Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. apríl 2003 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins 2003

29. apríl 2003

Ávarp forsætisráðherra á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins
29. apríl 2003.

    Formaður, framkvæmdastjóri, góðir aðalfundargestir.

    Það er margt athyglisvert sem blasir við okkur í íslensku efnahagslífi um þessar mundir og síðustu ár hafa verið viðburðarrík. Við höfum séð hvernig mikill viðskiptahalli sem margur hafði áhyggjur af og ekki að ástæðulausu hefur breyst í viðskiptajöfnuð á undraskömmum tíma. Við höfum séð hvernig verðbólga fór upp í níu prósent og var í efri kanti verðbólgu í nálægum ríkjum og náði síðan jafnvægi einnig á tiltölulega fáum mánuðum. Við höfum séð hvernig gengið hefur sveiflast til í framhaldi af breytingum á gjaldeyrismarkaði og breyttri stöðu Seðlabanka Íslands sem flestir voru sammála um að væru tímabærar og ég hygg að það álit standi að mestu óbreytt. Eru þessar sveiflur merki þess að tal um stöðugleika sé yfirborðslegt og jafnvel óraunhæft? Í fljótu bragði gæti litið svo út, en ef betur er að gáð má færa rök fyrir því og þau býsna sannfærandi að framangreindar staðreyndir undirstriki stöðugleika vegna þess að frávikin stóðu aðeins skamma hríð og þjóðfélagið var býsna fljótt að bæta það sem úrskeiðis hafði farið og jafna stöðuna á nýjan leik. Miklu snarara í snúningum en nokkur fræðimaður hafði látið sig dreyma um. Það eru jákvæðir þættir.

    Hitt er annað mál að við viljum auðvitað í lengstu lög forðast skammtímasveiflur, þótt afleiðingar þeirra verði ekki jafn stórbrotnar og oft er spáð. Þær eru engu að síður óheppilegar fyrir efnahagslífið í heild og atvinnulífið sérstaklega. Gengissveiflurnar hafa orðið til þess að ýmsir hafa velt fyrir sér kostum þess að Ísland byggi við sameiginlegan gjaldmiðil Evrópuríkja, en þegar grannt er skoðað þá kemur á daginn að sveiflur á milli evru og dollars eru síst minni og miklu óviðráðanlegri en sveiflur á milli íslenskrar krónu og evru. Þessar sveiflur hverfa auðvitað ekki við upptöku evru.

    Nú fyrir skömmu bárust um það fréttir að horfur væru á því að breska stjórnin myndi enn um sinn fresta þjóðaratkvæðagreiðslu um hugsanlega aðild Breta að evrunni. Þar kemur tvennt til, annars vegar pólitískar ástæður því allar kannanir sýna að breskur almenningur er fjarri því að vilja taka upp evruna og fórna pundinu og forráðamenn atvinnulífs hafa sveiflast frá því að vera fylgjandi yfir í andstöðu við þá breytingu. Þetta er hinn pólitíski veruleiki, en svo er hinn efnahagslegi veruleiki. Við höfum heyrt talað um skilyrðin fimm sem uppfylla þurfi áður en bresk stjórnvöld treysta sér til þess að mæla með því að evran verði tekin upp og pundið látið róa, en ég minnist þess ekki að menn hafi rætt hér um hvaða skilyrði þetta séu og hvað í þeim felist. Sumir virðast hafa talið að þetta væri einhver liður í undirbúningi Breta og spurningin væri hvenær Bretar væru búnir að uppfylla tiltekin skilyrði til þess að þeir gætu gengið í myntbandalagið. Þegar betur er að gáð þá lítur dæmið ekki endilega þannig út, heldur þvert á móti eru skilyrðin að hluta til þau að Bretar verða ekki síður að meta hvenær Evrópumyntin og evrópskt efnahagslíf hefur náð þeim þroska að það sé vænlegt fyrir Breta að taka upp evru.

    Fyrsta skilyrðið snýr að því hvort hagkerfið í Bretlandi sveiflist í takt við hagkerfi annarra landa á evrusvæðinu. Ef svo er ekki,er ljóst að vandamál getur skapast vegna þess að vextir tækju ekki lengur mið af efnahagsaðstæðum í Bretlandi. Ef við lítum hingað heim er ljóst að hagsveiflan hér á landi er síður en svo í takti við hagsveifluna á evrusvæðinu og ólíkt Bretlandi er ýmislegt sem bendir til að takturinn muni verða enn ólíkari á Íslandi en á evrusvæðinu á næstu árum.

    Þá líta Bretar til þess hvort sveigjanleiki sé orðinn nægur í þeirra eigin landi og ekki síður á evrusvæðinu til að hagkerfin geti tekist á við utanaðkomandi áföll þegar búið er að taka stýritæki vaxta og gengis endanlega úr sambandi. Íslenskt efnahagslíf hefur sýnt mjög mikla aðlögunarhæfni á síðustu árum, en það sama verður ekki sagt um evrulöndin þar sem efnahagslífið líður fyrir ósveigjanlega vinnulöggjöf, reglugerðafargan, hæga stjórnsýslu og fleira í þeim dúr.

    Í þriðja lagi er horft til þess hvaða hugsanlegu áhrif upptaka evru myndi hafa á erlendar fjárfestingar í Bretlandi. Fátt bendir til að áhrif á fjárfestingar á Íslandi við upptöku evru yrðu mikil. Fjárfestingar erlendra aðila hér á landi ráðast af allt öðrum þáttum en þeim hvaða gjaldmiðill er notaður. Þó svo að gjaldeyrisáhætta vegna fjárfestinga minnki við upptöku evrunnar, skiptir efnahagslegur stöðugleiki meira máli og hvaða fjárfestingartækifæri bjóðast.

    Fjórða atriðið er hvaða áhrif það hefði fyrir fjármálaþjónustu í Bretlandi að taka upp evruna. Ef við heimfærum þetta upp á Ísland er ljóst að það eru aðrir þættir sem vega þyngra á vogarskálunum. Íslenskur fjármálamarkaður er ólíkur þeim breska þar sem sá síðarnefndi er í alþjóðlegri samkeppni við aðra fjármálamarkaði um viðskipti, en sú er ekki raunin hér á landi.

    Fimmta og síðasta atriðið sem Bretum er hugleikið eru áhrif upptöku evrunnar á atvinnuástandið þar í landi. Hér sker Ísland sig úr þar sem við búum við eitt minnsta atvinnuleysi sem þekkist í Evrópu og er ólíklegt að upptaka evru myndi minnka það enn frekar. Þvert á móti má benda á að tilkoma evrunnar hefur ekki unnið bug á því langvarandi böli sem atvinnuleysið hefur verið í stærstu hagkerfum Evrópu. Af þessu má sjá að ef við Íslendingar lítum til sömu þátta og Bretar er fátt sem mælir með upptöku evrunnar, eins og staðan er nú á Íslandi annars vegar og í Evrópu hins vegar.

    En það er ekki aðeins þannig að staðan sé ólík á Íslandi og í Evrópu heldur á það við um allt OECD-svæðið. Hvort sem er í Evrópu, Bandaríkjunum eða Japan, eru þær áhyggjur helstar að hagvöxtur á næstu árum verði minni og sumstaðar verulega minni en ásættanlegt er talið. Við Íslendingar erum á hinn bóginn að ganga inn í eitt mesta hagvaxtarskeið síðustu áratuga. Viðfangsefni hagstjórnar hér eru því allt önnur en hvar sem er í Evrópu eða öðrum OECD-ríkjum. Við verðum því að hafa fullt forræði yfir hagstjórnartækjum okkar.

    Enginn vafi er á því að gengi krónunnar í dag mótast að talsverðu leyti af væntingum vegna stóriðju- og virkjanaframkvæmda. Þetta er því tímabundið ástand sem að einhverju leyti gengur til baka þegar frá líður, þótt ógerningur sé að segja hvenær það verður. Um leið treystir gengið verðstöðugleikann og vextir ættu því að vera lægri en ella. Þetta tvennt verður að skoða í samhengi.

    Ýmsir þeir sem að hafa haft áhuga á því að Íslendingar gangi í Evrópusambandið, mætir menn margir og vandaðir, hafa hins vegar sett það fyrir sig að vera kynni að sjávarútvegsstefna sambandsins yrði ekki aðgengileg fyrir Ísland. Ákafamenn mestir um þessi efni hafa bægt þessum óróleika í burtu og sagst hafa kannað það, án frekari greinargerðar, að frá þessum stóra vanda mætti koma sér með einhverjum hætti. Nú hafa tveir lögfræðingar, annar þeirra prófessor við Háskóla Íslands og sá sem sett hefur sig mest inn í Evrópumál af fræðimönnum þar og ritað vandaðan og þykkan doðrant um Evrópulögin, gefið frá sér álit eftir ítarlega rannsókn þar sem komist er að athyglisverðri niðurstöðu. Þar kemur meðal annars fram, svo ótvírætt er, að fiskveiðistefnan verður ekki hin íslenska heldur sú evrópska, gangi Ísland í Evrópusambandið. Við inngöngu hyrfi svo til allt lagasetningarvald á sviði sjávarútvegsmála óafturkallanlega til sambandsins. Löggjöf um sjávarútvegsmál kæmi því frá Brussel, ekki frá íslenskum stjórnvöldum. Þá staðfestir rannsóknin að hæpið sé að telja að Ísland fengi varanlegar undanþágur frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB. Það er meðal annars byggt á úttekt á aðildarsamningi Norðmanna við ESB, sem var hafnað í þjóðaratkvæði árið 1994. Nýlegur aðildarsamningur Möltu við sambandið segir sömu sögu, þá að varanlegar undanþágur fást ekki frá reglum þess um sjávarútveg. Ekki er síður athyglisverð sú niðurstaða rannsóknarinnar að ESB mundi í aðildarviðræðum líklega gera kröfur á hendur Íslandi um aðgang að veiðum í íslenskri fiskveiðilögsögu fyrir skip frá ESB ríkjum. Einnig mundu reglur ESB um svokallað kvótahopp auðvitað gilda fyrir Ísland eins og aðra í sambandinu og opna veiðar við landið fyrir útgerðum í löndum þess.


    Góðir fundarmenn.
    Um það er ekki deilt, jafnvel ekki tíu dögum fyrir kosningar, að árangur í efnahagsmálum á Íslandi síðastliðinn áratug er gríðarlega mikill. Aðeins þeir sem lemja höfðinu við steininn viðurkenna ekki þá staðreynd, þótt deila megi um hverjum beri að þakka niðurstöðuna. Víðtækar umbætur í hagkerfinu með afnámi hafta og auknu frjálsræði eiga sinn átt í þessu. Hér á þessum vettvangi er ekki síður vert að nefna að gjörbreytt vinnubrögð aðila vinnumarkaðarins hafa haft mikla þýðingu um allan þennan feril og niðurstöður. Það er enginn vafi á því að heildarsamtökin beggja vegna borðsins ganga allt öðruvísi til verks nú, en forðum tíð var. Ekki er þetta gert vegna þess að menn séu endilega betri og vænni menn en þeir sem fyrir málum fóru á tímunum þar á undan. Það sem úrslitum ræður, að mínu viti, er að þekkingin er miklu meiri í röðum þeirra sem um kjaramál véla en áður fyrr var. Samningamenn eru ekki öðrum háðir í þeim efnum og eru því ekki fullir tortryggni gagnvart talnaverki sem áður kom í hlut hins opinbera að skaffa. Af þessum sökum eiga menn auðveldar með að ganga þannig um völlinn að hægt sé að tryggja kjarabætur og raunhæfa kaupmáttaraukningu með fleiri aðferðum en þeim að spenna eingöngu upp talnagrundvöll launanna. Það er öllum orðið ljóst að 30 - 40 prósent kauphækkun á ári mun aldrei gera nokkrum manni gagn heldur þvert á móti. Nú horfa menn sem betur fer fremur til framsækna kjarasamninga, þar sem samspil launa, skatta og framganga ríkis og löggjafarvalds getur haft mikla þýðingu. Í þeim efnum skiptir mestu að grundvöllurinn liggi algjörlega ljós fyrir og sé ekki tortryggður. Vel skipulagðir samningsaðilar með víðtæka starfsemi við öflun upplýsinga af hverskonar tagi og með þrautþjálfað lið, með mikla þekkingu á flestum þáttum efnahags- og atvinnulífs við hlið sér tryggja að samningsgrundvöllur sé réttilega lagður. Þess vegna hefur tekist að tryggja aukinn kaupmátt launa í landinu níu ár í röð, sem er einstakt, ekki bara hér á landi, heldur víðast hvar. Það er ekki tilviljun að á þessu tímabili hefur verðbólga aðeins verið einn tíundi hluti þess sem hún var að meðaltali árin 1970 til 1990 og almenn verkföll heyra sögunni til. Þessi stöðugleiki hefur gert aðilum mögulegt að gera kjarasamninga til nokkurra ára í senn sem er forsenda þess að ná varanlegum árangri. Það er full ástæða til þess að færa aðilum á vinnumarkaði sem svo eru kallaðir sérstakar þakkir fyrir framgöngu þeirra í þessum efnum og sérstaklega er ánægulegt að gamlar klisjur sem dunið hafa á mönnum áratugum saman um að hækka mest laun þeirra sem minna hafa án þess að nokkuð gengi, hafa breyst úr líttmeintum kórsöng í niðurnjörvaða kjarasamninga á undanförnum áratug.

    Hitt er annað mál að mörgum þykir aðilar á vinnumarkaði oft frekir til fjörsins og geri kröfur um að fá að skipta sér af hvers konar lagasetningu og málatilbúnaði ríkisvaldsins á öllum stigum slíkra mála. Verða menn stundum varir við það á sjálfu Alþingi að þar þyki mönnum að oft sé langt seilst og kröfurnar séu ekki í fullu samræmi við þær lýðræðishefðir sem menn hafa í heiðri hér á landi. En ekki er allt sem sýnist í þeim efnum og mjög oft hefur atbeini aðila vinnumarkaðarins gert mikið gagn við undirbúning mála og á þeim bæjum hafa menn lagt á sig mikla vinnu til þess að gera grein fyrir afstöðu sinni til mála sem í meðferð eru og þó ekki hafi verið að sjálfsögðu farið í hvívetna eftir slíkum athugasemdum þá er enginn vafi á því að iðulega hafa þær orðið málum mjög til framdráttar. Það ber einnig að þakka.

    En aðilar vinnumarkaðar mega þó ekki ofmetnast. Þeir verða að gera sér grein fyrir að hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar hljóta að eiga síðasta orðið og mega reyndar ekki framselja orð sitt út fyrir vébönd löggjafarþingsins. Í þessum efnum sem öðrum er mikilvægt að hafa meðalhóf á. En þrátt fyrir þau orð vil ég leyfa mér að ítreka þakkir til þessara samtaka sérstaklega, og reyndar einnig nefna viðsemjendur þeirra og aðra aðila á vinnumarkaði til sögu, fyrir jákvæðan atbeina og gagnlegan.

    Góðir fundarmenn
    Á undanförnum árum hefur efnahagslíf okkar Íslendinga fleygt mjög fram. Það hefur tekist að tryggja stöðugleika í hagkerfinu og í skjóli þess og í krafti aukins athafnafrelsis hefur efnahagsstarfsemin orðið mun fjölbreyttari en áður. En þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í þeim efnum þá er það enn svo að sjávarútvegurinn er okkar helsta atvinnugrein, hann er enn sem fyrr bakbeinið í efnahagslífinu og grundvöllurinn undir byggðir landsins. Það þarf því ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að rekstrarumhverfi þessarar atvinnugreinar sé stöðugt og henni sé gert kleift að skapa þau verðmæti sem svo miklu skipta fyrir okkur Íslendinga. Fiskveiðistjórnunarkerfið sem við búum nú við er auðvitað ekki gallalaust, ekki frekar en önnur mannanna verk. En það er óumdeilanlegt að það kerfi hefur skilað sjávarútveginum og þá um leið þjóðinni allri miklum ávinningi. Og stöðugleikinn gefur möguleika á hagræðingu og það hefur sjávarútvegurinn svo sannarlega nýtt sér. Nú standa mál þannig að helst er kvartað yfir því að of mikill auður skapist í greininni, og það þrátt fyrir að aflaheimildir í mikilvægasta stofninum, þorskinum hafi fyrir nokkrum árum verið skornar niður um nær helming. Hafa menn gleymt því þegar sjávarútvegurinn var í eilífðar vandræðum? Hafa menn gleymt bjargráðasjóðunum, gengisfellingunum, sértæku efnahagsaðgerðunum, neyðarefnahagsagerðunum og hvað þetta hét nú allt saman? Þetta er liðin tíð. Það er liðin tíð að skattpeningarnir okkar séu notaðir til að bjarga fyrirtækjum í sjávarútvegi. Besti mælikvarðinn á það hversu vel aflamarkskerfið hefur dugað okkur Íslendingum er hversu mjög menn deildu um hvernig skipta skuli arðinum af fiskveiðunum. Það náðist um það sátt í svokallaðri auðlindanefnd að leggja ætti hóflegt gjald á sjávarútveginn umfram það sem gert er við aðrar atvinnugreinar. Í þessu fólst sáttargerð sem ætlað var að skapa frið um þessa mikilvægu grein og tryggja þannig að afraksturinn af auðlindinni okkar yrði sem mestur. Það hljóta því að teljast mikil vonbrigði, í ljósi þeirrar sáttar sem gerð hafði verið, að stjórnarandstöðuflokkarnir, Samfylking, Vinstri grænir og Frjálslyndi flokkurinn skulu vísvitandi hafa rofið þá sátt í aðdraganda kosninga og hafi nú náð saman um eina tillögu í sjávarútvegsmálum. Í öllu sínu annars innbyrðis sundurlyndi sem einungis innvígðir sérfræðingar fá skilið hefur þeim tekist að koma fram með þá hugmynd að fyrna beri aflaheimildir útgerðarinnar á 5 til 20 árum. Næði slík stefna fram að ganga yrði það rothögg á sjávarútveginn og um leið alvarleg atlaga gegn hinum dreifðu byggðum landsins. Það hljóta allir að sjá hversu hrikalegar afleiðingarnar verða. Ef tíu prósent aflaheimilda til dæmis Siglfirðinga eða Akurnesinga yrðu teknar í ríkissjóð á næsta ári og fyrir lægi að taka ætti önnur tíu prósent á næsta ári og svo koll af kolli þar til allt um þryti þá þyrfti ekki um að binda í þeim byggðarlögum. Eftir stæðu allslaus sjávarútvegsfyrirtæki án kvóta, en með miklar skuldir vegna fjárfestingar við hagræðingu í greininni. Hinar vanhugsuðu tillögur eru hreint tilræði við íslenskt efnahagslíf, stöðugleikann og kjör fólksins í landinu.

    Góðir fundarmenn.
    Hagstjórn á Íslandi verður viðkvæm og flókin á næstu misserum og árum. Stefnufestu og öryggis er þörf jafnt á vettvangi ríkisvaldsins sem og hjá forráðamönnum atvinnulífs og launþegasamtaka á landsvísu. Ef vel tekst til munum við sjá áður óþekktar kjarabætur ganga til fólksins í landinu og trausta afkomu fyrirtækja. Ef illa verður úr spilað getur þróunin orðið önnur og lakari. Yfirskrift ykkar dagskrár er "Bætum lífskjörin". Ef vel tekst til um stjórn mála gengur það stefnumið eftir. Ef illa verður á málum haldið verður þjóðin öll í varnarbaráttu á skeiði sem átti að færa henni mesta efnahagsávinning í áratugi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum