Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. maí 2002 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins 2002

7. maí 2002

Ávarp forsætisráðherra á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins


Alþingi Íslendinga lauk vetrarstörfum fyrir fáeinum dögum. Fjölmiðlar draga einatt upp nokkuð skringilega mynd af þingstörfum á lokasprettinum, og sumir þingmanna leggja þeim til blýanta og liti til myndgerðarinnar. Fimmtíu eða sextíu frumvörp verða að lögum á fáeinum dögum er hrópað og hvert vor verða menn jafn undrandi á þeirri "uppákomu" eins og það er kallað. En þetta er engin uppákoma og þetta er ekkert skrýtið. Háskólinn útskrifar hundruð stúdenta á tveimur tímum í sumarbyrjun. Til þessa hefur verið sáð og ræktað í misseri og ár þar á undan. Útskriftin er lokapunkturinn. Frumvörp eru gjarnan lögð fram á Alþingi að hausti – oft endurflutt frá þinginu á undan og í þinglok hefur margra mánaða vinna farið í meðferð þess og hin formlega afgreiðsla ein eftir – það er sem sagt engin uppákoma. Auðvitað koma eitt og eitt mál síðar upp og eru afgreidd á skemmri tíma, en öll fá þau þó rækilega skoðun þingmanna, áhugamanna og hagsmunaaðila. Þingið kallar til sín fleiri en eitt þúsund og átta hundruð gesti árlega, sérfræðinga og hagsmunaaðila, til að fara yfir mál, sem þar eru í meðferð með nefndum þess og fær auk þess mikinn fjölda aðsendra athugasemda, sem allar eru kannaðar í þaula. Útskriftarathöfnin í lokin segir því ekkert um, hvort málatilbúnaður er góður eða slæmur, og málþófsræður segja mun minna um málsmeðferðina en ræðumennina.

Nýliðið þing tók fjölmargar mikilvægar ákvarðanir sem hafa munu langtímaþýðingu fyrir þjóðarhag og munu vonandi flestar styrkja stöðu einstaklinga og fyrirtækja í landinu. Fyrirfram hafði því verið spáð að efnahagsmál í víðtækri merkingu myndu setja mestan svip á störf þingsins að þessu sinni. Það kom til vegna þess, að jafnt innan þings sem utan höfðu menn tekið nokkuð mikið upp í sig vegna slíkra mála og spáð að illa væri að fara. Það bar jafnvel á því, að um suma gilti, að í þeirra illspá hverri, fólst ósk um hrakför sínu verri. En þeir voru einnig til sem ólu einlægan ótta í brjósti. Til að mynda þeir sem að jafnaði eru veikastir fyrir bölsýnisbeitunni og kokgleypa hvern þann öngul sem hún er sett á. Veiking krónu og ógnvænlegur viðskiptahalli var í þeirra huga óhrekjandi vitnaleiðsla um að sjálfstætt íslenskt efnahagslíf væri loks úr sögunni og virtist ekki endilega öllum harmsefni. Sú andlátsfrétt reyndist, eins og tilfelli Mark Twain forðum, með öllu ótímabær og hafa flestir bölsýnismenn af því tilefni tekið sér leikhlé á meðan sverar yfirlýsingar þeirra eru að gleymast. Og það sem er einna erfiðast að eiga við, fyrir þá sömu, er einmitt sú staðreynd að í ljós kom að sveigjanlegt íslenskt efnahagskerfi, sem tekur mið af sínum eigin efnahagslegu forsendum var sjálfur lykillinn að hinum vel lukkaða viðsnúningi í íslensku efnahagslífi.

En hver er hin raunverulega staða í efnahagsmálum þjóðarinnar nú í sumarbyrjun. Viðskiptahallinn, sem vissulega hafði vaxið mjög og var einn stærsti bjálkinn í auga hinna svartsýnustu, hefur minnkað hraðar en jafnvel bláeygðir bjartsýnismenn létu eftir sér að dreyma um. Nú er svo komið að undanfarna 12 mánuði hefur verið rúmlega tveggja milljarða afgangur af vöruviðskiptum við útlönd. Slík staða hefur ekki verið uppi í utanríkisviðskiptum okkar Íslendinga síðan 1997. Nú er áætlað að viðskiptahallinn verði einungis 15 milljarðar á þessu ári, miðað við tæplega 70 milljarða króna halla á árinu 2000 og spá Þjóðhagsstofnunar frá í desember 2001 um tæplega 40 milljarða halla á yfirstandandi ári. Þessi mikli umsnúningur staðfestir að viðskiptahallinn var hvorki illkynja né óviðráðanlegur eins og sumir töldu. Ólíkt því sem gerðist einatt forðum tíð var hann ekki til kominn vegna hallareksturs ríkisins, heldur vegna fjárfestinga og neyslu einstaklinga sem og fyrirtækja þeirra. Þetta skipti megin máli, því þegar þenslunnar tók að gæta fyrir alvöru þá voru þessir aðilar fljótir að skipta um gír og jafnvel drif og hallinn dróst saman eins og hendi væri veifað. Hann varð því ekki sú mikla ógn eða sprengja, sem landsfrægur bombuexpert reyndi að telja þjóðinni trú um misserum saman, og er endrum og sinnum rifjað upp þegar tilefni gefst, meira til gamans.

Megin ástæða þess, hversu vel tókst að draga úr þenslu hér á Íslandi í kjölfar hagvaxtarskeiðsins, er fyrst og fremst sú, að umgjörð hagkerfisins er breytt frá því sem áður var. Markaðsvæðing þess á undanförnum árum hefur gert efnahagslífið sveigjanlegra og fyrirtæki og einstaklingar búa yfir ríkari þekkingu en áður og eru næmari fyrir efnahagslegum vísbendingum og geta því lagað sig hratt að breyttum aðstæðum. Ríkisstjórnin stóð föst á því að verðbólgan, sem fór hvað hæst í rúm 9 % væri augljóslega tímabundið skot og engin ástæða væri til að ætla að sú verðbólga græfi um sig og yrði viðvarandi. Þessi staðreynd og traust manna á íslensku efnahagslífi lagði grunn að því góða samstarfi sem tókst á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um að tryggja að verðbólgan yrði innan marka. Slíkt samstarf hefði seint náðst, ef ekki hefði verið fyrir því full vissa að verðbólgan væri í raun á undanhaldi og að kaupmáttur yrði varðveittur. Allt bendir nú til að þetta sameiginlega átak tryggi að kjarasamningar haldi og verðbólgan verði fljótlega innan þeirra marka sem Seðlabanka Íslands hafa verið sett. Án þess að draga nokkuð úr gildi þess átaks, er nauðsynlegt að árétta að verðbólga hefði án þess lækkað hratt á árinu, en þó ekki nægjanlega hratt á fyrri helmingi þess, til að uppfylla markmið kjarasamninga. Í ljósi hinnar jákvæðu þróunar, sem var raunar betri en Seðlabankinn þorði að reikna með, hefur hann á skömmum tíma lækkað vexti í tvígang. Væntingar standa til þess að vextir lækki enn á næstu vikum, mánuðum og misserum. Greinilegt er að Seðlabankinn hefur tímasett vaxtalækkanir sínar vel. Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst í kjölfar þeirra og hefur bankinn sýnt að honum er ágætlega treystandi fyrir því vandasama hlutverki sem honum var falið af ríkisstjórn og Alþingi. Eiginfjárstaða Seðlabankans mun styrkjast mjög á næstu árum og nú er uppi staða sem hann getur notað ef hann kýs til að styrkja einnig gjaldeyrisforða sinn jafnt og örugglega.

Ágætu fundarmenn
Á árinu 2001 óx landsframleiðslan um 3%. Þetta var myndarlegur vöxtur og kaupmáttur launa óx enn, nú í áttunda árið í röð. Spár hagspekinga standa til þess að örlítið dragi saman í þjóðarbúskapnum á þessu ári, en svo taki hann aftur góðan kipp á því næsta og hagvöxtur verði umtalsverður á komandi árum. Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody}s staðfesti nú nýverið óbreytt mat sitt á lánshæfiseinkunn Íslands sem endurspeglar sterka stöðu þjóðarinnar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Það er því ástæða fyrir okkur Íslendinga að veita bjartsýni okkar útrás og hafa fulla trú á möguleikum okkar til að bæta hag okkar og velferð.

Nýverið var birt með nokkrum auglýsingaþyt skoðanakönnun um afstöðu manna til Evrópusambandsins. Þegar korgurinn hafði sest í kaffibollanum kom óvænt á daginn að engin breyting hafði orðið á afstöðu landsmanna til álitaefnisins síðast liðin 4 ár ef sambærilegar spurningar voru bornar saman. Á hinn bóginn töldu ýmsir að ný spurning og svör við henni sættu tíðindum. Hún var efnislega á þá leið að spurt var hvort svarendur væru með því eða á móti, að send yrði umsókn til Brussel og séð hvað út úr því kæmi. Hver setur sig upp á móti áhættulausri fyrirspurn af þessu tagi? Enda kom á daginn að meira að segja þorri þeirra sem lýstu sig algjörlega andsnúna aðild að Evrópusambandinu svöruðu þessari sakleysislegu spurningu játandi. Ég býst einnig við því að væru menn spurðir, hvort rétt væri að bjóða mönnum frá Brussel góðan daginn, ef maður mætti þeim á götu, fengist svipuð niðurstaða. En hvorug spurningin segir neitt um málið sjálft né hefur nokkuð gildi fyrir umræðuna.

Ég hef ætíð verið fylgjandi mikilli og öflugri umræðu um Evrópusambandsmálin, enda sannfærður um að upplýst umræða um þau muni verða mjög til góðs. En upplýst verður hún að vera. Þá verður ekki lengur hægt að tala gegn betri vitund, og láta eins og að hægt sé að semja sig frá öllum ókostunum við Evrópusambandsaðild. Það er ekkert rangt, óheilbrigt né óheiðarlegt við það að lýsa sig áhugasaman um Evrópusambandsaðild, þrátt fyrir ágallana sem henni fylgja. En það er á hinn bóginn bæði óheiðarlegt og villandi að gefa til kynna að hægt sé að semja sig frá þeim annmörkum, þótt fyrir liggi að það sé ógerlegt, ef frá er talin tímabundin aðlögun. Evrópusambandið sjálft hefur verið miklu ærlegra í þessum efnum en áköfustu talsmenn aðildar hér á landi, og sagt æ ofan í æ að það sé ekki Evrópusambandsins að laga sig að leikreglum umsóknarlands, heldur fyrst og fremst umsóknarlands að laga sig að leikreglum Evrópusambandsins. Í raun eru þetta ekki ósanngjarnir kostir, heldur fullkomlega eðlilegir sanngjarnir kostir. Það er á hinn bóginn fullkomlega óeðlilegt og ósanngjarnt að reyna að fela þessa megin samningsforsendu sem Evrópusambandið setur öllum umsóknarríkjum. Fórnarkostnaðurinn af aðild liggur í öllum aðalatriðum skýr fyrir og er forkastanlegt að fela hann eða gefa til kynna að hann muni gufa upp sé óþekktum galdraformúlum beitt gegn honum. Vilji menn á hinn bóginn inn í Evrópusambandið, þrátt fyrir fórnarkostnaðinn, þá er ekkert óheiðarlegt við það og í rauninni aðeins spurning um pólitískar áherslur og vilja.

Það er fróðlegt að sjá svörin hjá fólkinu í landinu, þegar Félagsvísindastofnun spyr um nokkrar þekktar forsendur fyrir aðild að Evrópusambandinu, en það var gert nú nýlega og er það í fyrsta sinn sem slíkar spurningar eru lagðar fyrir almenning í landinu.

Nokkrir þættir sem fylgja Evrópusambandsaðild virðast óumdeildir, ef undan eru skilin sjónarmið fáeinna öfgafullra talsmanna Evrópusambandsaðildar. Ekki er um það deilt að ýmsar ákvarðanir um stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum, þar á meðal ákvörðun um heildarafla yrði í höndum Evrópusambandsins eftir aðild, þótt talið sé öruggt að staða Íslands við slíkar ákvarðanir yrði mjög sterk af sögulegum og efnahagslegum ástæðum þegar til ákvarðana í Brussel kæmi.

Í annan stað er ljóst að þar sem við Íslendingar erum efnuð þjóð yrðum við að greiða árlega mjög háar fjárhæðir til Evrópusambandsins ef til aðildar kæmi. Ætla má að lágmarksfjárhæð eftir stækkun sambandsins væri á milli 10 – 12 milljarðar á ári. Tilburðir hafa verið uppi til að fá fram lægri tölu, en það hefur ekki verið sannfærandi enda byggt á óskhyggju en ekki þekktum upplýsingum. Í þriðja lagi er ekki ágreiningur um að stefnt er að auknu lýðræði í Evrópusambandinu og þar með að því að auka völd stærri ríkja á kostnað minni og hafa reyndar þegar verið stigin skref í þá átt.

Forsætisráðuneytið beindi því til Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands að hún leitaðist við að kanna afstöðu fólks til aðildar Íslands í ljósi þeirra þekktu galla sem óhjákvæmilega fylgja aðild. Þegar afstaða fólks er skoðuð út frá þessum spurningum kemur í ljós að stuðningur við aðild Íslands að Evrópusambandinu hvílir á afar veikum grunni svo ekki sé meira sagt. Þegar spurt er með hliðsjón af fiskveiðistefnu Evrópusambandsins eru þeir sem eru jákvæðir gagnvart aðild Íslands 15,6% en andvígir 79,1%. Þegar spurt er með hliðsjón af þeim háu fjárhæðum sem Íslendingar yrðu að greiða til Evrópusambandsins er stuðningurinn 12,9% en andstaðan 81,2% og þegar spurt er með hliðsjón af auknum völdum stærri ríkjanna í ESB er stuðningur 9,5% en andstaðan 87,1%

Þegar síðan er spurt hvort Íslendingar telji sig hafa mikið eða lítið svigrúm til að semja um sérkjör sín við inngöngu í Evrópusambandið kemur mjög athyglisverð niðurstaða fram. Aðeins 22,6% telja okkur hafa mjög mikið eða frekar mikið svigrúm til slíkra samninga en 73,5% frekar lítið eða mjög lítið svigrúm.

Þessi könnun Félagsvísindastofnunar, sem gerð var í lok apríl og byrjun maí segir mikla sögu, þótt því sé ekki haldið fram að hún segi alla söguna. Aukin umræða um Evrópusambandsmál er mjög æskileg og reyndar beinlínis nauðsynleg til að menn, sem hingað til hafa ekki haft tök á að kynna sér málið út í hörgul, fái séð í gegnum áróður sem illa er grundaður og stenst því hvorki skoðun né umræður. Ég hef einhvers staðar giskað á að samningur um ESB aðild, sem lægi fyrir, svo ekki væri lengur hægt að halda því að mönnum að hægt væri að semja sig frá óþægindum, yrði felldur með 75 til 80% atkvæða hér á landi. Ég verð að viðurkenna að hin nýja könnun Félagsvísindastofnunar bendir til lítt afsakanlegrar varfærni af minni hálfu, sem sjálfsagt er að bæta úr.
Góðir fundarmenn.

Nokkrar umræður hafa orðið um nýlega niðurstöðu Alþingis, sem ákvað með miklum atkvæðamun að gefa fjármálaráðherra heimild til að veita Íslenskri erfðagreiningu ríkisábyrgð til að tryggja að fyrirtækið byggi áfram upp einstakan rekstur sinn hér á landi. Þær umræður hafa verið bæði skiljanlegar og sjálfsagðar, enda um mjög stórt mál að ræða, bæði vegna grundvallaratriða og hárra fjárhæða, sem koma við sögu. Nauðsynlegt er að undirstrika að á þessu stigi er aðeins um heimild að ræða og mikillar athugunar er þörf áður en endanleg ákvörðun verður tekin af eða á af viðkomandi ráðherra. Við það mat kemur margt til skoðunar, svo sem áhætta og samkeppnisstaða, ekki eingöngu hér á landi, heldur á öllum Evrópumarkaðnum. Að mínu mati var þýðingarmikið að hafa slíka heimild frá Alþingi, því mikið er í húfi að rannsaka þetta mál í þaula og gefa þetta tækifæri ekki frá sér skoðunarlaust. Skal ég ekki fara út í þá sálma frekar hér, enda utan við efni fundarins. Ég sagði þó að um miklar fjárhæðir væri að tefla. Ef ábyrgð yrði veitt, allt færi á versta veg og hið mikla fyrirtæki gæti ekki sjálft greitt krónu af skuldum sínum, þá væri um 20 milljarðar króna í uppnámi. Er það harla ólíkleg niðurstaða, en 20 milljarðar eru mikil fjárhæð – það er sama fjárhæðin og við myndum greiða til að fá að vera í 18 mánuði í Evrópusambandinu, án þess að fá krónu á móti. Á sjö ára ábyrgðartíma lánsins myndum við greiða um og yfir 80 milljarða til Evrópusambandsins umfram það sem við fengjum þaðan til að fá að hafa áhrif á þróun mála þar á bæ, eins og það er orðað. Það er ekki um ólíklega eða hugsanlega 80 milljarða króna að ræða, heldur er þetta þekkt fyrirliggjandi stærð. Þetta eru allt mjög athyglisverðar tölur.

Ágætu aðalfundargestir.
Ég óska ykkur góðs gengis hér á fundinum við umræður um þýðingarmikil mál.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum