Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. apríl 2003 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Stjórnarskráin frá 1874

Úr ræðusafni forsætisráðherra hafa verið valdar nokkrar ræður sem birtar eru hér á eftir. Á það skal bent að ekki er ávallt fullt samræmi milli hins skrifaða texta og flutnings. Hið talaða orð gildir.


Forsætisráðherra Danmerkur, frú Rasmussen, forseti Alþingis, menntamálaráðherra, virðulegu gestir.

Það er mér sérstök ánægja að veita stjórnarskránni frá 1874 viðtöku hér í Þjóðmenningarhúsinu í dag, um leið og ég býð dönsku forsætisráðherrahjónin hjartanlega velkomin í opinbera heimsókn til Íslands.

Stjórnarskráin um hin sérstaklegu málefni Íslands, sem Kristján konungur IX. gaf Íslendingum á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874, telst tvímælalaust til eins af stóru áföngunum í sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar og í raun marka það spor í sögu landsins sem allar síðari framkvæmdir byggðust á. Með henni var Alþingi Íslendinga fengið löggjafarvald í þeim málum, sem stjórnarskráin tók til, og stofnað var um þau sérstakt ráðuneyti í danska stjórnarráðinu. Réttum 30 árum síðar var stjórn þessa ráðuneytis flutt hingað heim og við því tók fyrsti íslenski ráðherrann 1. febrúar 1904. Hefur sá dagur síðan verið talinn stofndagur stjórnarráðs Íslands og fögnum við því 100 ára afmæli þess á næsta ári.

Þessara tveggja merkisviðburða í sögu þjóðarinnar – fyrstu stjórnarskrárinnar frá 1874 og stofnun heimastjórnar 1904 – höfum við Íslendingar minnst með því að reisa þeim tveimur mönnum, sem við tengjum þessa atburði öðrum fremur, minnisvarða fyrir framan stjórnarráðshúsið í miðborg Reykjavíkur þar sem forsætisráðuneytið er til húsa. Annars vegar er þar stytta af Hannesi Hafstein, fyrsta íslenska ráðherranum, en hins vegar af Kristjáni konungi IX. með upprúllað skjal í útréttri hendi og á það að tákna stjórnarskrána frá 1874 og minna á orðin í kvæði þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar, sem þá var ort: "Með frelsisskrá í föðurhendi".

Kristján IX. var á sinni tíð afar vinsæll meðal landsmanna og er upphaf þjóðhylli hans rakið til þess að hann kom hingað í tilefni af þjóðhátíðinni árið 1874 og varð þar með fyrstur ríkjandi konunga til að sækja landið heim. Margir halda að hann hafi þá fært þjóðinni stjórnarskrána góðu, eins og myndefnið styttunnar bendir til. Konungurinn kom hins vegar ekki með stjórnarskrána með sér, enda var ekki til að dreifa neinu þar til bæru yfirvaldi hér á landi til að veita henni viðtöku á þeim tíma. Skjalið sjálft kom því ekki í heimahöfn fyrr en við stofnun Stjórnarráðs Íslands árið 1904, en mun síðan hafa verið skilað aftur til Danmerkur árið 1928 í tengslum við gagnkvæm skjalaskifti milli landanna, sem þá fóru fram. Þar hefur hún síðan verið allt þar til nú, að forsætisráðherra Danmerkur, Anders Fogh Rasmussen, hefur fært okkur hið kærkomna skjal heim á ný og lýkur þar með nærfellt 100 ára flökkusögu fyrstu stjórnarskrárinnar okkar. Fyrir það þökkum við af heilum hug.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum