Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. desember 2002 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Áramótagrein í Morgunblaðinu 2002

31. desember 2002

Áramótagrein forsætisráðherra
í Morgunblaðinu 31. desember 2002.


I.

Stundum er sagt að fátt sé öruggt í heimi hér nema skatturinn og dauðinn. "Skatturinn" mun fulltrúi grínsins í setningunni en dauðinn er sjálfum sér líkur og lítið skemmtiefni. En þótt hann heimti að lokum sérhvern mann, lýtur jafnvel hann óvissu tímans eins og sr. Hallgrímur benti á. Við þessi skilyrði sem öllum þeim sem lífsanda draga eru sköpuð er skiljanlegt að flestum láti betur að spá aftur en fram, jafnvel á mikilvægum tímamótum. En jafnvel eftiráspámenn eiga örðugt verk því snúið getur verið að spá um nýliðna tíma, eins og vitrir menn hafa vakið athygli á. Það er því í þessu sambandi huggunarríkt að ársgamlar væntingar og spár um að þensla, viðskiptahalli og verðbólguskot mundu láta undan síga, hafa gengið eftir og gott betur á árinu sem er að kveðja. Allir velviljaðir menn hljóta í einlægni að fagna því að svo vel hafi til tekist og vonandi einnig þeir, sem þóttust sjá miklar hrakfarir og hremmingar þegar þeir rýndu í framtíð efnahagsmálanna. En hið stóra fagnaðarefni er þó það, að flest bendir til þess að gömlu formúlurnar um fallvaltleika íslensks efnahagslífs hafa misst gildi sitt. Þær miklu breytingar sem gerðar hafa verið á umgjörð og grundvelli efnahagslífsins síðasta áratug, hafa leitt til þess að fyrr er hægt að bregðast við hættumerkjum en áður, hvort sem um þenslu eða samdrátt er að ræða. Annað atriði skiptir einnig mjög miklu. Leikendurnir á sviði efnahagslífsins eru miklu fleiri en áður var og hlutverkaskipunin og hlutverkaskiptingin er betri en áður tíðkaðist. Áður fór ríkið með aðalhlutverkið í hverjum leik og flestir hinna leikendanna höfðu lítið að segja eða voru nánast sem statistar. Ef aðalleikarinn missteig sig eða fékk ekki valdið sínu stóra hlutverki varð fátt til bjargar verkinu og það sligaðist undan sjálfu sér - með öðrum orðum gangverk efnahagslífsins fór úr skorðum með stórtjóni fyrir fólk og fyrirtæki. Nú er allt með öðrum svip. Ríkið hefur nú aðeins miðlungsrullu að miðla og á mest undir því að spila vel á móti öðrum öflugum leikurum á þjóðarsviðinu.
II.
Efnahagssérfræðingar töldu að langur tími hlyti að líða áður en verulegur viðskiptahalli yrði viðráðanlegur á ný. En samstilltur vilji fjöldans, fólks og fyrirtækja og varfærni í fjármálastefnu ríkisins skilaði vel sínu verki og miklu fyrr en nokkur vildi leggja trú á að gæti gerst. Hagvöxtur verður þrátt fyrir allt nokkur á þessu ári og mun aukast á næsta ári og enn frekar árið eftir, enda þótt stórvirkjunum og verksmiðjubyggingum sé enn haldið fyrir utan öll reiknilíkön.

Þjóðhagslegur sparnaður fer vaxandi og verðbólga hefur hjaðnað ört, og er nú í takt við það sem gerist í nálægum löndum. Atvinnuleysi mun nokkuð aukast næstu mánuði, en verður þó að miklum mun lægra en gerist t.d. í Evrópusambandslöndunum. Ríkisstjórnin stefndi að því að jafnvægi myndi nást í efnahagsmálum á þessu ári. Það hefur gengið algjörlega eftir. Gert er ráð fyrir hægum en öruggum efnahagsbata á næsta ári og búast má við að góður skriður verði á efnahagslífinu árið 2004. Og er þá enn sem fyrr látið vera að taka ávinning af virkjunarframkvæmdum með í reikninginn. Fari þar allt sem vænst er, verður ávinningurinn enn hraðari og meiri.

Því miður eru nú horfur á að lítill hagvöxtur verði annars staðar í Evrópu og að þar aukist atvinnuleysi og halli á rekstri hins opinbera á næsta ári. Hin sameiginlega mynt sem spekingar spáðu í kór að myndi hleypa lífi í efnahagsþróun Evrópusambandsríkja hefur ekki skilað tilætluðum árangri og vantar enn boðlegar skýringar á því hvað það var sem brást.

Í því sambandi er þó rétt að vekja athygli á viðhorfum Miltons Friedmans, hins heimsþekkta Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Í viðtali við Morgunblaðið fyrir skömmu kemur fram sú skoðun Friedmans að erfitt muni reynast fyrir ríki Evrópusambandsins að búa við eina samræmda peningamálastefnu. Gengi evrunar taki ekki tillit til þess að aðstæður séu mismunandi eftir löndum og það muni valda vandræðum. Orðrétt segir Friedman "Til lengri tíma tel ég að svona vandamálum muni fjölga því erfitt er að aðlaga hagkerfi með því að breyta verðlagi og launum. Það mun leiða til vaxandi atvinnuleysis og pólitískra átaka milli landanna." Þetta er athyglisvert sjónarmið, einkum í ljósi reynslu okkar Íslendinga nú að undanförnu. Hvað hefði gerst ef við hefðum ekki búið við okkar eigin mynt? Hagkerfi okkar Íslendinga er um flest líkt því sem gerist annars staðar hvað varðar atvinnufrelsi, hlutverk ríkisins og áherslu á markaðsbúskap. En það er staðreynd að hagsveiflan hér stjórnast ekki af sömu öflum og hún gerir t.d. á meginlandi Evrópu. Þetta er grundvallaratriði og það kemur því ekki á óvart það mat Friedmans að það væru mikil mistök af hálfu okkar Íslendinga að taka upp evru.

III.
Lengi hefur verið unnið að því að tryggja hér á landi stórfelldar virkjunarframkvæmdir og atvinnuuppbyggingu í tengslum við þær. Góðir áfangar hafa náðst og þegar skilað miklu inn í hið íslenska hagkerfi. Enn hefur lokaákvörðun um stærstu framkvæmdirnar ekki verið teknar. En við höfum þó ekki áður verið nær því takmarki en nú. Óhætt er að fullyrða, að aldrei áður hafi jafnmiklu fé, tíma og kröftum fræðimanna verið varið til að rannsaka, meta, skrá og skilja þau áhrif sem hinar miklu framkvæmdir kunna að hafa á gróður, náttúrufar og aðra umhverfisþætti á nálægum svæðum. Um það verður sjálfsagt endalaust deilt, hvort verjandi sé að taka ákvarðanir um framkvæmdir af þessu tagi, vegna fjárhagslegs umfangs þeirra og mikillar röskunar á umhverfi, sem þeim hlýtur óneitanlega að fylgja. En um hitt verður ekki af sanngirni deilt að aldrei áður hafa menn haft betri skilyrði til að vega kosti og galla á hlutlægan hátt en við þessa framkvæmd. Það var aldrei víst né öruggt að hið mikla fé sem varið var til umhverfismats, myndi heimt til baka. Þá áhættu tóku menn vísvitandi og fumlaust. Þetta er tímanna tákn. Hér eftir verður aldrei ráðist í stærri framkvæmdir án þess að gaumgæfa umhverfisþætti vel, jafnvel þótt tími og peningar tapist. Sumum eru tamar setningar eins og þær "að náttúran skuli ætíð njóta vafans". Hljómar þetta vissulega snoturlega í munni en er með öllu haldlaust. Hvenær hefur öllum efa verið eytt í þessum efnum eða öðrum? Seint eða aldrei. Þýðingarmest er því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að nýta bestu þekkingu til fulls og hafa sem skýrastar upplýsingar tiltækar þegar ákvörðun er að lokum tekin. Það er í senn lágmarks- og hámarkskrafan. Þeirri kröfu hefur svikalaust verið gætt í þessu tilviki.

Hitt er svo áhugavert efni, að sagan kennir að svipuðum rökum um ytri þætti, svo sem rekstrarforsendur og umhverfismál, hefur ætíð verið beitt í sambærilegum framkvæmdum. Getgátur og illa grundaðar yfirlýsingar stundum í nafni eða með stuðningi sérfræðinga, um glapræði í fjárfestingum og óbætanlegt umhverfistap hafa ekki staðist dóm sögunnar.

Það er óhætt að fullyrða að nái aðilar saman nú á næstu vikum um álver á Reyðarfirði sem notar rafmagn frá Kárahnjúkavirkjun, þá eru yfirgnæfandi líkur á að Landsvirkjun og eigendur hennar muni hagnast vel, auk þess sem stofnsetning og rekstur fyrirtækisins sem raforkuna kaupir muni skila ómældum fjármunum inn í íslenskt þjóðfélag í bráð og lengd.
IV.
Hver eru meginverkefni stjórnmálamanna, er stundum spurt. Og svörin sem við því fást eru fjölbreytt og taka einkum mið af stöðu og högum þess sem svarar, vonum hans og væntingum. Það hlýtur að vera sjálfsagt keppikefli kjörinna fulltrúa framsækinnar þjóðar að bæta lífskjör hennar jafnt og þétt. Kaupmáttur okkar Íslendinga vex án hlés í níu ár samfellt og er þá komandi ár meðtalið. Sagan kann ekki að nefna okkur neitt annað skeið, þar sem svo vel hefur miðað. Það ætti að þykja allgóður dómur um stjórnarfar í einu landi og hvernig pólitískum markmiðum þar er fylgt eftir. Það þarf þó ekki endilega að vera svo. Kaupmátt einstaklinga má til dæmis auka um skamma hríð með hallarekstri opinberra sjóða og tilheyrandi erlendum lántökum. Það hefur verið einkennisaðgerð vinstri stjórna á Íslandi fyrr og síðar með viðeigandi brotlendingum. En hið ánægjulega hefur gerst undanfarin ár, að ríkið er á sama tíma að grynnka á skuldum sínum erlendis og stoppa upp í stærðargöt í lífeyris- og lánakerfi sem áður víkkuðu ár frá ári, svo stefndi í fullkomið óefni. Til að fá sanngjarnan samanburð á ríkisrekstri nú og fyrir rúmum áratug þyrfti að horfa til þessa þáttar og þá gætu menn séð enn skýrar hvers konar umskipti hafa orðið. Þessu verki verður haldið áfram af ríkisins hálfu. Hið almenna lífeyriskerfi er einnig að eflast og búum við að þessu leyti miklu betur en margar þjóðir Evrópusambandsins, þar sem mikil skattlagning eða stórfelld skerðing lífeyrisréttinda blasir við innan fárra ára. Bak við uppbyggingu hins íslenska lífeyriskerfis búa því mikil hyggindi sem eiga eftir að koma í hag. Til viðbótar því hafa tilraunir ríkisvaldsins og aðila á vinnumarkaði til að efla svokallaðan frjálsan lífeyrissparnað heppnast vel og hefur með þeim aðgerðum tekist að auka verulega almennan sparnað í landinu. En um leið og horft hefur verið til hagsmuna launþega hefur þess verið gætt að ellilífeyrisþegar, öryrkjar og aðrir sem njóta hins almenna bótakerfis sætu ekki eftir. Stórmerk tilraun var gerð til þess að taka forystumenn samtaka aldraða inn í ákvörðunarferilinn frá byrjun svo vinnan gæti farið fram á meiri jafnræðisgrundvelli en stundum endranær. Tókst þessi tilraun vel og er full ástæða til að þakka þeim sem að henni komu, fyrir störf og heilindi. Er augljóst að framhald verður á þessu víðtæka samstarfi, fyrst svo giftusamlega tókst til að þessu sinni.
V.
Með því að lagfæra umgjörð efnahagslífsins og búa í haginn fyrir fyrirtækin í landinu var þeim auðveldað að standa undir auknum kaupmætti starfsmanna sinna. Þeir sem halda því á lofti að skattalækkanir til fyrirtækja séu gerðar á kostnað einstaklinganna eru fullkomnir ratar, þegar kemur að gangverki atvinnulífsins. Öflug, vel rekin fyrirtæki, sem ríkisvaldið sýnir velvilja og skilning, en þvælist ekki fyrir, eru eitt besta tækið til að auka möguleika þjóðarinnar til framfara og þar með getu hennar til að standa undir velferðarkerfi sem er á borð við það besta sem þekkist í veröldinni. Hitt er annað mál að full ástæða er til að halda áfram að lækka skatta á einstaklinga og ættu að verða öll efni til þess á næsta kjörtímabili, takist okkur áfram að halda vel á spilum í atvinnulífi og ríkisbúskap.

Það er góð sátt um það á Íslandi að tryggja undirstöður hins íslenska velferðarkerfis. Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt drýgstan þátt í uppbyggingu þess. Því er dapurlegt að sjá suma menn leggjast lágt í dægurumræðunni og hafa uppi hálfkveðnar vísur um að til séu þau öfl á hinum pólitíska vettvangi sem hugsi sér að búa til tvöfalt kerfi, annað fyrir þá sem betur mega og hitt fyrir aðra. Enginn fótur er fyrir slíkum dylgjum. Að minnsta kosti er ekki hægt að beina slíkum skotum úr launsátri að Sjálfstæðisflokknum. Á hinn bóginn hljóta menn að horfa til þess að velferðarþjónustan sem við öll viljum veita á jafnræðisgrundvelli verður að fást með jafn hagkvæmum hætti og frekast er unnt, ef okkur á áfram að takast að vera í fremstu röð, án þess að hækka skatta upp úr öllu valdi. Þeir, sem ekki vilja fallast á að nauðsynlegt sé að tryggja öfluga þjónustu með sem hagkvæmustum hætti, eru hinir eiginlegu andstæðingar íslenska velferðarkerfisins. Þetta ætti að liggja í augum uppi.
VI.
Á þessu ári var sú góða ákvörðun tekin að bjóða ríkjum sem áður bjuggu við sovéskt ok og kúgun kommúnismans aðild að Nato. Það var heillaspor. Með því var endanlega ákveðið að aldrei yrði aftur snúið. Frelsi og sjálfstæði þessara ríkja verður tryggt af sama afli og hinna hefðbundnu lýðræðisríkja Vesturheims. Forysta Bandaríkjaforseta var afgerandi um þessa niðurstöðu og sýndi vaxandi skilning hans á mikilvægi samheldni fornra bandamanna, en áður höfðu ýmsir óttast að forsetinn myndi snúa Bandaríkjunum í átt til einangrunarhyggju.

Aðild Íslands að Nato og varnarsamningurinn við Bandaríkin hafa verið hinn fasti punktur í öryggismálum Íslands. Við höfum ætíð talið og trúað því að sá samningur sé gagnkvæmur. Í því felst auðvitað ekki að öryggi valdamesta ríkis heims sé undir okkur komið. Varnarlið og eftirlitsstörf hafa verið hér vegna þess að þeir þættir hafa hvor með sínum hætti haft gildi fyrir þjóðirnar báðar og ekki síður Nato sem heild. Vá veraldar er önnur en fyrr. Helstefna kommúnismans er horfin úr okkar heimshluta. Hún stóðst ekki staðfestu frelsisunnandi manna, samkeppni og samanburð við hin frjálsu vestrænu þjóðfélög. Það þýðir ekki að nokkur þjóð telji sér vera óhætt án grundvallarvarna. Nýjar ógnir steðja að, sumar þekktar, aðrar lítt þekktar en hugsanlegar. Varnarstöð á Íslandi lýtur sömu lögmálum og annars staðar gerist og varnarþörf hlýtur að verða metin út frá gagnkvæmum hagsmunum nú sem endranær. Það er hvorki vit né sanngirni í annarri niðurstöðu.
VII.
Á síðustu árum höfum við sóst eftir því að gera línur skýrari og skarpari á milli viðskiptalífs og stjórnmálalífs. Sumir telja að með því hafi valdið verið flutt frá fulltrúum fólksins yfir til þeirra sem mestu fjármagni ráða á hverjum tíma. Slíkir geti haft mikið vald en búi á hinn bóginn ekki við sama aga og aðhald og stjórnmálamennirnir, sem eru daglega undir smásjá fjölmiðla og andófi andstæðinga og búa við ótraust umboð. Í þessu er vissulega falið sannleikskorn og jafnvel fleiri en eitt. En þeir sem leggja mest upp úr þessari gagnrýni, eru ef til vill of fljótir að gleyma. Forysta og forræði stjórnmálamanna á sjóðum og fjármálastofnunum var löngum talin uppspretta spillingar og valdníðslu af versta tagi. Slík dæmi eru mýmörg, bæði stór og smá þótt margt hafi einnig verið ýkt og úr lagi fært og flestir stjórnmálamenn hafi farið með vald sitt af samviskusemi og trúnaði og virðingu fyrir sínum umbjóðendum. Og verstu dæmin hurfu með tilkomu verðtryggingar og hjöðnun verðbólgu, þegar fengið lán var ekki lengur fjársjóðsígildi. En ábendingar um valdníðslu peningaafla og sannanlega brokkgengt siðferði sumra í heimi viðskiptanna á ekki að kalla á söknuð eftir kerfi liðins tíma. Það var úr sér gengið og óhollt fyrir efnahagslífið og iðulega hemill á framþróun og framfarir. Við eigum að bæta hinn frjálsa markað og gera til hans réttlátar kröfur og hafa vakandi auga með þeim sem kunna að misnota stöðu sína þar, án þess að láta hrekjast í að vefja hann í viðjar reglugerðarfargans og ofureftirlits. Reglurnar sem við eigum að búa honum eiga að vera sem fæstar, sem skýrastar og umfram allt gagnsæjar og ekki fallnar til mismununar. Það er betra að hafa fáar reglur, skýrar og glöggar og fylgja þeim eftir af festu, en margar reglur, óljósar, grautarlegar, ógagnsæjar og tvíræðar og þar með upplagðar fyrir undanskot en ómögulegar til eðlilegs eftirlits.

En mest er um vert að markaðurinn læri sjálfur að hollast er til lengdar að búa við þau lögmál ein sem heiðvirðum mönnum ætti að vera í blóð borin. Og sem betur fer er yfirgnæfandi fjöldi forystumanna í viðskiptalífi þjóðarinnar þeirrar gerðar, þótt ein og ein undantekning kunni á stundum að stinga í augun og skekkja heildarmyndina.
VIII.
Umræðan um ókosti og ágæti svonefnds veiðileyfagjalds var yfirþyrmandi á síðasta áratug. Hún var stundum á undarlegasta plani, vafin inn í vanþekkingu, útbíuð í áróðri og slengt fram í slagorðastíl. Virtist þessu aldrei ætla að linna og þekkingin og skilningurinn virtist verða veikari við vaxandi umræðu. Að lokum náðu menn þó saman um að láta skoða málið af yfirvegun og festu. Þeir sem til þess voru fengnir höfðu mjög ólíkar forsendur í sínu farteski. En það breytti því ekki að það tókst að greina deiluefnið á málefnalegan hátt og sigta mesta bullið burtu. Og það sem meira var, það fékkst niðurstaða í formi sanngjarnar sáttargjörðar. Og þótt sumum líki það ekki er bersýnilega furðu góð eining um þá niðurstöðu. Því er þetta mál nú nefnt til sögu að oft er rætt um Evrópumál undir áþekkum formerkjum og var þegar veiðileyfagjaldsumræðan var sem vitlausust. Spurningin er þessi: Treysta menn sér til að sameinast um að setja niður þverpólitíska nefnd, skipaða mönnum sem nálgast efnið frá mismunandi forsendum, en hafa þó burði til að rífa sig frá mesta ruglinu sem nú einkennir umræðuna? Einhverjir munu sjálfsagt setja sig upp á móti svona hugmynd vegna þess eins að viss hætta er á að nefnd af þessu tagi gæti átt það til að ná árangri. Spor veiðileyfagjaldsnefndarinnar kynnu helst að hræða þá sem umræðuna stunda hennar vegna en ekki málefnisins.

Sjálfsagt eru þeir til, úr báðum skotgröfum, sem vilja ekki að púðurreykurinn nái að setjast svo menn sjái út úr augum. Slíkir fengu ekki að ráða för í fyrrnefnda málinu og hví ættu þeir að ráða för í svo alvarlegu deilumáli sem Evrópusambandsmálið svo sannarlega er?
IX.
Við sem hrærumst í stjórnmálaumræðum gleymum okkur stundum og látum eins og ekkert annað skipti máli. Sem betur fer telur stærstur hluti þjóðarinnar sig lengstum hafa um þýðingarmeiri mál að hugsa en dægurumræðu stjórnmálamanna, þar sem orð eins og "neyðarástand" er iðulega notað um allt stórt og smátt, sem aflaga fer. Óðaverðbólga orðagjálfursins er fyrir löngu búin að gera stærstu orð að merkingardvergum. Allt er þetta til þess fallið að draga úr virðingu og trausti á stjórnmálamönnum. Stjórnmálamenn geta sjálfsagt furðu lengi lifað við virðingu í lægri kantinum, en nokkurs trausts verða þeir þó væntanlega að njóta lengstum, ef þeir eiga að endast. Gömlum borgarstjóra þykir takmörkuð skemmtun að horfa á þá upplausnarsorgíu sem undanfarið hefur gengið á í sjálfri höfuðborginni. Þar á bæ virðast menn telja að sjálfstraust sé ígildi og jafnvel mikilvægara en annarra manna traust og vera sannfærðir um að orðheldni, trúnaður og sannsögli séu úr sér gengið glingur, sem eigi að umgangast sem slíkt. Orðaglossar og óviðfeldið glamur yfirskyggðu alla umræðuna. Það var ljót sjón lítil.
X.
Sólin er nú lögð í sína árvissu sigurgöngu gegn skammdeginu. Hvað boðar hún blessunin? Örugglega birtu og yl, en annað er óljóst og vakir í vonum okkar. Og víst er það rétt sem vitur maður sagði að ekki skiptir mestu það sem á okkur kann að dynja heldur hitt hvernig við bregðumst við því. Hvaða mann við höfum að geyma þegar á reynir.
En hvað sem þessum sannindum líður, fer ekki á milli mála að við höfum góðar og gildar ástæður til bjartsýni Íslendingar er við göngum á vit nýs árs.
Við skulum horfa til þess með augum skáldbóndans frá Kirkjubóli:
Koma munu sóldagar sælir og glaðir
til sögunnar enn,
bregða sínum svip yfir búmannaraðir
og bjartsýnismenn.

Ég þakka ykkur löndum mínum samfylgdina á liðnu ári og óska þess að hið nýja ár megi verða landi og þjóð gifturíkt og heilladrjúgt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum