfir vel í íslensku efnahagslífi. Gott jafnvægi er að myndast í hagkerfinu og tekist hefur að festa í sessi kaupmáttaraukningu undanfarinna ára. Innviðir hagkerfisins eru betri og traustari en áður og komi ekki til óvæntur andbyr má ætla að framundan sé tímabil hagvaxtar og áframhaldandi kaupmáttaraukningar.
Ábyrg peningamálastefna og ábyrg stjórn ríkisfjármála skapa ágæta umgjörð fyrir stöðugleika, sem byggja má á. Skattalækkanir, horfur á vaxtalækkunum, jafnvægi í viðskiptum við útlönd, lág verðbólga og starfsöm, vel menntuð og metnaðarfull þjóð – allt eru þetta þeir þættir sem hvað best duga til að tryggja velsæld og framfarir um ókomna tíð.
Ríkisstjórnin hefur þegar hafist handa um að auka verulega eigið fé Seðlabankans og hin nýju lög um hann tryggja að því verki verður haldið áfram allt þar til viðunandi árangur hefur náðst í þeim efnum. Öflugur banki með traust eigið fé verður lykilstofnun í að tryggja getu þjóðarinnar til að sjá efnahagslegri framtíð sinni borgið. Þakka ég bankastjórn og bankaráði gott samstarf við ríkisstjórn á liðnum árum og óska bankanum árangurs í framtíðinni. Árangur hans er árangur okkar allra.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum