Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. október 2003 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Stefnuræða Davíðs Oddssonar á Norðurlandaráðsþingi

Undir kjörorðinu Auðlindir Norðurlanda ætlum við Íslendingar að leiða norrænt samstarf á næsta ári. Sá auður sem býr í náttúru, fólki og opnu lýðræðislegu samfélagi er grundvöllur norrænnar hagsældar. Þar liggja og forsendur framfara heima fyrir og áhrifa á alþjóðavettvangi. Markmið formennskuáætlunar Íslands er að nýta í ríkara mæli en gert er þann styrk sem Norðurlöndin búa yfir.

Leiðarstefin í áætluninni eru lýðræði, menning og náttúra. Þau eru innbyrðis nátengd, enda þjóðfélagsgerð og menning mannanna verk og skynsamleg nýting náttúruauðlinda ógerleg án hugvits og þekkingar.

Lifandi auðlindir hafsins eru meginundirstaða efnahagslífs á Íslandi. Það sama gildir um önnur vestnorræn lönd og strandsvæði grannríkjanna við Norður-Atlantshaf. Nauðsynlegt er að vaka yfir vistkerfi hafsins og það verður eingöngu gert í nánu samstarfi þjóða. Við leggjum því ríka áherslu á að efla norrænt samstarf við grannsvæðin við Norður-Atlantshaf um verndun hafsins, sjálfbæra nýtingu og auðlindastjórnun. Nauðsyn slíks samstarfs kom skýrt fram á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg 2002.

Lífríki hafsins verður og í brennidepli á ráðstefnu sem umhverfis- og sjávarútvegsráðherrarnir ætla að standa fyrir næsta ár þar sem fjallað verður um loftslagsbreytingar á Norðurskautssvæðinu og áhrif þeirra á hafið og lífríki þess.

Við Íslendingar munum beita okkur fyrir því að tillögum um aukin tengsl við grannsvæðin við Norður-Atlantshaf og eflingu vestnorræns svæðasamstarfs sem verða til umræðu hér á þinginu verði fylgt eftir . Auk tillagna um verndun hafsins fela þær í sér vegvísi að samstarfi um rannsóknir og vísindi, samgöngur, ferðamál og heilbrigðismál. Það er ekki bara í þágu Vestur-Norðurlanda heldur allra norrænu ríkjanna.

Þá er mikilvægt að efla starfsemi ráðherranefndarinnar um málefni norðurskautssvæðisins og styrkja samstarfið við Norðurskautsráðið sem og önnur ríkjasamtök á norðlægum svæðunum.

Evrópa tekur miklum breytingum um þessar mundir með því að stækkun NATO og ESB er að verða að veruleika. Stækkun ESB til austurs er mikilvægasti áfanginn í sögu þess eftir að það átti stóran þátt í að gerbreyta samskiptum ríkja í vesturhluta álfunnar og græða sárin þar eftir heimstyrjöldina.

Með stækkun ESB og Evrópska efnahagssvæðisins opnast ný tækifæri fyrir Norðurlöndin til að efla samskipti og viðskipti við önnur svæði í álfunni, þar á meðal við okkar góðu vini og granna í Eystrasaltsríkjunum.

Norrænt samstarf við Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland hefur verið heilladrjúgt og mikilvægt er að rækta það áfram. Þar sem Eystrasaltsríkin eru á leið inn í Evrópusambandið er hafin heildarúttekt á samskiptunum við þau til að þau verði virk í breyttu pólitísku umhverfi. Það er ánægjulegt að nú hefur verið ákveðið að Eystrasaltsríkin verði aðilar að Norræna fjárfestingabankanum. Á næsta ári verður gengið formlega frá málinu. Þetta sýnir hve sveigjanlegt norrænt samstarf er, en styrkur þess hefur jafnan verið að geta lagað sig að breytingum þannig að allar þjóðirnar hafi hag af.

Það er þýðingarmikið að á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar fari fram skoðanaskipti og samráð um evrópsk og önnur alþjóðleg mál. Sú umræða sem hafin er um stöðu Norðurlanda í alþjóðlegu samhengi er góður grunnur að frekari þróun samstarfsins.

Norðurlönd eru hvert um sig framarlega á sviði rannsókna, nýsköpunar og upplýsingatækni. Hér má búa til fleiri sóknarfæri. Fyrir menntamálaráðherra Norðurlanda hafa verið lagðar athyglisverðar tillögur um Norðurlönd sem framúrskarandi svæði rannsókna og nýsköpunar, eins og það er orðað. Þær fela meðal annars í sér víðtæka endurskipulagningu á vísindasamstarfinu og samræmingu milli þess og rannsókna á sviði atvinnulífs og nýsköpunar. Eitt mikilvægasta verkefni Íslands á formennskutímanum er að útfæra og fylgja eftir þessum tillögum.

Þá ber að vinna markvisst að því að bæta starfsskilyrði og samkeppnisfærni norrænna fyrirtækja og ryðja úr vegi hindrunum fyrir útrás þeirra á norrænum markaði. Ný norræn stofnun, Norræna nýsköpunarstofnunin, sem tekur við af Norræna iðnaðarsjóðnum og Norrænu prófunarstofunni, tekur til starfa í byrjun næsta árs. Við viljum veita henni brautargengi og góða kynningu svo að hún verði í lykilhlutverki við að efla rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun til hagsbóta fyrir atvinnulífið.

Í orkumálum er stefnt að sjálfbærri, öruggri og samkeppnishæfri orkunotkun á Norðurlöndum og grannsvæðunum. Samvinna Norðurlanda um opnun raforkumarkaðarins hefur verið einstök. Fá ríki heims búa yfir meiri orkuauðlindum en Norðurlönd og þau eru í fararbroddi þjóða við að nýta endurnýjanlegar orkulindir. Rannsóknir á vetni sem orkubera hafa aukist gífurlega á undanförnum 2-3 árum og mikill áhugi er á þeim um allan heim. Það er stefna okkar Íslendinga að Norðurlönd styrki til muna rannsóknasamstarf sitt á þessu sviði.

Norrænar frændþjóðir eiga í fornbókmenntunum fjársjóð sem við hyggjumst beina athygli að á formennskuárinu. Við viljum efla vitneskju um þennan menningararf með margvíslegum hætti og nýta hann sem aflvaka í listsköpun.

Ríkisstjórnir Norðurlanda hafa ákveðið að á heimssýningunni í Japan 2005 muni löndin standa sameiginlega að kynningu á sérstöðu Norðurlanda sem svæðis án landamæra. Við teljum mikilvægt að nýta vel tækifærin sem þar gefast til að kynna samstarf og menningu landanna og þá frjóu listsköpun sem hér fer fram.

Við leggjum áherslu á að áfram verði unnið að því að styrkja stöðu norrænna tungumála innan Norðurlanda sem utan. Mikilvægur þáttur í því og í verndun og útbreiðslu norræns menningarefnis er að það sé fært yfir á stafrænt form. Við viljum því stuðla að því að stofnaður verði norrænn margmiðlunarsjóður til að styrkja framleiðslu slíks efnis.

Íslendingar fagna á formennskuárinu aldarafmæli heimastjórnar á Íslandi. Heimastjórnin 1904 var ekki einungis undanfari sjálfstæðis, heldur lagði hún líka á okkur þær skyldur að tryggja lýðræðislega stjórnarhætti. Stöðugt þarf að vaka yfir lýðræðinu og hafa gát á grunnþáttum þess. Því ætlum við að taka áskorun Norðurlandaráðs sem hvatt hefur til lifandi umræðu um lýðræðið. Við leggjum til að ríkisstjórnirnar skipi nefnd til að skoða framtíð þess í ljósi aukinnar hnattvæðingar og þeirra tækifæra sem felast í upplýsingatækni. Sú nefnd á einnig að skoða hvernig bæta megi aðgengi almennings að upplýsingum um störf löggjafa og framkvæmdavalds. Jafnframt stefnum við Íslendingar að því að haldin verði ráðstefna um lýðræðisþróun í upplýsingasamfélagi.

Ég hef hér stiklað á stóru og nefnt nokkur þeirra verkefna sem Íslendingar setja á oddinn á formennskutímanum. Að öðru leyti vísa ég til áætlunarinnar sem hér liggur frammi. Við munum jafnframt fylgja með krafti eftir þeim góðu stefnumálum sem þegar er unnið að svo sem að ryðja úr vegi hindrunum fyrir frjálsri för fólks milli norrænu landanna. Því hefur Poul Schlüter fyrrverandi forsætisráherra Dana verið falið að starfa áfram og knýja á um samræmdar aðgerðir ráðherranefnda og ríkisstjórna. Undir forystu Svía hafa náðst mikilvægir áfangar á þeirri leið að opna landamæri í norrænu og evrópsku aðlögunarferli.

Ég vil því að lokum þakka Svíum fyrir frábær störf og þann góða árangur sem náðst hefur undir þeirra forystu á mörgum sviðum norræns samstarfs.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum