Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. júní 2003 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

17. júní 2003

17. júní 2003

Ávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra á Austurvelli 17. júní 2003


Góðir Íslendingar
Hinn tíunda maí síðast liðinn kváðu Íslendingar upp úrskurð, sem væntanlega mun gilda til næstu fjögurra ára, um hvaða einstaklingar skuli skipa 63 sæti í virðulegum sal í hinu sögufræga húsi hér sunnan við okkur. Það er ekki haft meira fyrir nokkurri sætaskipan en þessari, enda varðar hún miklu. Og réttum mánuði síðar hefur stjórnarsáttmáli verið saminn og samþykktur og Alþingi er orðið starfhæft á ný. Þótt allt sé þannig dottið í dúnalogn undra skömmu eftir átökin, var töluvert spjallað og virðulegustu vöngum velt dagana eftir kosningarnar svo sem eðlilegt er. Þannig spurðu spekingar hver annan að því, hvort þessi kosningabarátta hefði verið leiðinleg eða skemmtileg. Því verður seint svarað fyrir alla. Enda er spurningin ekki endilega sú þýðingarmesta, þótt hún segi sína sögu af tíðarandanum, þar sem skemtanagildi hluta er gjarnan helsta mælistikan. Þýðingarmeira er, hvort kosningabaráttan hafi verið gagnleg fyrir kjósendur. Veitti hún og þó sérstaklega kosningaúrslitin heildstæða leiðsögn sem styðjast má við til næstu fjögurra ára? Sumir hafa haldið því fram að með þessum kosningum hafi verið send skýr skilaboð! Var það svo? Voru stjórnmálamönnum send skýr skilaboð í efnahagsmálum eða skatta- eða húsnæðismálum? Umræða um sjávarútvegsmál var fyrirferðarmikil í konsingabaráttunni, en getur einhver haldið því fram í fullri alvöru að hún hafi verið skýr eða skynsamleg? Sá flokkur sem einkum gerði þau mál að "heilagri baráttu gegn handónýtu fiskveiðistjórnarkerfi" tvöfaldaði vissulega fylgi sitt, en fékk þó einungis fjóra þingmenn og er minnstur flokka á þingi. Hvaða skilaboð felast í því ? Spyr sá sem ekki veit. Um eitt verður þó ekki deilt. Ríkisstjórnin hélt velli með afgerandi hætti, þótt annar stjórnarflokkurinn tapaði nokkru fylgi.

Þau skilaboð voru að minnsta kosti sæmilega skýr og hefur þegar verið tekið mið af þeim. Það heyrir fremur til undantekninga að sama stjórnarsamstarf haldi áfram eftir kosningar. Þegar núverandi stjórnarflokkar ákváðu að halda samstarfi sínu áfram eftir kosningarnar 1999 hafði slíkt ekki gerst síðan í viðreisninni, sem svo var kölluð. Flokkar, sem sameinast í ríkisstjórn eru eftir sem áður pólitískir andstæðingar. Það reynir því mikið á traust og heilindi manna í löngu samstarfi.

Það er óneitanlega nokkurt umhugsunarefni hve málefnaumræðan var sundurleit og ómarkviss í nýafstaðinni kosningabaráttu. Engum einum flokki verður um það kennt. Fáeinum mánuðum fyrir kosningarnar reyndu flokkarnir að ná samkomulagi um að draga úr auglýsingaflóði og þeirri yfirborðsmennsku og skrumi sem slíku fylgir. Slíkt samkomulag náðist ekki, hugsanlega vegna þess, hve seint sú tilraun hófst. Er þýðingarmikið að betur takist til næst og hugað verði að þeirri skipan með góðum fyrirvara, enda eiga kjósendur kröfu til þess að breyting verði á.

En nýliðið vor er minnisstætt fyrir margt annað en kosningaatið. Það var ekki vorhret á glugga að þessu sinni og napur vindur með sitt kvein lét ekki á sér kræla. Óvenjulega samfellt blíðviðri, en án afturkipps og hrets, hefur glatt gróður og menn. Er hrein unun að fylgjast með fjörinu í gróðri og tilþrifum í trjám um þessar mundir. Minnir helst á lýsingu Sturlu Þórðarsonar á árinu 1217, en þá "var ár mikið í landinu. Sumar það var svo gott að það var víða um landið að aldinviðurinn bar tvennan ávöxt og útifuglarnir urpu tvisvar." Og það skemtilega er, að nú kemur blíðviðrið í góðan stað niður. Áhugi og elja landsmanna við hvers konar ræktunarstörf við erfið skilyrði á undanförnum áratugum hefur borið ríkulegan ávöxt. Þolgæði og þrjóska hafa fengið umbun. Og þegar veröldin lætur svo blítt sem þetta vor, eru hvarvetna myndarlegir gróðurreitir og garðar, skjólbelti og skógarsvæði sem taka feginsamlega á móti. Vex hugur þá vel gengur, og nú er upplagt að taka sér tak og rækta, planta og hlúa að gróðri og náttúru.
En skrautbúin tré og skógarlundir gera meira en að gleðja augað í góðsprettutíð. Þau mega vera okkur til áminningar um aðra óskylda þætti. Stæðileg tré með stolta krónu þrífast ekki og dafna nema festing og rótarkerfi, sem þó enginn sér, séu öflug og virk. Blöðin sem teygja sig til himins og sækja afl sitt til sólarinnar eru önnur forsenda fyrir vexti og viðgangi, en rótarkerfið hin. Sama á við um landið okkar og þjóðina sem það byggir. Saga og sál, tunga og tilfinning, en ekki síst áræði, fórnfýsi og andlegur styrkur þeirra mörgu sem lögðu hönd á plóg og efuðust aldrei er sú rót, sem hinn íslenski stofn og hin veraldlega velgengni þjóðarinnar hvílir á. Til þess er öllum holt að hugsa einmitt á þessum sérstaka degi, sem skipar sjálfstæðisbaráttunni, sem aldrei linnir, í sinn heiðurssess. Það má vera að þeir 63 þingmenn, sem nú mynda Alþingi Íslendinga, hafi ekki fengið allt of skýr skilaboð í nýliðnum kosningum. En það breytir ekki því að verkefnin eru mörg og skyldurnar ríkar, sem á þeim hvíla. Menn munu deila hart um einstök mál og um forgang og áherslur. En um hitt á helst ekki að deila, að þau verkefni sem lúta að því að tryggja sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar hljóta áfram að vera framarlega á dagskrá, ef ekki fremst þeirra allra.

Öll vitum við að sú þjóð sem glatar frelsi sínu, á ekki margra góðra kosta völ. Sem betur fer komum við ekki um þessar mundir auga á neitt eitt sem ógnar frelsi okkar eða tilveru. Það er fagnaðarefni en gefur ekki rétt til að slaka á. Öryggi okkar þarf að vera eins vel tryggt og verða má, ella verður þjóðinni ekki fullkomlega rótt, þrátt fyrir margvíslega velgengni. Við kaupum okkur hvert og eitt ekki rándýrar brunatryggingar vegna þess að við búumst beinlínis við eldsvoða eða sjáum til brennuvarga í fjarskanum. Líkindareikningar sýna reyndar að flestir ættu að geta sofið tiltölulega rólegir án slíkra trygginga. En það dugar okkur ekki sem einstaklingum og enn síður sem þjóð. Það er ekki nógu öruggt. Það er of mikið í húfi. Viðsjár í okkar heimshluta hafa minnkað sem betur fer, en þó er ekkert ríki á þessum slóðum sem treystir sér til að vera án raunverulegra varna sem geta brugðist fljótt við óvæntri vá.

Að undanförnu hef ég átt bréfaskipti við Georg Bush, forseta Bandaríkjanna, um mál er að þessu lúta. Þau fara fram í hreinskilni og vinsemd í senn. Ég hef haft tækifæri til þess á undanförnum árum að fylgjast með forsetanum í návígi fjalla um slík mál á vettvangi Atlandshafsbandalagsins og tel að hann hafi gert það með miklum ágætum og sýnt góðan skilning á þeim grundvallaratriðum sem hér eru í húfi. Ég leyfi mér því að hafa traust á því að þessar góðu vinaþjóðir beri gæfu til að finna sanngjarna niðurstöðu á þeim álitaefnum sem nú eru til umræðu. Á grundvelli framangreindra bréfaskipta hefur nú verið ákveðið að fulltrúar ríkjanna muni hittast hér á landi á næstunni til að fara yfir þá kosti sem fyrir hendi eru og þá auðvitað einnig þau meginsjónarmið sem við Íslendingar höfum um þann lágmarks varnarviðbúnað, sem hver þjóð hlýtur að gera kröfu til á þessum tíma sem öðrum.
Kæru landar.

Við gleðjumst yfir góðri tíð. Og þótt við þekkjum af reynslunni að skjótt geta veður skipast í lofti, þurfum við ekki fremur en íslenska birkihríslan að kvíða því. En til hennar talaði skáldið svona:

Þú þarft ekki, björk mín, að kvíða kólnandi dögum:
þú kunnir að breyta myrkri og grýttri jörð
í heklu laufs, sem lyftist í morgunblænum
mót ljósi himins sem titrandi þakkargjörð.

Góðir Íslendingar, nær og fjær, ég óska ykkur öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum