Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. nóvember 2002 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Afhending Íslensku gæðaverðlaunanna

Afhending Íslensku gæðaverðlaunanna.
Hátíðarsal Háskóla Íslands - fimmtudaginn 14 nóvember 2002




    Góðir gestir.

    Gæðum þessa heims er misskipt eins og þekkt er. Sumir bera mikið úr býtum fyrir allt sitt streð en aðrir minna eins og gengur. Þessi skipting lífsgæðanna er og verður bitbein stjórnmálanna og lengi vel hafa togast á þær stefnur sem annars vegar leggja áherslu á hvernig skipta skuli afrakstri þjóðfélagsins og hins vegar þær sem leggja höfuðáherslu á að auka og bæta alla framleiðslu og tryggja þannig að sem mest verði til skiptanna.

    Við sem aðhyllumst þá stefnu sem kennd er við markaðsbúskap
    viljum tryggja og gæta þess að gangverk markaðarins sé rétt stillt. Það er besta tryggingin fyrir því að auðsköpunin sé mest og um leið að afrakstrinum sé réttlátlega skipt. Ríkisvaldið verður að vanda sig mjög við alla sína vinnu, hvort heldur sem er á Alþingi eða innan Stjórnarráðsins. Ef rétt er á haldið er hægt að skapa skilyrði fyrir einstaklingana til að láta reyna á krafta sína og hugmyndaflug og þannig kalla fram öflugt og blómlegt mannlíf. En megin forsenda markaðsbúskaparins er sú sannfæring að einstaklingunum sé best treystandi til að ráða sínum málum.

    Þessi verðlaun sem veitt verða hér í dag sýna ágætlega hversu vel sú forsenda heldur. Þörfin á því að vanda sig, gera betur og ná góðum árangri er aflvaki framfara og nauðsyn þeim sem ætla að standa sig í þeirri samkeppni sem markaðsbúskapurinn er grundvallaður á. Það að fyrirtæki reyni með sér og fái hlutlaust mat á gæði stjórnunar þeirra og skipulags alls er mjög jákvætt. Ekki er síður mikilvægt að með því að taka þátt í þessu mati fá íslensk fyrirtæki tækifæri til að meta stöðu sína og hæfni í samanburði við fyrirtæki í öðrum Evrópulöndum. Það er mikilvægt að við miðum okkur við þá sem bestir eru og lengst hafa náð í þessum fræðum, þó því megi auðvitað ekki gleyma að hinn endanlegi dómari í öllum þessum samanburði er markaðurinn, hvort heldur sem er hér heima á Íslandi eða á alþjóðavettvangi.


    Ágætu gestir.

    Ég vil þakka stjórn Stjórnvísi fyrir þeirra frumkvæði í því að bæta gæði stjórnunnar í íslenskum fyrirtækjum og stofnunum og einnig vil ég sérstaklega þakka þeim aðilum sem standa að verkefninu um Íslensku gæðaverðlaunin samstarfið. Íslendingar eru rík þjóð vegna þess að okkur hefur tekist að nýta vel þau landgæði sem við búum yfir og það hugvit, frumkvæði og þrótt sem með þjóðinni býr. Það er mikilvægt að við höldum áfram að bæta vinnubrögðin okkar, nýta betur það sem við höfum og sköpum sóknarfæri þannig að hagur allrar þjóðarinnar haldi áfram að eflast og styrkjast. Verðlaunin sem hér verða veitt eru ekki einvörðungu viðurkenning til þeirra sem þau hljóta heldur líka hvatning til allra um að gera betur og stefna hærra.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum