Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. mars 2003 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Kvöldverðarboð forseta Íslands

7. mars 2003

Ávarp forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar,
í veislu forseta Íslands á Bessastöðum

Ég vil fyrir hönd okkar hjóna og annarra gesta þakka gestgjöfum góða veislu og herlega á þessum virðulega stað. Bessastaðir sýnast nokkuð einangraðir á þessu nesi álftanna, en þegar betur er að gáð sést að væri oddur sirkils stunginn hér niður og hringur dreginn með blýantinum, þá hefur byggðaþróunin orðið sú, að þetta höfðingjasetur er ekki lengur neinn útkjálki. En jafnvel forðum tíð, þegar langt var hingað úr höfuðstaðnum og önnur byggð dreifð, var nesið miðlægara en sýndist. Þegar Jón forseti Sigurðsson, frelsishetjan góða kom loks heim eftir langa utanlandsvist lætur hann ferja sig yfir Skerjafjörð á Álftanes, því þar búa óvenju margir þeirra sem mestu máli skiptu um ýmis mál á Íslandi. Hann dvelur lengi með Sveinbirni Egilssyni á Eyvindarstöðum að ræða forn handrit og málvísindi. Í Smiðsholti ræðir hann útgáfu Íslandskorta við Björn Gunnlaugsson og eftir að hafa heilsað upp á sr. Árna Helgason í Görðum liggur leiðin á höfuðbólið að hitta Grím Thomsen sem þá dvelur með foreldrum sínum á Bessastöðum. Til þessa höfuðbóls hafa löngum gagnvegir legið. En þótt staðurinn og Ísland sjálft sé nú í alfaraleið ef miðað er við það sem löngum var, stöndum við enn fjarri þeim stöðum þar sem eldarnir brenna heitast og getum verið þakklát fyrir það. En vegna tengingar á borð við hinar Sameinuðu þjóðir og NATO komumst við ekki hjá að hugsa og horfa til þess sem efst rís í heimsmálum og móta okkar skoðanir og loks afstöðu og bera ábyrgð á henni að okkar leyti.

Leiðtogafundur NATO í Prag í nóvember í fyrra var um margt mjög merkur. Frá íslenskum sjónarhóli bar stækkun bandalagsins hæst en einkum þó, að Eystrasaltríkjunum var boðin aðild. Ég er sem fyrr sannfærður um að þátttaka þeirra og annarra umsóknarríkja mun verða til að styrkja tengslin yfir Atlantshaf, sem við teljum sjálfan grundvöll bandalagsins og efla það að öðru leyti.

Þeir sem sátu leiðtogafundinn í Prag skynjuðu að ágreiningur í röðum bandamanna um Íraksmálið ætti eftir að harðna. Auðvitað vonuðu menn að samkomulag tækist eins og jafnan hefur gerst í sögu bandalagsins. Það gekk loks eftir í deilunni í síðasta mánuði um varnir Tyrklands vegna undirbúnings hernaðar gegn Írak. En því er ekki að neita að bandalagið hefur orðið fyrir álitshnekki vegna þeirrar deilu. Það er afar bagalegt að enn er ekki samkomulag um Íraksmálið meðal NATO-ríkjanna og ekki síður er áhyggjuefni hvernig það mál hefur klofið ESB og reyndar skipt ríkjum Evrópu almennt upp í andstæðar fylkingar.

Í mínum huga snýst Íraksmálið um nokkur einföld meginatriði. Hættan sem stafar af gereyðingarvopnum í fórum stjórnar eins og þeirrar í Bagdad getur ekki annað en aukist ef ekki verður við brugðist og verður því með öllum tiltækum ráðum að afvopna ríkið. Reynslan annars staðar frá sýnir hvað það getur kostað alþjóðasamfélagið að bíða með að taka á ríkisstjórnum af þessu tagi.

Hvar stæðu menn ef ekki væri uppi marktæk hótun um að hervaldi verði beitt gegn Írak hlýði það ekki öryggisráðinu? Sú ákvörðun Bagdadstjórnar að leyfa með ólund og trega að vopnaeftirlit hæfist að nýju réðist alfarið af því að hún stóð frammi fyrir trúverðugri hótun um að hervaldi yrði að öðrum kosti beitt og henni komið frá völdum með illu.

Ríkisstjórn Ísland vill auðvitað friðsamlega lausn í þessu erfiða máli og lítur að sjálfsögðu á stríð í Írak sem algjört neyðarúrræði. Íraksstjórn getur enn forðast átök ef hún afvopnast á trúverðugan hátt eins og Sameinuðu þjóðirnar krefjast af henni.

Um það er ekki deilt að Íraksstjórn hefur brotið gegn ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1441. Í henni segir að það muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér haldi Írak áfram að brjóta gegn ályktunum öryggisráðsins. Hér er því trúverðugleiki Sameinuðu þjóðanna í húfi. Ekki þarf að gera því skóna á þessu stigi að öryggisráðið muni ekki þekkja sinn vitjunartíma. Af þeim sökum er enn ástæða til bjartsýni um að samtökin muni halda á málinu af nægjanlegri festu, til að leiða það til lykta.

Jarðarbúar þrá flestir öryggi umfram allt annað, enda er mönnum örðugt að bæta hag sinn og sinna, ef það er ekki tryggt. Það er því við hæfi að mikilvægasta stofnun hinna Sameinuðu þjóða sé við það kennd.

Herra forseti. Við gestirnir þökkum á ný heimboðið í þennan rann og langar að mega rísa úr sætum og drekka heill gestgjafans.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum