Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. febrúar 2003 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Viðskiptaþing Verslunarráðs Íslands 2003

12. febrúar 2003

Ræða Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra
á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands 12. febrúar 2003


    Þingforseti, formaður og ágætu þingfulltrúar,
    Það er ánægjuefni fyrir mig að fá tækifæri til þess að tala hér stuttlega til jafn mikilvægs hóps og hér er saman kominn. Ég býð ekki upp á prédikun af neinu tagi heldur mun ég leitast við að hugsa upphátt með ykkur um stöðuna í íslenskum efnahags- og þjóðmálum. Mér hefur gefist tækifæri til þess áður og haft af því bæði gagn og ánægju. Þótt eitt ár sé ekki tiltakanlega langur tími tekur maður eftir því hvað viðhorfin og viðfangsefnin, áhyggjuefnin og áherslurnar geta gjörbreyst á milli stórfunda Verslunarráðsins.

    Verðbólgan var ennþá há þegar við hittumst hér fyrir ári. Þá vorum við að slást við hin svokölluðu rauðu strik í góðu samstarfi við aðila á vinnumarkaði. Þá sögðu ýmsir að sú barátta væri yfirborðsleg og jafnvel marklaus. Verið væri að takast á við vindmyllur og eftir að þjóðinni hefði verið troðið með handafli undir rauðu strikin í maí yrði lokið tekið af verðbólgupottinum og allt myndi flæða upp úr og launþegarnir sætu uppi með sárt ennið.

    Svona töluðu jafnvel þokkalega virtir menn í íslensku þjóðlífi. Ekkert af þessu gerðist eins og þið munið. Þvert á móti. Verðbólgan varð minni á því ári en menn höfðu þorað að spá. En rokkarnir, sem lopann spunnu, hafa ekki þagnað og eru fljótir að finna bæði nýjar fullyrðingar og hlustendur til að falla fyrir þeim.

    Þegar ég var ungur og ósvífinn maður og var ekki kominn með þá aðgát sem fylgir þroska og gráum hárum, sagði ég opinberlega að það færi stjórnmálamönnum heldur illa að vera eins og búktalarar sinna eigin efnahagsráðgjafa. Og ekkert væri leiðinlegra en stjórnmálamenn sem fjölluðu um mikilvæga þætti þjóðlífsins á vélmáli sem almenningur skildi ekki, vildi ekki skilja og hefði í raun ekki ástæður til að skilja. Eru nokkur hugtök óbærilegri en verg þjóðarframleiðsla eða endurhverf lán Seðlabanka Íslands? Hugsið ykkur huggulegt borðhald þar sem umræðan snerist um verga þjóðarframleiðslu og endurhverf lán. Leiðinlegra myndi það ekki gerast. En það er ekki svo létt að komast hjá þess háttar hugtökum, því bak við hinn torræða texta er einatt veruleiki sem hefur áhrif á gjörðir fólks, líf þess og efnahagslega velferð. Það gildir um þá sem fara með opinbert vald, sem fer reyndar jafnt og þétt minnkandi sem betur fer, og það gildir um hina sem starfa á markaði, en áhrif þess hóps fara sem betur fer vaxandi dag frá degi. Og kannski eiga þeir góðu borgarar, sem láta vélmennishugtökin aldrei út fyrir sínar varir, meira undir í þessum efnum en allir aðrir. En talandi um hugtök, hver skyldu vera stikkorðin sem við getum helst stuðst við í umræðunni um efnahagsmál um þessar mundir? Við vitum að kaupmáttur ráðstöfunartekna fólksins í landinu hefur vaxið um þriðjung frá árinu 1994. Sú vísa er aldrei of oft kveðin. Slík dæmi þekkjum við ekki frá neinum nálægum löndum. Á þessu ári mun kaupmáttur Íslendinga aukast níunda árið í röð. Slík dæmi þekkjum við ekki úr íslenskri sögu. Skattbyrði íslenskra heimila er með því lægsta sem gerist innan OECD. Barnabætur til þeirra sem slíkra bóta njóta, hækkuðu um rúmlega tvo milljarða króna á árunum 2000 til 2002. Persónuafsláttur hjóna verður að fullu millifæranlegur á þessu ári. Þetta var baráttumál margra. Húsaleigubætur eru nú skattfrjálsar. Þetta var líka baráttumál margra, þó ekki endilega sama fólksins. Þegar síðasta vinstri stjórn, sem sumir kalla nú velferðarstjórn, en þegar að síðasta vinstri stjórn fór frá, var tekjuskattshlutfallið á einstaklinga 32,8%, en sambærileg tala er nú 28,8% þegar tekið hefur verið tillit til flutnings verkefna frá ríki til sveitarfélaga en að öðrum kosti væri sú tala nú 25,75%. Á sama tíma var skattur á fyrirtæki 50% en er núna 18%. Það er ekki breyting. Það er bylting. Ég er sannfærður um að vinstri stjórn myndi gera gagnbyltingu í því efni kæmist hún að. Á síðastliðnum sjö árum hafa hreinar skuldir ríkissjóðs lækkað úr 34,5% af landsframleiðslu í 19% samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem nú gildir. Á meðan hafa skuldir stærsta sveitarfélags landsins ellefufaldast! Það segir þó ekki alla söguna því á sama tímabili hafa innborganir ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins numið 53 milljörðum króna. Slíkar innborganir sýnast ekki mikil tíðindi í veruleika dagsins og er ekki tilefni til langrar umræðu á Alþingi, en það þarf að hafa töluvert aflögu og reglu á hlutunum til að geta lagt til hliðar upphæðir eins og 53 milljarða króna fyrir lífeyriskerfi ríkisins, sem stefndi í þá átt að vera ónýtt fyrir aðeins áratug síðan. Miðað við háttarlag manna hér á árum áður mætti bæta þessum 53 milljörðum við afganginn af fjárlögum til að bera saman við hallatölur þess tíma. Á sama tíma eru menn að gera átak í málefnum aldraðra í góðri sátt við forystumenn Landssambands eldri borgara. Atvinnuleysi hefur vissulega aðeins aukist á síðustu mánuðum, en er þó með því lægsta sem við þekkjum í þessum heimshluta. Atvinnuleysisbætur eru lágar og það lifir enginn lífi sem er eftirsóknarvert á atvinnuleysisbótum, fjarri því. En hitt er þó staðreynd að kaupmáttur slíkra bóta hefur hækkað umtalsvert á síðastliðnum sjö árum. Megin keppikeflið hlýtur þó að vera að koma sem flestum af þeim bótum, fremur en að hækka þær. Kaupmáttur lægstu launa hefur vaxið um 58% á sama tímabili og kaupmáttur lágmarkstekjutryggingar hefur vaxið um 65% á sama tíma. Hlustið á þessar tölur. Þetta er ekki verg þjóðarframleiðsla eða endurhverf lán Seðlabanka Íslands. Þetta er auðskilið mál. Það er beinharður raunveruleikinn sem skiptir töluverðan hóp miklu máli, að kaupmáttur lægstu launa hefur vaxið um 58% og kaupmáttur lágmarkstekjutryggingar hafi vaxið um 65% á sama tíma. Ég fullyrði og því verður ekki mótmælt að aldrei áður hefur annað eins átak verið gert í málefnum þessara hópa. Þar hafa aðilar á vinnumarkaði og ríkisvaldið komið að. Á sama tíma hafa verið reistar 2200 félagslegar íbúðir í þessu landi, þar sem minnst spilling ríkir samkvæmt mati Harvard háskóla og World Economic Forum, í þessu landi þar sem fjölmiðlar eru frjálsari en nokkurs staðar annars staðar samkvæmt mati alþjóðasamtaka fréttamanna án landamæra, í landinu sem Sameinuðu þjóðirnar setja í sjöunda sætið af 134 yfir þau lönd þar sem best er talið að búa.

    Ég nefndi rétt í þessu að atvinnuleysi hefði hækkað nokkuð meira en spár stóðu til og væri áætlað í kringum 3,5 % sem er mjög lágt á flesta almenna mælikvarða, en að okkar mati er það samt of hátt. Vinnufúsir menn eiga að geta fundið kröftum sínum viðnám í þessu landi. Við sjáum reyndar fram á, að þegar hinar miklu framkvæmdir sem nú standa fyrir dyrum, verða komnar í fullan gang, mun þetta atvinnuleysi hverfa eins og dögg fyrir sólu. Það er huggun, en við viljum meira en huggun. Aðilar á vinnumarkaði hafa hvatt ríkisstjórnina óspart að undanförnu til þess að grípa til tímabundinna aðgerða til þess að draga úr atvinnuleysinu strax. Ríkisstjórnin samþykkti í gær að á næstu 18 mánuðum og reyndar fyrst og fremst á fyrri hluta þess tímabils, skyldi verða gert stórátak í vegaframkvæmdum um land allt og auk þess sem atvinnuþróunarsjóðir yrðu efldir og menningarhús reist. Lagðir verða fram sex milljarðar króna í ný verkefni og áður ákveðnum verkefnum verður að auki flýtt. Sveitarfélög hafa haft góð orð um að láta sitt ekki eftir liggja. Samanlagt ættu slíkar aðgerðir að geta haft mjög jákvæð áhrif. Þetta er hvorki fjármagnað með nýrri skattheimtu né með því að skaða ríkissjóð svo neinu nemi. Eignir ríkisins eru seldar til að mæta þessum útgjöldum. Slíkar aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi eru þó í raun yfirleitt ekki til mikils gagns þegar til lengri tíma er horft, en þetta er réttlætanlegt, nú þegar við brúum bil þar til að mestu framkvæmdir Íslandssögunnar hefjast að fullri alvöru. Það eru auðvitað aðrir þættir sem skipta meiru fyrir traust og öflugt atvinnulíf en verklegar framkvæmdir ríkisins. Skynsamleg stjórn ríkisfjármála og festa í peningamálastjórn og varfærni í skattheimtu gegna þar lykilhlutverki. En dirfska og velgrunduð fjárfestingaráform fyrirtækja og nýungar frumkvöðla ráða þó oftast úrslitum.

    Talið er að hagvöxtur á þessu ári verði um 1,75%, hagvöxtur verði um 3% á því næsta og á næstu árum þar á eftir er ætlað að hann verði enn hærri. Sterk staða ríkissjóðsins nú og tekjuaukinn sem sannarlega mun fylgja hagvextinum gerir það að verkum að það er engin goðgá að huga að breytingum á sköttum í rétta átt, til lækkunar, en ekki hækkunar. Við viljum öflugan ríkissjóð sem getur staðið undir þeim kröfum sem nútímaþjóðfélag gerir. En það er engin ástæða til að láta ríkissjóðinn fitna um of. Óþörf fita er engum til gagns, eins og Ásmundur hefur bent á. Það er betra, miklu betra, að skilja sem mest eftir hjá fólkinu og fyrirtækjunum í landinu. Þó margt sé á reiki í hagvísindunum þá er það þó margsannað að almenningur fer að jafnaði mun betur með peningana heldur en stjórnmálamennirnir. Þessi möguleiki til skattalækkana sem við nú stöndum frammi fyrir, sé rétt haldið á málum, möguleiki sem við eigum svo sannarlega að nýta okkur, sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er að tryggja að þjóðarframleiðslan vaxi jafnt og þétt. Miklar deilur urðu hér í þjóðfélaginu um Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers í Reyðarfirði. Það var eðlilegt að sitt sýndist hverjum um áhrif þessara framkvæmda á umhverfið og ég held að öll sú mikla umræða hafi verið til góðs þótt stundum hafi menn látið skynsemina lönd og leið og látið tilfinningar hlaupa með sig í gönur. En það er furðulegt að heyra þær raddir sem halda því fram að ekki séu efnahagslegar forsendur fyrir þessum framkvæmdum. Við Íslendingar höfum afskaplega góða reynslu af rekstri álvera hér á landi. Engin ástæða er til að ætla að svo verði ekki um hið nýja álver austur á fjörðum og reyndar má vænta þess að það hafi enn meiri og betri áhrif á hagkerfið heldur en þau álver sem nú þegar hafa verið reist á suðvestur-horninu. Styrking byggðarinnar í kjölfar framkvæmdanna á Austurlandi er óumdeilanleg og besti og skýrasti votturinn þar um eru sú bjartsýni, gleði og framkvæmdahugur sem þegar hefur gripið um sig á því svæði. Þjóðin öll nýtur síðan ábatans af auknum hagvexti, bæði í bráð vegna framkvæmdanna og í lengd vegna þess hversu íslenska hagkerfið styrkist vegna aukins útflutnings. Íslenska þjóðin býr við lífskjör sem jafnast á við það besta sem þekkist í víðri veröld. En sú staðreynd gefur ekki tilefni til að slá slöku við og hvílast við forna frægð - áfram skal haldið, sjálfstæðisbarátta okkar er öðrum þræði sú að halda áfram að bæta lífskjörin þannig að við verðum áfram í fremstu röð.

    Ég veit að orðið hagvöxtur á heima ekki langt frá orðunum verg þjóðarframleiðsla og endurhverf lán Seðlabanka, en bak við það orð býr einnig mikill veruleiki sem skiptir miklu máli fyrir afkomu okkar allra. Á undanförnum árum hefur okkar hagvöxtur verið að meðaltali rúm 3% meðan hann hefur verið innan við 2% á Evrusvæðinu. Hvað þýða slíkar tölur sem láta kannski ekki mikið yfir sér? Hverju skakkar þegar þessi munur er á hagvexti? Jú, þessi munur myndi þýða, samandreginn á næstu fjórum árum rúma 100 milljarða króna. Ríki og sveitarfélög myndu tapa á næsta kjörtímabili hátt í 40 milljörðum króna í tekjum ef hagvöxturinn væri lægri talan, sú sem gilt hefur á Evrusvæðinu, en ekki hærri talan, sú sem gilt hefur hér. Öll umsvif og möguleikar þjóðarinnar sem heildar myndu draga dám af þessum tölum. Verðbólga á Íslandi er núna 1,5%. En ef frá er talin hækkun vísitölu vegna húsnæðishækkana er verðbólga vart mælanleg eða 0,3% og þessi lága tala er svona lág, þrátt fyrir að olíuverðhækkun hafi verið meiri upp á síðkastið en í langan tíma þar á undan, vegna þess að það eru óvissu tímar og stríðsþref þjakar veröldina. Reyndar var örlítil verðhjöðnun í síðasta mánuði, eða um 0,18% lækkun í febrúar. Þessi árangur í baráttunni við verðbólguna hefur leitt til þess að vextir fara lækkandi og hafa vextir ekki verið lægri í tæpan áratug hér á landi. Lækkandi vextir eru vissulega til þess fallnir að setja kraft í atvinnustarfsemina í landinu, en við verðum að átta okkur á að vextir eru meðal sem virkar hægt og reyndar er staðreyndin sú að hækkandi vextir slá hraðar á þenslu en lækkandi vextir vekja væntingar. Lækkandi vextir þurfa með öðrum orðum lengri tíma til að hafa áhrif inn í þjóðfélagið en hækkandi. Menn horfa til vaxtaákvarðana og verðbólgu í sama vetfangi, en manni virðist þó stundum að vextir séu ekki alltaf ákveðnir til þess að hafa áhrif á verðbólguna, heldur sendir til þess að elta hana. Þannig á ekki að nota vexti. Vaxtaákvarðanir verða að vita að framtíðinni vegna þess hve hægt vaxtabreytingar virka sem efnahagstæki. En við skulum ekki gleyma því að öll sú umræða sem nú fer fram um hvort Seðlabankinn hafi fundið réttan takt í sínum aðgerðum sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess að við Íslendingar höldum áfram að hafa okkar eigin mynt og okkar eigin peningamálapólitík. Allt tal um hvert vaxtastig eigi að vera eða hvort gengið henti okkur eður ei yrði fullkomlega marklaust ef allar ákvarðanir þar að lútandi yrðu teknar í fjarlægum Seðlabanka, sem hefði engan áhuga á, og ætti ekki að hafa neinn áhuga á því sem væri að gerast í örsmáum hluta sameiginlegs myntsvæðis.

    Góðir þingfulltrúar,
    Fyrir fimm árum síðan var Ísland í 38. sæti þegar mælistikunni var brugðið á hvaða þjóðir væru samkeppnishæfastar. Á þennan mælikvarða er Ísland nú komið í 12. sæti. Hvað þýðir þessi sætaskipan á mæltu máli? Það má segja í mesta einfaldleika, að þessi umskipti að fara úr 38. sæti í 12. sæti yfir samkeppnishæfni þjóða, sýni stórbætt skilyrði þjóðarinnar til að tryggja viðvarandi hagvöxt. Og eins og að framan er rakið er hagvöxtur mikill örlagavaldur í lífi fólksins og fyrirtækja þess, þótt það fari framhjá
    mörgum.

    Lánshæfismat hinna kunnu alþjóðlegu matsfyrirtækja hefur aldrei verið Íslandi jafn jákvætt og nú og helgast meðal annars af því að fyrirtækin telja nú bjartari horfur í íslensku efnahagslífi en áður og vísa þar til aukins jafnvægis í utanríkisviðskiptum, bættrar stöðu þjóðarbúsins, framvindu í einkavæðingu fjármálastofnana, sterkrar stöðu ríkisfjármála og aukins sveigjanleika í hagkerfinu. Þetta mat hefur gríðarlega þýðingu fyrir okkur og er í orðsins fyllstu merkingu gulls ígildi. Þetta er ekki aðeins einkunn á blaði sem við getum verið stolt af, heldur ávísun á lánskjör sem aðeins allra sterkustu lántakendum bjóðast, svo sem Bandaríkjum Norður-Ameríku og Þýskalandi.

    Góðir fundarmenn,
    Menn hafa nokkrar áhyggjur af hárri stöðu myntarinnar um þessar mundir og ég tel að þær áhyggjur séu alls ekki óraunhæfar eða ómálefnalegar. Það er að sjálfsögðu ekki lengur ríkisstjórnarinnar að ákvarða hvað sé hið rétta gengi og gefa síðan fyrirmæli til Seðlabanka um að verja þá skráningu hvað sem tautar og raular. Frá því vinnulagi hefur verið horfið og ég man ekki betur en flestir hafi fagnað þeim starfsháttabreytingum og talið þær löngu tímabærar. Hitt er annað mál, að það tekur okkur tíma að læra á hin nýju skilyrði og stundum er talað til ríkisstjórnarinnar eins og hún hafi þetta ennþá á valdi sínu og henni beri að tryggja að gengið sé rétt skráð og hagfellt fyrir atvinnulífið. Nú er hins vegar svo komið að menn verða að horfa fremur í eigin barm en til ríkisvaldsins, því forráðamenn fyrirtækja, að minnsta kosti samanlagðir, hafa mun meiri áhrif í þessum efnum, en sjálft ríkið og við eigum endilega að líta á þá breytingu sem öruggt merki framfara, en ekki sem afturför. Hitt er annað mál, að sjálfsagt er að forráðamenn ríkisins hafi skoðun á jafn mikilvægu máli og þeir hafa vissulega enn í fórum sínum mikilvæg tæki til áhrifa. Nauðsynlegt er að hafa í huga að krónan hefur styrkst af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi hefur batnandi hagur, erlendar fjárfestingar, vaxandi tiltrú innan lands sem utan og fleiri atriði leitt til þess að hún hefur komist upp úr þeirri lágstöðu sem hún hafði hrokkið í fyrir aðeins fáeinum misserum. Það var nauðsynlegt að rétta hana úr þeim kút. Í annan stað hefur hún styrkst vegna þess að mikilvægar myntir hafa veikst. Stöðnun í efnahagslífi Evrópu, sem evran hefur ekki haft þau jákvæðu áhrif á sem hagspekingar höfðu prédikað, blasir því miður við. Japanskt efnahagslíf virðist enn í spennitreyju, sem enginn hefur fundið ráð til að leysa það úr og dollarinn geldur hryðjuverkaárása, stríðsótta og hallareksturs bandaríska ríkisins.

    Þrátt fyrir þessar megin skýringar þykir mér líklegt að krónan skráist nú á markaði hærri en þyrfti. Kemur þar margt til og er óhjákvæmilegt að nefna í því sambandi að vaxtalækkunarferill Seðlabanka Íslands fór of seint og of hægt af stað, meðal annars af ástæðum sem ég áðan nefndi. Það er og mitt mat að við skráningu á gengi hafi markaðurinn þegar tekið inn að verulegu leyti væntingar vegna stóriðju. Lækkandi vextir Seðlabanka Íslands og stigvaxandi uppkaup hans á gjaldeyri sem notaður er til að greiða niður skammtímaskuldir sem safnað var þegar aðstæður voru þveröfugar við það sem nú gerist, ættu að stuðla að betra jafnvægi þegar fram í sækir, þannig að útflutningsgreinarnar geti búið við þolanlega stöðu gengisins. Ríkið hlýtur einnig að velta fyrir sér við þessar aðstæður, hvort það geti breytt erlendum skuldum sínum í innlendar, þó það verði vitaskuld að geta þess um leið að slíkar aðgerðir leiði ekki til ótímabærrar hækkunar á innlendum vöxtum. Aðgerðir og ákvarðanir á markaði, ákvarðanir hins opinbera og sérstaklega framangreindur atbeini Seðlabanka Íslands ættu að geta haft úrslitaáhrif á að lífvænlegt jafnvægi gengis náist sem fyrst. Það er afar þýðingarmikið að allir þeir sem að ákvörðunum koma skynji mikilvægi málsins fyrir hag útflutningsatvinnugreinanna.

    Góðir áheyrendur,
    Vel rekin fyrirtæki þurfa að búa við skilningsríkt umhverfi. Njóti þau þess, geta þau verið lifandi uppspretta tækifæra og velmegunar í landinu. Verkaskipting okkar og ykkar er kristalklár. Okkur ber að skapa tryggt umhverfi og vinsamleg skilyrði. Takist það þá er ykkur ekkert að vanbúnaði að sjá um afganginn, ef ég þekki ykkur rétt. Við erum nú að komast í efnahagslega óskastöðu. En dæmin úr sögunni sýna, að jafnvel slíkri stöðu má klúðra á örstuttum tíma, ef þeir sem til slíks eru hæfastir fá tækifæri til.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum